Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu braut gegn þágildandi lögum og reglugerð um vinnslu persónuupplýsinga þegar embættið gaf út skjal með persónuupplýsingum um Aldísi Schram þann 5. janúar 2012 og miðlaði því til Jóns Baldvins Hannibalssonar, föður hennar og fyrrverandi utanríkisráðherra, sendiherra og formanns Alþýðuflokksins. Þetta er niðurstaða Persónuverndar.
Aldís sendi inn kvörtun vegna málsins til Persónuverndar í maí árið 2019, en nokkrum mánuðum fyrr hafði Jón Baldvin vísað til þessa bréfs í sjónvarpsviðtali og birt það í heild sinni í blaðagrein. Úrskurður var kveðinn upp 27. ágúst 2020 og hefur verið birtur á vef Persónuverndar. Kjarninn hefur fengið staðfestingu á því um hvaða tilvik málið snýst, frá Aldísi sjálfri, sem fékk úrskurðinn í hendur um miðjan september.
Í bréfinu, sem undirritað var af Herði Jóhannessyni þáverandi aðstoðarlögreglustjóra hjá embættinu, kom fram að lögregla hefði „haft afskipti“ af Aldísi eða „sinnt verkefnum vegna hennar“ nokkrum sinnum á undanförnum árum. Einnig sagði þar að Bryndís Schram og Jón Baldvin Hannibalsson hefðu „aldrei kallað á lögreglu eða beðið lögreglu um aðstoð af neinu tagi“ vegna Aldísar.
Efnisatriði bréfsins stangast á við gögn sem Aldís hefur látið Kjarnanum í té. Samkvæmt málaskrá lögreglu hafði lögregla afskipti af Aldísi 9. apríl árið 1998 og var það mál flokkað sem „aðstoð við erlend sendiráð“ í bókum lögreglu, en Jón Baldvin var á þeim tíma sendiherra Íslands í Bandaríkjunum.
Einnig segir í færslu úr dagbók lögreglu, 13. apríl árið 2002, að Bryndís Schram hafi hringt í lögreglu og sagst ætla að senda fax með ósk að eftirgrennslan eða leit að dóttur sinni. Þann sama dag sætti Aldís handtöku, í kjölfar þess að hún tilkynnti meint kynferðisbrot Jóns Baldvins til lögreglu.
Eftir handtökuna sætti hún nauðungarvistun að beiðni Jóns Baldvins, sem skrifuð var á bréfsefni sendiráðs Íslands í Washington.
Engin heimild til að miðla þessum upplýsingum
Samkvæmt úrskurði Persónuverndar er ekki hægt að líta svo á að lögregla hafi haft heimild til þess að fara með persónuupplýsingar Aldísar með þeim hætti sem gert var í umrætt sinn. Einnig segir að að vinnslan hafi ekki farið fram með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti, samkvæmt skilningi þágildandi laga um persónuvernd.
Í úrskurðinum segir að leggja verði til grundvallar að einstaklingar megi almennt treysta því að upplýsingum sem lögregla skráir um þau verkefni sem hún sinnir verði ekki miðlað til óviðkomandi aðila, eins og gert var gert í þessu tilviki.
Lögregla gat ekkert svarað fyrir málið
Við meðferð málsins óskaði Persónuvernd eftir sjónarmiðum frá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, en þaðan var fátt um svör. Embættið sagði í svarbréfi sínu til Persónuverndar að umrætt bréf og þau gögn sem útgáfa þess byggði á hefðu ekki verið varðveitt í skjalavörslukerfi embættisins.
Því hefði embættið ekki tiltækar upplýsingar um forsendur afgreiðslunnar og gæti af þeim sökum ekki tekið afstöðu til beiðni Persónuverndar um upplýsingar um málið.
Með öðrum orðum, embættið hefur engar skrásettar upplýsingar um það af hverju aðstoðarlögreglustjóri gaf út skriflegt vottorð um Aldísi og miðlaði til Jóns Baldvins í upphafi árs 2012.
