Pexels - Open source myndasöfn

Fjarar undan „nýfrjálshyggjuafbrigði“ samkeppnisréttar?

Nýjar hugmyndir um iðkan samkeppnisréttar, sem þó byggja á gömlum grunni, hafa á undanförnum árum brotist fram í umræðu fræðimanna í Bandaríkjunum og Evrópu. Haukur Logi Karlsson nýdoktor í lögfræði við Háskóla Íslands ræddi við Kjarnann um þessar hugmyndir um hvernig megi beita samkeppnislögum, sem hann skoðar nú í rannsóknum sínum.

Á und­an­förnum hefur farið fram umræða á meðal fræði­manna í Banda­ríkj­unum og einnig í Evr­ópu, um hvort til­efni sé til að breyta því hvernig sam­keppn­is­réttur er iðk­aður og hvort ástæða sé til að útvíkka beit­ingu sam­keppn­islaga, til dæmis í því skyni að bæta stöðu starfs­fólks á vinnu­mark­aði.

Haukur Logi Karls­son, nýdoktor í lög­fræði við Háskóla Íslands, vinnur þessi miss­erin að rann­sóknum á þessu sviði og mun kafa í við­fangs­efnið áfram á næstu árum. Fjallað var um rann­sóknir Hauks Loga á vef HÍ fyrr í mán­uð­inum og Kjarn­inn tók hann tali og for­vitn­að­ist frekar um þennan „nýja skóla“ í sam­keppn­is­rétti.

Haukur Logi Karlsson er nýdoktor í lögfræði við Háskóla Íslands.

Haukur Logi segir við blaða­mann að fræði­lega umræðan sem sprottið hafi upp á und­an­förnum árum snúi að því hvort hyggi­legt sé að hverfa að ein­hverju leyti frá þeirri hefð sem varð til í Banda­ríkj­unum er nýfrjáls­hyggja fór að ryðja sér til rúms á átt­unda ára­tugn­um. 

Frá því á þeim tíma hafi það verið ráð­andi skoðun að hlut­verk sam­keppn­is­lög­gjafar og eft­ir­fylgni með henni sé fyrst og fremst að stuðla að efna­hags­legri hag­kvæmni og vel­ferð neyt­enda, með því að koma í veg fyrir að fyr­ir­tæki á mörk­uðum kom­ist í þá stöðu í krafti stærðar sinnar að geta ein­hliða ákvarðað verð á vöru og þjón­ustu.

„Þessi hefð náði algjör­lega und­ir­tök­unum í Banda­ríkj­unum og síðar meir færð­ist það yfir til Evr­ópu. Þetta hefur verið hið almennt við­ur­kennda við­mið síð­ustu ára­tug­ina í því hvernig á að fram­kvæma sam­keppn­is­rétt,“ segir Haukur Logi.

Leitað aftur í upp­runann eftir efna­hags­hrun

Eftir efna­hags­hrunið árið 2008 segir Haukur Logi að ákveðin umræða hafi byrjað að gerjast, vegna efa­semda um gildi þess að vera með stefnu­mót­un­ar­mark­mið út frá for­sendum nýfrjáls­hyggj­unnar á ýmsum svið­um. „Þá fara fræði­menn jafn­framt að stíga fram og lýsa yfir efa­semdum með sam­keppn­is­rétt­inn – það mætti end­ur­skoða hann líka ef menn væru að end­ur­skoða þessa nýfrjáls­hyggju­hug­mynda­fræð­i.“

Haukur Logi segir að fræði­menn með þennan þanka­gang í Banda­ríkj­unum hafi í vinnu sinni leitað tölu­vert aftur til upp­runans, en fyrstu sam­keppn­is­lögin voru sett á í Banda­ríkj­unum árið 1890, til þess hrein­lega að brjóta upp risa­vaxin fyr­ir­tæki, meðal ann­ars í járn­brauta- og olíu­geir­an­um, sem þjapp­ast höfðu saman í stórar og miklar ein­ing­ar. Með þeim aðgerðum var ekki ein­ungis verið að horfa á hag neyt­enda, heldur einnig mark­aðs­vald fyr­ir­tækj­anna, sem hafði smit­ast yfir á hið póli­tíska svið.

