Fjarar undan „nýfrjálshyggjuafbrigði“ samkeppnisréttar?
Nýjar hugmyndir um iðkan samkeppnisréttar, sem þó byggja á gömlum grunni, hafa á undanförnum árum brotist fram í umræðu fræðimanna í Bandaríkjunum og Evrópu. Haukur Logi Karlsson nýdoktor í lögfræði við Háskóla Íslands ræddi við Kjarnann um þessar hugmyndir um hvernig megi beita samkeppnislögum, sem hann skoðar nú í rannsóknum sínum.
Á undanförnum hefur farið fram umræða á meðal fræðimanna í Bandaríkjunum og einnig í Evrópu, um hvort tilefni sé til að breyta því hvernig samkeppnisréttur er iðkaður og hvort ástæða sé til að útvíkka beitingu samkeppnislaga, til dæmis í því skyni að bæta stöðu starfsfólks á vinnumarkaði.
Haukur Logi Karlsson, nýdoktor í lögfræði við Háskóla Íslands, vinnur þessi misserin að rannsóknum á þessu sviði og mun kafa í viðfangsefnið áfram á næstu árum. Fjallað var um rannsóknir Hauks Loga á vef HÍ fyrr í mánuðinum og Kjarninn tók hann tali og forvitnaðist frekar um þennan „nýja skóla“ í samkeppnisrétti.
Haukur Logi segir við blaðamann að fræðilega umræðan sem sprottið hafi upp á undanförnum árum snúi að því hvort hyggilegt sé að hverfa að einhverju leyti frá þeirri hefð sem varð til í Bandaríkjunum er nýfrjálshyggja fór að ryðja sér til rúms á áttunda áratugnum.
Frá því á þeim tíma hafi það verið ráðandi skoðun að hlutverk samkeppnislöggjafar og eftirfylgni með henni sé fyrst og fremst að stuðla að efnahagslegri hagkvæmni og velferð neytenda, með því að koma í veg fyrir að fyrirtæki á mörkuðum komist í þá stöðu í krafti stærðar sinnar að geta einhliða ákvarðað verð á vöru og þjónustu.
„Þessi hefð náði algjörlega undirtökunum í Bandaríkjunum og síðar meir færðist það yfir til Evrópu. Þetta hefur verið hið almennt viðurkennda viðmið síðustu áratugina í því hvernig á að framkvæma samkeppnisrétt,“ segir Haukur Logi.
Leitað aftur í upprunann eftir efnahagshrun
Eftir efnahagshrunið árið 2008 segir Haukur Logi að ákveðin umræða hafi byrjað að gerjast, vegna efasemda um gildi þess að vera með stefnumótunarmarkmið út frá forsendum nýfrjálshyggjunnar á ýmsum sviðum. „Þá fara fræðimenn jafnframt að stíga fram og lýsa yfir efasemdum með samkeppnisréttinn – það mætti endurskoða hann líka ef menn væru að endurskoða þessa nýfrjálshyggjuhugmyndafræði.“
Haukur Logi segir að fræðimenn með þennan þankagang í Bandaríkjunum hafi í vinnu sinni leitað töluvert aftur til upprunans, en fyrstu samkeppnislögin voru sett á í Bandaríkjunum árið 1890, til þess hreinlega að brjóta upp risavaxin fyrirtæki, meðal annars í járnbrauta- og olíugeiranum, sem þjappast höfðu saman í stórar og miklar einingar. Með þeim aðgerðum var ekki einungis verið að horfa á hag neytenda, heldur einnig markaðsvald fyrirtækjanna, sem hafði smitast yfir á hið pólitíska svið.
Frá því að fyrstu samkeppnislögin voru sett hefur samkeppnisréttur svo tekið breytingum og sem áður segir urðu til ný viðmið um iðkun samkeppnisréttarins á seinni hluta 20. aldar, sem kennd hafa verið við nýfrjálshyggjuna. Þá fór beiting samkeppnislaga vestanhafs að mestu að snúast um efnahagslega hagkvæmni og neytendavelferð, en að öðru leyti hefur sú kennisetning gilt að markaðurinn muni sjálfur sjá um að leiðrétta sig. Þessi þróun hefur seytlað að nokkru leyti yfir í evrópskan samkeppnisrétt sömuleiðis.
„En reyndin hefur verið sú að það bara gerist ekki, þessir stóru risar festa sig í sessi og ná að verja sína stöðu miklu betur en þessar nýfrjálshyggjukenningar gerðu ráð fyrir. Og þá er það spurningin, eigum við að halda áfram að reiða okkur á þær kenningar eða að breyta hlutunum og nálgast þetta eitthvað öðruvísi,“ segir Haukur um þetta.
Um 2015 segir Haukur Logi að fræðimenn hafi hins vegar farið að „stíga fram og velta fyrir sér hvort það ætti að fara að leita aftur í þessar rætur og hugsanlega taka aftur upp áherslur sem voru þarna í byrjun“.
„Þessar hugmyndir hafa verið að smita út frá sér og svolítið verið að springa út. Þegar það voru stjórnarskipti í Bandaríkjunum og Biden-stjórnin tók við þá réði hann inn einn leiðandi fræðimann sem er á þessari skoðun, sem formann stjórnar bandaríska samkeppniseftirlitsins,“ segir Haukur Logi og á þar við lögfræðinginn Linu Khan.
Khan, sem er 32 ára, hefur vakið athygli undanfarin ár fyrir skrif sín og hugmyndir um iðkun samkeppnisréttar og þá ekki síst fyrir áhrifamikla grein sem hún ritaði árið 2017 um yfirburðastöðu Amazon á netsölumarkaði. Í þeirri grein færði hún rök fyrir því að samkeppnislöggjöfin bandaríska og framfylgd hennar næði ekki utan um markaðsvald Amazon, sem ótalmörg önnur fyrirtæki treysta á til að koma vörum sínum á framfæri og til neytenda.
Haukur Logi segir að skipan Khan í áhrifastöðu hjá bandaríska samkeppniseftirlitinu gefið til kynna að Biden-stjórnin vildi veita hugmyndum af þessu tagi brautargengi í framkvæmd samkeppnisréttar, en þó eigi eftir að koma í ljós hvort eitthvað verði af því.
Haukur segir að í þessari umræðu allri hafi verið bent á það að tilgangurinn með samkeppnislögum í öndverðu hafi ekki einungis snúist verðákvarðanir og einokun, heldur líka það að samþjöppun á viðskiptavaldi smitist yfir í pólitíkina.
„Ef þú nærð miklu valdi í viðskiptunum getur þú farið að beita þér í pólitíkinni til að reyna að ná enn betur að bæta aðstöðu þinna fyrirtækja í gegnum pólitíkina. Það er þetta sem er verið að benda á, að það eigi ekki að horfa svona þröngt á þetta,“ segir Haukur Logi, en verið er að nálgast þessi mál úr ýmsum áttum.
Nær neytendavelferð til allra í samfélaginu?
Sjálfur hefur hann verið að horfa á stöðu starfsfólks í sinni rannsókn, sem hann vinnur í þverfaglegu samstarfi við Gylfa Magnússon prófessor við viðskiptafræðideild. Nánar tiltekið snýst rannsókn þeirra um kortleggja þá möguleika sem finnast innan samkeppnisréttar til þess að standa vörð um velferð starfsfólks gagnvart auknu markaðsvaldi fyrirtækja við kaup á starfskröftum.
Í umfjöllun á vef HÍ sagði Haukur Logi frá ákveðinni þversögn sem felst í því að samkeppnisréttur horfi þröngt á efnahagslega hagkvæmni og neytendavelferð.
„Þversögnin sem í þessu felst er að það getur komið neytendum til góða að rýra kjör starfsfólks þess fyrirtækis sem býður ákveðna vöru eða þjónustu en starfsfólkið er síðan líka neytendur og flestir neytendur eru líka starfsfólk einhvers staðar. Hagkvæmniaukning í þágu neytenda en á kostnað starfsfólks hefur því ekki endilega jákvæð samfélagsleg áhrif í för með sér þó svo að samfélagsleg heildarhagsæld kunni að aukast. Hættan er einkum sú að misskipting auðs aukist á milli starfsfólks í veikri stöðu og þeirra neytenda sem eru í sterkri efnahagslegri stöðu og þá sérstaklega neytenda sem einnig eru eigendur fyrirtækja og fjármagns,“ var haft eftir Hauki í umfjölluninni á vef HÍ.
„Gigg-hagkerfið“ til umfjöllunar í Brussel
Hann segir við Kjarnann að á vettvangi Evrópusambandsins, úti í Brussel, sé nú nokkur umræða um þessi efni og bendir hann á að íslenskur samkeppnisréttur mótist mikið af þeim evrópska og síðan gildi reglur EES-réttar á sviði samkeppnisréttar einnig hérlendis.
„Eitt það nýjasta sem er í gangi [í Brussel] núna er umræða um það sem kallað hefur verið „gigg-hagkerfið“, þar sem fyrirtæki eru mikið að ráða til sín svona einyrkja-verktaka. Það hefur verið rætt um að staða þeirra sé ekki sterk þegar kemur að því að semja um kaup og kjör og þetta sé fyrst og fremst leið fyrirtækja til þess að lágmarka kostnað, með því að semja við verktaka sem eru mögulega í veikri stöðu gagnvart þeim.“
Hann segir það verðugt umhugsunarefni og spurningu, hvort fýsilegt væri að samkeppniseftirlit horfðu til áhrifa á vinnumarkaðsaðstæður þegar þau væru að skoða samruna fyrirtækja og það hvort að samrunar hafi það í för með sér að ákveðin fyrirtæki komist í mjög sterka stöðu gagnvart starfsfólki.
Í umfjölluninni á vef HÍ vakti Haukur athygli á því að sérstakri klausu um að meðal marksmiða íslensku samkeppnislaganna væri að stuðla að heilbrigðu samkeppnisumhverfi til hagsbóta fyrir neytendur hefði fyrst verið bætt inn í samkeppnislögin árið 2020.
Spurður út í þetta segir Haukur að vissulega hafi verið horft til stefnunnar sem hafi verið við lýði í evrópskum rétti og það skipti kannski ekki „öllu máli hvað menn eru að skrifa inn í íslensku samkeppnislögin, þannig séð.“
„En þetta er hins vegar áhugaverð fótnóta, að loksins er þessi hugmynd tekin upp í íslensku lögin um það leyti sem byrjað er að fjara undan henni erlendis. Það er áhugavert, hvernig hugmyndir berast alltaf til Íslands með smá töf.“