Ekki tilefni til að bregðast sérstaklega við núna 8 árum seinna
Kjarninn sendi fyrirspurn á Höllu Bergþóru Björnsdóttur, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, vegna niðurstöðu Persónuverndar. Í svari sem barst frá embættinu segir meðal annars að „[þ]egar málið var afgreitt árið 2012 hefði, í samræmi við lög og ferla embættisins, átt að vista umrædd bréfaskipti í málaskrá embættisins.“
Í svari embættisins segir einnig að búið sé að fara yfir umræddan úrskurð Persónuverndar. Tekið er fram að á þeim 8 árum sem liðin eru síðan atvik máls áttu sér stað hafi átt sér stað „mikil vinna við breytingar er varðar afgreiðslu á málum af þessu tagi“ og að embættið hafi það markmið að farið sé með persónuupplýsingar í samræmi við þau grundvallarsjónarmið sem koma fram í úrskurði Persónuverndar, sem og reglur um persónuvernd og friðhelgi einkalífs.
Embættið segist einnig hafa farið yfir málið á sínum tíma og að það hafi einnig verið til meðferðar hjá embætti Héraðssaksóknara, en þangað kærði Aldís málið áður en hún beindi kvörtun til Persónuverndar. „Í því ljósi og þess að margt hefur breyst á þeim 8 árum síðan atvik áttu sér stað, m.a. í afgreiðslu mála af þessu tagi, telur embættið ekki tilefni til að bregðast frekar við, umfram það að hafa alla ferla embættisins í sífelldri endurskoðun,“ segir í svari embættisins, sem má lesa í heild sinni hér að neðan.
Spurningar blaðamanns til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu
1) Hver eru viðbrögð embættisins við þessari niðurstöðu Persónuverndar?
2) Verður gerð einhver athugun hjá embættinu á því hvernig á því stendur að persónuupplýsingum var miðlað með þessum hætti?3) Er ekki undarlegt að slík miðlun persónuupplýsinga sé hvergi varðveitt í skjalavörslukerfi embættisins?
Svar lögreglustjóraembættisins við fyrirspurn Kjarnans
Embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hefur farið yfir umræddan úrskurð Persónuverndar og niðurstöðu. Rétt er að taka fram að á þeim 8 árum síðan atvik máls áttu sér stað, hefur átt sér stað mikil vinna við breytingar er varðar afgreiðslu á málum af þessu tagi. Er það markmið embættisins að iðka vandaða stjórnsýslu sem er lögum samkvæm. Þá er það markmið að farið sé með persónuupplýsingar í samræmi við þau grundvallarsjónarmið sem koma fram í úrskurði Persónuverndar, sem og reglur um persónuvernd og friðhelgi einkalífs. Eftir þessum sjónarmiðum hefur verið unnið síðustu ár.
Embættið fór yfir málið á sínum tíma og hafði embætti Héraðssaksóknara það einnig til meðferðar. Í því ljósi og þess að margt hefur breyst á þeim 8 árum síðan atvik áttu sér stað, m.a. í afgreiðslu mála af þessu tagi, telur embættið ekki tilefni til að bregðast frekar við, umfram það að hafa alla ferla embættisins í sífelldri endurskoðun.
Þegar málið var afgreitt árið 2012, hefði í samræmi við lög og ferla embættisins, átt að vista umrædd bréfaskipti í málaskrá embættisins. Hjá embættinu er unnið eftir fyrirfram ákveðnum aðferðum og skipulagi með það að markmiði að tryggja að varsla og meðferð skjala sé í samræmi við góða stjórnsýslu og lög.
Jón Baldvin teflir vottorðinu fram
Sem áður segir snýst þetta mál um bréf sem Hörður Jóhannesson þáverandi aðstoðarlögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu skrifaði undir í upphafi árs 2012 og Jón Baldvin hefur undir höndum. Er bréfið var gefið út var Stefán Eiríksson, núverandi útvarpsstjóri, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu.
Jón Baldvin hefur teflt þessu bréfi fram sem vottorði þegar hann hefur verið að verjast ásökunum Aldísar og fleiri kvenna í sinn garð á opinberum vettvangi. Hann vísaði bæði til þess í viðtali í Silfrinu 3. febrúar 2019 og í grein í Morgunblaðinu fjórum dögum síðar. Í grein sinni í Mogganum ritaði Jón Baldvin bréfið orðrétt upp.
Þetta bréf frá lögreglu er væntanlega á meðal gagna í meiðyrðamáli sem Jón Baldvin rekur nú gegn Aldísi dóttir sinni og Sigmari Guðmundssyni dagskrárgerðarmanni á RÚV, en meiðyrðamálið var höfðað vegna viðtals sem Sigmar og Helgi Seljan tóku við Aldísi Schram í Morgunútvarpinu á Rás 2 í janúar árið 2019.
Í viðtalinu sakaði Aldís Jón Baldvin meðal annars um að hafa beitt áhrifum sínum sem sendiherra gagnvart yfirvöldum og lögreglu til þess að þrýsta á um að hún yrði vistuð á geðdeild gegn vilja sínum.
Jón Baldvin og Bryndís vísuðu ítrekað til þessa lögregluvottorðs í grein sem birtist í Morgunblaðinu 13. febrúar 2019, þar sem þau röktu 14 meintar rangfærslur sem hefðu komið fram í viðtalinu og fóru fram á afsökunarbeiðni frá útvarpsstjóra, dagskrárgerðarmönnum og Aldísi sjálfri, annars yrði mál höfðað.
Aldís Schram segir í skriflegri yfirlýsingu til Kjarnans vegna málsins að henni þyki skondið að Jón Baldvin hafi sjálfur fært sér í hendur þetta „sönnunargagn um ólögmæt vinnubrögð Stefáns Eiríkssonar, fyrrverandi lögreglustjóra og Harðar Jóhannessonar, aðstoðarlögreglustjóra hans,“ í hendur, er hann birti það í heild sinni í Morgunblaðinu 7. febrúar í fyrra.
Viðbrögð Aldísar Schram við niðurstöðu Persónuverndar:
„Það skondna er að Jón Baldvin Hannibalsson færði mér sjálfur í hendur þetta sönnunargagn um ólögmæt vinnubrögð Stefáns Eiríkssonar, fyrrverandi lögreglustjóra og Harðar Jóhannessonar, aðstoðarlögreglustjóra hans, þá hann kom upp þá kauða með því að birta þetta skjal þeirra í Morgunblaðinu þann 7. febrúar árið 2019, en því er við að bæta að þessi sami lögreglustjóri, sem með vinnslu og miðlun þessa skjals árið 2012 sem afhent var JBH í heimildarleysi, hefur gerst sekur um lögbrot, byggði þá ákvörðun sína að vísa frá kæru minni á hendur Jóni Baldvini fyrir meiðyrða- og mannréttindabrot árið 2013, á röngum upplýsingum og þar með meinaði mér um rannsókn kærunnar sem m.a. hefði leitt í ljós að þetta tilgreinda skjal hans bygggir á röngum upplýsingum, eins og sannast á málaskrá lögreglunnar, dags. 9. apríl 1998, þar sem tilraun Kolfinnu Baldvinsdóttur ásamt lögreglunni til handtöku minnar kallast „aðstoð við erlend sendiráð“ og dagbók lögreglunnar, dags. 13. apríl 2002 þar sem fram kemur að sendiherrafrúin Bryndís Schram bað um lögregluleit að mér, með þeim lyktum að ég, 10 mínútum eftir að ég tilkynnti kynferðisbrot Jóns Baldvins til lögreglu, sætti handtöku v/ meintra ranghugmynda um þau og nauðungarvistun fyrir beiðni hans, merktri Sendiráði Íslands.“