Styttur bæjarins

Í þekktu lagi söng Spilverk Þjóðanna um stytturnar „sem enginn nennir að horfa á“. Í dag yrði kannski frekar sungið um styttur og götunöfn sem enginn vill vita af og helst af öllu fjarlægja. Þar á meðal í Danmörku.

Christian-V-statue-Kongens-Nytorv-Copenhagen.jpg
Auglýsing

Dauði George Floyd í Minneapolis, 25. maí síðastliðinn, hratt af stað bylgju mótmæla víða um heim. George Floyd er ekki fyrsti þeldökki maðurinn sem lögregla í Bandaríkjunum hefur orðið að bana en myndband af atvikinu vakti eflaust meiri athygli á framferði lögreglunnar en ella hefði orðið. Myndbandið fór eins og eldur í sinu um víða veröld og fólk sem fylgist með fréttum hefur séð það margoft. Bandarískir lögreglumenn hafa iðulega komið með alls kyns skýringar á framferði sínu, til dæmis að lífi þeirra hafi verið ógnað,en í tilviki George Floyd var slíku ekki til að dreifa, það sýndi og sannaði myndbandsupptakan.  

Mótmæli vegna þessa atviks breiddust hratt út og einskorðuðust ekki við George Floyd og dauða hans. Þau snerust upp í mótmæli gegn kynþáttamisrétti og ekki síður þrælahaldi og þrælasölu, sem margar þjóðir stunduðu og græddu með því stórfé. Þar á meðal okkar gamla herraþjóð, Danir. Í Danmörku hafa verið haldnir útifundir til að mótmæla meðferðinni á George Floyd og jafnframt vekja athygli á flekkaðri fortíð Dana.

Milljónir þræla yfir hafið

Á árabilinu 1525 – 1866 er talið að Evrópubúar hafi samtals flutt um það bil tólf og hálfa milljón þræla yfir Atlantshafið. Á árunum 1670 -1803 fluttu Danir um það bil 111 þúsund Afríkubúa nauðuga yfir hafið en Kristján VII bannaði flutningana árið 1802. Þrælahald á vegum Dana hélt þó áfram fram til ársins 1848. Þess má geta að danski rithöfundurinn Thorkild Hansen (1927 – 1989) hlaut árið 1971 bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir bækur sínar, Þrælaströndin, Þrælaskipin og Þrælaeyjarnar, sem fjalla um þennan þátt í sögu Danmerkur.

Auglýsing
Þrælasalan í Afríku var ekki uppfinning Evrópubúa, hún á sér mun lengri sögu.

Þríhyrningsleiðin og viðskiptin

Danska þrælaverslunin fylgdi hinni svonefndu þríhyrningsleið. Þá var siglt frá höfnum í Evrópu, til hafna á vesturströnd Afríku og nýlendna í Ameríku. Með þessu móti nýttust straumar og vindar best og flutningur á öllum leiðum. Allar siglingar Dana byrjuðu og enduðu í Kaupmannahöfn, í Afríku réðu Danir yfir verslunarstöðum á Gullströndinni (núverandi Gana) og í Ameríku réðu Danir þremur eyjum, hinum svonefndu Dönsku Vestur-Indíum. Þessar eyjar seldu Danir Bandaríkjamönnum árið 1917, nú nefndar Jómfrúreyjar. 

Frá Kaupmannahöfn sigldu skipin hlaðin vopnum, skotfærum og brennivíni. Þessi varningur var seldur á Gullströndinni en þar voru þrælarnir, sem Danirnir „keyptu“ af höfðingjum á svæðinu, teknir um borð, ásamt ýmsum varningi. Þar á meðal fílabeini sem flutt var til Danmerkur. Þrælarnir (margir dóu á leiðinni yfir hafið) voru seldir í þrældóm á karabísku eyjunum, Dönsku Vestur-Indíum. Eftir að skipin höfðu verið lestuð sykurreyrssírópi, tóbaki og eðalviði, einkum mahoní var haldið heim til Danmerkur. Ferðir skipanna, frá því að lagt var af stað frá Kaupmannahöfn og komið til baka, tóku að jafnaði um 18 mánuði. 

Í Danmörku voru nokkur fyrirtæki sem högnuðust mikið á þessari starfsemi og danska ríkið hafði af henni miklar tekjur. 

Götunöfn og byggingar

Dauði George Floyd hefur komið af stað mikilli umræðu um kynþáttamisrétti, og framferði gagnvart þeldökkum. Sú umræða hefur ekki farið fram hjá Dönum, en danskir fjölmiðlar hafa að undanförnu fjallað mikið um dönsku þrælaverslunina. Margir hafa, í viðtölum og fjölmiðlaskrifum látið í ljós þá skoðun að Danir eigi að fjarlægja styttur og breyta nöfnum gatna sem tengjast þrælatímabilinu í sögu landsins.

