Mynd: EPA

Þarf að gera Bandaríkin frábær á ný eða þarf að byggja betur upp aftur?

Atvinnuleysi í Bandaríkjunum er umtalsvert og störfum í landinu hefur fækkað á síðustu árum. Gripið hefur verið til mjög kostnaðarsamra efnahagspakka sem hafa gert það að verkum að hallinn á ríkissjóði landsins er nú meiri en hann hefur verið í áratugi. Annað hvort Donald Trump eða Joe Biden munu fá það verkefni að toga leiðtoga hins frjálsa heims upp úr kreppunni og inn í nýja efnahagslega framtíð. Þær leiðir sem þeir boða eru eins ólíkar og dagur og nótt.

Eftir rúma viku verður kosið um næsta for­seta Banda­ríkj­anna. Þar berj­ast tveir menn á átt­ræð­is­aldri, for­set­inn Don­ald Trump og fyrr­ver­andi vara­for­set­inn Joe Biden, um að sitja í Hvíta hús­inu næstu fjögur árin. 

Hár ald­ur, miðað við enn starf­andi ein­stak­linga, er lík­lega það eina sem menn­irnir tveir eiga sam­eig­in­legt. Þeir eru nán­ast ósam­mála um allt ann­að. 

Kann­anir benda til þess að Biden sé mun lík­legri til að sigra. Þegar þær eru vigtaðar þá mælist hann með tæp­lega tíu pró­sent for­skot á lands­vísu og nokkuð meit­lað í stein að Biden mun fá fleiri atkvæði, alveg eins og Hill­ary Clinton fékk 2016. Það ræður þó ekki úrslit­um, heldur hvor þeirra nær í yfir 270 kjör­menn. Til þess að ná þangað þarf að vinna nokkur sveiflu­ríki, sér­stak­lega í Mið­vest­ur­ríkj­unum og Suðr­inu. Þótt Biden mælist með for­ystu í þeim öllum sem stendur þá hefur Trump sýnt það að hann er ólík­inda­tól sem á ótrú­lega trygga fylg­is­menn. Hann stóð uppi sem sig­ur­veg­ari 2016 þegar nán­ast eng­inn spáði honum sigri og það er sann­ar­lega ekki úti­lokað að hann geti gert það aft­ur. 

Sá sem verður for­seti Banda­ríkj­anna næstu árin stendur frammi fyrir marg­hátt­uðum erf­iðum áskor­un­um. Það þarf til að mynda að berj­ast við heims­far­aldur kór­ónu­veiru, takast á við kerf­is­bundið kyn­þátta­hat­ur, ákveða stefnu í loft­lags­mál­um, móta hlut­verk Banda­ríkj­anna í alþjóð­legu sam­hengi og sam­eina sundraða þjóð.

Auglýsing

En það fyrsta sem for­set­inn þarf að gera er að takast á við dýpstu efna­hag­skreppu sem Banda­rík­in, og heim­ur­inn all­ur, hafa ratað í í rúm­lega öld. 

Biden hefur áður leitt efna­hags­bata

Þegar Barack Obama tók við sem for­seti Banda­ríkj­anna í byrjun árs 2009 stóð heim­ur­inn frammi fyrir dýpstu kreppu sinni frá þriðja ára­tug tutt­ug­ustu ald­ar­inn­ar. Ástæðan var það sem vana­lega er kallað banka­hrunið á Íslandi, alþjóð­leg fjár­málakreppa sem skall á haustið 2008.

Joe Biden var vara­for­seti Obama, og hann fékk það hlut­verk að leiða áætlun rík­is­stjórnar hans til að hífa Banda­ríkin upp úr þeirri efna­hags­legu holu sem þau voru komin í. 

Í áætl­un­inni, sem fékk nafnið „The Recovery Act“, fólst að eyða átti rúm­lega 800 millj­örðum dala í marg­háttuð verk­efni sem höfðu það mark­mið að örva banda­ríska efna­hags­kerf­ið. 

Áætl­unin heppn­að­ist ágæt­lega og var að uppi­stöðu án hnökra. Obama og Biden voru þrátt fyrir það gagn­rýndir úr báðum átt­um. Sam­flokks­menn þeirra í Demókra­ta­flokknum vildu fá stærri örv­un­ar­pakka, og Repúblikanar töldu áætl­un­ina hafa verið og sós­íal­íska. 

Barack Obama tók við stjórnartaumunum í Bandaríkjunum í miðri efnahagslægð.
Mynd: EPA

Á grund­velli „The Recovery Act“ tók við hægur en stöð­ugur efna­hags­bati. Alls urðu til 12 millj­ónir nýrra starfa í stjórn­ar­tíð Obama og úr varð lengsta sam­fellda hag­vaxt­ar­skeið í sögu Banda­ríkj­anna, sem teygði sig vel inn á Trump-­tím­ann. Hag­vöxt­ur­inn var hins vegar ekki stór­kost­legur og aðrir for­setar hafa sann­ar­lega séð fleiri störf verða til á meðan að þeir sátu í Hvíta hús­inu, sér­stak­lega Ron­ald Reagan (16,3 millj­ón­ir) og Bill Clinton (22,7 millj­ón­ir). 

Bat­inn hélt áfram í tíð for­seta­tíð Trump

Trump er að öllu leyti ein­stakur for­seti í sögu Banda­ríkj­anna. Hann lætur sann­leik­ann og stað­reyndir sjaldn­ast þvæl­ast mikið fyrir þeim sögu­þræði sem hann vill selja fylg­is­mönnum sín­um. Áherslur hans í efna­hags­málum eru þar engin und­an­tekn­ing. 

Í aðdrag­anda for­seta­kosn­ing­anna 2016 lét Trump sífellt í það skína að allt væri í kalda kolum í efna­hags­málum þjóðar sinn­ar. Hann sagð­ist ætla að búa til rosa­leg­ustu efna­hags­upp­sveiflu sem Banda­ríkin hefðu nokkru sinni upp­lifað og „gera Banda­ríkin frá­bær á ný“. 

Í dag segir Trump ítrekað að þetta mark­mið hafi náð­st, fram að því að COVID-19 far­ald­ur­inn skall á. Það er þó í besta falli hálf­sann­leik­ur. 

Hag­vöxtur var að með­al­tali 2,3 pró­sent á ári síð­ustu þrjú árin sem Obama var for­seti, og um 2,5 pró­sent á fyrstu þremur árunum sem Trump gegndi emb­ætt­inu. Í for­seta­tíð Trump fór atvinnu­leysi hins vegar niður í 3,5 pró­sent í febr­úar síð­ast­liðn­um, sem er lægsta hlut­fall sem mælst hefur í 50 ár. 

Auglýsing

Sá ávinn­ingur sem náðst hafi á und­an­förnum árum, hver svo sem bar ábyrgð á hon­um, hvarf svo hratt í mars og apríl þegar far­ald­ur­inn skall á af fullum þunga. 

Þrátt fyrir að efna­hag­ur­inn í Banda­ríkj­unum hafi náð ákveð­inni við­spyrnu síð­ustu mán­uði er staðan enn sú að störfum í land­inu hefur fækkað um fjórar millj­ónir frá því að Trump tók við. Eng­inn for­seti hefur séð við­líka sam­drátt í störfum eiga sér stað frá lokum seinni heims­styrj­ald­ar. Raunar er eini for­set­inn fyrir utan Trump sem hefur séð störfum fækka á heilu kjör­tíma­bil á meðan að hann sat í emb­ætti George W. Bush, en á síð­ara kjör­tíma­bili hans fækk­aði störfum um 605 þús­und. 

Trump stóð við margt

En hverju lof­aði Trump? og hefur hann staðið við eitt­hvað af því? Svarið við síð­ari spurn­ing­unni er bæði já og nei.

Trump lof­aði að lækka skatta, og það gerði hann. Skatta­lækk­un­ar­pakk­inn sem sam­þykktur var í des­em­ber 2017 er sá stærsti síðan að Ron­ald Reagan sat á for­seta­stóli. Hann gagn­að­ist efna­meiri Banda­ríkja­mönnum mest, enda fólst meðal ann­ars í honum að fyr­ir­tækja­skattur var lækk­aður úr 35 í 21 pró­sent. En hann hafði líka áhrif á aðra tekju­hópa, enda voru flest hinna sjö tekju­skatts­þrepa lækk­uð. Sú lækkun er þó tíma­bund­in, og á að renna út 2025, á meðan að lækk­unin á fyr­ir­tækja­skatti er var­an­leg.  

Hann lof­aði líka að auka útgjöld til hers­ins, og stóð við það. Slík aðgerð er í senn varn­ar­mála­að­gerð og efna­hags­leg, vegna þess að her­inn tryggir fjölda manns störf í Banda­ríkj­unum og tryggir fjöl­mörgum banda­rískum fyr­ir­tækjum risa­stóra verk­taka­samn­inga vegna smíða á tækjum og tólum fyrir hann. Eitt af því sem Trump lét gera var að hækka laun her­manna, sem skilar því að kaup­máttur þeirra ætti að aukast og þar af leið­andi auka líkur á meiri einka­neyslu. 

Stuðningsmenn Trump eru mjög tryggir og reynslan frá 2016 sýnir að það á alls ekki að útiloka að hann geti náð að sigra á ný þótt að kannanir bendi til þess að hann eigi litla sem enga möguleika.
Mynd: EPA

For­set­inn sór líka að segja upp ýmsum alþjóð­legum við­skipta­samn­ingum sem hann taldi óhag­stæða fyrir Banda­rík­in. Það hefur hann gert að hluta. Trump rifti frí­versl­un­ar­samn­ingi Banda­ríkj­anna við ell­efu lönd við Kyrra­haf (TTP) og kom því til leiðar að end­ur­samið var um hið svo­kall­aða NAFTA-frí­versl­un­ar­sam­komu­lag Norð­ur­-Am­er­íku­ríkj­anna þriggja, Banda­ríkj­anna, Mexíkó og Kanada. Þá er ótalið tolla­stríðin sem hann stofn­aði til við Kína og hót­aði að fara í við Evr­ópu. Til­gang­ur­inn var að flytja störf, sér­stak­lega fram­leiðslu­störf, aftur til ákveð­inna svæða í Banda­ríkj­unum sem spil­uðu lyk­il­rullu í kosn­inga­sigri hans fyrir fjórum árum. Þau hafa hins vegar ekki skilað sér eins og Trump lof­aði þrátt fyrir öll læt­in. 

En hann stóð ekki við allt

Eitt helsta lof­orð Trump var að hann ætl­aði að eyða hall­anum á alrík­is­sjóðn­um. Þar átti hann ekki við að stefnan væri að skila af sér halla­lausum fjár­lög­um, heldur líka að eyða þeim halla sem þegar var upp­safn­að­ur. Þetta ætl­aði Trump að gera með því að nýta samn­inga­tækni sína, sem hann telur að sé á heims­mæli­kvarða, og með því að reka alríkið eins og fyr­ir­tæki.

Þetta hef­ur, vægt til orða tek­ið, ekki gengið eft­ir. 

Það er nefni­lega dýrt að lækka skatta jafn skarpt og Trump ­gerði á sama tíma og útgjöld til hern­að­ar­mála voru stór­auk­in. Þeg­ar Trump tók við í jan­úar 2017 var hall­inn á rík­is­sjóði 19,9 billjónir dala. Í yfir­stand­andi mán­uði var hann kom­inn upp í 27 billjónir dali. Hall­inn hefur því auk­ist um næstum 36 pró­sent á tæpum fjórum árum. 

Skuldir banda­ríska alrík­is­ins eru nú 136 pró­sent af lands­fram­leiðslu. Til sam­an­burðar má nefna vegna þess mikla halla sem verður á rekstri rík­is­sjóðs Íslands á árunum 2020 og 2021 er búist við að skuldir hins opin­bera fari úr því að vera 28 pró­sent af vergri lands­fram­leiðslu í lok síð­asta árs í 48 pró­sent í lok árs 2021. Gert er ráð fyrir að skulda­söfn­unin stöðv­ist við 59 pró­sent af vergri lands­fram­leiðslu árið 2025 og taki svo að lækka í kjöl­far­ið. 

Biden vill hækka skatta og stuðla að orku­skiptum

Þær leiðir sem Biden og Trump vilja feta til að takast á við stöð­una í efna­hags­málum verði þeir kosnir í byrjun nóv­em­ber eru afar ólík­ar. Aðgerð­ar­pakki Biden ­kall­ast „Byggjum betur upp aft­ur“ (e. Build back bett­er). Biden vill auka fjár­fest­ingu í vörum sem fram­leiddar eru í Banda­ríkj­unum með því að setja um 400 millj­arða dali í inn­kaup á slíkum vörum og auka fram­lög í rann­sóknir og þróun um 300 millj­arða dali. Þetta á að búa til fimm millj­ónir nýrra starfa. Stór hluti fjár­mun­anna á að rata í græn fjár­fest­inga­verk­efni og því talar aðgerðin við áhersl­ur Biden í loft­lags­mál­um. Hann ætlar líka að búa til umtals­verða skatta­lega hvata til ýta á orku­skipti og þannig hvetja fyr­ir­tæki til að nýta frekar nýja og hreinni orku­gjafa í stað jarð­efna­elds­neyt­is.

Biden vill líka hækka lág­marks­laun upp í 15 dali á klukku­stund, tryggja öllum greiðslur í veik­inda­leyfi og koma á tólf vikna fæð­ing­ar­or­lofi. 

Auglýsing

Þá vill hann vinda ofan af skatta­hækk­unum Trump á fyr­ir­tæki frá 2017 og hækka fyr­ir­tækja­skatt­inn úr 21 í 28 pró­sent. Það er hluti af skatta­pakka hans sem á að skila alrík­inu fjórum billjónum dala í nýjar árlegar tekj­ur. Þessu ætlar Biden að ná án þess að hækka beint skatta á íbúa lands­ins sem eru með undir 400 þús­und dali, eða 55,6 millj­ónir króna, í árlega tekj­ur. Það þýðir að skattar eiga ekki að hækka á þau heim­ili sem eru með 4,6 millj­ónir íslenskra króna í mán­að­ar­tekjur eða minna.

Trump vill gera meira af því sama

Efna­hags­að­gerð­ar­pakki Trump er í grófum dráttum sá að halda kúrs. Hann lagði slag­orðið „Höldum Banda­ríkj­unum frá­bærum“ (e. Keep Amer­ica great) á hill­una eftir að kór­ónu­veiru­far­ald­ur­inn skall á og er að not­ast aftur við það sem kom honum í for­seta­stól­inn, „Gerum Banda­ríkin frá­bær á ný“ (e. Make Amer­ica great aga­in).

Trump seg­ist geta búið til tíu millj­ónir starfa á tíu mán­uðum og á sama tíma fjölgað smærri fyr­ir­tækjum um eina millj­ón­um. Þetta ætlar hann að gera með því að lækka skatta enn meira og veita fyr­ir­tækjum auk þess skattaí­viln­anir fyrir að fram­leiða vörur inn­an­lands. Skatta­af­slátt­unum verður sér­stak­lega beint að fyr­ir­tækjum sem eru nú með umtals­verða starf­semi í Kína, sér­stak­lega í lyfja­iðn­að­inum eða í hátækni­geir­um.



Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar