Eyddi 368 síðum í að gera líf söguhetjunar að helvíti
Þegar geimfarinn Mark Watney verður strandaglópur á Mars þarf hann að treysta á sjálfan sig til að lifa af í fjögur jarðár. Hjálpin berst ekki fyrr.
Þann 2. október hefjast sýningar á kvikmyndinni The Martian sem byggð er á skáldsögu Andy Weir með sama titli og kom fyrst út árið 2011. The Martian komst á metsölulista New York Times í mars í fyrra. Sagan sem sögð er í bókinni er mögnuð en þar má lesa dagbókarfærslur bandaríska geimfarans Mark Watney sem hefur orðið strandaglópur á Mars eftir að gríðarmikill sandstormur hrakti félaga hans frá bandarísku geimferðastofununinni (NASA) af yfirborði rauðu plánetunar.
Watney þarf að lifa af á Mars í fjögur ár eða þar til, samkvæmt útreikningum sínum, NASA getur sent björgunarleiðangur til Mars. Hann hefur enga leið til að hafa samband við jörðu og þarf þess vegna að treysta alfarið á sjálfan sig til þess að komast af.
En það er ekki aðeins sagan sem sögð er í bókinni sem er áhugaverð heldur einnig hvernig hún er skrifuð af Andy Weir og hvernig hún var gefin út eftir óhefðbundnum leiðum, ef miðað er við hefðbunda bókaútgáfu metsölubóka í prentuðu formi.
Allt á sér stoð í raunveruleikanum
Ólíkt vinsælustu vísindaskáldsögum getur allt átt sér stað í raunveruleikanum. „Einn daginn, milli þess sem ég sinnti mínum ónördalegu verkefnum, byrjaði ég að ímynda mér ferðalag manna til Mars,“ skrifar Andy Weir í pistli á Salon.com árið 2014. „Ég skrifaði meira að segja forrit til þess að reikna sporbrautarferil þessarar ímynduðu ferðar frá jörðu til Mars. […] Ég þurfti að taka bilanir með í reikninginn þegar geimfararnir myndu lenda á yfirborði Mars. Hvað skyldi gerast ef eitthvað færi úrskeiðis? Hvernig mundi ég undirbúa ferðina svo hópurinn hefði varaáætlanir? Hvað ef varaáætlanirnar færu úrskeiðis?“
Í þessum þönkum sínum áttaði Weir sig á því að ískyggileg svör við þessum spurningum væru hugsanlega efni í áhugaverða sögu. „Þarna fæddist hugmyndin að The Martian,“ skrifar hann. „Svo ég eyddi 368 síðum í að gera líf óheppnu söguhetjunar Mark Watney að helvíti.“
Frásagnarstíllinn í bókinni er fyrstu persónu frásögn geimfarans óheppna; dagbókarfærsla hans þar sem hann reifar vandamálin sem að honum steðja og hugsanlegar lausnir við ótrúlegustu vandamálum. Weir segist hafa haft áhyggjur af því að bókin yrði þurr og leiðinleg áður en hann áttaði sig á að vísindi gætu raunverulega leitt söguna. Höfundurinn rekur þannig flókin reikningsdæmi þar sem Watney reynir að eyða nitri úr andrúmslofti manngerða skýlisins sem geimfararnir höfðu reist á Mars og hversu margar kaloríur hann þarf að innbyrða úr kartöflunum sem hann ræktar svo hann komist örugglega lífs af.
Öðru hvoru flyst frásögnin svo til jarðar þar sem starfsmenn NASA óttast um líf Watney og reyna svo að bjarga honum.
Kaflarnir ritrýndir á vefnum
Bókina gaf Weir fyrst út á vefsíðu sinni, kafla fyrir kafla. Áhugafólk um allan heim gaf honum þar vísbendingar um hugsanlegar hættur sem gætu staðið að Watney og leiðréttu útreikninga hans. „Um síðir fóru lesendur að biðja mig um að koma bókinni í heildtætt form á Amazon svo hægt væri að lesa hana á spjaldtölvum. Svo ég fann mynd af Mars og setti á kápuna og seldi fyrir 99 sent því Amazon leyfði mér ekki að gefa hana.“
Í viðtali við Adam Savage, sem þekktastur er fyrir að vera einn þáttastjórnanda í Myth Busters á Discovery-sjónvarpsstöðinni, útskýrir Weir hvernig hann lagði sig sérstaklega fram í rannsóknum fyrir bókina til að gera söguna eins sennilega og áreiðanlega og hægt er. Viðtalið má sjá í myndbandinu hér að neðan.
Í pistli sínum skrifar Weir að eftir að hann hóf að gefa hana út á vefsíðu sinni hafi hann fengið tölvupósta frá geimförum, starfsmönnum stjórnstöð NASA, tæknimönnum kjarnorkukafbáta, efnafræðingum, eðlisfræðingum og landfræðingum, auk fjölda annarra. „Allir höfðu gott að segja um tæknilega nákvæmni bókarinnar þó sumir hafi sent leiðréttingar á villum hjá mér. Þær villur leiðrétti ég nær allar í síðustu útgáfunni sem prentuð var,“ skrifar Weir.
Svo ég fann mynd af Mars og setti á kápuna og seldi fyrir 99 sent því Amazon leyfði mér ekki að gefa hana.
Eftir að bókin kom út hjá Amazon komst hún á topp listans yfir mest seldu bækurnar í flokki vísindaskáldsagna á vefnum og henni var hlaðið niður 35 þúsund sinnum á þremur mánuðum. Nánast um leið og bókaútgefendur höfðu samband við Weir hófu stóru kvikmyndaverin verðstríð um kvikmyndaréttinn að sögunni. Bókin hefur nú verið gefin út í hljóbókarformi á ensku og þýdd á fjölmörg tungumál, þó ekki íslensku.
Sagan hefur nú verið kvikmynduð í leikstjórn Ridley Scott sem hefur hlotið fjölmörg verðlaun fyrir kvikmyndir sínar. Þar má nefna stórmyndirnar Alien (1979), Gladiator (2000) og Black Hawk Down (2001). Með hlutver Mark Watney fer óskarsverðlaunahafinn Matt Damon. Auk hans fara meðal annars Jessica Chastain, Kristen Wiig, Kate Mara, Jeff Daniels og Sean Bean með hlutverk í myndinni. Myndinni hefur verið lýst sem samsuðu af Apollo 13 eftir Ron Howard og Cast Away eftir Robert Zemeckis. Stiklu úr kvikmyndinni má sjá í myndbandinu hér að neðan.
Í ekki svo fjarlægri framtíð
Jafnvel þó saga Weir styðist við raunveruleg vísindi og þekkingu mannkyns í dag er þetta enn vísindaskáldsaga. Höfundurinn viðurkennir til dæmis að hafa vísvitandi hundsað hættur á borð við óhindraða sólargeislun þegar hann hannaði sögusviðið. En hversu langt er þar til tæknin leyfir mannkyninu að senda mönnuð geimför til Mars?
NASA hefur þegar lent níu könnunarförum á yfirborð Mars. Það síðasta, Curiosity, lenti árið 2012 og sendir enn myndir af yfirborði Mars og rannsóknargögn sem það aflar úr jarðvegi plánetunar. Utan þessara verkefna hafa þónokkrir gervihnettir komist á sporbraut um Mars eða flogið framhjá og sent gögn til jarðar. Fjögur verkefni eru auk þess í þróun. ExoMars verður sent frá jörðu á næsta ári auk InSight. Báðum förum er ætlað að lenda á Mars.
Á dögunum voru drög að nýju verkefni kynnt en þar er ætlunin að lenda geimfari á yfirborði Mars, safna jarðvegssýnum og snúa aftur til jarðar. NASA áætlar að vefkefnið verði mögulegt á þriðja áratug þessarar aldar og verði geimfar Space X-einkafyrirtækisins notað til þess að komast á yfirborð Mars og aftur til jarðar.
Forstjóri Space X, Elon Musk, segir tæki geimferðafyrirtækisins nógu öflug til að geta ferðast alla leið til Mars en sjálfur hefur hann sagst vilja eyða síðustu æviárum sínum á plánetuni. Slíkt kann þó að vera ómögulegt, enn um sinn, því samkvæmt nýlegri rannsókn vísindamanna við tæknistofunina í Massachusetts (MIT) gætu áætlanir hollenska fyrirtækisins Mars One um að lenda fjórum manneskjum á Mars árið 2025 verið gallaðar.
Mars One miðar að því að geimfararnir geti búið á Mars í nokkurn tíma, ræktað þar plöntur (eins og Mark Watney í The Martian) og framleitt vatn úr jarðveginum. Vísindamenn MIT segja slíkt hins vegar enn ómögulegt. Of mikil eldhætta mundi til að mynda skapast við það eitt að plönturnar framleiði súrefni í vistarverum landnemanna.
The Martian verður frumsýnd í kvikmyndahúsum á Íslandi 2. október.