Í Holte, norðan við Kaupmannahöfn er lítil og hugguleg gata, De Conincks vej. Undir götuheitisskiltinu stendur „handelsmand“ verslunarmaður. Gatan er skírð eftir Hollendingnum Frederic de Coninck (1740 – 1811) sem bjó í Danmörku mestan hluta ævinnar og hafði náin tengsl við dönsku hirðina. Hann átti á tímabili 64 skip og nokkur þeirra fluttu afríska þræla til Vestur-Indía.  Frederic de Coninck var um tíma eigandi einnar hallarinnar á Amalienborg, sú er kennd við Moltke greifa. Adam Gottlob Moltke (1710 – 1792) eins og hann hét fullu nafni lét byggja höllina á árunum 1750 – 1754. Moltke kom mjög við sögu í þrælaversluninni, var meðal annars stjórnarformaður í tveimur félögum sem stunduðu þessi viðskipti. Moltke veitti ekki af sæmilega rúmgóðu húsi, hann eignaðist 22 börn.

Í Gentofte er gata kennd við Heinrich Carl Schimmelmann (1724 -1782). Sá þénaði vel á þrælaviðskiptunum og átti meðal annars nokkur þrælaskip og verksmiðju í Kaupmannahöfn þar sem unninn var sykur úr hráefni frá Vestur – Indíum. Schimmelmann var á sinni tíð einn ríkasti maður Danmerkur og bjó frá 1762 og til æviloka í stórhýsi við Breiðgötu í Kaupmannahöfn, síðar þekkt sem Oddfellowhöllin. Hér hafa aðeins verið nefnd tvö dæmi um götur og hús sem tengjast mönnum sem létu mjög að sér kveða í þrælasölu Dana á 18. Öld, en mörg fleiri væri hægt að nefna. Engar raddir hafa heyrst sem vilja ganga svo langt að rífa byggingar sem byggðar voru fyrir „þrælagróða“.  

Stytturnar

Í Danmörku eru tiltölulega fáar styttur af þeim körlum (aldrei minnst á konur í þessu sambandi) sem komu við sögu danskrar þrælaverslunar. Vel að merkja með undantekningum. Og þær undantekningar eru ekki síst kóngarnir. Af þeim eru margar styttur víðsvegar um land. Sumar þeirra á mjög áberandi stöðum. Á miðju torginu við Amalienborg er stytta af Friðriki V (1723 -1766) fyrir framan Kristjánsborgarhöll trónir stytta af Friðriki VII. Á miðju Kóngsins Nýjatorgi situr Kristján V á hesti sínum, óneitanlega líkari rómverskum riddara en norrænum þjóðhöfðingja. Þessir kóngar tóku beinan eða óbeinan þátt í þrælasölunni sem danski ríkiskassinn naut góðs af. Fyrir framan Konunglega leikhúsið við Kóngsins Nýjatorg situr svo leikritaskáldið Ludvig Holberg, hann átti víst lítinn hlut í einhverju þeirra fyrirtækja sem stunduðu þrælasölu. Fleiri dæmi mætti nefna um menn sem teljast stórmenni í sögu Danmerkur en tengjast jafnframt þrælasölunni með einum eða öðrum hætti. 

Stjórnmálamenn og sagnfræðingar sem danskir fjölmiðlar hafa rætt við að undanförnu telja vart koma til greina að fjarlægja styttur sem margar hverjar hafa trónað á stalli sínum um áratuga skeið eða jafnvel lengur. En á að láta sem ekkert sé? Nei, ekki gengur það. Nokkrir stjórnmálamenn hafa nefnt að rétt væri að setja upplýsingaskilti við umræddar styttur. Þar kæmu fram upplýsingar um fyrirmynd styttunnar, bæði það sem viðkomandi hefði gert landi og þjóð til gagns og líka það sem miður gott mætti teljast.

Vestur-Indía pakkhúsið

Á bryggjukantinum skammt frá Amalienborg stendur háreist pakkhús úr rauðum múrsteini, Vestur – Indía pakkhúsið. Húsið var byggt árið 1783 og þar var geymt kaffi og te sem kom frá eyjum í karabíska hafinu. Sú starfsemi er löngu fyrir bí en í húsinu var síðar komið fyrir hinu Konunglega afsteypusafni, sem geymir gifsafsteypur margra frægra listaverka víða að úr heiminum. Safnið er í umsjón Danska ríkislistasafnsins en afsteypusafninu var lokað fyrir nokkrum árum vegna fjárskorts. Fyrir nokkru var greint frá því að hugmyndir væru uppi um að flytja afsteypurnar úr húsinu og jafnvel selja það. Margir urðu til að gagnrýna þá hugmynd og í ljósi atburða síðustu vikna hafa margir þingmenn lýst sig fylgjandi því að afsteypusafnið verði áfram í húsinu og þar verði jafnframt opnað safn um sögu þrælasölunnar fyrr á tímum. Engin ákvörðun hefur verið tekin í þessum efnum. Listakonurnar Jeanette Ehlers og La Vaughn Belle gerðu styttuna til að heiðra minningu Mary Thomas.

Árið 2018 var reist stytta fyrir framan Vestur – Indía pakkhúsið. Listakonurnar Jeanette Ehlers og La Vaughn Belle gerðu styttuna til að heiðra minningu Mary Thomas, hún var í forystusveit þræla sem árið 1878 gerðu uppreisn (nefnd Fireburn) á eyjunni St. Croix. Eftir margra daga átök var uppreisnin bæld niður. Mary Thomas, kölluð Queen Mary, var dæmd til dauða, en þeim dómi var síðar breytt í lífstíðarfangelsi. Hún var send til Kaupmannahafnar árið 1882 og vistuð í kvennafangelsinu á Kristjánshöfn. Fimm árum síðar var hún send til baka til Christiansted á St. Croix þar sem hún lést árið 1905. 

Styttan fyrir framan Vestur -Indía pakkhúsið heitir „I am Queen Mary“ og er sögð fyrsta stytta af þeldökkri konu sem reist hefur verið í Danmörku.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Steypiregnið ógurlega
Steypiregn er klárlega orðið tíðara og umfangsmeira en áður var. Öll rök hníga að tengingu við hlýnun lofthjúps jarðar. Í tilviki flóðanna í Þýskalandi og víðar hefur landmótun, aukið þéttbýli og minni skilningur samfélaga á eðli vatnsfalla áhrif.
Kjarninn 25. júlí 2021
Ísraelsk stjórnvöld sömdu við lyfjafyrirtækið Pfizer um bóluefni og rannsóknir samhliða bólusetningum.
Alvarlega veikum fjölgar í Ísrael
Það er gjá á milli fjölda smita og fjölda alvarlegra veikra í Ísrael nú miðað við fyrstu bylgju faraldursins. Engu að síður hafa sérfræðingar áhyggjur af þróuninni. Um 60 prósent þjóðarinnar er bólusett.
Kjarninn 25. júlí 2021
Danska smurbrauðið nýtur nú aukinna vinsælda meðal matgæðinga í heimalandinu.
Endurkoma smurbrauðsins
Flestir Íslendingar kannast við danska smurbrauðið, smørrebrød. Eftir að alls kyns skyndibitar komu til sögunnar döluðu vinsældirnar en nú nýtur smurbrauðið sívaxandi vinsælda. Nýir staðir skjóta upp kollinum og þeir gömlu upplifa sannkallaða endurreisn.
Kjarninn 25. júlí 2021
Fjallahjólabrautin við Austurkór var eitt verkefna sem valið var til framkvæmda af íbúum í íbúðalýðræðisverkefninu Okkar Kópavogur í fyrra.
Kópavogsbær skoðar flötu fjallahjólabrautina betur eftir holskeflu athugasemda
Kópavogsbær hefur boðað að fjallahjólabraut við Austurkór í Kópavogi verði tekin til nánari skoðunar, eftir fjölda athugasemda frá svekktum íbúum þess efnis að brautin gagnist lítið við fjallahjólreiðar.
Kjarninn 24. júlí 2021
Með stafrænum kórónuveirupassa fæst QR kóði sem sýna þarf á hinum ýmsu stöðum.
Munu þurfa að framvísa kórónuveirupassa til að fara út að borða
Evrópska bólusetningarvottorðið hefur verið notað vegna ferðalaga innan álfunnar síðan í upphafi mánaðar. Í Danmörku hefur fólk þurft að sýna sambærilegt vottorð til að sækja samkomustaði og svipað er nú uppi á teningnum á Ítalíu og í Frakklandi.
Kjarninn 24. júlí 2021
Eldgosið í Geldingadölum hefur verið mikið sjónarspil. Nú virðist það í rénun.
Ráðherra veitir nafni nýja hraunsins formlega blessun sína
Eins og lög gera ráð fyrir hefur Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra staðfest nafngift nýja hraunsins í landi Grindavíkurbæjar. Fagradalshraun mun það heita um ókomna framtíð.
Kjarninn 24. júlí 2021
Ferðamenn við Skógafoss.
Lágur smitfjöldi talinn mikilvægur fyrir heilsu og hagsmuni ferðaþjónustu
Ótti við að lenda á rauðum listum sóttvarnayfirvalda í Evrópu og Bandaríkjunum var tekinn inn í heildarhagsmunamat ríkisstjórnarinnar varðandi nýjar sóttvarnaráðstafanir innanlands. Á morgun verður mannlífið heft á ný vegna veirunnar.
Kjarninn 24. júlí 2021
Einkabílaeign á Ísland er hlutfallslega sú hæsta í Evrópu.
Getur Ísland keyrt sig út úr loftslagsvandanum?
Orkuskipti í samgöngum er eitt helsta framlag íslenskra stjórnvalda í baráttunni við loftslagshamfarir. Rafbílar eru hins vegar ekki sú töfralausn sem oft er haldið fram. Vandamálið er ekki bensíndrifnir bílar heldur bíladrifin menning.
Kjarninn 24. júlí 2021
Meira eftir höfundinnBorgþór Arngrímsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar