Skjáskot/Bandaríska sendiráðið Jeffrey Ross Gunter Mynd: Skjáskot úr myndbandi bandaríska sendiráðsins
Jeffrey Ross Gunter hvarf á brott frá Íslandi í upphafi þessa árs. Ekki hefur heyrst að hans sé sárt saknað.
Skjáskot/Bandaríska sendiráðið

Fimm molar um afspyrnuslakan fulltrúa Bandaríkjanna á Íslandi

Donald Trump fyrrverandi Bandaríkjaforseti sendi svo sannarlega ekki sinn besta mann til Íslands, er hann ákvað að tilnefna húðlækninn Jeffrey Ross Gunter í embætti sendiherra.

Skýrsla innra eft­ir­lits banda­rísku utan­rík­is­þjón­ust­unnar um starf­semi sendi­ráðs lands­ins á Íslandi vakti all­nokkra athygli hér­lendis í vik­unni og var til umfjöll­unar í flestum miðl­um. Í henni kom auk ann­ars fram að síð­asti sendi­herra Banda­ríkj­anna á Íslandi, Jef­frey Ross Gunter, hefði stjórnað með harðri hendi í sendi­ráð­inu og að starfs­liðið þar væri hrein­lega enn að jafna sig.

Einnig var bent á að að diplómat­ísk tengsl sendi­ráðs­ins við íslensk stjórn­völd hefðu laskast mjög á meðan að Gunter var í emb­ætti, en rakið er í skýrslu innra eft­ir­lits­ins að yfir­lýs­ingar sem hann sendi frá sér á sam­fé­lags­miðlum sendi­ráðs­ins án sam­ráðs við íslensk stjórn­völd hefði sumar hverjar reynst umdeildar í íslensku sam­fé­lagi.

Húð­sjúk­dóma­fræð­ingur sem styrkti Trump fjár­hags­lega

Don­ald Trump til­nefndi Gunter í emb­ætti sendi­herra á Íslandi í ágúst árið 2018 og skipan hans var sam­þykkt af Banda­ríkja­þingi í maí árið 2019. Fram að því hafði ekki verið skip­aður banda­rískur sendi­herra á Íslandi frá því að Robert C. Bar­ber lét af störfum í jan­úar 2017, um það leyti er Trump tók við völd­um.

Gunter, sem er mennt­aður húð­sjúk­dóma­fræð­ing­ur, hafði enga reynslu af alþjóða­sam­skiptum áður en hann kom til Íslands. Hann hafði hins­vegar veitt fram­boði Trumps fjár­stuðn­ing, alls um hund­rað þús­und banda­ríkja­dali, í kosn­inga­bar­átt­unni vest­an­hafs árið 2016.

Kjarn­inn tók saman nokkra mola um sendi­herr­ann Gunter og róstu­sama veru hans á Íslandi, sem ef til vill má segja að hafi haft í för með sér smætt­aða mynd af þeim álits­hnekkjum sem fjög­urra ára stjórn­ar­tíð Trump skóp Banda­ríkj­unum víða um heim.

1 - Taldi að reynslan úr heil­brigð­is­geir­anum myndi nýt­ast sér vel

Þegar sendi­herrar eru skip­aðir í Banda­ríkj­unum er fjallað um skipan þeirra í utan­rík­is­mála­nefnd Öld­unga­deild­ar­inn­ar. Í bréfi sem hinn þá nýlega til­nefni Gunter sendi nefnd­inni í októ­ber 2018 kom meðal ann­ars fram að hann hefði aldrei komið til Íslands, en einnig að hann teldi að reynsla sín úr fyrri störfum við húð­lækn­ingar og fyr­ir­tækja­rekstri í þeim bransa yrði honum til tekna í emb­ætt­inu á Íslandi.

„Ég trúi því að mér muni vegna vel sem sendi­herra þar sem ég hef lært hvernig á að byggja upp stóra heild, stjórna og fjár­festa í starfs­fólki og birgj­um, þjón­usta sjúk­linga og mæta þörfum bæði ein­stak­lings­ins og sam­fé­lags­ins,“ sagði Gunter í bréf­inu.

Miðað við nýlegan vitn­is­burð starfs­fólks sendi­ráðs­ins í skýrslu innra eft­ir­lits­ins nýtt­ist stjórn­un­ar­reynsla Gunters úr húð­sjúk­dóma­brans­anum honum ekki vel í hinu nýja starfi, sem hann hvarf frá í jan­úar á þessu ári, eftir að Joe Biden tók lyklunum að Hvíta hús­inu.

2 - Hreykti sér af „retweeti“ frá Trump og 121 emb­ætt­is­verki til við­bótar

Þegar Gunter var við það að láta af störfum í jan­úar fór hann hálf­gerðum ham­förum á sam­fé­lags­miðla­reikn­ingum banda­ríska sendi­ráðs­ins. Reykja­vík Grapevine tók eftir því og fjall­aði um að þangað inn hefði sett inn tvær færslur sem síðar hefði verið eytt af Face­book-­síðu sendi­ráðs­ins.

Í annarri færsl­unni þakk­aði sendi­herr­ann Don­ald Trump fyrir að gefa sér það stór­kost­lega tæki­færi að fá að ger­ast sendi­herra á Íslandi. Í hinni lét hann fylgja með hlekk á .pd­f-skjal þar sem þulin voru upp 122 afrek sendi­ráðs­ins sem unn­ist hefðu á skip­un­ar­tíma hans.

Hægt er að nálg­ast þetta skjal hjá Reykja­vík Grapevine, en áhuga­vert er að Gunter hreykti sér þar sér­stak­lega af því að hafa samið færslu á Twitter sem fengið hefði meiri útbreiðslu en nokkur önnur færsla sem banda­ríska sendi­ráðið á Íslandi hefði sett inn á þann mið­il.

Færslan fól í sér hrós til Don­alds Trump, fyrir að hafa haft milli­göngu um Abra­ham-­samn­ing­ana, sem sner­ust um að form­legt stjórn­mála­sam­band á milli Ísra­els­ríkis og Bar­ein ann­ars vegar og Sam­ein­uðu arab­ísku fursta­dæmanna hins veg­ar, var end­ur­reist.

Trump sjálfur end­ur­tísti færsl­unni frá Gunter – sem auð­vitað skýrir hina miklu útbreiðslu. Nánar til­tekið fékk færslan yfir 73 þús­und „li­ke“ og 23 þús­und „retweet“.

Ekki liggur fyrir hversu mörgum vinnu­stundum var varið í að semja þessa færslu, en í áður­nefndri skýrslu innra eft­ir­lits utan­rík­is­þjón­ust­unnar kom fram að álag á sam­skipta­deild sendi­ráðs­ins hefði verið mikið í tíð Gunter, ekki síst þar sem sendi­herr­ann fékk deild­ina gjarnan með sér klukku­tímunum saman til þess að fram­leiða efni fyrir sam­fé­lags­miðla.

3 - Olli fjaðrafoki með því að tala um „Kína-veiruna“

„Við stöndum sam­einuð um að sigra ósýni­legu Kína-veiruna,“ sagði í færslu frá banda­ríska sendi­ráð­inu á Twitter þann 20. júlí í fyrra, þar sem hann lét fylgja tjákn með bæði banda­ríska og íslenska fán­an­um.

Við­brögðin við þessum ummælum voru hörð og var sendi­herr­ann af mörg­um, meðal ann­arra þing­mönn­um, sak­aður um bæði ras­isma og heimsku, eins og dregið var saman í frétt Vísis frá þessum tíma.

4 - Vildi fá að bera byssu og ganga um í hníf­heldu vesti á Íslandi

Banda­ríska sjón­varps­stöðin CBS kaf­aði aðeins í mál­efni sendi­ráðs­ins á Íslandi í lok júlí 2020 og sagði frá ýmsum furðu­leg­heitum sem þar voru í gangi. Meðal sagði mið­ill­inn frá því að Gunter hefði viljað fá að bera byssu hér­lend­is.

Í frétt mið­ils­ins, sem byggði á sam­tölum við fjölda diplómata og ann­arra sem þekktu til mál­anna, sagði að sendi­herr­ann hefði ótt­ast um öryggi sitt allt frá því að hann kom til Reykja­víkur og að hann hefði óskað eftir því við utan­rík­is­þjón­ust­una að hann fengi leyfi til þess að eiga skot­vopn.

Heim­ild­ar­menn­irnir sögðu að Gunter hefði einnig óskað eftir því að láta flytja sig á milli staða í bryn­vörðum bílum og að hann hefði fleytt þeirri hug­mynd fram að fá að ganga í sér­stöku vesti til að verj­ast hnífstung­um.

Í svari við fyr­ir­spurn frá CBS neit­aði utan­rík­is­ráðu­neyti Banda­ríkj­anna að tjá sig um hvort það teldi Gunter ein­hver raun­veru­leg hætta búin hér á landi, en heim­ild­ar­menn CBS sögðu að sendi­herr­anum hefði verið þrá­sagt að hann hefði ekk­ert að ótt­ast á Íslandi.

