Íslenskir gervilistamenn meðal þeirra sem taka yfir lagalista Spotify
Lög þeirra eru spiluð í milljónatali á Spotify. En listamennirnir eru í raun og veru ekki til. Íslenskir gervilistamenn eru í hópi 830 „listamanna“ sænsks útgáfufyrirtækis sem hefur tífaldað hagnað sinn á þremur árum. Framkvæmdastjóri STEFs kallar eftir því að Evrópusambandið rannsaki starfsemi Spotify.
Íslenski listamaðurinn Ekfat er í hópi rúmlega 800 listamanna á Spotify sem Dagens Nyheter fjallaði um í fréttaskýringu nýverið þar sem í ljós kemur að listamennirnir eru í raun og veru ekki til en sænskt útgáfufyrirtæki, Firefly Entertainment, hagnast á tónlist í þeirra nafni á Spotify. Fyrirtækið hefur tífaldað tekjur sínar á skömmum tíma og hefur um langa hríð átt í nánum samskiptum við starfsmann í stjórnendateymi Spotify.
Ekfat er einn af íslensku listamönnunum sem eru á skrá hjá Firefly Entertainment. Hann er sérlega áhugaverður, ekki síst vegna upprunans. Hann er íslenskur og hluti af hinu „goðsagnakennda útgáfufyrirtæki Smekkleysa Lo-Fi Rockers“. Ekfat er listamannsnafn Guðmundar Gunnarssonar, klassísks tónlistarmanns, en undir listamannsnafninu gerir hann hroðvirknislegt hip-hop án söngs. Erfitt var að nálgast tónlist hans, þar til nýlega, þar sem hann gaf tónlist sína aðeins út á kasettum í litlum upplögum. Allt þetta má lesa um Ekfat á Spotify. Vinsaælasta lag hans, „Polar Circle“, er með yfir 3,5 milljónir spilanir og meðal annarra vinsælla laga má nefna „Singapore“, „Geyser“ og „Loki“. Spotify hefur merkt Ekfat sem „viðurkenndan tónlistarmann“.
Þau sem eru vel að sér í íslenskri tónlist ættu að sjá augljósu tenginguna við þekktustu tónlistarkonu Íslands: Björk Guðmundsdóttur. Faðir hennar heitir einmitt Guðmundur Gunnarsson og sjálf hefur Björk gefið út tónlist hjá Smekkleysu.
Staðreyndin er sú að Ekfat, auk fjölda annarra tónlistarmanna sem eru á Spotify, eru ekki til. Það sem er hins vegar til er fyrirtæki sem veltir milljónum dollara þar sem stjórnendur þess hafa náin tengsl við fyrrverandi stjórnanda hjá Spotify.
Blaðamenn Dagens Nyheter báru upplýsingar úr gagnagrunni Spotify saman við upplýsingar frá samtökum höfunda og rétthafa um höfundarétt á sviði tónlistar sem varpað hafa ljósi á hundruð gervilistamanna líkt og Ekfat.
830 listamenn má rekja til sænska útgáfufélagsins Firefly Entertainment, sem er skráð með aðsetur annars vegar í Karlstad í Svíþjóð og hins vegar í Singapore. Einn af stofnendum Firefly Entertainment starfaði áður sem einn af æðstu stjórnendum Spotify.
Gervilistamennirnir eiga fleira sameiginlegt en að vera á skrá hjá sama útgáfufyrirtækinu. Margir virðast hafa gífurlegri velgengni að fagna, þrátt fyrir að vera lítið sem ekkert þekktir. Spilanir laga sumra hlaupa á milljónum.
Um 500 gervilistamannanna má rekja til 20 skráðra höfunda hjá samtökum höfunda og rétthafa um höfundarétt á sviði tónlistar í Svíþjóð, STIM. Sumir þeirra eru vel þekktir tónlistarmenn en aðrir er alveg óþekktir innan sænsku tónlistarsenunnar. Sem dæmi má nefna að á bak við lög Ekfat eru þrír óþekktir sænskir höfundar, sem tengja má við 89 gervilistamenn til viðbótar sem eru á skrá hjá Firefly Entertainment.
Þá er maður sem búsettur er í Karlstad í Svíþjóð skráður höfundur að minnsta kosti 62 gervilistamanna sem gefa honum 7,7 milljónir spilana mánaðarlega. Til að setja það í stærra samhengi má nefna að Robyn, ein skærasta poppstjarna Svíþjóðar sem er vel þekkt á heimsvísu, er með um 3,4 milljónir hlustenda á mánuði.
Erfiðlega gekk að ná sambandi við höfundana og þeir örfáu sem svöruðu blaðamönnum Dagens Nyheter vildu lítið tjá sig um störf sín fyrir Firefly Entertainment. Einn þeirra, sem kaus að koma ekki fram undir nafni, sagðist hafa samið tónlist fyrir útgáfufyrirtækið en sagðist ekki vita í hvaða tilgangi tónlistin var notuð. Yfir þrjátíu laga hans hafa verið gefin út í nafni gervilistamanna en hann sagðist ekki vita af því. „Nei, það hringir engum bjöllum.“
Snýst allt um að komast á lagalista Spotify
Rík ástæða er fyrir velgengni gervilistamannanna. Þeim hefur tekist að fá pláss á lagalistum sem Spotify setur saman.
Á hverjum degi er um 60 þúsund lögum hlaðið upp á Spotify. Ef lagið fær pláss á lista sem Spotify setur saman og leggur til við áskrifendur að leggja við hlustir eru líkurnar meiri en minni að lagið komist á flug.
Lög á vegum Firefly Entertainment hefur gengið lygilega vel að komast á lista sem þessa. Af 830 gervilistamönnunum eru að minnsta kosti 495 þeirra á lagalistum með lögum án söngs. Á lista sem ber titilinn „Intense studying“, sem er væntanlega hugsaður fyrir þau sem vilja fyrsta flokks einbeitingu, má finna 26 lög gervilistamanna á vegum Firefly Entertainment. Alls eru um 200 lög á listanum og fylgjendur hans eru 2,3 milljónir.
Tekjur Firefly Entertainment hafa vaxið gríðarlega á síðustu árum. Hagnaður fyrirtækisins nam 65 milljónum sænskra króna árið 2020, eða sem nemur 893 milljónum íslenskra króna, og tífaldaðist hagnaðurinn á þremur árum. Sama ár greiddi fyrirtækið yfir 15 milljónir sænskra króna í arð, eða rúmar 205 milljónir íslenskra króna. Í ársskýrslu útgáfufyrirtækisins frá 2019 segir að aukinn hagnað megi „fyrst og fremst rekja til streymisveitna“.
Í umfjöllun Dagens Nyheter er rætt við tónlistarmann sem bauðst, í gegnum millilið, að gera tónlist undir fölsku nafni sem gefin yrði úr af Firefly Entertainment. Tilboðið var kynnt sem „auðveld leið til að græða peninga hratt“, tónlistin má vera hraðunnin með tilbúnum töktum og auðveldum hljómum. Tónlistarmanninum var einnig sagt að góðar líkur væru á að tónlistin myndi enda á vinsælum lagalistum Spotify vegna sérstakra tengsla útgáfufyrirtækisins við Spotify, án þess að gefa meira upp um þau tengsl.
Fyrrverandi stjórnandi hjá Spotify greiðir leiðina
Tengiliðurinn er Nick Holmstén, stofnandi tónlistarfyrirtækisins Tunigo sem gaf meðal annar út samnefnt smáforrit. Spotify keypti Tunigo árið 2013 og Holmstén varð síðar hluti af yfirstjórn Spotify.
Við rannsókn blaðamanna Dagens Nyheter á Firefly Entertainment kom í ljós að Holmstén er náinn vinur eins stofnenda fyrirtækisins. Þeir eru báðir frá Karlstad og sjá má fjölda mynda af þeim saman á samfélagsmiðlum, hvort sem það er í gleðskap eða fjölskyldumatarboðum.
Holmstén lét af störfum hjá Spotify síðari hluta árs 2019. Í dag er hann í stjórn afþreyingar- og tónlistarfyrirtækis í New York þar sem Firefly Entertainment er hluthafi.
Stjórnendur Firefly Entertainment höfnuðu viðtali þegar blaðamenn Dagens Nyheter leituðu eftir því. Í skriflegu svari fyrirtækisins segir að það „hafi gert samkomulag við Spotify á sama hátt og þúsund önnur fyrirtæki“. Fyrirtækið neitar einnig öllum tengslum við Holmstén sem gætu haft áhrif á störf þess.
Holmstén sjálfur neitaði að veita viðtal. Það gerði Daniel Ek, stofnandi Spotify, og aðrir stjórnendur einnig.
Umræða um gervilistamenn á Spotify er ekki ný af nálinni. The Verge fjallaði um gervilistamennina í umfangsmikilli fréttaskýringu árið 2017 þar sem kom meðal annars fram að Spotify réði fyrirtæki til að framleiða tónlist eingöngu fyrir ákveðna lagalista.
Talsmaður Spotify segir í skriflegu svari til Dagens Nyheter vegna umfjöllunarinnar sem birtist nýlega að varðandi lagalistana sé það stefna Spotify að velja það sem höfðar til hlustenda hvers lagalista. „Tónlistarritstjórar okkar eru sérfræðingar á mismunandi menningarsviðum og tónlistarstefnum og líta til margra þátta svo sem gagna, tískustrauma og stefna, við samsetningu lagalistanna“.
Mörgum spurningum er hins vegar enn ósvarað. Hvernig geta gervilistamenn verið merktir sem viðurkenndir af Spotify og hafa tengsl Nick Holmstén við Spotify haft áhrif á aðgang Firefly að lagalistum Spotify?
„Algjörlega siðlaust“
Íslenskir gervilistamenn á Spotify eru sömuleiðis ekkert nýnæmi. Guðrún Björk Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri STEF, segir í samtali við Kjarnann að þeirra hafi verið fyrst vart fyrir nokkrum árum.
„Þetta var fyndið í fyrstu þegar eitt og eitt nafn dúkkaði upp,“ segir hún. Listamennirnir vöktu strax athygli vegna nafna sinna og lög þeirra, sem flest báru íslensk örnefni, þóttu einnig einkennileg. Fljótlega hafi þó komið í ljós að málið er öllu alvarlegra.
Lagaumgjörðin um notkun gervilistamanna er óljós en Guðrún Björk segir að hægt sé að færa rök fyrir því að Spotify sé að misnota markaðsráðandi stöðu sína með því að láta tilvist gervilistamannanna viðgangast. „Þetta er algjörlega siðlaust.“
„Við höfum ekki beint okkur beint gegn Spotify enn sem komið er en STEF vakti athygli á málinu á norrænum fundi höfundaréttasamtaka í nóvember þar sem það vakti mikla athygli,“ segir Guðrún Björk.
Stjórnarsvið samkeppnismála hjá ESB rannsaki starfshætti Spotify
Ísland semur við Spotify ásamt öðrum Norðurlöndum til nokkurra ára í senn og segir Guðrún Björk að notkun Spotify á íslenskum gervilistamönnum verði tekin upp í næstu samningalotu, jafnvel fyrr. Þá kemur einnig til greina að leita til stjórnarsviðs samkeppnismála hjá framkvæmdarstjórn Evrópusambandsins sem geti hafið frumkvæðisathugun á starfsemi Spotify. Að hennar mati varpar afhjúpun Dagens Nyheter aðeins ljósi á brotabrot af þeim gervilistamönnum sem finna má á Spotify.
„Spotify hefur getað svarið þetta af sér hingað til en vonandi verður umræðan í kjölfar umfjöllunar Dagens Nyheter til þess að eitthvað fari að gerast,“ segir Guðrún Björk.