Fimm molar um afspyrnuslakan fulltrúa Bandaríkjanna á Íslandi
Donald Trump fyrrverandi Bandaríkjaforseti sendi svo sannarlega ekki sinn besta mann til Íslands, er hann ákvað að tilnefna húðlækninn Jeffrey Ross Gunter í embætti sendiherra.
Skýrsla innra eftirlits bandarísku utanríkisþjónustunnar um starfsemi sendiráðs landsins á Íslandi vakti allnokkra athygli hérlendis í vikunni og var til umfjöllunar í flestum miðlum. Í henni kom auk annars fram að síðasti sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, Jeffrey Ross Gunter, hefði stjórnað með harðri hendi í sendiráðinu og að starfsliðið þar væri hreinlega enn að jafna sig.
Einnig var bent á að að diplómatísk tengsl sendiráðsins við íslensk stjórnvöld hefðu laskast mjög á meðan að Gunter var í embætti, en rakið er í skýrslu innra eftirlitsins að yfirlýsingar sem hann sendi frá sér á samfélagsmiðlum sendiráðsins án samráðs við íslensk stjórnvöld hefði sumar hverjar reynst umdeildar í íslensku samfélagi.
Húðsjúkdómafræðingur sem styrkti Trump fjárhagslega
Donald Trump tilnefndi Gunter í embætti sendiherra á Íslandi í ágúst árið 2018 og skipan hans var samþykkt af Bandaríkjaþingi í maí árið 2019. Fram að því hafði ekki verið skipaður bandarískur sendiherra á Íslandi frá því að Robert C. Barber lét af störfum í janúar 2017, um það leyti er Trump tók við völdum.
Gunter, sem er menntaður húðsjúkdómafræðingur, hafði enga reynslu af alþjóðasamskiptum áður en hann kom til Íslands. Hann hafði hinsvegar veitt framboði Trumps fjárstuðning, alls um hundrað þúsund bandaríkjadali, í kosningabaráttunni vestanhafs árið 2016.
Kjarninn tók saman nokkra mola um sendiherrann Gunter og róstusama veru hans á Íslandi, sem ef til vill má segja að hafi haft í för með sér smættaða mynd af þeim álitshnekkjum sem fjögurra ára stjórnartíð Trump skóp Bandaríkjunum víða um heim.
1 - Taldi að reynslan úr heilbrigðisgeiranum myndi nýtast sér vel
Þegar sendiherrar eru skipaðir í Bandaríkjunum er fjallað um skipan þeirra í utanríkismálanefnd Öldungadeildarinnar. Í bréfi sem hinn þá nýlega tilnefni Gunter sendi nefndinni í október 2018 kom meðal annars fram að hann hefði aldrei komið til Íslands, en einnig að hann teldi að reynsla sín úr fyrri störfum við húðlækningar og fyrirtækjarekstri í þeim bransa yrði honum til tekna í embættinu á Íslandi.
„Ég trúi því að mér muni vegna vel sem sendiherra þar sem ég hef lært hvernig á að byggja upp stóra heild, stjórna og fjárfesta í starfsfólki og birgjum, þjónusta sjúklinga og mæta þörfum bæði einstaklingsins og samfélagsins,“ sagði Gunter í bréfinu.
Miðað við nýlegan vitnisburð starfsfólks sendiráðsins í skýrslu innra eftirlitsins nýttist stjórnunarreynsla Gunters úr húðsjúkdómabransanum honum ekki vel í hinu nýja starfi, sem hann hvarf frá í janúar á þessu ári, eftir að Joe Biden tók lyklunum að Hvíta húsinu.
2 - Hreykti sér af „retweeti“ frá Trump og 121 embættisverki til viðbótar
Þegar Gunter var við það að láta af störfum í janúar fór hann hálfgerðum hamförum á samfélagsmiðlareikningum bandaríska sendiráðsins. Reykjavík Grapevine tók eftir því og fjallaði um að þangað inn hefði sett inn tvær færslur sem síðar hefði verið eytt af Facebook-síðu sendiráðsins.
Í annarri færslunni þakkaði sendiherrann Donald Trump fyrir að gefa sér það stórkostlega tækifæri að fá að gerast sendiherra á Íslandi. Í hinni lét hann fylgja með hlekk á .pdf-skjal þar sem þulin voru upp 122 afrek sendiráðsins sem unnist hefðu á skipunartíma hans.
Hægt er að nálgast þetta skjal hjá Reykjavík Grapevine, en áhugavert er að Gunter hreykti sér þar sérstaklega af því að hafa samið færslu á Twitter sem fengið hefði meiri útbreiðslu en nokkur önnur færsla sem bandaríska sendiráðið á Íslandi hefði sett inn á þann miðil.
Færslan fól í sér hrós til Donalds Trump, fyrir að hafa haft milligöngu um Abraham-samningana, sem snerust um að formlegt stjórnmálasamband á milli Ísraelsríkis og Barein annars vegar og Sameinuðu arabísku furstadæmanna hins vegar, var endurreist.
Trump sjálfur endurtísti færslunni frá Gunter – sem auðvitað skýrir hina miklu útbreiðslu. Nánar tiltekið fékk færslan yfir 73 þúsund „like“ og 23 þúsund „retweet“.
Ekki liggur fyrir hversu mörgum vinnustundum var varið í að semja þessa færslu, en í áðurnefndri skýrslu innra eftirlits utanríkisþjónustunnar kom fram að álag á samskiptadeild sendiráðsins hefði verið mikið í tíð Gunter, ekki síst þar sem sendiherrann fékk deildina gjarnan með sér klukkutímunum saman til þess að framleiða efni fyrir samfélagsmiðla.
3 - Olli fjaðrafoki með því að tala um „Kína-veiruna“
„Við stöndum sameinuð um að sigra ósýnilegu Kína-veiruna,“ sagði í færslu frá bandaríska sendiráðinu á Twitter þann 20. júlí í fyrra, þar sem hann lét fylgja tjákn með bæði bandaríska og íslenska fánanum.
We are United to defeat the Invisible China Virus! 🇺🇸🇮🇸 https://t.co/7X1k5S7dNb
— U.S. Embassy Reykjavik Chief of Mission (@USAmbIceland) July 20, 2020
Viðbrögðin við þessum ummælum voru hörð og var sendiherrann af mörgum, meðal annarra þingmönnum, sakaður um bæði rasisma og heimsku, eins og dregið var saman í frétt Vísis frá þessum tíma.
4 - Vildi fá að bera byssu og ganga um í hnífheldu vesti á Íslandi
Bandaríska sjónvarpsstöðin CBS kafaði aðeins í málefni sendiráðsins á Íslandi í lok júlí 2020 og sagði frá ýmsum furðulegheitum sem þar voru í gangi. Meðal sagði miðillinn frá því að Gunter hefði viljað fá að bera byssu hérlendis.
Í frétt miðilsins, sem byggði á samtölum við fjölda diplómata og annarra sem þekktu til málanna, sagði að sendiherrann hefði óttast um öryggi sitt allt frá því að hann kom til Reykjavíkur og að hann hefði óskað eftir því við utanríkisþjónustuna að hann fengi leyfi til þess að eiga skotvopn.
Heimildarmennirnir sögðu að Gunter hefði einnig óskað eftir því að láta flytja sig á milli staða í brynvörðum bílum og að hann hefði fleytt þeirri hugmynd fram að fá að ganga í sérstöku vesti til að verjast hnífstungum.
Í svari við fyrirspurn frá CBS neitaði utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna að tjá sig um hvort það teldi Gunter einhver raunveruleg hætta búin hér á landi, en heimildarmenn CBS sögðu að sendiherranum hefði verið þrásagt að hann hefði ekkert að óttast á Íslandi.
Fréttaflutningur CBS vakti mikla athygli hérlendis og var fylgt eftir af íslenskum miðlum. Ríkisútvarpið sagði til dæmis frá því að formleg beiðni hefði borist frá bandaríska sendiráðinu til ríkislögreglustjóra, í gegnum dómsmálaráðuneytið, þess efnis að sendiráðið fengi að ráða vopnaðan öryggisvörð.
Ekkert hafði þó heyrst af því að formleg beiðni hefði borist þess efnis að sendiherrann sjálfur fengi að bera vopn sér til varnar.
Í kjölfarið á þessu fjaðrafoki öllu, sem kom skömmu eftir tal sendiherrans um Kína-veiruna, brast endanlega þolinmæði ýmissa Bandaríkjamanna sem búsettir eru á Íslandi. Efnt var til undirskriftasöfnunar á undirsíðu Hvíta hússins fyrir því að Gunter yrði leystur af hólmi sem sendiherra.
Í yfirlýsingu sem fylgdi undirskriftasöfnuninni og Fréttablaðið sagði frá á sínum tíma sagði að háttsemi hans væri ekki bandarískum diplómata sæmandi og að hegðun hans hefði slæm áhrif á samband Bandaríkjanna og Íslands.
5 - Sakaði „Fals-Fréttablaðið“ um „falsfréttir“
Afar áhugaverð færsla birtist á Facebook-síðu bandaríska sendiráðsins fyrir rösku ári síðan, eða undir lok október 2020. Þar var brugðist við frétt Fréttablaðsins, sem fjallaði um að starfsmaður sendiráðsins hefði greinst með COVID-19 og að starfsmenn hefðu verið kallaðir út á sunnudegi til að vinna að flutningum sendiráðsins í ný húsakynni við Engjateig.
„Eru falsfréttir komin til Íslands?
Ameríka náði að vígja nýja sendiráðið án COVID-19 smits. Skömmin er núna hjá Fréttablaðinu fyrir ábyrgðarlausan blaðamennska. Löngu eftir vígslu kom upp eitt tilfelli vegna smits í íslenskum skóla. Smittíðnin á Íslandi er með því hæsta í Evrópu. Ömurlegt að Fals-Fréttablaðið væru svo ófagmannlegt og sýnir virðingarleysi með því að nota COVID-19 í pólitískum tilgangi. Bandaríska sendiráðið hefur alltaf verið og er öruggasta athvarfið frá COVID-19 í Reykjavík,“ sagði í færslunni frá sendiráðinu, en athygli vakti að hún var birt um miðja nótt.
Has Fake News Arrived in Iceland? America has succeeded with the #NewUSEmbassy completed and dedicated while having...
Posted by US Embassy Reykjavik Iceland on Thursday, October 29, 2020
Viðbrögð sendiráðsins við fréttaflutningi Fréttablaðsins var þó ekki bara á Facebook, heldur var boð til blaðsins um að hitta Robert Burke, flotaforingja í sjóher Bandaríkjanna, einnig afturkallað.
„Rúmum klukkutíma áður en hringborðsumræðurnar áttu að hefjast bárust skilaboð frá sendiráðinu til ritstjórnar blaðsins, þess efnis að nærveru Fréttablaðsins væri ekki óskað. (e. Fréttablaðið's participation is turned off)“ sagði í frétt Fréttablaðsins um þetta.
Jón Þórisson, fyrrverandi ritstjóri Fréttablaðsins, sagði það vekja „furðu að sendimaður erlends ríkis geri með þessum hætti tilraun til þess að grafa undan fréttaflutningi frjáls fjölmiðils í gistiríkinu.“
Ekki er enn búið að tilnefna nýjan sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi af hálfu Biden-stjórnarinnar, en maður að nafni Harry Kamian, sem er með nærri þriggja áratuga reynslu af störfum í bandarísku utanríkisþjónustunni, tók við forstöðu í sendiráðinu eftir að Gunter hélt af landi brott.
Meira lesefni hér að neðan
-
11. janúar 2023Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
-
10. janúar 2023Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
-
10. janúar 2023Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sögulegur en dýrkeyptur kosningasigur þingforsetans