Frétta­flutn­ingur CBS vakti mikla athygli hér­lendis og var fylgt eftir af íslenskum miðl­um. Rík­is­út­varpið sagði til dæmis frá því að form­leg beiðni hefði borist frá banda­ríska sendi­ráð­inu til rík­is­lög­reglu­stjóra, í gegnum dóms­mála­ráðu­neyt­ið, þess efnis að sendi­ráðið fengi að ráða vopn­aðan örygg­is­vörð.

Ekk­ert hafði þó heyrst af því að form­leg beiðni hefði borist þess efnis að sendi­herr­ann sjálfur fengi að bera vopn sér til varn­ar.

Í kjöl­farið á þessu fjaðrafoki öllu, sem kom skömmu eftir tal sendi­herr­ans um Kína-veiruna, brast end­an­lega þol­in­mæði ýmissa Banda­ríkja­manna sem búsettir eru á Íslandi. Efnt var til und­ir­skrifta­söfn­unar á und­ir­síðu Hvíta húss­ins fyrir því að Gunter yrði leystur af hólmi sem sendi­herra.

Í yfir­lýs­ingu sem fylgdi und­ir­skrifta­söfn­un­inni og Frétta­blaðið sagði frá á sínum tíma sagði að hátt­semi hans væri ekki banda­rískum diplómata sæm­andi og að hegðun hans hefði slæm áhrif á sam­band Banda­ríkj­anna og Íslands.

5 - Sak­aði „Fals-Frétta­blað­ið“ um „fals­frétt­ir“

Afar áhuga­verð færsla birt­ist á Face­book-­síðu banda­ríska sendi­ráðs­ins fyrir rösku ári síð­an, eða undir lok októ­ber 2020. Þar var brugð­ist við frétt Frétta­blaðs­ins, sem fjall­aði um að starfs­maður sendi­ráðs­ins hefði greinst með COVID-19 og að starfs­menn hefðu verið kall­aðir út á sunnu­degi til að vinna að flutn­ingum sendi­ráðs­ins í ný húsa­kynni við Engja­teig.

„Eru fals­fréttir komin til Íslands?

Amer­íka náði að vígja nýja sendi­ráðið án COVID-19 smits. Skömmin er núna hjá Frétta­blað­inu fyrir ábyrgð­ar­lausan blaða­mennska. Löngu eftir vígslu kom upp eitt til­felli vegna smits í íslenskum skóla. Smit­tíðnin á Íslandi er með því hæsta í Evr­ópu. Ömur­legt að Fals-Frétta­blaðið væru svo ófag­mann­legt og sýnir virð­ing­ar­leysi með því að nota COVID-19 í póli­tískum til­gangi. Banda­ríska sendi­ráðið hefur alltaf verið og er örugg­asta athvarfið frá COVID-19 í Reykja­vík,“ sagði í færsl­unni frá sendi­ráð­inu, en athygli vakti að hún var birt um miðja nótt.

Has Fake News Arri­ved in Iceland? A­mer­ica has succeeded with the #NewUS­Emb­assy comp­leted and ded­icated while hav­ing...

Posted by US Emb­assy Reykja­vik Iceland on Thurs­day, Oct­o­ber 29, 2020

Við­brögð sendi­ráðs­ins við frétta­flutn­ingi Frétta­blaðs­ins var þó ekki bara á Face­book, heldur var boð til blaðs­ins um að hitta Robert Burke, flota­for­ingja í sjó­her Banda­ríkj­anna, einnig aft­ur­kall­að.

„Rúmum klukku­­tíma áður en hring­­borðs­um­ræð­urnar áttu að hefj­ast bár­ust skila­­boð frá send­i­ráð­inu til rit­stjórnar blaðs­ins, þess efnis að nær­veru Frétta­­blaðs­ins væri ekki ósk­að. (e. Frétta­­blaðið's part­icipation is tur­ned off)“ sagði í frétt Frétta­blaðs­ins um þetta.

Jón Þór­is­son, fyrr­ver­andi rit­stjóri Frétta­blaðs­ins, sagði það vekja „furðu að sendi­maður erlends ríkis geri með þessum hætti til­raun til þess að grafa undan frétta­flutn­ingi frjáls fjöl­mið­ils í gisti­rík­in­u.“

Ekki er enn búið að til­nefna nýjan sendi­herra Banda­ríkj­anna á Íslandi af hálfu Biden-­stjórn­ar­inn­ar, en maður að nafni Harry Kami­an, sem er með nærri þriggja ára­tuga reynslu af störfum í banda­rísku utan­rík­is­þjón­ust­unni, tók við for­stöðu í sendi­ráð­inu eftir að Gunter hélt af landi brott.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiInnlent