Mynd: Þróunaráætlun höfuðborgarsvæðisins 2020-2024 kortalmenningssssamgognurssh.png
Mynd: Þróunaráætlun höfuðborgarsvæðisins 2020-2024

Sameiginlega sýnin um þéttara borgarsvæði er að teiknast upp

Í nýrri þróunaráætlun höfuðborgarsvæðisins 2020-2024 er gert ráð fyrir að 66 prósent nýrra íbúða sem klárast á tímabilinu verði árið 2040 í grennd við hágæða almenningssamgöngur, þar af 86 prósent nýrra íbúða í Kópavogi.

Þörf er fyrir á bil­inu 4.150 til 6.300 nýjar íbúðir á höf­uð­borg­ar­svæð­inu fram til árs­loka 2024, til þess að mæta þeirri hóf­legu íbúa­fjölgun sem gert er ráð fyrir í nýrri mann­fjölda­spá fyrir höf­uð­borg­ar­svæð­ið. 

Sam­kvæmt spánni, sem gerð var til að reyna að leggja mat á áhrif COVID-19 far­ald­urs­ins á íbúa­þróun á höf­uð­borg­ar­svæð­inu, mun íbúum fjölga hóf­lega miðað við fyrri ár eða – um það bil 10.200 á höf­uð­borg­ar­svæð­inu öllu fram til árs­loka 2024. Skekkju­mörkin eru all­nokk­ur, eða um 3.500 íbúar í hvora átt.

Þetta er á meðal þess sem kemur fram í nýrri Þró­un­ar­á­ætlun höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins fyrir árin 2020-2024, sem unnin var af VSÓ Ráð­gjöf í sam­starfi við Sam­tök sveit­ar­fé­laga á höf­uð­borg­ar­svæð­inu (SS­H). Áætl­unin hefur nú verið afgreidd af svæð­is­skipu­lags­nefnd höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins til afgreiðslu hjá hverju og einu sveit­ar­fé­lagi.

Ef eitt­hvað í takt við þessa mann­fjölda­spá raun­ger­ist þýðir það að þörf er fyrir á bil­inu 1.000 til 1.600 nýjar íbúðir á höf­uð­borg­ar­svæð­inu á ári hverju ári fram til árs­loka 2024. 

Áætl­anir sveit­ar­fé­lag­anna á höf­uð­borg­ar­svæð­inu gera ráð fyrir því að byggðar verði næstum því 2.000 íbúðir á ári á þessu sama tíma­bili, sem þýðir að það er mikið upp­bygg­ing­ar­skeið á áætlun – en ein­ungis þrí­vegis áður hefur fjöldi full­kláraðra íbúða á höf­uð­borg­ar­svæð­inu farið yfir 2.000 á einu ári.

Bygg­ing­ar­á­formin í sveit­ar­fé­lög­unum eru því talin lík­leg til þess að upp­fylla þörf fyrir íbúð­ar­hús­næði, bæði vegna fólks­fjölg­unar og upp­safn­aðrar íbúða­þarfar, sem metin var um 2.200 íbúðir í árs­lok 2019.

Íbúum á höf­uð­borg­ar­svæð­inu hefur fjölgað nokkuð kröft­ug­lega á und­an­förnum árum, nema reyndar í Hafn­ar­firði, þar sem íbúar voru færri 1. jan­úar 2021 en þeir voru í byrjun des­em­ber árið 2018, sam­kvæmt nýj­ustu tölum frá Hag­stof­unni

Heild­ar­fjölgun á milli des­em­ber 2019 og jan­úar 2021 var mest í Reykja­vík, en á því tíma­bili fjölg­aði íbúum höf­uð­borg­ar­innar um meira en tvö þús­und. Hlut­falls­leg fjölgun var að sama skapi mest í Garðabæ og Kópa­vogi, þar sem hún nam yfir fjórum pró­sent­um.

Offram­boð á íbúð­um?

Ef hins vegar hægir veru­lega á fólks­fjölgun á höf­uð­borg­ar­svæð­inu nú, líkt og gerst hefur í fyrri efna­hag­skrepp­um, gæti það leitt til offram­boðs á íbúðum nema fjár­festar og verk­takar hægi á plönum sín­um, sam­kvæmt því sem fram kemur í þró­un­ar­á­ætl­un­inni.

Auglýsing

Þar er bent á að margar breytur geti haft áhrif á þróun næstu ára, en eftir sem áður sé „ástæða til að stefna að upp­bygg­ingu minnst 1.300 íbúða á ári,“ í takt við lang­tíma­með­al­tal upp­bygg­ingar á íbúð­ar­hús­næði á höf­uð­borg­ar­svæð­inu.

„Gangi áætl­an­irnar eftir verður unnið hratt á upp­safn­aðri íbúða­þörf á tíma­bil­inu og henni mögu­lega útrýmt. Ef þróun efna­hags­lífs­ins leiðir hins vegar til þess að hátt hlut­fall þess fólks sem hingað hefur flutt frá útlöndum í leit að vinnu snýr til baka vegna atvinnu­leysis getur það hæg­lega leitt til þess að íbúða­mark­að­ur­inn verði kaup­enda­mark­aður á seinni hluta tíma­bils­ins,“ segir í skýrsl­unni.

Ekki er þó talin ástæða til að ótt­ast offram­boð sér­stak­lega, sam­kvæmt því sem fram kemur í umsögn Jóns Kjart­ans Ágústs­son­ar, svæði­skipu­lags­stjóra á höf­uð­borg­ar­svæð­inu, um þró­un­ar­á­ætl­un­ina. 

Jón Kjartan Ágústsson svæðisskipulagsstjóri. Mynd af vef SSH.

Hann nefnir þar máli sínu til stuðn­ings að óvissa um stöðu efna­hags­mála geti haft áhrif á aðgengi verk­taka að fjár­magni til upp­bygg­ingar og þaf af leið­andi kælandi áhrif á fram­boð hús­næð­is. Einnig kemur svæð­is­skipu­lags­stjóri inn á að sveit­ar­fé­lögin hafi aðgang að ýmsum stýri­tækjum sem þau geti gripið til ef stefnir í offram­boð hús­næð­is, til dæmis geti þau stýrt lóða­fram­boði, for­gangs­raðað upp­bygg­ing­ar­á­formum og dregið úr inn­viða­upp­bygg­ingu nýrra hverfa.

Tekið skal fram að vegna áhrifa COVID-19 far­ald­urs­ins á hluti eins og efna­hags­mál, íbúa­þróun og atvinnu­hætti er þess getið víða í þess­ari nýju skýrslu – sem rammar inn fjög­urra ára sýn sveit­ar­fé­lag­anna fyrir upp­bygg­ingu hús­næðis og sam­gangna á höf­uð­borg­ar­svæð­inu – að taka skuli nið­ur­stöðum og álykt­unum sem þar eru dregnar með fyr­ir­vara.

Byggð fyrir 130-150 þús­und manns innan vaxt­ar­marka

Þró­un­ar­á­ætlun höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins er ætlað að vera sam­ræm­ing­ar­tól fyrir sveit­ar­fé­lögin í hús­næð­is- og sam­göngu­mál­um. Þetta plagg er í umsögn svæð­is­skipu­lags­stjóra kallað „lyk­il­at­riði“ í fram­fylgd svæð­is­skipu­lags­ins. Ný þró­un­ar­á­ætlun leysir af hólmi fyrri þró­un­ar­á­ætlun áranna 2015-2018 sem fylgdi svæð­is­skipu­lag­inu frá 2015-2040 úr hlaði.

Bára Huld Beck

Ekki er útlit fyrir að hörgull verði á tæki­færum til upp­bygg­ingar á höf­uð­borg­ar­svæð­inu til lengri tíma, en sam­kvæmt þeim heim­ildum sem eru til staðar í gild­andi deiliskipu­lags­á­ætl­unum og áætl­unum um nýjar heim­ildir sem eru í vinnslu eða þróun hjá sveit­ar­fé­lög­unum verður unnt að byggja um 60 þús­und íbúðir innan núver­andi vaxt­ar­marka byggð­ar­innar á höf­uð­borg­ar­svæð­inu, byggð sem í heild­ina getur rúmað 130-150 þús­und manns.

Vaxt­ar­mörk höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins eru þau mörk sem skil­greind voru í svæð­is­skipu­lags­vinn­unni sem sveit­ar­fé­lögin fóru sam­eig­in­lega í á síð­asta ára­tug. Þá tóku sveit­ar­fé­lögin sam­eig­in­lega ákvörðun um að byggja innan þeirra svo borg­ar­svæðið hætti að þenj­ast stjórn­laust út með til­heyr­andi óhag­ræði fyrir alla.

Nýrri byggð er nú fremur beint á mið­kjarna og sam­göngu­miðuð þró­un­ar­svæði, sem síðan munu tengj­ast saman með Borg­ar­línu, hágæða almenn­ings­sam­göngu­kerfi.

Gott dæmi um slíka upp­bygg­ingu er til dæmis við Hamra­borg í Kópa­vogi, þar sem til stendur að fjölga íbúðum veru­lega á næstu árum miðað við fyr­ir­liggj­andi deiliskipu­lag sem er í kynn­ing­u. 

Vaxtarmörkin eru auðkennd með svörtu línunum á þessari mynd. Innan þeirra eru nú framkomnar heimildir eða áætlanir í vinnslu um byggingu 60 þúsund íbúða fyrir allt að 130-150 þúsund manns á næstu áratugum.
Svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins 2015-2040

Sem áður segir eru áætl­anir ýmist í skipu­lagi eða á þró­un­ar­stigi sem miða að því að 60 þús­und íbúð­ir, eða fjöldi sem nemur um 67 pró­sent þeirra 90.000 íbúða sem standa á höf­uð­borg­ar­svæð­inu í dag, verði byggðar innan vaxt­ar­markanna. Sjá má hvar vaxt­ar­mörkin liggja á mynd­inni hér að ofan.

Mætti byggja enn meira í kringum öfl­ug­ustu sam­göngu­ás­ana

Í þró­un­ar­á­ætl­un­inni er þess þó getið að sveit­ar­fé­lögin mættu reyna að hafa enn meira af upp­bygg­ingu sinni á allra næstu árum innan áhrifa­svæðis hágæða almenn­ings­sam­gangna, Borg­ar­línu­leiða eða strætó­leiða sem ganga á hárri tíðni.

Hér má sjá kort af þeim framkvæmdum í samgöngumálum sem ætlað er að ráðast í fram til loka árs 2024. Sumum þessara framkvæmda er reyndar þegar lokið.
Þróunaráætlun SSH 2020-2024

Sam­kvæmt því sem þar kemur fram er gert ráð fyrir að 66 pró­sent nýrra íbúða sem eru á teikni­borð­inu verði það, en tekið er fram hlut­fallið þyrfti að vera hærra til að mark­mið um að 66 pró­sent af allri byggð verði í grennd við hágæða almenn­ings­sam­göngur árið 2040 náist.

Einnig er 64 pró­sent af öllu fyr­ir­hug­uðu atvinnu­hús­næði sem er vænt­an­legt fram til árs­ins 2024 á áhrifa­svæði hágæða almenn­ings­sam­göng­um, en það hlut­fall „mætti sömu­leiðis vera enn hærra,“ sam­kvæmt skýrslu­höf­und­um.

Dregið er saman hvernig upp­bygg­ing bæði íbúða og atvinnu­hús­næðis á næstu árum liggur við almenn­ings­sam­göngum í hverju sveit­ar­fé­lagi fyrir sig í. 

Kópa­vogur er með hæst hlut­fall vænt­an­legra íbúa á áhrifa­svæði hágæða almenn­ings­sam­gangna, eða 86 pró­sent, næst kemur Reykja­vík með 71 pró­sent, svo Mos­fells­bær með 70 pró­sent og þá Hafn­ar­fjörður með 56 pró­sent.

Á þessu korti sem fylgir þróunaráætlun má sjá vænt leiðarkerfi Borgarlínu og aðra ása hágæða almenningssamgangna.
Þróunaráætlun SSH 2020-2024

Í þró­un­ar­á­ætl­un­inni kemur fram að mik­il­vægt sé að hafa í huga að heim­ild­irnar sem eru til staðar í áætl­unum sveit­ar­fé­lag­anna séu þó mis­að­gengi­legar og mis­hag­kvæmar fyrir fjár­festa og verk­taka. „Sums staðar þarf að rífa mann­virki sem fyrir eru eða ráð­ast í aðrar stórar fjár­fest­ingar til að unnt sé að byggja upp. Að því leyt­inu er jákvætt að áætl­anir sveit­ar­fé­lag­anna séu í hærri kant­inum þar sem sum upp­bygg­ing­arplön geta mögu­lega dreg­ist á lang­inn út af slíkum atrið­u­m,“ segir í skýrsl­unni.

Auglýsing

Þar segir einnig að áformuð upp­bygg­ing íbúð­ar­hús­næðis á tíma­bil­inu 2020-2024 „virð­ist lituð af þeim mikla vexti sem verið hef­ur, og að sveit­ar­fé­lögin vilji ekki láta sitt eftir liggja til að vöxtur megi halda áfram.“

Einnig kemur fram að þegar tekið sé mið af lang­tíma­þróun sé „metn­að­ur­inn mestur í Reykja­vík og Garðabæ á meðan áform ann­ars staðar virð­ast vera aðeins hóf­stillt­ari, og í meira sam­ræmi við lang­tíma­þró­un.“

„Ef íbúa­fjölg­unin verður í takti við mann­fjölda­spána sem hér hefur verið sett fram er þó ekki ástæða til að bæta í, heldur frekar draga aðeins úr og sam­ræma. Einnig gæti verið gagn­legt að stefna upp­bygg­ingu eins og kostur er á áhrifa­svæði hágæða almenn­ings­sam­gangna,“ segir í þró­un­ar­á­ætl­un­inni, sem nánar má kynna sér á vef­svæði SSH.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar