Ár frá árásinni á bandaríska þingið – Biden segir Trump hafa reynt að gera út af við lýðræðið
Árið 2021 átti að marka nýtt upphaf. Það átti að vera árið sem heimurinn sigraðist á kórónuveirunni og árið þar sem Joe Biden, nýr Bandaríkjaforseti, átti að minnka gjána sem myndaðist milli íhaldsmanna og frjálslyndra eftir stormasama embættistíð Donalds Trump. Árið hófst hins vegar með látum þegar hópur fólks réðst inn í þinghúsið í Washington. En hvar er æstur múgurinn sem réðst á þinghúsið í dag, þegar akkúrat ár er liðið frá árásinni?
6. janúar 2021 réðst stór hópur stuðningsmanna Donalds Trump, fráfarandi Bandaríkjaforseta, að þinghúsinu í Washington þegar öldungadeildarþingið var í þann mund að ganga frá formlegri staðfestingu úrslita forsetaskosninganna 2020 þar sem Joe Biden hrósaði sigri. Biden ávarpaði bandarísku þjóðina í dag þar sem hann sagði Trump ábyrgan fyrir árásinni á þinghúsið og sakar hann um að hafa reynt að gera út af við lýðræði í Bandaríkjunum.
„Hann reyndi að koma í veg fyrir friðsamleg valdaskipti ættu sér stað þegar æstur múgur réðst á þinghúsið. En þeim mistókst. Þeim mistókst. Og á þessum degi þegar við minnumst þess verðum við að tryggja að árás eins og þessi gerist aldrei aftur,“ sagði Biden í ávarpi sínu þar sem hann var afar harðorður í garð Trump. „Löskuð sjálfsmynd hans skipti hann meira máli en lýðræðið eða stjórnarskráin okkar, hann getur ekki viðurkennt tap,“ sagði Biden einnig, en ræðu hans í heild sinni má sjá hér:
Yfir 700 ákærðir fyrir aðild að árásinni
Frá því að úrslit forsetakosninganna 2020 voru ljós talaði Trump, auk hluta repúblikana, um kosningasvindl án þess að sýna fram á sönnunargögn máli sínu til stuðnings. Þess í stað hvatti hann stuðningsmenn sína til að þrýsta á þingið að staðfesta ekki niðurstöðu kosninganna.
Daginn sem öldungadeildarþingið staðfesti kjör Biden hélt Trump fjöldafund við Hvíta húsið þar sem hann hvatti stuðningsmenn sína til að „bjarga landi þeirra“. Stuðningsmenn tóku hann á orðinu og réðust inn í þinghúsið, sumir vopnaðir í hefðbundnum skilningi en fleiri vopnaðir snjallsímum þar sem atburðarrásinni var streymt á samfélagsmiðlum.
Þingmenn földu sig og læstu sig inni í herbergjum þinghússins þegar mótmælendurnir æddu um gangana og hótuðu að drepa bæði Nancy Pelosi þingforseta og Mike Pence varaforseta. Trump hvatti að lokum stuðningsmenn sína til að hverfa frá. „Ég finn fyrir sársauka ykkar og veit að þið eruð særð. Við gengum í gegnum kosningar sem var stolið af okkur. Ég veit hvernig ykkur líður, en þið verðið að fara heim núna, og farið heim í friði ,“ sagði hann í mínútulöngu myndskeiði sem hann birti á samfélagsmiðlum.
Fimm létust í árásinni á þinghúsið og á annað hundrað særðust. Trump var ákærður fyrir embættisbrot í kjölfar innrásarinnar en ákæran var felld í öldungadeildinni þar sem repúblikanar eru með meirihluta.
Þúsundir tóku þátt í óeirðunum og yfir 700 þeirra sem voru handteknir voru ákærðir fyrir þátt sinn í innrásinni á þinghúsið, allt frá því að fara inn í byggingu þar sem aðgangur var bannaður til ofbeldisbrota. 71 dómur hefur verið kveðinn upp í tengslum við óeirðirnar, þar af voru 56 dæmdir fyrir að ganga fylktu liði að þinghúsinu, fyrir að taka þátt í mótmælum eða fyrir að umkringja þinghúsið.
31 hefur hlotið fangelsisdóm fyrir aðild að óeirðunum, 50 skilorðsbundin dóm, 38 vory dæmd til að sinna samfélagsþjónustu, 18 sættu stofufangelsi í einn til þrjá mánuði og 16 voru dæmd til að greiða sekt, allt frá 1.000 til 5.000 dollara.
„Qanon-seiðmaðurinn“ afplánar 41 mánaðar fangelsisdóm
Stuðningsmenn Trump virtust margir kunna vel við sig í þinghúsinu, ekki síst Jacob Chansley, sem kallaði sjálfan sig „Qanon-seiðmanninn“ og varð fljótt að eins konar tákngervingi árásarinnar. Chansley var handtekinn 9. janúar og var upphaflega birt ákæra í sex liðum, meðal annars fyrir að setjast í ræðustól Mike Pence varaforseta.
Í febrúar birti hann afsökunarbeiðni á framferði sínu í árásinni en lýsti jafnframt vonbrigðum sínum yfir því að Trump hafi ekki náðað stuðningsmenn sem tóku þátt í innrásinni áður en hann lét formlega af embætti. „Ég biðst afsökunar á að hafa vakið óhug. Það var rangt. Punktur,“ sagði meðal annars í afsökunarbeiðni Chansley. Hann játaði aðild sína að innrásinni og hlaut 41 mánaðar fangelsisdóm.
Mál „Suðurríkjafánaveifarans“ tekið fyrir í júní
Kevin Seefried vakti athygli fyrir að þeysast um ganga þinghússins með stærðarinnar fána Suðurríkjanna. Fáninn hefur lengi verið umdeildur og skiptar skoðanir eru á því hvaða þýðingu hann hefur fyrir fólk í dag. Suðurríkin var sérstakt sambandsríki syðstu ríkjanna í Bandaríkjunum á árunum 1861 til 1865 eða þar til borgarastríðinu í Norður-Ameríku lauk með sigri Bandaríkjanna í norðri. Fáninn er nú iðulega notaður sem haturstákn og táknmynd fyrir yfirburði hvíta kynstofnsins.
Seefried var handtekinn ásamt syni sínum 14. janúar . Sameiginleg ákæra var birt feðgunum í apríl. Kevin er ákærður í fimm liðum fyrir að fara inn í þinghúsið með ólögmætum hætti og á yfir höfði sér 20 ára fangelsisvist. Dómur hefur ekki verið kveðinn upp en málið verður tekið fyrir í júní. Kevin Seefried neitar allri sök.
Maðurinn sem settist í stól Pelosi neitar sök
Richard Barnett, sem braust inn á skrifstofu Nancy Pelosi og kom sér makindalega fyrir við skrifborð hennar áður en hann gekk þar berseksgang, var handtekinn tveimur dögum eftir árásina og var í rúma þrjá mánuði í gæsluvarðhaldi.
Barnett er meðal annars ákærður fyrir að bera rafbyssu inn í þinghúsið og saksóknarar töldu hann ógn við samfélagið. Barnett var látinn laus í lok apríl en sætir enn sjö ákærum en ekki liggur fyrir hvenær mál hans verður tekið fyrir. Barnett neitar allri sök.
Réttarhöld yfir „hellisbúanum“ hefjast síðar í mánuðinum
Aaron Mostofsky vakti athygli í þinghúsinu, ekki síst fyrir klæðaburð sinn þar sem hann vafði sig inn í loðfeld og fékk viðurnefnið „hellisbúinn“ fyrir vikið. Þar að auki tók hann vesti og skjöld frá þinglögreglumanni og fyrir það á hann yfir höfði sér allt að 10 ára fangelsi.
„Ég held ekki að 75 milljónir hafi kosið Trump - ég held að það hafi verið nær 85 milljónum. Ég held að viss ríki sem hafa verið rauð lengi hafi orðið blá og þeim rænt, líkt og New York,“ sagði Mostofsky í viðtali sem vísað er í yfirlýsingu FBI.
Mostofsky var handtekinn 12. janúar og hefur honum verið birt ákæra í átta liðum. Réttarhöld yfir honum verða síðar í þessum mánuði. Mostofsky neitar sök.
Biden forðast að nota nafn Trump
Trump fylgdist með ávarpi Biden í dag frá heimili sínu á Flórída. Í yfirlýsingu þar sem reiðin skín í gegn segir Trump að Biden hafi notað hans nafn „til að ala á frekari sundrung“ í Bandaríkjunum. Ávarp Biden í dag var „pólitískt leikrit“ að mati Trump og segir hann Biden hafa mistekist í einu og öllu. Þá skaut hann einnig á fjölmiða, sagði þá samseka í því sem kallað er „Stóra lygin“. „Í raun og veru er „Stóra lygin“ kosningarnar sjálfar,“ segir í yfirlýsingu Trump.
Biden hefur hingað til forðast að tala beint um forvera sinn í starfi og tók líklega meðvitaða ákvörðun um það í dag að nefna hann ekki á nafn heldur tala einungis um „fyrrverandi forseta“. „Fyrrverandi forseti Bandaríkjanna hefur spunnið lygavef um kosningarnar árið 2020. Hann gerði það því völd eru honum mikilvægari en verðleikar, af því að hann telur eigin hagsmuni mikilvægari en hagsmuni þjóðarinnar,“ sagði Biden.