Í Danmörku geta foreldrar verið dæmdir óhæfir jafnvel áður en þeir eignast börn. Svona hefst umfjöllun danska ríkisútvarpsins um fimm danska einstaklinga og pör sem fengið hafa neitun um frjósemismeðferð vegna sögu um geðræn vandamál foreldranna.
Frá árinu 2011 hafa í Danmörku verið í gildi lög sem kveða á um að meta skuli hæfni fólks til foreldrahlutverksins áður en það fær samþykki fyrir frjósemismeðferð. Lögin voru sett í kjölfar þess að par, sem kynnst hafði á geðsjúkrahúsi, gekkst undir slíka meðferð en reyndust svo óhæf til að sinna barninu, sem tekið var af því fimm vikum eftir fæðingu. Flestir eru hlynntir því að einhvers konar mat fari fram en margir telja framkvæmdina eins og hún er í dag ófullnægjandi.
Ferlið er þannig að heilbrigðisstofnanir sem framkvæma frjósemismeðferðir geta, ef þær telja tilefni til, vísað umsækjendum í sérstakt hæfnismat þar sem umsækjendur þurfa að skrifa undir leyfi þess efnis að matsaðili fái aðgang að öllum sjúkraskýrslum sem og upplýsingum sem ríki og sveitarfélög, svo sem úr félagsþjónustu, hefur á skrá um einstaklinginn. Mat þetta er svo ávallt framkvæmt af lögfræðingum í Suður-Danmörku, alveg sama hvar sótt hefur verið um frjósemismeðferðina.
Eitt barn samþykkt, annað ekki
Lögfræðingar þessir taka svo ákvörðun um hæfni umsækjendanna til foreldrahlutverksins út frá gögnunum, og gögnunum eingöngu. Þetta er það sem helst hefur verið gagnrýnt, en dæmi eru um að heimilislæknar, geðlæknar og félagsráðgjafar umsækjendanna sem um ræðir hafi allir metið það svo að þeir væru hæfir til foreldrahlutverksins, en að lögfræðingar jafnvel hundruð kílómetra í burtu hafi neitað umsókn þeirra vegna gagna á pappír.
Danska ríkisútvarpið setti sig í samband við fimm einstaklinga og fjölskyldur sem neitað hefur verið um frjósemismeðferð vegna slíks hæfnismats. Ein af áhrifaríkustu sögunum höfðu Karen og Pernille að segja. Karen komst fyrst á skrá hjá dönskum geðheilbrigðisyfirvöldum ellefu ára gömul og hefur tvisvar verið lögð inn á geðsjúkrahús á fullorðinsárum og var í kjölfarið greind með vægan geðklofa. Karen er öryrki vegna geðsjúkdómsins þrátt fyrir að honum sé haldið í skefjum með lyfjum.
Karen og Pernille langaði að stofna fjölskyldu og gengu fyrst úr skugga um að heimilislæknir, geðlæknir og félagsráðgjafi Karenar teldu hana tilbúna í foreldrahlutverkið, sem þeir og gerðu. Þegar á hólminn var komið fengu þær hins vegar synjun vegna mats lögfræðinganna í Suður-Danmörku, sem töldu Karen ekki hæfa í foreldrahlutverkið. Synjunin barst í mars 2018, en parið áfrýjaði ákvörðuninni sem var svo snúið við í október sama ár. Rúmu ári síðar fæddist Elie, sem nú er tveggja ára gömul heilbrigð og lífsglöð stúlka.
Foreldrahlutverkið gengur vel, að mati Karenar og Pernille, og langar þær í fleiri börn. En þó að umsókn þeirra til frjósemismeðferðar hafi einu sinni verið samþykkt gilti hún aðeins fyrir eitt barn, og þurfti parið því að sækja um aftur. Ferlið var það sama, nú með nýjum upplýsingum úr sjúkra- og félagsskrám Karenar, sem sýna að ástand hennar sé stöðugt. Hins vegar kemur þar fram að vegna sjúkdómsins þurfi hún sérstaklega mikla hvíld, en frá klukkan ellefu til fjögur á daginn dregur hún sig í hlé til að hlaða batteríin. Af þessum ástæðum töldu matsmennirnir ekki að Karen væri hæf til þess að eignast annað barn.
Kalla eftir heildstæðu mati
Karen og Pernille furða sig á niðurstöðunni og að ekkert tillit sé tekið til þess hve vel hefur gengið að ala upp Elie. Karen segir hvíldina sem hún tekur hafa mjög takmörkuð áhrif á uppeldið, enda fari hún fram á meðan Perniller er í vinnunni og Elie á leikskólanum. Þegar fjölskyldan komi heim sé hún tilbúin að taka á móti þeim og taka fullan þátt í uppeldinu.
Sérfræðingar eru sammála því að það mat sem fram fari í dag sé engan veginn nógu heildstætt. Flestir eru sammála því að einhverjar kröfur eigi að setja þeim sem sækja um frjósemismeðferðir, enda eigi samfélagið ekki að aðstoða óhæft fólk við að koma börnum í heiminn. Hins vegar þurfi að gæta sanngirni og ekki megi ala á gamaldags fordómum gegn geðsjúkdómum.
Meðal þess sem sérfræðingar vísa í í þessum efnum er að í málum foreldra sem þegar eigi börn fari fram heildrænt mat á hæfni þeirra til að sjá um barnið, sem taki sálfræðing heilan mánuð í fullu starfi og fer meðal annars fram með heimilisheimsóknum, viðtölum og sálrænum prófum.
Karen vonast eftir því að dönsk yfirvöld breyti um stefnu í málaflokknum. Þangað til finnur hún fyrir aukinni pressu í tengslum við ummönnun Elie og óttast að koma ekki með réttu græjurnar á leikskólann eða segja ekki réttu hlutina, eða mæta með skítugt hár, þannig að einhver sjái hana og hugsi að hún sé vanhæf móðir.