Frá því að fyrstu sam­keppn­is­lögin voru sett hefur sam­keppn­is­réttur svo tekið breyt­ingum og sem áður segir urðu til ný við­mið um iðkun sam­keppn­is­rétt­ar­ins á seinni hluta 20. ald­ar, sem kennd hafa verið við nýfrjáls­hyggj­una. Þá fór beit­ing sam­keppn­islaga vest­an­hafs að mestu að snú­ast um efna­hags­lega hag­kvæmni og neyt­enda­vel­ferð, en að öðru leyti hefur sú kenni­setn­ing gilt að mark­að­ur­inn muni sjálfur sjá um að leið­rétta sig. Þessi þróun hefur seytlað að nokkru leyti yfir í evr­ópskan sam­keppn­is­rétt sömu­leið­is.

„En reyndin hefur verið sú að það bara ger­ist ekki, þessir stóru risar festa sig í sessi og ná að verja sína stöðu miklu betur en þessar nýfrjáls­hyggju­kenn­ingar gerðu ráð fyr­ir. Og þá er það spurn­ing­in, eigum við að halda áfram að reiða okkur á þær kenn­ingar eða að breyta hlut­unum og nálg­ast þetta eitt­hvað öðru­vísi,“ segir Haukur um þetta.

Um 2015 segir Haukur Logi að fræði­menn hafi hins vegar farið að „stíga fram og velta fyrir sér hvort það ætti að fara að leita aftur í þessar rætur og hugs­an­lega taka aftur upp áherslur sem voru þarna í byrj­un“. 

„Þessar hug­myndir hafa verið að smita út frá sér og svo­lítið verið að springa út. Þegar það voru stjórn­ar­skipti í Banda­ríkj­unum og Biden-­stjórnin tók við þá réði hann inn einn leið­andi fræði­mann sem er á þess­ari skoð­un, sem for­mann stjórnar banda­ríska sam­keppn­is­eft­ir­lits­ins,“ segir Haukur Logi og á þar við lög­fræð­ing­inn Linu Khan. 

Khan, sem er 32 ára, hefur vakið athygli und­an­farin ár fyrir skrif sín og hug­myndir um iðkun sam­keppn­is­réttar og þá ekki síst fyrir áhrifa­mikla grein sem hún rit­aði árið 2017 um yfir­burða­stöðu Amazon á net­sölu­mark­aði. Í þeirri grein færði hún rök fyrir því að sam­keppn­is­lög­gjöfin banda­ríska og fram­fylgd hennar næði ekki utan um mark­aðs­vald Amazon, sem ótal­mörg önnur fyr­ir­tæki treysta á til að koma vörum sínum á fram­færi og til neyt­enda.

Lina M. Khan er leiðandi rödd í þeirri umræðu um iðkan samkeppnisréttar sem nú á sér stað. Mynd: Federal Trade Commission.

Haukur Logi segir að skipan Khan í áhrifa­stöðu hjá banda­ríska sam­keppn­is­eft­ir­lit­inu gefið til kynna að Biden-­stjórnin vildi veita hug­myndum af þessu tagi braut­ar­gengi í fram­kvæmd sam­keppn­is­rétt­ar, en þó eigi eftir að koma í ljós hvort eitt­hvað verði af því.

Haukur segir að í þess­ari umræðu allri hafi verið bent á það að til­gang­ur­inn með sam­keppn­is­lögum í önd­verðu hafi ekki ein­ungis snú­ist verð­á­kvarð­anir og ein­ok­un, heldur líka það að sam­þjöppun á við­skipta­valdi smit­ist yfir í póli­tík­ina. 

„Ef þú nærð miklu valdi í við­skipt­unum getur þú farið að beita þér í póli­tík­inni til að reyna að ná enn betur að bæta aðstöðu þinna fyr­ir­tækja í gegnum póli­tík­ina. Það er þetta sem er verið að benda á, að það eigi ekki að horfa svona þröngt á þetta,“ ­segir Haukur Logi, en verið er að nálg­ast þessi mál úr ýmsum átt­um.

Nær neyt­enda­vel­ferð til allra í sam­fé­lag­inu?

Sjálfur hefur hann verið að horfa á stöðu starfs­fólks í sinni rann­sókn, sem hann vinnur í þver­fag­legu sam­starfi við Gylfa Magn­ús­son pró­fessor við við­skipta­fræði­deild. Nánar til­tekið snýst rann­sókn þeirra um kort­leggja þá mögu­leika sem finn­ast innan sam­keppn­is­réttar til þess að standa vörð um vel­ferð starfs­fólks gagn­vart auknu mark­aðs­valdi fyr­ir­tækja við kaup á starfs­kröft­um.

Í umfjöllun á vef HÍ sagði Haukur Logi frá ákveð­inni þver­sögn sem felst í því að sam­keppn­is­réttur horfi þröngt á efna­hags­lega hag­kvæmni og neyt­enda­vel­ferð.

„Þver­sögnin sem í þessu felst er að það getur komið neyt­endum til góða að rýra kjör starfs­fólks þess fyr­ir­tækis sem býður ákveðna vöru eða þjón­ustu en starfs­fólkið er síðan líka neyt­endur og flestir neyt­endur eru líka starfs­fólk ein­hvers stað­ar. Hag­kvæmni­aukn­ing í þágu neyt­enda en á kostnað starfs­fólks hefur því ekki endi­lega jákvæð sam­fé­lags­leg áhrif í för með sér þó svo að sam­fé­lags­leg heild­ar­hag­sæld kunni að aukast. Hættan er einkum sú að mis­skipt­ing auðs auk­ist á milli starfs­fólks í veikri stöðu og þeirra neyt­enda sem eru í sterkri efna­hags­legri stöðu og þá sér­stak­lega neyt­enda sem einnig eru eig­endur fyr­ir­tækja og fjár­magns,“ var haft eftir Hauki í umfjöll­un­inni á vef HÍ.

„Gigg-hag­kerf­ið“ til umfjöll­unar í Brus­sel

Hann segir við Kjarn­ann að á vett­vangi Evr­ópu­sam­bands­ins, úti í Brus­sel, sé nú nokkur umræða um þessi efni og bendir hann á að íslenskur sam­keppn­is­réttur mót­ist mikið af þeim evr­ópska og síðan gildi reglur EES-réttar á sviði sam­keppn­is­réttar einnig hér­lend­is. 

„Eitt það nýjasta sem er í gangi [í Brus­sel] núna er umræða um það sem kallað hefur verið „gigg-hag­kerf­ið“, þar sem fyr­ir­tæki eru mikið að ráða til sín svona ein­yrkja-verk­taka. Það hefur verið rætt um að staða þeirra sé ekki sterk þegar kemur að því að semja um kaup og kjör og þetta sé fyrst og fremst leið fyr­ir­tækja til þess að lág­marka kostn­að, með því að semja við verk­taka sem eru mögu­lega í veikri stöðu gagn­vart þeim.“

Hann segir það verð­ugt umhugs­un­ar­efni og spurn­ingu, hvort fýsi­legt væri að sam­keppn­is­eft­ir­lit horfðu til áhrifa á vinnu­mark­aðs­að­stæður þegar þau væru að skoða sam­runa fyr­ir­tækja og það hvort að sam­runar hafi það í för með sér að ákveðin fyr­ir­tæki kom­ist í mjög sterka stöðu gagn­vart starfs­fólki.

Í umfjöll­un­inni á vef HÍ vakti Haukur athygli á því að sér­stakri klausu um að meðal marksmiða íslensku sam­keppn­islag­anna væri að stuðla að heil­brigðu sam­keppn­isum­hverfi til hags­bóta fyrir neyt­endur hefði fyrst verið bætt inn í sam­keppn­is­lögin árið 2020.

Spurður út í þetta segir Haukur að vissu­lega hafi verið horft til stefn­unnar sem hafi verið við lýði í evr­ópskum rétti og það skipti kannski ekki „öllu máli hvað menn eru að skrifa inn í íslensku sam­keppn­is­lög­in, þannig séð.“

„En þetta er hins vegar áhuga­verð fót­nóta, að loks­ins er þessi hug­mynd tekin upp í íslensku lögin um það leyti sem byrjað er að fjara undan henni erlend­is. Það er áhuga­vert, hvernig hug­myndir ber­ast alltaf til Íslands með smá töf.“

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar