Bára Huld Beck

Nasistar, rasistar, fasistar og hvíthettir – eða kannski bara einn stór misskilningur?

Nú hefur þriggja ára gömul ljósmynd af lögreglukonu vakið upp hörð viðbrögð – og skipað fólk í fylkingar. Viðbrögð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu við málinu hafa verið afgerandi – og sömuleiðis dómsmálaráðherra. Það hefur þó ekki verið nóg til að lægja öldurnar. Hvað veldur? Kjarninn fór yfir fánamálið svokallaða.

Eitt stærsta fréttaefni vikunnar hefur án efa verið umræðan um lögreglumerki, merkingu þeirra og viðbrögðin á báða bóga. Málið byrjaði á miðvikudaginn þegar mbl.is birti mynd af lögreglukonu við störf við frétt út dagbók lögreglunnar daginn áður. Í fréttinni var farið yfir tilkynningar um þjófnað í verslun, innbrot og hnupl. 

Það var þó ekki efni fréttarinnar sem vakti athygli lesenda í þetta skiptið, heldur mynd af lögreglukonu sem fylgdi fréttinni. Á klæðnaði hennar má sjá þrjá fána og við fyrstu sýn virðist ekkert athugavert við þá. Glöggir lesendur fréttarinnar tóku þó eftir því að þetta voru ekki venjulegir fánar heldur þekkt merki sem tengd hafa verið við hatursorðræðu. Við nánari eftirgrennslan kom í ljós að myndin var þriggja ára gömul.

Viðbrögðin létu ekki á sér standa og lét fólk rækilega í sér heyra á samfélagsmiðlum. Margir fordæmdu notkun fánanna og heimtuðu svör frá lögreglunni. 

Auglýsing

Vísir náði tali af Anítu Rut Harðardóttur en hún er lögregluþjónninn sem ber fánana á myndinni. Hún sagði að fánarnir væru svokallaðir „patchar“, eða bætur sem festar eru á undirvesti lögreglumanna með frönskum rennilás. Lögreglumenn skiptist gjarnan á slíkum bótum. Það væri aðeins gert til skemmtunar.

Aníta kvaðst ekki vita hvaða merkingu fánarnir hafa og sagðist aldrei myndi bera slíka fána ef hún vissi af neikvæðri merkingu þeim tengdum. 

Skjáskot af frétt mbl.is af fánum á búningi lögreglukonu.
Skjáskot/mbl.is

En hvað þýða þessir fánar og þessi merki? 

Engum blöðum er um það að fletta að haturshópar hafi notað svokallaðan Vínlandsfána og hafa mannréttindasamtök á borð við ADL flokkað hann sem haturstákn.

Peter Steele Mynd: Wiki CommonsFáninn er krossfáni að norrænni fyrirmynd; hann er grænn með hvítum og svörtum krossi. Fáninn var þó ekki upprunalega hugsaður sem haturstákn en það var Peter Steele, forsprakki og söngvari hljómsveitarinnar Type O Negative, sem bjó hann til. Steele fæddist í Brooklyn í Bandaríkjunum og var alinn upp í kaþólskri trú. Hann var sagður meðal annars vera af skandinavískum ættum. Steele lést af völdum blóðeitrunar árið 2010, einungis 48 ára gamall. 

Hugmyndin var sú að fáninn myndi tákna hugmyndafræði söngvarans um Vínland, ríkis sem byggt yrði á vísindahyggju en ekki trúarbrögðum. Þarna er vísað í landafundi Leifs heppna í kringum árið 1000 í Norður-Ameríku en hann kallaði landið einmitt Vínland. 

Vínlandsfáninn

Snoðhausar sem trúa á yfirburði hvíta kynstofnsins tóku fánann upp á arma sína í byrjun aldarinnar og hafa öfga-hægri hópar iðulega notað hann sem tákn, sem og hópar nýnasista. Þess ber að geta að aðdáendur Type O Negative hafa reynt að „ná aftur til sín fánanum“ og því er hann einnig notaður í öðrum tilgangi en hér er lýst. 

Tákn fórnfýsi eða kúgunar?

Mjóa, bláa línan var upprunalega mjóa, rauða línan. Hún varð til í Krímeu-stríðinu á nítjándu öld, þar sem skoskir hermenn í rauðum búningum héldu aftur af rússnesku herliði. Merkingin yfirfærðist á bandaríska herinn – og liturinn varð blár – í upphafi tuttugustu aldar og um öldina miðja var hugtakið farið að vísa fyrst og fremst til lögreglunnar. 

Línan táknar varnarliðið sem stendur milli mannýgs óvinar og siðmenningarinnar sem hann ógnar en tók á sig neikvæðari aukamerkingu eftir því sem á leið tuttugustu öldina, þegar þagnarmúrinn innan lögreglunnar varðandi misgjörðir samstarfsfélaga varð lýðum kunnur. 

Mjóa bláa línan

Mjóa, bláa línan, sem var orðin að niðrandi hugtaki í upphafi 21. aldar, var endurreist árið 2014 með tilkomu hreyfingarinnar Blue Lives Matter og tilraun var gerð til að ljá henni göfugan blæ en vegna augljósu vísunarinnar í mannréttindahópinn Black Lives Matter og ólgunnar í samfélaginu yfir lögregluofbeldi voru það aðallega öfgahægri-hópar sem tóku táknið, og meðfylgjandi fána, upp á sína arma. Því líta fæstir á mjóu, bláu, línuna sem tákn fórnfýsi, eins og Blue Lives Matter hreyfingin vill meina, og þeir sem bera merkið eru taldir lýsa yfir skilyrðislausum stuðningi við lögregluna, sama hvað hún gerir. 

„Kaldhæðnislegt“ að lögreglumenn noti merki Refsarans

Þriðja merkið sem sést á bringu lögreglukonunnar er merki Refsarans, eða The Punisher eins og hann kallast á ensku. 

Merkið vísar í teiknimyndapersónu í Marvel heiminum sem refsar glæpamönnum án dóms og laga. Hermenn í Bandaríkjunum byrjuðu að nota merkið sem innblástur í byrjun 10. áratugarins en lögreglan þar í landi í upphafi 21. aldar. 

Gerry Conway finnst heimskulegt hjá lögreglunni í Bandaríkjunum að nota merki Refsarans.
Wiki Commons
Persónan refsar glæpamönnum án dóms og laga.
Netflix

Gerry Conway, höfundur Refsarans, tjáði sig um þessa notkun á merkinu í sumar við Forbes en þá sagði hann að Refsarinn væri fulltrúi þeirra sem réttarkerfið hefur brugðist. „Mér hefur alltaf fundist það heimskulegt og kaldhæðnislegt að lögreglumenn taki opnum örmum einhverju sem er í grundvallaratriðum táknmynd útlaga.“

Óskaði eftir fundi með allsherjar- og menntamálanefnd

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, tók málið upp í ræðu á Alþingi á miðvikudeginum þar sem hún fjallaði sérstaklega um merki Refsarans. „Pun­is­her-­merkið er ekki sak­leys­is­leg til­vísun í teikni­mynda­per­sónu úr Mar­vel-heim­inum heldur tákn­mynd lög­regl­unnar vestan hafs sem refsandi afls þeirra sem taka lögin og refs­ingar í eigin hendur og sneiða fram hjá rétt­ar­kerf­in­u,“ sagði þing­mað­ur­inn. 

Þá benti Þór­hildur Sunna á að skila­boðin með merk­inu væru þau að lög­reglan hefði það hlut­verk að refsa borg­ur­unum fyrir ætluð lög­brot þeirra, rétt eins og Refs­ar­inn gerði – en slík við­horf gætu ekki talist æski­leg í sam­fé­lagi sem segð­ist að minnsta kosti styðja betr­un­ar­stefnu og rétt­ar­ríki.

Lög­reglan á höf­uð­borg­ar­svæð­inu lýsti því yfir á Twitter að hún hefði ítrekað við allt sitt starfs­fólk að lög­reglu­menn ættu ekki að bera nein merki sem ekki eru við­ur­kennd á lög­reglu­bún­ingi og því yrði fylgt eft­ir.

Þórhildur Sunna sagði það vissu­lega vera jákvæðar fréttir en „betur má ef duga skal“. Sér­stak­lega í ljósi ummæla lög­reglu­kon­unnar sem um ræðir sem sagði í sam­tali við Vísi að merki sem þessi væru notuð af mörgum lög­reglu­mönnum og að hún teldi ekki að þau þýddu neitt nei­kvætt. Hún hefði sjálf borið merkin í árarað­ir.

„Um­mæli lög­reglu­kon­unnar benda til þess að annað hvort skorti mik­il­væga fræðslu innan lög­regl­unnar um rasísk og ofbeld­is­full merki eins og Vín­lands­fán­ann og pun­is­her- eða refs­ara­merkið – nú eða það sem verra væri: Að ras­ismi og ofbeld­is­full menn­ing fái að grass­era innan lög­regl­unn­ar. En hvort tveggja er óásætt­an­leg staða.“

Einnig óskaði hún eftir fundi með alls­herj­ar- og mennta­mála­nefnd til þess að ræða við full­trúa lög­regl­unnar um ras­isma innan lög­regl­unnar og aðferðir til að sporna við hon­um. 

Lögreglan stendur vörð við Alþingishúsið.
Bára Huld Beck

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sendi frá sér fréttatilkynningu um kvöldið í kjölfar fréttaflutnings af málinu. Þar kom fram að hún vildi taka skýrt fram að hún styddi ekki með neinum hætti hatursorðræðu eða merki sem ýta undir slíkt. 

„Þetta er nefnt hér vegna umfjöllunar fjölmiðla og myndbirtingar af lögreglumanni fyrr í dag, en á búningi hans mátti sjá merki sem eru óviðeigandi með öllu. Embættið harmar jafnframt mjög að hafa valdið fólki særindum vegna þessa og biður alla hlutaðeigendur innilegrar afsökunar. Skilaboðin sem mátti lesa úr merkjunum eru í engu samræmi við fræðslu, stefnu og markmið lögreglunnar. Lögreglumönnum hjá embættinu hafa enn fremur verið send skýr fyrirmæli um að fjarlægja öll merki af lögreglubúningum sínum, sem ekki eru í samræmi við reglugerð, kunni þau að vera til staðar,” stóð í tilkynningu lögreglunnar.

Enn fremur kom fram að málið yrði tilkynnt til eftirlitsnefndar um störf lögreglu. 

Þingmaðurinn ætti jafnvel að segja af sér

Viðbrögð formanns Lögreglufélags Reykjavíkur, Arinbjörns Snorrasonar, voru þó með öðrum hætti en lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Hann sagði daginn eftir í samtali við Vísi að hljóðið væri þungt í lögreglumönnum vegna ummæla Þórhildar Sunnu. Hún ætti jafnvel að segja af sér. 

„Það fellur mjög þungt og hljóð almennt í lögreglumönnum er á þann veg að viðkomandi ætti að hugsa sinn gang og jafnvel að segja af sér. Menn tala í þá áttina. Það að þessi merki hafi komið upp, þá hafa lögreglumenn verið með þetta af einum góðum hug og aldrei í mínum eyrum eða annara sem ég hef rætt við hefur verið talað um rasísk skilaboð, alls ekki,“ sagði Arinbjörn.

Þegar hann var spurður út í það hvort ekki væri hægt að segja að Vínlandsfáninn væri ekki rasískur þá svaraði hann að svo gæti verið. „Ég ber ekki nein svona merki sjálfur en ég held að þetta hafi allt verið gert með góðum hug. Ég held að menn taki þessu þannig að í upphafi hafi menn eða viðkomandi, ég veit ekki hvað þetta er víðtækt, þá hafi þetta verið gert með einhverjum skilningi um að þetta væri stuðningur eða stuðningsskilaboð um eitthvað gott málefni, en alls ekki að þetta væri merki um kynþáttahatur,“ sagði hann. 

Auglýsing

Hafnaði málflutningnum – sagði hann grófan útúrsnúning

Þórhildur Sunna svaraði Arinbirni og sagði á Facebook að það væru vonbrigði að sjá þennan viðsnúning í málflutningi lögreglunnar á einum sólarhring. „Ég var ánægð að sjá Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjón fordæma þessi merki í gær, harma þessa uppákomu og lofa því að tekið yrði á þessum málum innan lögreglunnar. Því er mjög sorglegt að kollegi hans grafi undan þeim málflutningi með því að gera lítið úr alvarleika þessara merkja og mikilvægi þess að taka á málum sem þessum af festu.

Svo það sé kristalskýrt gaf ég aldrei „til kynna að íslenskir lögreglumenn séu kynþáttahatarar í heild sinni“ og ég hafna þessum málflutningi Arinbjörns Snorrasonar alfarið, enda grófur útúrsnúningur á orðum mínum,“ skrifaði hún.

Þórhildur Sunna sagði að umræðan hefði opnað á mikilvægt tækifæri til að ræða störf lögreglunnar. „Heilindi hennar verða að vera yfir allan vafa hafinn og opin og hreinskiptin umræða um mögulegan rasisma og/eða fordóma innan lögreglunnar og viðbrögð við honum eru ekki síst lögreglunni til hagsbóta. Enda hefur lögreglan meðal annars það mikilvæga hlutverk að afla trausts meðal viðkvæmra hópa sem eiga á hættu að verða fyrir hatursglæpum.“

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir flytur ræðu á Alþingi. Mynd: Alþingi/Skjáskot

Vitnaði hún í orð Eyrúnar Eyþórsdóttur, lektors í lögreglufræðum sem sagði í samtali við Fréttablaðið að hún óttaðist að ljósmynd sem sýndi lögreglumann bera merkingar með tengingar við öfgahópa og kynþáttahyggju gæti alið á ótta meðal minnihlutahópa og grafið undan trausti þeirra gagnvart lögreglu. Mikilvægt væri að gæta þess að svipuð mál kæmu ekki upp aftur.

Þórhildur Sunna sagði að það að gera lítið úr alvarleika svona merkja og segja að þau hljóti að standa fyrir gott málefni jafngilti því að neita að viðurkenna alvarleika málsins og væri ekki líklegt til að koma í veg fyrir að svona mál komi upp aftur.

„Í hnotskurn horfir þetta mál við mér þannig að lögreglan skuldi almenningi efnislega útskýringu á því fyrir hvað Vínlandsfáninn með Punisher-merkingunni táknar og af hverju hann er á búningum lögreglu á íslandi. Þetta mál snýst ekki um „við gegn þeim“ – þetta snýst um að lögreglan sé órjúfanlegur hluti af samfélagi okkar allra, líka þeirra sem svona merkingum hefur verið beint gegn. Nú er ekki tíminn til að pakka í vörn heldur fara af auðmýkt inn í opið og heiðarlegt samtal við almenning um mögulegan rasisma og/eða fordóma innan lögreglunnar og viðbrögð við honum,“ skrifaði hún.

„Hat­ur­s­tákn og sjón­ar­mið verða ekki liðin innan lög­regl­unn­ar, ekki nú né fram­veg­is“

Áslaug Arna Sig­ur­björns­dóttir dóms­mála­ráð­herra var mjög afdráttarlaus í viðbrögðum sínum en á Twitter daginn eftir að málið komst í hámæli sagði hún þetta vera alveg skýrt. „Hat­ur­s­tákn og sjón­ar­mið verða ekki liðin innan lög­regl­unn­ar, ekki nú né fram­veg­is. Ef við þurfum að auka menntun eða taka á því með ein­hverjum hætti sem yfir­stjórn lög­regl­unnar telur rétt, þá gerum við það.“

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Mynd: Bára Huld Beck


Dóms­mála­ráð­herra taldi að lög­reglu­emb­ættið hefði brugð­ist rétt við mál­inu daginn áður og með afger­andi hætti en hún sagði það líka lög­reglu­manna að vera með­vit­aðir um að gefa ekki nein slík merki frá sér, ekki „­með táknum, orðum né handa­hreyf­ing­um“.

„Núna liggur það fyrir skýrar en nokkru sinni og öllum ætti að vera ljóst hvaða þýð­ingu ein­stök merki hafa. Við munum því gera meiri kröfur hér eft­ir,“ skrifaði dóms­mála­ráð­herra. Áslaug Arna sagðist halda að við værum flest sam­mála um það að íslenskir lög­reglu­menn legðu sig almennt fram við að koma fram við fólk af vin­semd og virð­ingu og bætti því við að lög­reglan ætti að sýna fram á að hún starfaði og þjónaði öllum þeim sem hér búa og dvelja og að það teldi hún hana gera.

Auglýsing

Hafnaði því að um rasísk tákn væri að ræða

Aníta Rut, lögreglukonan sem bar fánana, sagðist í samtali við RÚV þegar upp komst um málið vera pínu sorgmædd því þetta væri árás á hennar persónu. Hún sagðist hafna því að þetta væru rasísk tákn enda stæði lögreglan ekki fyrir slíku.

Fram kom í frétt RÚV að hún hefði starfað í götulögreglunni í 21 ár og sagðist hún túlka fánana sem jákvæð skilaboð. Hún gæti ekki tekið ábyrgð á því ef einhver vildi túlka þá öðruvísi. „Það er þarna verið að ljúga upp á mig og mína stétt. Ég er pínu sorgmædd en ég veit betur og verð bara að reyna að gleyma þessu.“

Anita sagði það líka umhugsunarvert hversu auðvelt það virtist að sparka í lögregluna og allt það góða starf sem hún ynni. „Það er aldrei minnst á lögreglumenn sem framlínustétt í kórónuveirufaraldrinum, til dæmis,“ sagði hún. 

Lögreglumenn sýndu stuðning á samfélagsmiðlum

Í kjölfar umfjöllunarinnar bar á því að lögreglumenn breyttu forsíðumyndum á Facebook-síðum sínum með því að bæta blárri línu á myndir sínar. 

„Þetta fer um eins og eldur í sinu,“ sagði Aníta Rut í samtali við Vísi. „Ekkert skrítið miðað við hvernig umræðan er og hvernig ummælin voru hjá þessum blessaða þingmanni.“ Þarna á hún við þingmann Pírata, Þórhildi Sunnu.

Hún hafnaði því alfarið að bláa línan væri til marks um rasisma eða að þar byggi einhver neikvæð þýðing að baki. „Það er ekki mín upplifun. Hefur aldrei verið neikvæð í mínum huga. Þetta er orðinn svo mikill skrípaleikur að ég veit ekki hvað mér á að finnast lengur.“

Aníta Rut sagði við Vísi að henni þætti sorglegt hvernig Þórhildur Sunna talaði og lýsti sig alfarið sammála því sem fram kom í máli formanns Lögreglufélags Reykjavíkur.

„Þessir fánar eru ekki slæmir, það er alveg á hreinu. Aldrei myndi ég taka þátt í ljótum leik sem þeim að bera fána sem koma slíkum skilaboðum á framfæri. Lögreglan stendur ekki fyrir slíkt. Ég skammast mín ekki fyrir þessa fána. Punisher-fáninn, ef hann stuðar fólk tek ég hann niður. Þetta er teiknimyndafígúra og ég spáði ekkert í þessu. En að saka mig um að vera nýnasisti, það er bara grátlegt. Ég er ekki sátt, búið að stimpla mig og ég er alls ekki sátt við það.“

Hvítar hettur „fótósjoppaðar“ á lögreglukonur

Málinu var þó ekki lokið þarna. Á Pírataspjallinu á Facebook deildi einstaklingur mynd sem upphaflega hafði verið í færslu Íslenskra meistara þar sem búið var breyta henni þannig að hvítar hettur voru settar á fimm lögreglukonur – eins og þær væru meðlimir í Ku klux klan. 


Ljósmynd af fimm lögreglukonum var breytt og deilt á samfélagsmiðlum.


Ekki féll hin breytta mynd í kramið og tilkynnti Þórhildur Sunna daginn eftir birtingu hennar að myndin væri óforsvaranleg og að stjórnendur spjallsins hefðu að sjálfsögðu fjarlægt hana um hæl. „Það er ömurlegt að sjá þessa mikilvægu umræðu þróast út í þennan ógeðfellda leðjuslag. Það verður aldrei í okkar nafni,“ skrifaði hún á Facebook

Auglýsing

Kemur til greina að lögsækja fólk fyrir ummæli

Líklegt er að málið muni hafa frekari afleiðingar. Þrátt fyrir afgerandi viðbrögð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og dómsmálaráðherra var annað hljóð í Snorra Magnússyni, formanni Landssambands lögreglumanna. Hann sagði í viðtali í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í gær að lögreglumenn væru afar ósáttir við umræðuna. Fólk hefði verið kallað öllum illum nöfnum, rasistar, fasistar og nasistar jafnvel og svo lengi mætti telja.

Hann sagði það koma til greina að fólk yrði lögsótt vegna ummæla sem það hefur látið falla. „Það verður að koma í ljós eftir því hvernig málið þróast. Það er augljóslega uppi á borði, það er alveg klárt mál,“ sagði hann. „Ég er búinn að funda um þetta með okkar lögmönnum til að sjá hvernig hægt er að nálgast þessa vinnu í framhaldinu.“

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar