Rammaáætlun samþykkt: Virkjanir í Héraðsvötnum og við Þjórsárver aftur á dagskrá
Atkvæðagreiðsla um rammaáætlun á Alþingi kom ekki stórkostlega á óvart. Kosið var nokkurn veginn eftir flokkslínum ef undan er skilinn Bjarni Jónsson, þingmaður Vinstri grænna. „Þingmaðurinn segir nei,“ sagði hins vegar forsætisráðherra um tillögu þess efnis að halda Héraðsvötnum og Kjalölduveitu í verndarflokki. Farið var fram á nafnakall.
Tillaga um að færa Hvammsvirkjun úr nýtingu í biðflokk: Felld (Já: 13, nei: 37).
Tillaga um að færa Hvalárvirkjun úr nýtingarflokki í bið: Felld (Já: 17, nei: 32).
Tillaga um að halda virkjunum í Héraðsvötnum og Kjalölduveitu í verndarflokki: Felld (Já: 21, nei: 33).
Breytingartillaga meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar: Samþykkt (Já: 33, nei: 13).
Breytt þingsályktunartillaga að þriðja áfanga rammaáætlunar í heild: Samþykkt (Já: 34, nei: 7, greiddu ekki atkvæði: 15).
Þá er hún loks afgreidd á Alþingi, tillaga að þriðja áfanga rammaáætlunar um vernd og nýtingu landsvæða. Í tæp sex ár hefur hún þvælst á milli umhverfisráðherra, alls fjögurra talsins, tillagan sem upprunalega var alfarið byggð á tillögum verkefnisstjórnar rammaáætlunar sem lauk störfum haustið 2016.
Síðan hefur mikið vatn til sjávar runnið.
Það er þó ekki lengur stóriðjan sem kallar á fleiri virkjanir líkt og var fyrir nokkrum árum og áratugum heldur orkuskiptin svokölluðu sem eru áhersluatriði íslenskra stjórnvalda í viðbrögðum við loftslagsvánni. Hvort að virkja þurfi sérstaklega vegna þeirra er hins vegar umdeilt.
Sú rammaáætlun sem samþykkt var á Alþingi í dag er talsvert frábrugðin upprunanum. Í takti við tillögur meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar eru þrír virkjunarkostir færðir úr nýtingarflokki tillögunnar í biðflokk og fimm úr verndarflokki í bið. Einn kostur, vindorkuverið Búrfellslundur, er færður úr bið í nýtingarflokk. Þá hafa verið felldar út úr áætluninni tæplega þrjátíu virkjanakostir sem Orkustofnun lagði fram á sínum tíma en enginn ákveðinn virkjunaraðili hafði sóst eftir að nýta.
Rammaáætlun er stjórntæki, byggt á lögum um vernd og nýtingu landsvæða, þar sem verkefnisstjórn hvers áfanga og faghópar hans, skipaðir sérfræðingum úr ýmsum áttum, meta framlagða virkjunarkosti og flokka þá í þrennt. Í orkunýtingarflokk fara þeir kostir sem talið er ásættanlegt að verði að veruleika. Í verndarflokk fara þeir kostir og þau landsvæði sem þeir tilheyra sem talið er að beri að vernda fyrir orkuvinnslu. Í biðflokkinn fara svo þeir kostir sem upplýsingar og gögn um skortir áður en ákveðið verður í hvorn hinna tveggja flokkanna þeir skipast.
Með breytingunum sem gerðar voru enda sextán virkjanakostir í nýtingarflokki, sautján í biðflokki og níu í verndarflokki.
Atkvæðagreiðslan um rammaáætlun með orðum ráðherra og þingmanna
„Þingmaðurinn segir nei.“
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, svarar í nafnakalli í afgreiðslu á tillögu um að halda Héraðsvötnum og Kjalölduveitu í verndarflokki.
„Já ... Nei!“
Teitur Björn Einarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er hann var að greiða atkvæði um sömu tillögu og Katrín.
„Þingmenn sem greiða atkvæði með því að að taka Héraðsvötn og Kjalölduveitu úr vernd munu ekki koma vel út í ljósi sögunnar.“
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, varaþingmaður Samfylkingarinnar.
„Ég legg til að þingmenn meirihlutans fletti orðinu vernd upp í orðabók. Ég kýs með náttúrunni og ég kýs með náttúrunni á Vestfjörðum og þeirri fegurð sem er á Ströndum.“
Gísli Rafn Ólafsson, þingmaður Pírata.
„Sá partur sem fær kannski mestu verndina í gegnum rammann er kannski bara ríkisstjórnin sjálf.“
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar.
„Það er engum blöðum um það að fletta að í Héraðsvötnum er um mikil náttúruverðmæti að ræða. Þau náttúruverðmæti eru ekkert að fara. Þetta er biðleikur í náttúruvernd.“
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra og fyrrverandi umhverfisráðherra.
„Annað hvort er fólk, virðist vera uppi á hálendi að gróðursetja eða uppi á hálendi með gröfu. Eins og það sé aldrei neinn millivegur þar á milli. Ef menn ætla að spila einhverja biðleiki þarf að gera það með rökum. Rök skortir. Þess vegna leika menn ekki biðleiki.“
Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar.
„Nei, við þurfum ekki að leika þann biðleik. Við getum staðið í lappirnar með náttúru Íslands“
Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
„Það má vera að Kaupfélag Skagfirðinga sé í sérstökum verndarflokki hjá þessari ríkisstjórn en ég tel að þessar náttúruperlur megi vera það líka.“
Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar.
„Meirihluti stjórnarflokkanna vil láta athuga hvort ekki sé í lagi að láta þurrka upp fossinn Dynk.“
Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, um þá ákvörðun að færa Kjalölduveitu í biðflokk.
„Hér erum við með skólabókardæmi um pólun samfélagsins, þessi atkvæðagreiðsla sem hér fer fram ætti að vera að kennd í félagsfræðinni uppi í háskóla. Þeir sem eru ekki allir alfarið með kostum til friðunar, þeir eru gjörnýtingarsinnar.“
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.
„Við Vinstri græn gætum að [náttúruverndarsjónarmiðum], það er eitt af okkar brýnasta erindi í stjórnmálum, hér eftir sem hingað til.“
Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra.
„Með stærri biðflokki erum við einungis að leggja til að hlutir séu skoðaðir betur.“
Orri Páll Jóhannsson, þingmaður Vinstri grænna.
„Að lokum vil ég spyrja: Hvar er hæstvirtur umhverfisráðherra?“
Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar er atkvæðagreiðsla var að hefjast.
„Hæstvirtur umhverfisráðherra er með fjarvist í dag.“
Birgir Ármannsson, forseti Alþingis.
„Mín kynslóð eru náttúrusóðar. Ég ætla að kjósa með mínum barnabörnum. Ég tel að í þessari rammaáætlun séu ákveðin atriði sem er alls ekki hægt að styðja.“
Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins.
„Með Kjalölduveitu er látið undan dylgjum Landsvirkjunar. [...] Það er hlustað á vælið í Kaupfélagi Skagfirðinga því það vill fá sína virkjun.“
Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata. Kaupfélag Skagfirðinga á mikinn meirihluta í Héraðsvötnum ehf. sem standa að virkjanahugmyndum á svæðinu.
„Ég hélt að ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefði verið stofnuð til að endurspegla breiddina í samfélaginu – alla leið frá vinstri til hægri. Alla leið frá vernd yfir í þaulnýtingu. Í dag kemur í ljós að það er ekki erindi þessarar ríkisstjórnar. Hún endurspeglar sinn innri bergmálshelli. Og þar heyrast köllin úr Skagafirðinum hæst, köllin frá þeim sem vilja færa auðmönnum og stórfyrirtækjum náttúrugersemarnar okkar á silfurfati.“
Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
„Ég segi: Til hamingju Ísland.“
Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður umhverfis- og samgöngunefndar, er rammaáætlun hafði verið samþykkt.
„Fyrir er tekið annað dagskrármálið, pakkaferðir og samtengd ferðatilhögun.“