Mynd: EPA

Þarf að gera Bandaríkin frábær á ný eða þarf að byggja betur upp aftur?

Atvinnuleysi í Bandaríkjunum er umtalsvert og störfum í landinu hefur fækkað á síðustu árum. Gripið hefur verið til mjög kostnaðarsamra efnahagspakka sem hafa gert það að verkum að hallinn á ríkissjóði landsins er nú meiri en hann hefur verið í áratugi. Annað hvort Donald Trump eða Joe Biden munu fá það verkefni að toga leiðtoga hins frjálsa heims upp úr kreppunni og inn í nýja efnahagslega framtíð. Þær leiðir sem þeir boða eru eins ólíkar og dagur og nótt.

Eftir rúma viku verður kosið um næsta forseta Bandaríkjanna. Þar berjast tveir menn á áttræðisaldri, forsetinn Donald Trump og fyrrverandi varaforsetinn Joe Biden, um að sitja í Hvíta húsinu næstu fjögur árin. 

Hár aldur, miðað við enn starfandi einstaklinga, er líklega það eina sem mennirnir tveir eiga sameiginlegt. Þeir eru nánast ósammála um allt annað. 

Kannanir benda til þess að Biden sé mun líklegri til að sigra. Þegar þær eru vigtaðar þá mælist hann með tæplega tíu prósent forskot á landsvísu og nokkuð meitlað í stein að Biden mun fá fleiri atkvæði, alveg eins og Hillary Clinton fékk 2016. Það ræður þó ekki úrslitum, heldur hvor þeirra nær í yfir 270 kjörmenn. Til þess að ná þangað þarf að vinna nokkur sveifluríki, sérstaklega í Miðvesturríkjunum og Suðrinu. Þótt Biden mælist með forystu í þeim öllum sem stendur þá hefur Trump sýnt það að hann er ólíkindatól sem á ótrúlega trygga fylgismenn. Hann stóð uppi sem sigurvegari 2016 þegar nánast enginn spáði honum sigri og það er sannarlega ekki útilokað að hann geti gert það aftur. 

Sá sem verður forseti Bandaríkjanna næstu árin stendur frammi fyrir margháttuðum erfiðum áskorunum. Það þarf til að mynda að berjast við heimsfaraldur kórónuveiru, takast á við kerfisbundið kynþáttahatur, ákveða stefnu í loftlagsmálum, móta hlutverk Bandaríkjanna í alþjóðlegu samhengi og sameina sundraða þjóð.

Auglýsing

En það fyrsta sem forsetinn þarf að gera er að takast á við dýpstu efnahagskreppu sem Bandaríkin, og heimurinn allur, hafa ratað í í rúmlega öld. 

Biden hefur áður leitt efnahagsbata

Þegar Barack Obama tók við sem forseti Bandaríkjanna í byrjun árs 2009 stóð heimurinn frammi fyrir dýpstu kreppu sinni frá þriðja áratug tuttugustu aldarinnar. Ástæðan var það sem vanalega er kallað bankahrunið á Íslandi, alþjóðleg fjármálakreppa sem skall á haustið 2008.

Joe Biden var varaforseti Obama, og hann fékk það hlutverk að leiða áætlun ríkisstjórnar hans til að hífa Bandaríkin upp úr þeirri efnahagslegu holu sem þau voru komin í. 

Í áætluninni, sem fékk nafnið „The Recovery Act“, fólst að eyða átti rúmlega 800 milljörðum dala í margháttuð verkefni sem höfðu það markmið að örva bandaríska efnahagskerfið. 

Áætlunin heppnaðist ágætlega og var að uppistöðu án hnökra. Obama og Biden voru þrátt fyrir það gagnrýndir úr báðum áttum. Samflokksmenn þeirra í Demókrataflokknum vildu fá stærri örvunarpakka, og Repúblikanar töldu áætlunina hafa verið og sósíalíska. 

Barack Obama tók við stjórnartaumunum í Bandaríkjunum í miðri efnahagslægð.
Mynd: EPA

Á grundvelli „The Recovery Act“ tók við hægur en stöðugur efnahagsbati. Alls urðu til 12 milljónir nýrra starfa í stjórnartíð Obama og úr varð lengsta samfellda hagvaxtarskeið í sögu Bandaríkjanna, sem teygði sig vel inn á Trump-tímann. Hagvöxturinn var hins vegar ekki stórkostlegur og aðrir forsetar hafa sannarlega séð fleiri störf verða til á meðan að þeir sátu í Hvíta húsinu, sérstaklega Ronald Reagan (16,3 milljónir) og Bill Clinton (22,7 milljónir). 

Batinn hélt áfram í tíð forsetatíð Trump

Trump er að öllu leyti einstakur forseti í sögu Bandaríkjanna. Hann lætur sannleikann og staðreyndir sjaldnast þvælast mikið fyrir þeim söguþræði sem hann vill selja fylgismönnum sínum. Áherslur hans í efnahagsmálum eru þar engin undantekning. 

Í aðdraganda forsetakosninganna 2016 lét Trump sífellt í það skína að allt væri í kalda kolum í efnahagsmálum þjóðar sinnar. Hann sagðist ætla að búa til rosalegustu efnahagsuppsveiflu sem Bandaríkin hefðu nokkru sinni upplifað og „gera Bandaríkin frábær á ný“. 

Í dag segir Trump ítrekað að þetta markmið hafi náðst, fram að því að COVID-19 faraldurinn skall á. Það er þó í besta falli hálfsannleikur. 

Hagvöxtur var að meðaltali 2,3 prósent á ári síðustu þrjú árin sem Obama var forseti, og um 2,5 prósent á fyrstu þremur árunum sem Trump gegndi embættinu. Í forsetatíð Trump fór atvinnuleysi hins vegar niður í 3,5 prósent í febrúar síðastliðnum, sem er lægsta hlutfall sem mælst hefur í 50 ár. 

Auglýsing

Sá ávinningur sem náðst hafi á undanförnum árum, hver svo sem bar ábyrgð á honum, hvarf svo hratt í mars og apríl þegar faraldurinn skall á af fullum þunga. 

Þrátt fyrir að efnahagurinn í Bandaríkjunum hafi náð ákveðinni viðspyrnu síðustu mánuði er staðan enn sú að störfum í landinu hefur fækkað um fjórar milljónir frá því að Trump tók við. Enginn forseti hefur séð viðlíka samdrátt í störfum eiga sér stað frá lokum seinni heimsstyrjaldar. Raunar er eini forsetinn fyrir utan Trump sem hefur séð störfum fækka á heilu kjörtímabil á meðan að hann sat í embætti George W. Bush, en á síðara kjörtímabili hans fækkaði störfum um 605 þúsund. 

Trump stóð við margt

En hverju lofaði Trump? og hefur hann staðið við eitthvað af því? Svarið við síðari spurningunni er bæði já og nei.

Trump lofaði að lækka skatta, og það gerði hann. Skattalækkunarpakkinn sem samþykktur var í desember 2017 er sá stærsti síðan að Ronald Reagan sat á forsetastóli. Hann gagnaðist efnameiri Bandaríkjamönnum mest, enda fólst meðal annars í honum að fyrirtækjaskattur var lækkaður úr 35 í 21 prósent. En hann hafði líka áhrif á aðra tekjuhópa, enda voru flest hinna sjö tekjuskattsþrepa lækkuð. Sú lækkun er þó tímabundin, og á að renna út 2025, á meðan að lækkunin á fyrirtækjaskatti er varanleg.  

Hann lofaði líka að auka útgjöld til hersins, og stóð við það. Slík aðgerð er í senn varnarmálaaðgerð og efnahagsleg, vegna þess að herinn tryggir fjölda manns störf í Bandaríkjunum og tryggir fjölmörgum bandarískum fyrirtækjum risastóra verktakasamninga vegna smíða á tækjum og tólum fyrir hann. Eitt af því sem Trump lét gera var að hækka laun hermanna, sem skilar því að kaupmáttur þeirra ætti að aukast og þar af leiðandi auka líkur á meiri einkaneyslu. 

Stuðningsmenn Trump eru mjög tryggir og reynslan frá 2016 sýnir að það á alls ekki að útiloka að hann geti náð að sigra á ný þótt að kannanir bendi til þess að hann eigi litla sem enga möguleika.
Mynd: EPA

Forsetinn sór líka að segja upp ýmsum alþjóðlegum viðskiptasamningum sem hann taldi óhagstæða fyrir Bandaríkin. Það hefur hann gert að hluta. Trump rifti fríverslunarsamningi Bandaríkjanna við ellefu lönd við Kyrrahaf (TTP) og kom því til leiðar að endursamið var um hið svokallaða NAFTA-fríverslunarsamkomulag Norður-Ameríkuríkjanna þriggja, Bandaríkjanna, Mexíkó og Kanada. Þá er ótalið tollastríðin sem hann stofnaði til við Kína og hótaði að fara í við Evrópu. Tilgangurinn var að flytja störf, sérstaklega framleiðslustörf, aftur til ákveðinna svæða í Bandaríkjunum sem spiluðu lykilrullu í kosningasigri hans fyrir fjórum árum. Þau hafa hins vegar ekki skilað sér eins og Trump lofaði þrátt fyrir öll lætin. 

En hann stóð ekki við allt

Eitt helsta loforð Trump var að hann ætlaði að eyða hallanum á alríkissjóðnum. Þar átti hann ekki við að stefnan væri að skila af sér hallalausum fjárlögum, heldur líka að eyða þeim halla sem þegar var uppsafnaður. Þetta ætlaði Trump að gera með því að nýta samningatækni sína, sem hann telur að sé á heimsmælikvarða, og með því að reka alríkið eins og fyrirtæki.

Þetta hefur, vægt til orða tekið, ekki gengið eftir. 

Það er nefnilega dýrt að lækka skatta jafn skarpt og Trump gerði á sama tíma og útgjöld til hernaðarmála voru stóraukin. Þegar Trump tók við í janúar 2017 var hallinn á ríkissjóði 19,9 billjónir dala. Í yfirstandandi mánuði var hann kominn upp í 27 billjónir dali. Hallinn hefur því aukist um næstum 36 prósent á tæpum fjórum árum. 

Skuldir bandaríska alríkisins eru nú 136 prósent af landsframleiðslu. Til samanburðar má nefna vegna þess mikla halla sem verður á rekstri ríkissjóðs Íslands á árunum 2020 og 2021 er búist við að skuldir hins opinbera fari úr því að vera 28 prósent af vergri landsframleiðslu í lok síðasta árs í 48 prósent í lok árs 2021. Gert er ráð fyrir að skuldasöfnunin stöðvist við 59 prósent af vergri landsframleiðslu árið 2025 og taki svo að lækka í kjölfarið. 

Biden vill hækka skatta og stuðla að orkuskiptum

Þær leiðir sem Biden og Trump vilja feta til að takast á við stöðuna í efnahagsmálum verði þeir kosnir í byrjun nóvember eru afar ólíkar. Aðgerðarpakki Biden kallast „Byggjum betur upp aftur“ (e. Build back better). Biden vill auka fjárfestingu í vörum sem framleiddar eru í Bandaríkjunum með því að setja um 400 milljarða dali í innkaup á slíkum vörum og auka framlög í rannsóknir og þróun um 300 milljarða dali. Þetta á að búa til fimm milljónir nýrra starfa. Stór hluti fjármunanna á að rata í græn fjárfestingaverkefni og því talar aðgerðin við áherslur Biden í loftlagsmálum. Hann ætlar líka að búa til umtalsverða skattalega hvata til ýta á orkuskipti og þannig hvetja fyrirtæki til að nýta frekar nýja og hreinni orkugjafa í stað jarðefnaeldsneytis.

Biden vill líka hækka lágmarkslaun upp í 15 dali á klukkustund, tryggja öllum greiðslur í veikindaleyfi og koma á tólf vikna fæðingarorlofi. 

Auglýsing

Þá vill hann vinda ofan af skattahækkunum Trump á fyrirtæki frá 2017 og hækka fyrirtækjaskattinn úr 21 í 28 prósent. Það er hluti af skattapakka hans sem á að skila alríkinu fjórum billjónum dala í nýjar árlegar tekjur. Þessu ætlar Biden að ná án þess að hækka beint skatta á íbúa landsins sem eru með undir 400 þúsund dali, eða 55,6 milljónir króna, í árlega tekjur. Það þýðir að skattar eiga ekki að hækka á þau heimili sem eru með 4,6 milljónir íslenskra króna í mánaðartekjur eða minna.

Trump vill gera meira af því sama

Efnahagsaðgerðarpakki Trump er í grófum dráttum sá að halda kúrs. Hann lagði slagorðið „Höldum Bandaríkjunum frábærum“ (e. Keep America great) á hilluna eftir að kórónuveirufaraldurinn skall á og er að notast aftur við það sem kom honum í forsetastólinn, „Gerum Bandaríkin frábær á ný“ (e. Make America great again).

Trump segist geta búið til tíu milljónir starfa á tíu mánuðum og á sama tíma fjölgað smærri fyrirtækjum um eina milljónum. Þetta ætlar hann að gera með því að lækka skatta enn meira og veita fyrirtækjum auk þess skattaívilnanir fyrir að framleiða vörur innanlands. Skattaafsláttunum verður sérstaklega beint að fyrirtækjum sem eru nú með umtalsverða starfsemi í Kína, sérstaklega í lyfjaiðnaðinum eða í hátæknigeirum.


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar