Norska Hafrannsóknarstofnunin

Fordæmisgefandi að ásættanlegt sé að menga villta dýrastofna

„Það er ljóst að mörgum spurningum er ósvarað varðandi lífríkið í Ísafjarðardjúpi og möguleg áhrif eldis á fiskum í sjókvíum á það,“ segir í umsögn Hafró um áformað laxeldi Arnarlax. Óvissan kemur einnig fram í umsögnum annarra stofnana.

Margvíslegar ábendingar og athugasemdir eru settar fram í umsögnum stofnana á frummatsskýrslu Arnarlax um fyrirhugað sjókvíaeldi í Ísafjarðardjúpi. Hætta á erfðablöndun og fisksjúkdómum er ítrekuð og fjallað um þá staðreynd að nokkur fyrirtæki til viðbótar áforma eldi í Djúpinu sem hafi samlegðaráhrif. Telur Umhverfisstofnun til dæmis ljóst að ekki verði hægt að veita leyfi fyrir allt það umfang sem er í undirbúningi.


Að því gefnu að tilskilin leyfi fáist stefnir Arnarlax að því að hefja rekstur eldisins í Djúpinu næsta vor. Arnarlax var stofnað árið 2010 og er stærsti hluthafi þess norska fiskeldisfyrirtækið Salmar AS. Fyrirtækið er nú þegar með starfs- og rekstrarleyfi fyrir 10 þúsund tonna ársframleiðslu á laxi í Arnarfirði og árið 2016 keypti það eldisfyrirtækið Fjarðalax sem hefur leyfi til eldis í Patreksfirði, Tálknafirði og Arnarfirði.


Áætlað er að eldiskvíar verði á þremur stöðum í Djúpinu; við Óshlíð, Drangsvík og Eyjahlíð. Gert er ráð fyrir að fjöldi eldiskvía á hverju svæði verði á bilinu 5-15 talsins. Er það mat fyrirtækisins að eldið myndi líklega hafa óveruleg áhrif á ástand sjávar sem og á villta laxa vegna fisksjúkdóma. Þá er talið ósennilegt að framkvæmdin skaði villta laxastofna með erfðablöndun.


Fyrsta skref í mati á umhverfisáhrifum framkvæmdar er matsáætlun. Það næsta er frummatsskýrsla og það þriðja er matsskýrsla áður en kemur að því að Skipulagsstofnun gefi álit sitt.


Ýmsum opinberum stofnunum ber að gefa umsagnir við frummatsskýrslur sem framkvæmdaaðili þarf að taka tillit til í endanlegri matsskýrslu. Þá er öðrum einnig frjálst að gera athugasemdir við slíkar skýrslur á afmörkuðum kynningartíma sem nú er liðinn.


Auglýsing

Hvað frummatsskýrslu Arnarlax varðar benda umsagnaraðilar á ýmsa þætti sem taka þarf til umfjöllunar í næsta skrefi: Matsskýrslunni. Þar ber m.a. nokkuð oft á góma umtöluð hætta á erfðablöndun við villta laxastofninn. Í laxeldinu í Ísafjarðardjúpi stendur til að notast við kynbættan frjóan lax af norskum uppruna þó einnig  sé í skýrslunni lagt mat á umhverfisáhrif þess að nota ófrjóan fisk. 


Þetta skiptir gríðarlegu máli, ekki síst í ljósi þess að Hafrannsóknarstofnun hefur gefið út áhættumat á erfðablöndun í Djúpinu og samkvæmt því skal eldismagn á frjóum laxi ekki vera meira en 12.000 tonn. Áform Arnarlax ein og sér eru undir þeim mörkum en að minnsta kosti þrjú fyrirtæki til viðbótar eru í sömu hugleiðingum og samanlagt magn því langt umfram áhættumat.


„Afar jákvætt væri að nota aðeins ófrjóan lax“ segir meðal annars í ítarlegri umsögn Fiskistofu og Náttúrufræðistofnun bendir á að kynbættur frjór lax af norskum uppruna sé framandi tegund í íslenskri náttúru og því hvorki í samræmi við lög um náttúruvernd né samninginn um vernd líffræðilegrar fjölbreytni. Ef heimila eigi laxeldi með slíkum tegundum í sjókvíaeldi eigi það að vera ófrjór fiskur. „Verði framkvæmdin heimiluð verður að tryggja með vöktun, rannsóknum og aðgerðum, að hægt sé að fylgjast með og rekja til upprunans þau áhrif sem villtir laxastofnar geta orðið fyrir. Og jafnframt gera ráð fyrir að hægt sé að bregðast við óásættanlegum neikvæðum afleiðingum sjókvíaeldis á viðeigandi hátt.“


Áform Arnarlax og annarra eldisfyrirtækja um sjókvíaeldi í Ísafjarðardjúpi eins og það er birt í skýrslunni. Í umsögnum stofnana kemur fram að fjarlægð milli eldissvæða sé ónóg og einnig að nákvæm staðsetning annarra áforma liggi nú fyrir.
Úr frummatsskýrslu Arnarlax

Stærstu áhættuþættir við laxeldi í sjó eru að sögn Náttúrufræðistofnunar útbreiðsla sjúkdóma, mengun og erfðablöndun við villta laxastofna. Þrátt fyrir að Náttúrufræðistofnun telji að hægt sé að byggja álit Skipulagsstofnunar að mestu leyti á frummatsskýrslunni  bendir stofnunin á ýmis atriði sem hún telur að betur mætti fara.


Hafrannsóknarstofnun hefur gert mat á burðarþoli Ísafjarðardjúps og miðast það við 30.000 tonn af fiski. Í dag eru uppi áform um eldi á yfir 25.000 tonnum á eldissvæðum sem dreifast misjafnlega um djúpið. Náttúrufræðistofnun segir það gefa auga leið að mengunarálag yrði misjafnt eftir svæðum og bendir í því sambandi til dæmis á svæði undan Snæfjallaströnd þar sem gert er ráð fyrir þremur fiskeldissvæðum frá tveimur fyrirtækjum. Í matsskýrslu þurfi að skoða burðarþolsmatið út frá samþjöppun eldissvæða og hvað einstök svæði Djúpsins þola.


Hafrannsóknarstofnun segir í sinni umsögn að miðað við fyrirhuguð áform myndi heildarframleiðsla fyrirtækjanna allra rúmast innan burðarþolsmats en vera umtalsvert umfram áhættumat erfðablöndunar.


Auglýsing

Í umsögn Umhverfisstofnunar kemur fram að eldisfyrirtækin séu enn fleiri og að samanlagt sé um 38.600 tonna eldi að ræða. Einnig bendir stofnunin, líkt og Hafró, á að miðað við fyrirhugaðar áætlanir muni heimildir í áhættumati Hafró fyrir frjóan lax duga skammt. „Umhverfisstofnun tekur fram að ljóst er að ekki verður hægt að veita leyfi fyrir allt það umfang sem aðilar hafa í undirbúningi.“


Hvað hættu á erfðablöndun varðar ber að mati Náttúrufræðistofnunar að hafa í huga að „laxeldi er rekstur þar sem gert er ráð fyrir að vera með eldið í fjölmörg ár og því eru að öllu jöfnu sífellt að bætast við strokulaxar og þar með eykst áhætta á varanlegri erfðablöndun. [...] Aukið laxeldi á Vestfjörðum í heild eykur einnig hættu á að strokulax berist til annarra svæða á landinu“.


Neikvæðar afleiðingar þekktar

Í umsögn stofnunarinnar er ennfremur bent á að í sumum tilfellum virðist sem framkvæmdaaðili telji að lög um náttúruvernd gildi ekki í hafi. „Neikvæðar afleiðingar af laxeldi í sjó eru þekktar og mótvægisaðgerðir virðast ekki hafa komið í veg fyrir þær [..]. Það er fordæmisgefandi á neikvæðan hátt að líta svo á að það sé yfirleitt ásættanlegt að menga/erfðablanda villta dýrastofna tilviljunarkennt byggt á útreikningum [...] sem engin vissa er fyrir að séu réttir. Enn síður er vissa fyrir því hver hin endanlegu áhrif geta orðið á íslenska laxastofna. Þetta er einnig alvarlegt í ljósi þess að ekki eru fyrir hendi aðferðir, nema að mjög takmörkuðu leyti, til að fylgjast með og eða stýra hvert eldisfiskur sem sleppur fer né hvaða laxastofnar verða fyrir áhrifum.“


Náttúrufræðistofnun segist leggja annað mat á áhrifin en Arnarlax og telur með hliðsjón af lögum um náttúruvernd að ekki eigi að nota frjóan lax af framandi stofni í laxeldi í sjókvíum á Íslandi heldur einungis í lokuðu umhverfi.


Dæmi um sýnileika eldiskvía. Myndin tekin af áningarstaðnum við Kambsnes.
úr frummatsskýrslu

Hafrannsóknarstofnun telur óljóst hver áhrifin af fiskeldinu gætu orðið á nytjastofna í Ísafjarðardjúpi og innfjörðum þess. Í gegnum tíðina hafi rannsóknir sýnt að þar heldur sig og vex upp talsvert magn af fiskungviði. Rækja og ljósáta séu fæða fyrir fisk eins og þorsk og ýsu. Erlendar rannsóknir hafi sýnt fram á skaðsemi kemískra lúsalyfja á rækju og á önnur krabbadýr. „Því má segja að óvissa sé um áhrif lúsalyfja á afkomu krabbadýra og þar af leiðandi á afkomu annara dýra sem reiða sig á krabbadýr sem fæðu,“ segir í umsögn Hafró. Þá bendir stofnunin á að sú reynsla sem þegar er komin af laxeldi hér á landi sýni að fjöldi og smit laxa- og fiskilúsa sé mun meiri en fjallað var um í fyrri frummatsskýrslum. Það hafi leitt til þess að þörf fyrir meðhöndlun með lyfjum hafi einnig verið meiri.


Hafró vekur einnig athygli á því að í frummatsskýrslunni séu takmarkaðar upplýsingar og staðreyndir um reynslu Arnarlax af því fiskeldi sem nú þegar er starfrækt á þeirra vegum. Fyrir umsagnaraðila liggi þessar upplýsingar ekki fyrir, en yrðu „afar gagnlegar fyrir niðurstöður á hlutlægu umhverfismati. Þannig hefði verið hægt að draga fram lærdóm frá fyrri matsskýrslum Arnarlax þ.e. hvað hefði gengið eftir varðandi áætluð umhverfisáhrif og hvað ekki“.


Lazalús er snýkjudýr og áður var talið að hún þrifist illa við Ísland vegna sjávarkuldans. Annað hefur komið á daginn.

Hvetur stofnunin því til þess að í matsskýrslu verði m.a. fjallað um eftirfarandi þætti:


Fjalla ætti um afföll laxa og hrognkelsa í eldi Arnarlax hf. og við hverju má búast í þeim efnum í fyrirhuguðu eldi í Ísafjarðardjúpi. Hrognkelsi eru notuð til að hreinsa sníkjudýr af eldislaxi, m.a. laxalús.


Fjalla ætti um reynslu af óhöppum og hversu margir fiskar hafa sloppið úr sjókvíum. Einnig ætti að fjalla um orsakir þeirra óhappa.


Bendir stofnunin á að nú þegar hafi laxi með nýrnaveiki verið sleppt í sjókvíar. „Framkvæmdaaðili telur að nýrnaveikin hafi ekki valdið neikvæðum áhrifum annars staðar en í eldinu sjálfu. Hins vegar er bent á að almennt geti verið hætta á því að villtir fiskar smitist af sjúkdómum séu veikir fiskar settir út í náttúruna.“

Umtalsverð óvissa vegna laxalúsar


Hingað til hefur lítið verið fjallað um laxalús, segir í umsögn Hafró, og talið að hér væri sjór of kaldur til að laxalús þrifist. „Annað hefur komið í ljós og greinilegt er að margt er eftir ólært varðandi áhrif laxalúsar í eldi og á villta fiska hér á landi. Fyrir framtíð laxeldis er ljóst að umtalsverð óvissa er varðandi áhrif laxalúsar sem gæti valdið hvað mestum umhverfisáhrifum og vandkvæðum í eldinu.“


Í frummatsskýrslunni stendur að þótt rannsóknir á áhrifum laxeldis á smit meðal villtra laxafiskastofna séu á byrjunarstigi hér á landi, „bendir fyrirliggjandi þekking til þess að smitálag í náttúrulegum laxfiskastofnum stafi ekki af nálægu sjókvíaeldi“. Bæði Hafró og Fiskistofa vekja athygli á því að ekki sé vísað til neinna rannsókna hvað þessa fullyrðingu varðar og benda á nýlega rannsókn á villtum laxi í Arnarfirði sem sýnir hið gagnstæða: Aukið smitálag var þar sem laxeldi var stundað.


Auglýsing

Í umsögn Hafró kemur einnig fram að fiskilús sé vandamál í laxeldi í sjókvíum og að sýking hafi orðið umtalsverð sem kallað hafi á lyfjameðhöndlun. Stofnunin segir mörgum spurningum ósvarað varðandi fiskilús m.a. hvort að viðkoma hennar „aukist með tilkomu milljóna fiska í sjókvíum“ og ef svo er hvort sú aukning geti haft neikvæð áhrif á villta fiska af uppruna sjávar og ferskvatns.


Í allmörgum tilfellum hefur að sögn Hafró þurft að meðhöndla fiska vegna laxa- og fiskilúsa, meðal annars með lyfjaböðun og lyfjafóðrun og að almennt sé mælt gegn notkun lyfja við framleiðslu matvæla vegna hættu á lyfjaónæmi.

Mörgum spurningum ósvarað


Hafró telur að í frummatsskýrslunni sé fjallað á „mjög almennan hátt“ um sjóbirting og sjóbleikju og dregnar ályktanir sem ekki er vitað hvort standist, til dæmis er varðar tímalengd sjóbirtinga í sjó. Einnig er sagt að laxeldi hafi ekki haft áhrif á sjóbirting hér á landi en niðurstöður rannsóknar sýna, að sögn Hafró, að tíðni lúsasmits á sjóbirtingi sé meiri á eldissvæðum.


Þá tekur stofnunin fram í umsögn sinni að í ljós hafi komið að meira sé af göngufiskum á Vestfjörðum en áður var talið. Gerðar hafi verið úttektir á útbreiðslu og þéttleik laxfiska í ám við Ísafjarðardjúp og „hefði það verið æskilegt“ ef fjallað hefði verið um þær niðurstöður.


„Það er ljóst að mörgum spurningum er ósvarað varðandi lífríkið í Ísafjarðardjúpi og möguleg áhrif eldis á fiskum í sjókvíum á það,“ segir í umsögn Hafrannsóknarstofnunar. „Mikilvægt hefði verið að svör við þessum spurningum lægju fyrir áður en til aukningar fiskeldis kæmi til.“


Í umsögn Hafró kemur einnig fram að fiskilús sé vandamál í laxeldi í sjókvíum og að sýking hafi orðið umtalsverð sem kallað hafi á lyfjameðhöndlun.
Norska Hafrannsóknarstofnunin

Hafin er vinna við strandsvæðisskipulag fyrir Vestfirði í samræmi við lög um skipulag á haf- og strandsvæðum. Orkustofnun vekur í þessu samhengi athygli á að víða í Ísafjarðardjúpi eru uppi áform um eldi og því er brýnt að hugað sé að mismunandi nýtingarmöguleikum, samráði og samstarfi hinna mismunandi aðila sem því tengjast.


Bæði Hafrannsóknarstofnun og Matvælastofnun benda á það í sínum umsögnum að samkvæmt frummatsskýrslunni séu fjarlægðir milli fyrirhugaðra eldissvæða Arnarlax og annarra fyrirtækja of stuttar, að minnsta kosti í einhverjum tilfellum, og því ekki í samræmi við reglugerð um fiskeldi. Samkvæmt henni skal fjarlægð eldissvæða ólíkra aðila vera að minnsta kosti fimm kílómetrar til þess að minnka líkur á dreifingu sjúkdóma.


Í skýrslunni kemur fram að ekki liggi fyrir hverjar fjarlægðir sjókvíaeldisstöðva ótengdra aðila við Ísafjarðardjúp verði en Matvælastofnun bendir hins vegar á að þær upplýsingar séu nú komnar fram.  „Eldissvæði þessarar framkvæmdar falla öll undir það að vera í meiri nálægð við eldissvæði ótengdra aðila þegar tekið er tillit til þess eldis sem er nú þegar í gangi eða fyrirhugaðra svæða [...],“ stendur í umsögn MAST.


Í allmörgum tilfellum hefur að sögn Hafró þurft að meðhöndla fiska vegna laxa- og fiskilúsa, meðal annars með lyfjaböðun og lyfjafóðrun og að almennt sé mælt gegn notkun lyfja við framleiðslu matvæla vegna hættu á lyfjaónæmi.
Norska Hafrannsóknarstofnunin

Umhverfisstofnun telur heilt yfir að áhrif sjókvíaeldis Arnarlax í Ísafjarðardjúpi kunni að vera talsvert neikvæð en með vöktun og mótvægisaðgerðum yrði hægt að lágmarka neikvæð áhrif, þ.e. að áhrif haldist innan þeirra viðmiða sem sett eru til að forðast umtalsverð neikvæð áhrif á umhverfið. Að mati stofnunarinnar yrðu helstu umhverfisáhrif lífrænt álag á fjörðinn, þá sérstaklega áhrif á botndýralíf undir kvíum og samlegðaráhrifa við annað eldi á svæðinu.


Í ítarlegri umsögn um frummatsskýrsluna kemur m.a. fram að betri umfjöllun vanti um áhrif aukins fjölda eldiskvía á lífríki fjarðarins, búsvæði sjófugla, sela og hvala. „Slík umfjöllun á ekki eingöngu að snúa að því hvort sjávarspendýr, fuglar eða annað lífríki geti valdið skaða á eldisbúnaði við aukið umfang þess í firðinum heldur áhrif starfseminnar á búsvæði og lífsviðurværi þessara lífvera í Ísafjarðardjúpi.“


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiInnlent