EPA

Óeirðaseggir flagga nýfasískum táknum

Tákn segja stundum meira en þúsund orð og eru þau góð leið til að senda skýr skilaboð. Í óeirðunum í Washington í síðustu viku mátti sjá aragrúa af ýmiss konar táknum. Kjarninn kannaði merkingu þeirra en augljóslega má sjá ákveðið þema þar sem áhersla er á yfirburði hvíta kynstofnsins.

Óeirðaseggir réðust inn í þinghúsið í Washington síðastliðinn miðvikudag og hafa myndir af þeim tröllriðið samfélagsmiðlum síðan á miðvikudaginn. Fyrir áeggjan Bandaríkjaforseta, Donalds Trump, braust múgurinn inn í þinghúsið – án þess að lögreglan fengi rönd við reist.

Á þessum myndum, hvor sem litið er til þeirra sem mótmæltu fyrir utan eða þeirra sem réðust inn í þinghúsið, má smá hin ýmsu tákn, fána eða merki sem vert er að beina sjónum að.

Suðurríkjafáninn

Suðurríkjafáninn hefur lengi verið umdeildur og skiptar skoðanir eru á því hvaða þýðingu hann hefur fyrir fólk í dag. Suð­ur­ríkin var sér­stakt sam­bands­ríki syðstu ríkj­anna í Banda­ríkj­unum á árunum 1861 til 1865 eða þar til borg­ara­stríð­inu í Norð­ur­-Am­er­íku lauk með sigri Banda­ríkj­anna í norðri.

Fáninn er nú iðulega notaður sem haturstákn og táknmynd fyrir yfirburði hvíta kynstofnsins. Hann var áberandi í óeirðunum í síðustu viku og ekki síst inni í þinghúsinu sjálfu þegar einn úr hópi múgsins spígsporaði með fánann um ganga hússins.

Maður arkaði um þinghúsið með suðurríkjafánann.
EPA

Kek fáninn

Sjá mátti kek fánann á meðal fólks í óeirðunum en honum svipar til nasistafánans – með tvöföldum krossi og merki í miðjunni. Fáninn er tákn fyrir skáldað ríki sem kallast Kekistan. Hvítir þjóðernissinnar stofnuðu „ríkið“ á samskiptasíðunni 4chan en í þessu skáldaða ríkið ræður ríkjum guð með froskshöfuð sem er tákn ringulreiðar. 

Froskurinn hefur verir notaður á netinu til að koma ákveðnum skilaboðum á framfæri. Þá hafa nettröll notað froskinn til að hræra í umræðum á netinu og beina spjótum sínum þá aðallega að frjálslyndu fólki og „réttlætisriddurum“. 

Kek fáninn er keimlíkur nasistafánanum.
Samsett mynd

Refsarinn

Merki Refsarans, eða The Punisher eins og hann kallast á ensku, sást á fánum og búningum fólks í hópnum. Merkið vísar í teiknimyndapersónu í Marvel heiminum sem refsar glæpamönnum án dóms og laga. Hermenn í Bandaríkjunum byrjuðu að nota merkið sem innblástur í byrjun 10. áratugarins og lögreglan þar í landi í upphafi 21. aldar. 

Gerry Conway, höfundur Refsarans, tjáði sig um þessa notkun á merkinu síðastliðið sumar en þá sagði hann að Refsarinn væri fulltrúi þeirra sem réttarkerfið hefur brugðist. „Mér hefur alltaf fundist það heimskulegt og kaldhæðnislegt að lögreglumenn taki opnum örmum einhverju sem er í grundvallaratriðum táknmynd útlaga.“ Athygli vakti í lok síðasta árs þegar sjá mátti á þriggja ára gamalli mynd af íslenskri lögreglukonu merki Refsarans

Merki Refsarans vísar í teiknimyndapersónu í Marvel heiminum sem refsar glæpamönnum án dóms og laga.

Snörur og „Dagur reipisins“

Víða mátti sjá gálga í Washington á miðvikudaginn. Margir Twitter-notendur tengdu þá við sögu eftir William Luther Pierce sem nefnist The Turner Diaries. Fjallar hún um dagbækur Earl Turner sem tekur þátt í uppreisn gegn stjórn Bandaríkjanna sem dreifist síðar um heim allan. Sagan er vinsæl meðal kynþáttahatara. 

Sérstaklega er vísað til nokkurs sem kallast „dagur reipisins“ en í sögunni er það dagurinn sem þeir sem líta á hvíta kynstofninn sem æðri öðrum yfirtaka stjórn landsins og myrða alla sem kallast „kynþáttasvikarar“.

Nýnasistar

Tákn nýnasista skutu upp kollinum í óeirðunum en til að mynda mátti sjá mann í peysu merkt „Camp Auschwitz – Work brings freedom“ sem vísar í útrýmingarbúðir nasista í seinni heimsstyrkjöldinni og í yfirskrift búðanna „Arbeit macht frei“ sem þýðir á íslensku „vinnan færir frelsi“. 

Jafnframt mátti sjá svokallaðan hníf Hitlersæskunnar. Í seinni heimsstyrjöldinni varð Hitlersæskan gríðarlega fjölmenn en heróp hreyfingarinnar var „Blut und Ehre“ eða „blóð og heiður“. 

Samsett mynd

QAnon

Meðlimir QAnon létu sig ekki vanta. Sá umtalaðasti er líklegast herramaðurinn með hornin og loðfeldinn. Sá heitir Jake Angeli og er hann áberandi persóna innan samtakanna QAnon. Hefur hann verið nefndur Q-seiðmaður.

QAnon er hreyfing sem aðhyllist ýmsar öfgafullar samsæriskenningar, til dæmis að rann­sókn sér­staks sak­sókn­ara í Banda­ríkj­unum á áhrifum Rússa í síð­ustu for­seta­kosn­ing­unum hafi í raun verið gerð til að afvega­leiða rann­sókn á barn­a­níðs­hring, að John F. Kenn­edy, fyrrum for­seti Banda­ríkj­anna, hafi svið­sett morðið á sjálfum sér og að kór­ónu­veiran sé annað hvort til­bún­ingur eða líf­efna­vopn sem búið var til af ill­gjörnum elít­u­m. 

Jake Angeli er orðinn ein táknmynd óeirðanna.
EPA

Norræn ásatrúartákn

Fyrrnefndur Jake Angeli með hornin var skreyttur húðflúrum með táknum ásatrúar á borð við valhnútinn, Yggdrasil og hamar Þórs, Mjölni. Víða á internetinu má finna harða gagnrýni á tengingu þessara norrænu tákna við rasisma og samsæriskenningar. En þrátt fyrir mótmæli hafa ýmsir öfgahópar til hægri tekið táknin og beitt þeim í sína þágu. 

Mjóa, bláa línan

Sjá mátti fána Bandaríkjanna með mjórri, blárri línu inni í þinghúsinu í óeirðunum. Línan táknar varnarliðið sem stendur milli mannýgs óvinar og siðmenningarinnar sem hann ógnar en tók á sig neikvæðari aukamerkingu eftir því sem á leið tuttugustu öldina, þegar þagnarmúrinn innan lögreglunnar varðandi misgjörðir samstarfsfélaga varð lýðum kunnur. 

Mjóa, bláa línan, sem var orðin að niðrandi hugtaki í upphafi 21. aldar, var endurreist árið 2014 með tilkomu hreyfingarinnar Blue Lives Matter og tilraun var gerð til að ljá henni göfugan blæ en vegna augljósu vísunarinnar í mannréttindahópinn Black Lives Matter og ólgunnar í samfélaginu yfir lögregluofbeldi voru það aðallega öfgahægri-hópar sem tóku táknið, og meðfylgjandi fána, upp á sína arma. Því líta fæstir á mjóu, bláu, línuna sem tákn fórnfýsi, eins og Blue Lives Matter hreyfingin vill meina, og þeir sem bera merkið eru taldir lýsa yfir skilyrðislausum stuðningi við lögregluna, sama hvað hún gerir. 

Mjóu, bláu línunni var flaggað fyrir framan þinghúsið sem og inni í því.
Skjáskot/CNN

Stoltir strákar

Proud boys, eða stoltir strákar á íslenskri tungu, eru samtök öfga-hægrisinnaðra karlmanna en þeir létu sig ekki vanta í óeirðunum. Meðal þess sem hreyfingin heldur fram er að karlmenn og vestræn menning eigi undir högg að sækja. Hún upphefur ofbeldi og eigin kynþátt og kyn á kostnað minnihlutahópa.

Hreyfingin komst almennilega á kortið þegar Donald Trump Bandaríkjaforseti var beðinn um að fordæma hvíta þjóðernissinna og aðra öfgahópa á borð við Proud Boys. Trump sagði Proud Boys aftur á móti að „halda sig til hlés og vera í viðbragðsstöðu“.

Þessi listi er engan veginn tæmandi en gefur ákveðna hugmynd um þá hópa og hreyfingar sem samankomnar voru fyrir framan þinghús Bandaríkjanna miðvikudaginn 6. janúar.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar