Mynd: EPA

Þarf að gera Bandaríkin frábær á ný eða þarf að byggja betur upp aftur?

Atvinnuleysi í Bandaríkjunum er umtalsvert og störfum í landinu hefur fækkað á síðustu árum. Gripið hefur verið til mjög kostnaðarsamra efnahagspakka sem hafa gert það að verkum að hallinn á ríkissjóði landsins er nú meiri en hann hefur verið í áratugi. Annað hvort Donald Trump eða Joe Biden munu fá það verkefni að toga leiðtoga hins frjálsa heims upp úr kreppunni og inn í nýja efnahagslega framtíð. Þær leiðir sem þeir boða eru eins ólíkar og dagur og nótt.

Eftir rúma viku verður kosið um næsta for­seta Banda­ríkj­anna. Þar berj­ast tveir menn á átt­ræð­is­aldri, for­set­inn Don­ald Trump og fyrr­ver­andi vara­for­set­inn Joe Biden, um að sitja í Hvíta hús­inu næstu fjögur árin. 

Hár ald­ur, miðað við enn starf­andi ein­stak­linga, er lík­lega það eina sem menn­irnir tveir eiga sam­eig­in­legt. Þeir eru nán­ast ósam­mála um allt ann­að. 

Kann­anir benda til þess að Biden sé mun lík­legri til að sigra. Þegar þær eru vigtaðar þá mælist hann með tæp­lega tíu pró­sent for­skot á lands­vísu og nokkuð meit­lað í stein að Biden mun fá fleiri atkvæði, alveg eins og Hill­ary Clinton fékk 2016. Það ræður þó ekki úrslit­um, heldur hvor þeirra nær í yfir 270 kjör­menn. Til þess að ná þangað þarf að vinna nokkur sveiflu­ríki, sér­stak­lega í Mið­vest­ur­ríkj­unum og Suðr­inu. Þótt Biden mælist með for­ystu í þeim öllum sem stendur þá hefur Trump sýnt það að hann er ólík­inda­tól sem á ótrú­lega trygga fylg­is­menn. Hann stóð uppi sem sig­ur­veg­ari 2016 þegar nán­ast eng­inn spáði honum sigri og það er sann­ar­lega ekki úti­lokað að hann geti gert það aft­ur. 

Sá sem verður for­seti Banda­ríkj­anna næstu árin stendur frammi fyrir marg­hátt­uðum erf­iðum áskor­un­um. Það þarf til að mynda að berj­ast við heims­far­aldur kór­ónu­veiru, takast á við kerf­is­bundið kyn­þátta­hat­ur, ákveða stefnu í loft­lags­mál­um, móta hlut­verk Banda­ríkj­anna í alþjóð­legu sam­hengi og sam­eina sundraða þjóð.

Auglýsing

En það fyrsta sem for­set­inn þarf að gera er að takast á við dýpstu efna­hag­skreppu sem Banda­rík­in, og heim­ur­inn all­ur, hafa ratað í í rúm­lega öld. 

Biden hefur áður leitt efna­hags­bata

Þegar Barack Obama tók við sem for­seti Banda­ríkj­anna í byrjun árs 2009 stóð heim­ur­inn frammi fyrir dýpstu kreppu sinni frá þriðja ára­tug tutt­ug­ustu ald­ar­inn­ar. Ástæðan var það sem vana­lega er kallað banka­hrunið á Íslandi, alþjóð­leg fjár­málakreppa sem skall á haustið 2008.

Joe Biden var vara­for­seti Obama, og hann fékk það hlut­verk að leiða áætlun rík­is­stjórnar hans til að hífa Banda­ríkin upp úr þeirri efna­hags­legu holu sem þau voru komin í. 

Í áætl­un­inni, sem fékk nafnið „The Recovery Act“, fólst að eyða átti rúm­lega 800 millj­örðum dala í marg­háttuð verk­efni sem höfðu það mark­mið að örva banda­ríska efna­hags­kerf­ið. 

Áætl­unin heppn­að­ist ágæt­lega og var að uppi­stöðu án hnökra. Obama og Biden voru þrátt fyrir það gagn­rýndir úr báðum átt­um. Sam­flokks­menn þeirra í Demókra­ta­flokknum vildu fá stærri örv­un­ar­pakka, og Repúblikanar töldu áætl­un­ina hafa verið og sós­íal­íska. 

Barack Obama tók við stjórnartaumunum í Bandaríkjunum í miðri efnahagslægð.
Mynd: EPA

Á grund­velli „The Recovery Act“ tók við hægur en stöð­ugur efna­hags­bati. Alls urðu til 12 millj­ónir nýrra starfa í stjórn­ar­tíð Obama og úr varð lengsta sam­fellda hag­vaxt­ar­skeið í sögu Banda­ríkj­anna, sem teygði sig vel inn á Trump-­tím­ann. Hag­vöxt­ur­inn var hins vegar ekki stór­kost­legur og aðrir for­setar hafa sann­ar­lega séð fleiri störf verða til á meðan að þeir sátu í Hvíta hús­inu, sér­stak­lega Ron­ald Reagan (16,3 millj­ón­ir) og Bill Clinton (22,7 millj­ón­ir). 

Bat­inn hélt áfram í tíð for­seta­tíð Trump

Trump er að öllu leyti ein­stakur for­seti í sögu Banda­ríkj­anna. Hann lætur sann­leik­ann og stað­reyndir sjaldn­ast þvæl­ast mikið fyrir þeim sögu­þræði sem hann vill selja fylg­is­mönnum sín­um. Áherslur hans í efna­hags­málum eru þar engin und­an­tekn­ing. 

Í aðdrag­anda for­seta­kosn­ing­anna 2016 lét Trump sífellt í það skína að allt væri í kalda kolum í efna­hags­málum þjóðar sinn­ar. Hann sagð­ist ætla að búa til rosa­leg­ustu efna­hags­upp­sveiflu sem Banda­ríkin hefðu nokkru sinni upp­lifað og „gera Banda­ríkin frá­bær á ný“. 

Í dag segir Trump ítrekað að þetta mark­mið hafi náð­st, fram að því að COVID-19 far­ald­ur­inn skall á. Það er þó í besta falli hálf­sann­leik­ur. 

Hag­vöxtur var að með­al­tali 2,3 pró­sent á ári síð­ustu þrjú árin sem Obama var for­seti, og um 2,5 pró­sent á fyrstu þremur árunum sem Trump gegndi emb­ætt­inu. Í for­seta­tíð Trump fór atvinnu­leysi hins vegar niður í 3,5 pró­sent í febr­úar síð­ast­liðn­um, sem er lægsta hlut­fall sem mælst hefur í 50 ár. 

Auglýsing

Sá ávinn­ingur sem náðst hafi á und­an­förnum árum, hver svo sem bar ábyrgð á hon­um, hvarf svo hratt í mars og apríl þegar far­ald­ur­inn skall á af fullum þunga. 

Þrátt fyrir að efna­hag­ur­inn í Banda­ríkj­unum hafi náð ákveð­inni við­spyrnu síð­ustu mán­uði er staðan enn sú að störfum í land­inu hefur fækkað um fjórar millj­ónir frá því að Trump tók við. Eng­inn for­seti hefur séð við­líka sam­drátt í störfum eiga sér stað frá lokum seinni heims­styrj­ald­ar. Raunar er eini for­set­inn fyrir utan Trump sem hefur séð störfum fækka á heilu kjör­tíma­bil á meðan að hann sat í emb­ætti George W. Bush, en á síð­ara kjör­tíma­bili hans fækk­aði störfum um 605 þús­und. 

Trump stóð við margt

En hverju lof­aði Trump? og hefur hann staðið við eitt­hvað af því? Svarið við síð­ari spurn­ing­unni er bæði já og nei.

Trump lof­aði að lækka skatta, og það gerði hann. Skatta­lækk­un­ar­pakk­inn sem sam­þykktur var í des­em­ber 2017 er sá stærsti síðan að Ron­ald Reagan sat á for­seta­stóli. Hann gagn­að­ist efna­meiri Banda­ríkja­mönnum mest, enda fólst meðal ann­ars í honum að fyr­ir­tækja­skattur var lækk­aður úr 35 í 21 pró­sent. En hann hafði líka áhrif á aðra tekju­hópa, enda voru flest hinna sjö tekju­skatts­þrepa lækk­uð. Sú lækkun er þó tíma­bund­in, og á að renna út 2025, á meðan að lækk­unin á fyr­ir­tækja­skatti er var­an­leg.  

Hann lof­aði líka að auka útgjöld til hers­ins, og stóð við það. Slík aðgerð er í senn varn­ar­mála­að­gerð og efna­hags­leg, vegna þess að her­inn tryggir fjölda manns störf í Banda­ríkj­unum og tryggir fjöl­mörgum banda­rískum fyr­ir­tækjum risa­stóra verk­taka­samn­inga vegna smíða á tækjum og tólum fyrir hann. Eitt af því sem Trump lét gera var að hækka laun her­manna, sem skilar því að kaup­máttur þeirra ætti að aukast og þar af leið­andi auka líkur á meiri einka­neyslu. 

Stuðningsmenn Trump eru mjög tryggir og reynslan frá 2016 sýnir að það á alls ekki að útiloka að hann geti náð að sigra á ný þótt að kannanir bendi til þess að hann eigi litla sem enga möguleika.
Mynd: EPA

For­set­inn sór líka að segja upp ýmsum alþjóð­legum við­skipta­samn­ingum sem hann taldi óhag­stæða fyrir Banda­rík­in. Það hefur hann gert að hluta. Trump rifti frí­versl­un­ar­samn­ingi Banda­ríkj­anna við ell­efu lönd við Kyrra­haf (TTP) og kom því til leiðar að end­ur­samið var um hið svo­kall­aða NAFTA-frí­versl­un­ar­sam­komu­lag Norð­ur­-Am­er­íku­ríkj­anna þriggja, Banda­ríkj­anna, Mexíkó og Kanada. Þá er ótalið tolla­stríðin sem hann stofn­aði til við Kína og hót­aði að fara í við Evr­ópu. Til­gang­ur­inn var að flytja störf, sér­stak­lega fram­leiðslu­störf, aftur til ákveð­inna svæða í Banda­ríkj­unum sem spil­uðu lyk­il­rullu í kosn­inga­sigri hans fyrir fjórum árum. Þau hafa hins vegar ekki skilað sér eins og Trump lof­aði þrátt fyrir öll læt­in. 

En hann stóð ekki við allt

Eitt helsta lof­orð Trump var að hann ætl­aði að eyða hall­anum á alrík­is­sjóðn­um. Þar átti hann ekki við að stefnan væri að skila af sér halla­lausum fjár­lög­um, heldur líka að eyða þeim halla sem þegar var upp­safn­að­ur. Þetta ætl­aði Trump að gera með því að nýta samn­inga­tækni sína, sem hann telur að sé á heims­mæli­kvarða, og með því að reka alríkið eins og fyr­ir­tæki.

Þetta hef­ur, vægt til orða tek­ið, ekki gengið eft­ir. 

Það er nefni­lega dýrt að lækka skatta jafn skarpt og Trump ­gerði á sama tíma og útgjöld til hern­að­ar­mála voru stór­auk­in. Þeg­ar Trump tók við í jan­úar 2017 var hall­inn á rík­is­sjóði 19,9 billjónir dala. Í yfir­stand­andi mán­uði var hann kom­inn upp í 27 billjónir dali. Hall­inn hefur því auk­ist um næstum 36 pró­sent á tæpum fjórum árum. 

Skuldir banda­ríska alrík­is­ins eru nú 136 pró­sent af lands­fram­leiðslu. Til sam­an­burðar má nefna vegna þess mikla halla sem verður á rekstri rík­is­sjóðs Íslands á árunum 2020 og 2021 er búist við að skuldir hins opin­bera fari úr því að vera 28 pró­sent af vergri lands­fram­leiðslu í lok síð­asta árs í 48 pró­sent í lok árs 2021. Gert er ráð fyrir að skulda­söfn­unin stöðv­ist við 59 pró­sent af vergri lands­fram­leiðslu árið 2025 og taki svo að lækka í kjöl­far­ið. 

Biden vill hækka skatta og stuðla að orku­skiptum

Þær leiðir sem Biden og Trump vilja feta til að takast á við stöð­una í efna­hags­málum verði þeir kosnir í byrjun nóv­em­ber eru afar ólík­ar. Aðgerð­ar­pakki Biden ­kall­ast „Byggjum betur upp aft­ur“ (e. Build back bett­er). Biden vill auka fjár­fest­ingu í vörum sem fram­leiddar eru í Banda­ríkj­unum með því að setja um 400 millj­arða dali í inn­kaup á slíkum vörum og auka fram­lög í rann­sóknir og þróun um 300 millj­arða dali. Þetta á að búa til fimm millj­ónir nýrra starfa. Stór hluti fjár­mun­anna á að rata í græn fjár­fest­inga­verk­efni og því talar aðgerðin við áhersl­ur Biden í loft­lags­mál­um. Hann ætlar líka að búa til umtals­verða skatta­lega hvata til ýta á orku­skipti og þannig hvetja fyr­ir­tæki til að nýta frekar nýja og hreinni orku­gjafa í stað jarð­efna­elds­neyt­is.

Biden vill líka hækka lág­marks­laun upp í 15 dali á klukku­stund, tryggja öllum greiðslur í veik­inda­leyfi og koma á tólf vikna fæð­ing­ar­or­lofi. 

Auglýsing

Þá vill hann vinda ofan af skatta­hækk­unum Trump á fyr­ir­tæki frá 2017 og hækka fyr­ir­tækja­skatt­inn úr 21 í 28 pró­sent. Það er hluti af skatta­pakka hans sem á að skila alrík­inu fjórum billjónum dala í nýjar árlegar tekj­ur. Þessu ætlar Biden að ná án þess að hækka beint skatta á íbúa lands­ins sem eru með undir 400 þús­und dali, eða 55,6 millj­ónir króna, í árlega tekj­ur. Það þýðir að skattar eiga ekki að hækka á þau heim­ili sem eru með 4,6 millj­ónir íslenskra króna í mán­að­ar­tekjur eða minna.

Trump vill gera meira af því sama

Efna­hags­að­gerð­ar­pakki Trump er í grófum dráttum sá að halda kúrs. Hann lagði slag­orðið „Höldum Banda­ríkj­unum frá­bærum“ (e. Keep Amer­ica great) á hill­una eftir að kór­ónu­veiru­far­ald­ur­inn skall á og er að not­ast aftur við það sem kom honum í for­seta­stól­inn, „Gerum Banda­ríkin frá­bær á ný“ (e. Make Amer­ica great aga­in).

Trump seg­ist geta búið til tíu millj­ónir starfa á tíu mán­uðum og á sama tíma fjölgað smærri fyr­ir­tækjum um eina millj­ón­um. Þetta ætlar hann að gera með því að lækka skatta enn meira og veita fyr­ir­tækjum auk þess skattaí­viln­anir fyrir að fram­leiða vörur inn­an­lands. Skatta­af­slátt­unum verður sér­stak­lega beint að fyr­ir­tækjum sem eru nú með umtals­verða starf­semi í Kína, sér­stak­lega í lyfja­iðn­að­inum eða í hátækni­geir­um.Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar