Skjáskot af vef Alþingis Rósa Björk, Bjarni og Þórunn Mynd: Alþingi/skjáskot
Þrír þingmenn héldu ræður í gær með grátstafinn í kverkunum. Rammaáætlun kann að vera fráhrinandi orð en náttúran sem í henni er um fjallað snertir við mörgum.
Skjáskot af vef Alþingis

Tár, bros og leitin að grænu hjörtunum

Litla gula hænan, pólitískur býttileikur, refskák og hrossakaup. Málamiðlanir og ómögulegir draumar. Auðmenn og stjórnmálaflokkar sem hafa „skrælnað“ að innan. Allt kom þetta við sögu í umræðum um rammaáætlun á Alþingi þar sem tekist var á um vernd og nýtingu náttúrunnar. Þrír þingmenn komust við og einn þeirra spurði Vinstri græn: „Hvar er græna hjartað?“

Ég held að engan hafi dreymt um það að það væri almenn sátt um alla hluti þegar að þessu kem­ur.“

Þetta sagði Guð­laugur Þór Þórð­ar­son, umhverf­is- orku- og lofts­lags­ráð­herra, í umræðu um ramma­á­ætlun á Alþingi í gær­kvöldi. Þá hafði hver stjórn­ar­and­stöðu þing­mað­ur­inn, sem og einn stjórn­ar­liði, á fætur öðrum staðið í ræðu­stól og gagn­rýnt að til stæði að færa virkj­ana­kosti úr vernd­ar­flokki áætl­un­ar. Fámennt var á bekk ráð­herr­anna í umræð­unni. Þar var for­sæt­is­ráð­herra til dæmis ekki sjá­an­leg­ur.

„Það er algjör­lega úti­lok­að,“ sagði umhverf­is­ráð­herrann, „að við náum þeim háleitu mark­miðum sem við höfum sett okk­ur, þegar við tökum út bensín og dísil, án þess að koma með græna orku í stað­inn. Algjör­lega ómögu­legt. Og ég veit ekki til þess að neinum detti það í hug.“

Hann benti á að ekki stæði til að færa neina virkj­un­ar­kosti úr vernd­ar­flokki í nýt­ing­ar­flokk – aðeins í bið­flokk og sagði það „ómak­legt“ og „ósann­gjarnt“ að væna meiri­hluta umhverf­is- og sam­göngu­nefnd­ar, sem lagt hefur til breyt­ing­arnar á ramma­á­ætl­un, að hafa ekki rök­stutt þær vel.

Ráð­herr­ann var nokkuð brúna­þungur er hann steig í ræðu­stól á sjö­unda tím­anum í gær­kvöldi eftir að hafa hlustað á gagn­rýn­ina. Bað hann þing­menn Pírata og Sam­fylk­ingar um að líta sér nær – til sinna heima­haga í Reykja­vík. Í borg­inni sem þessir flokkar færu með stjórn á stæði til að raska ósnort­inni strand­lengju í Skerja­firði sem væri „um­hverf­isslys í upp­sigl­ing­u“.

Bjarni Jónsson í upphafi ræðu sinnar. Mynd: Alþingi/skjáskot

Það var hins vegar allt annar fjörður sem var Bjarna Jóns­syni, þing­manni Vinstri grænna, ofar í huga: Skaga­fjörð­ur. Þar sat hann í sveit­ar­stjórn í tvo ára­tugi og var far­inn að sjá hylla undir sátt um að vernda Hér­aðs­vötnin og jök­ulsárnar eftir þrot­lausa bar­áttu. „Að þær fengju runnið frjálsar til sjávar um ókomna tíð,“ sagði hann um það leyti sem Guð­laugur Þór stóð upp úr sæti sínu og gekk úr þing­sal. Það fór ekki fram­hjá Bjarna. „Og ég hefði alveg kosið að hæst­virtur umhverf­is­ráð­herra með meiru sæti hér undir ræðu minn­i.“

Guð­laugur kom aftur til sætis skömmu síðar er Bjarni var að rifja upp að VG hefði unnið sinn fyrsta kosn­inga­sigur í Skaga­firði árið 2002, ekki síst vegna lof­orða um verndun jök­ulsánna. Fyrir nokkrum mán­uðum hafi hann sent inn umsögn við þings­á­lykt­un­ar­til­lögu að ramma­á­ætlun og fagnað því að setja ætti árnar í Skaga­firði í vernd­ar­flokk. „Hér stend ég nú, á Alþingi sjálfu, með til­lögu meiri­hluta umhverf­is- og sam­göngu­nefndar í hönd­un­um, sem leggur til að færa Hér­aðs­vötn­in, jök­ulsárn­ar, úr vernd­ar­flokki í bið­flokk og í óviss­una.“

Bjarni Jónsson komst við undir lok ræðu sinnar. Mynd: Alþingi/skjáskot

Að slíku nefnd­ar­á­liti gæti hann ekki stað­ið. „Ég verð,“ sagði hann með áherslu, „að standa áfram með fólk­inu mínu sem hefur háð ...“

Bjarni kláraði ekki setn­ing­una. Hann var við það að bresta í grát. Kyngdi stórum kökk áður en hann hélt áfram: „Fólk­inu sem hefur háð með mér bar­átt­una fyrir verndun jök­ulsánna í Skaga­firð­i.“

Enn barð­ist hann við grát­inn en lét ekki deigan síga. Hélt ótrauður áfram. Sagð­ist þurfa að standa með öllu því fólki sem treysti á sig og aðra þing­menn, „fólk­inu sem stendur með nátt­úr­unni sjálfri.“

Hann lauk ræðu sinni af krafti.

„Heyr, heyr!“ mátti heyra frá öðrum þing­mönnum í saln­um.

Bjarni var ekki eini þing­mað­ur­inn sem komst við í umræð­unum í gær­kvöldi. Þór­unn Svein­bjarn­ar­dótt­ir, þing­maður Sam­fylk­ing­ar­innar og fyrr­ver­andi umhverf­is­ráð­herra, gerði það einnig. Og sömu­leiðis Rósa Björk Brynj­ólfs­dótt­ir, vara­þing­maður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar. Hún líkt og Andrés Ingi Jóns­son, þing­maður Pírata, létu bæði til sín taka og gagn­rýndu máls­með­ferð­ina. Þau eiga það auk þess sam­eig­in­legt að hafa skilið við sinn gamla flokk, Vinstri græna, á síð­asta kjör­tíma­bili.

Rósa Björk beindi orðum sínum til Vinstri grænna og spurði: Hvar eruð þið? Mynd: Alþingi/skjáskot

„Hvar eruð þið?“ spurði Rósa Björk fyrr­ver­andi flokks­fé­laga sína. „Hvar er græna hjartað í hreyf­ing­unni sem stofnuð var í kringum nátt­úru- og umhverf­is­vernd?“

Bjarni var eini þing­maður stjórn­ar­flokk­anna sem and­mælti breyt­ing­ar­til­lög­un­um. Hann er full­trúi í umhverf­is- og sam­göngu­nefnd en skrif­aði ekki undir meiri­hluta­á­lit­ið. Það gerði hins vegar félagi hans úr VG, þing­mað­ur­inn Orri Páll Jóhanns­son, sem Bjarni hrós­aði fyrir að hafa átt stóran þátt í að koma inn í álitið nokkrum jákvæðum breyt­ingum fyrir nátt­úr­una.

Orri Páll sagð­ist enda telja sig nátt­úru­vernd­ar­sinna. Benti svo á að tafir á afgreiðslu þriðja áfanga ramma­á­ætl­un­ar, sem fyrst var lagður fram í þings­á­lykt­un­ar­til­lögu haustið 2016, hafi skaðað umræð­una. Stein­inn hafi tekið úr í vetur þegar umræða um raf­orku gekk „fjöllum hærra“ og ekki alltaf byggð á „skýrum – skulum við segja – rök­um“.

Orri Páll Jóhannsson, þingmaður VG stóð að áliti meirihluta nefndarinnar. Mynd: Bára Huld Beck

Ísland fram­leiðir einna mest af raf­orku í heim­inum miðað við mann­fjölda, benti hann á. „Það er ekki þar með sagt að við mætum orku­skipt­un­um, sem er nauð­syn­legt að mæta, ein­vörð­ungu með því að brjóta nýtt land.“

„Ákveðnir aðil­ar“ hefðu talað mjög stíft fyrir því að frek­ari orku­vinnsla væri eina leið­in, og „allskyns – leyfi ég mér að segja, virðu­legi for­seti – útópískar hug­myndir um það að hér verði engin fram­tíð nema að við öflum orku með stór­virkum vinnu­vél­um. Ég sjálfur hafna þessu – hafna þess­ari nálg­un.“

Þing­mað­ur­inn, sem var aðstoð­ar­maður umhverf­is­ráð­herr­ans Guð­mundar Inga Guð­brands­sonar á síð­asta kjör­tíma­bili, sagði til­lögur meiri­hlut­ans að til­færslum kosta úr vernd­ar­flokki í bið­flokk ekki fela í sér „nein skila­boð“ um að þeir eigi svo að fara í nýt­ing­ar­flokk. „Ég minni á að nátt­úru­verð­mætin eru ekki far­in. Þau eru þarna og hafa ef til vill auk­ist í ein­hverjum til­fell­u­m.“ Slíkt muni koma í ljós við mat nýrra fag­hópa og verk­efn­is­stjórnar fimmta áfanga ramma­á­ætl­un­ar.

Gagn­rýni þing­manna minni­hlut­ans sem stigu í pontu á Alþingi í gær snýr m.a. líkt og hjá Bjarna að því að færa eigi virkj­un­ar­kosti í Skaga­firði sem og Kjalöldu­veitu í efri hluta Þjórsár úr vernd­ar­flokki. Þeir sögð­ust hins vegar styðja að Skrokköldu­virkjun sem áformuð er í nágrenni Vatna­jök­uls­þjóð­garðs fær­ist úr nýt­ing­ar­flokki. Sögð­ust einnig sam­þykkir því að færa tvær virkj­anir í neðri hluta Þjórsár úr þeim flokki en þóttu rökin sem beitt væri til að skilja þriðju virkj­un­ina á svip­uðum slóð­um, Hvamms­virkj­un, eftir í nýt­ing­ar­flokki, hæpna.

Andrés Ingi Jónsson leggur áherslu á orð sín í ræðustóli í gær. Mynd: Alþingi/skjáskot

Andrés Ingi lagði því fram breyt­inga­til­lögu um að Hvamms­virkjun færi sömu leið og systur hennar neðar í Þjórsá – í bið­flokk. Að færa hana ekki með hinum tveimur gerði „að engu“ orð meiri­hlut­ans um að skoða virkj­ana­kost­ina þrjá sem heild. „Ef meiri­hlut­inn vill að [virkj­an­irn­ar] verði skoð­aðar sem í heild, þá þurfa þær bara allar að fara í bið.“

Andrés lagði einnig fram til­lögu um að setja Hval­ár­virkjun á Strönd­um, sem verið hefur í nýt­ing­ar­flokki frá árinu 2013, í bið­flokk. Það ætti að gera með sömu rökum og taka á Skrokköldu úr nýt­ing­ar­flokkn­um, sagði Rósa Björk enda hnígi allar seinni tíma rann­sóknir að því að hún myndi skerða stóran hluta víð­erna Dranga­jök­uls­svæð­is­ins og sé „al­gjör­lega óásætt­an­leg“ fyrir nátt­úru­vernd dags­ins í dag. „Meiri­hlut­inn hand­velur rök, sem eiga að styðja breyt­ingar á hverjum virkj­un­ar­kosti fyrir sig, en afneitar því miður vís­vit­andi, greini­lega, öllum vís­inda­legum og fag­legum gögnum sem mæla fyrir vernd­ar­flokkun umræddra kosta,“ sagði hún.

Þeir kostir sem færa eigi úr vernd­ar­flokki til­lög­unnar séu í jaðri mik­il­vægra víð­erna á hálend­inu. „Og jök­ul­árnar í Skaga­firði með sína ein­stöku nátt­úru eru aftur und­ir. Og fossar Skjálf­anda­fljóts fá ekki þann frið sem þeir eiga sann­ar­lega skil­ið. Ára­tuga­löng bar­átta nátt­úru­unn­enda fyrir var­an­legri sátt um vernd hinna helgu Þjórs­ár­vera og far­vegar Þjórsár er að engu gerð hér.“

Sam­þykki Alþingi breyt­ing­ar­til­lögu meiri­hluta nefnd­ar­innar verði „sú fag­lega sátt sem ramma­á­ætlun er ætlað að skapa end­an­lega rof­in“. Und­an­farið hafi verið hlustað á vís­inda­fólk, sagði Rósa, „og er ekki bara best að gera það áfram?“

Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar. Mynd: Bára Huld Beck

Jón Stein­dór Valdi­mars­son, þing­maður Við­reisn­ar, sagði það ekki gagn­rýn­is­vert, eitt og sér, að gera breyt­ingar á til­lög­um. En tók undir með Rósu Björk um að þær yrðu þá að vera ítar­lega rök­studdar sem til­lögur meiri­hlut­ans væru ekki. Gera yrði kröfu um að breyt­ingar séu „í þágu heild­ar­hags­muna en ekki sér­hags­muna.“ Nið­ur­staða meiri­hlut­ans væri „dap­ur­legur loka­hnykk­ur“ á umfjöllun umhverf­is- og sam­göngu­nefnd­ar.

„Já, herra for­seti, hvar skal byrj­a?“ sagði Andrés Ingi, þing­maður Pírata, á meðan hann rað­aði minnis­p­unktum sínum og útprent­uðum breyt­ing­ar­til­lögum sínum á ræðupúltið fyrir framan sig. „Kannski er best að byrja á að segja hversu leið­in­legt er að sjá farið svona illa með þetta verk­færi sem ramma­á­ætlun er. Verk­færi sem er ætlað að ná ... tja ... það er kannski erfitt að segja sátt, en að búa til ein­hvers konar leið til að koma saman ólíkum sjón­ar­miðum varð­andi nýt­ingu land­svæða.“

Andrés Ingi tekur við barmmerki með mynd af fossinum Dynk. Mynd: Alþingi/skjáskot

Hann gerði örstutt hlé á máli sínu er félagi hans í Píröt­um, þing­mað­ur­inn Gísli Rafn Ólafs­son, kom að ræðu­stólnum og færði honum barm­merki. „Og núna eru nátt­úru­vernd­ar­sam­tök mætt fyrir utan Alþingi til að mót­mæla vegna þess að það er verið að tæta þetta verk­færi í sundur á loka­metr­un­um,“ sagði Andrés á meðan hann nældi merkið í jakk­ann sinn.

„Hérna sýn­ist mér ég vera búinn að fá foss­inn Dynk,“ sagði hann svo og virti mynd­ina á merk­inu fyrir sér. Foss sem meiri­hlut­inn leggi til að taka úr vernd­ar­flokki. Ekki foss­inn sjálfan, bætti hann þó við, heldur Kjalöldu­veitu, sem Lands­virkjun leggi ríka áherslu á. Og Kjalöldu­veita „mun þurrka Dynk upp“.

Lands­virkjun eða Land­vernd?

Er Andrés sagði þetta var hvíslað utan úr sal að hann hefði ekki farið rétt með fyrr­ver­andi starfs­vett­vang Guð­mundar Inga, núver­andi vinnu­mála­ráð­herra en áður umhverf­is­ráð­herra. „Ahhh, já, hann var fram­kvæmda­stjóri Land­verndar,“ leið­rétti Andrés og hall­aði sér fram á púlt­ið, brosti og roðn­aði eilít­ið. Björn Leví, sem sat í stól for­seta Alþing­is, og hafði verið svip­brigða­laus undir ræð­unni, gat ekki heldur varist brosi. „Næsti bær,“ hélt Andrés áfram. „Það má vart á milli sjá þessa dag­ana.“

Hann segir það ekki koma á óvart hver nið­ur­staðan í umhverf­is- og sam­göngu­nefnd hefði ver­ið. Ýmis­legt var vel gert í nefnd­ar­starf­inu en hins vegar hafi eitt lyk­il­at­riði aldrei feng­ist inn í umræð­una. Hvernig ætti að upp­fylla þær óskir rík­is­stjórn­ar­inn­ar, fyrst og fremst „virkj­ana­flokk­anna“ Sjálf­stæð­is­flokks og Fram­sókn­ar, að stækka bið­flokk­inn. Af því hefði verið spurt en engin svör feng­ist. „Þetta var eins og að lesa Litlu, gulu hæn­una – allir sem við spurðum sögðu ekki ég, ekki ég.“

Kjalölduveita yrði gerð með stíflu í farvegi Þjórsár, skammt frá friðlandmörkum Þjórsárvera. Skjáskot: Landsvirkjun

En svörin feng­ust loks á loka­metrum nefnd­ar­starfs­ins. „Fyrir viku fengum við fyrst að vita hver hefði orðið mála­miðlun stjórn­ar­flokk­anna.“ Að færa þrjár virkj­anir úr nýt­ing­ar­flokki í bið­flokk en fimm úr vernd í bið.

Andr­ési finnst eðli­legt að mála­miðl­anir séu gerðar milli ólíkra hags­muna en það verði að gera á fag­legum grunni. „Mála­miðlun stjórn­ar­flokk­anna er ekk­ert slíkt. Heldur bara póli­tísk ref­skák þeirra á milli.“

Þetta hafi nefndin fengið í fangið þegar verið var að ganga frá þing­loka­samn­ing­um, „þegar mála­haug­ur­inn er svo stór að allt fellur í skugg­ann. Þetta er auð­vitað engin til­vilj­un,“ sagði hann með áherslu, „heldur með­vituð taktík stjórn­ar­flokka til að forð­ast umræðu um óverj­andi ákvörð­un.“

Var­úð­ar­regla fyrir virkj­ana­sinna

Hvað ein­kennir allar þessar breyt­ing­ar? spurði hann. „Það sem ein­kennir þær er að það er hlustað á virkj­un­ar­sinna.“ Var­úð­ar­regl­unni sé beitt „hægri vinstri“ í til­lögum meiri­hlut­ans en „ekki í þágu nátt­úr­unnar eins og á að ger­a“.

Andrés sagði heitar umræður skap­ast í kringum ramma­á­ætlun vegna þess að hún væri, þótt hún ætti ekk­ert að vera það, „síð­asta víg­ið“. Umhverf­is­mat setti enga bremsu á fram­kvæmdir – jafn­vel þótt það væri mjög nei­kvætt, líkt og raunin er í til­felli Hval­ár­virkj­unar sem dæmi.

Þór­unn Svein­bjarn­ar­dóttir sagð­ist við­ur­kenna að hún yrði döpur þegar „rót­að“ væri í sömu mál­un­um, sömu virkj­un­un­um, aftur og aft­ur. Haldið áfram að ýta og ýta. „Þrýsti­hóp­arn­ir, auð­menn­irn­ir, hafa kom­ist í til­lög­una og þess vegna er verið að færa til dæmis Hér­aðs­vötn­in.“

Hún bað Andrés að útskýra hvað væri eig­in­lega að ger­ast með hans gamla flokk, Vinstri græn. Andrés sagði að þegar flokkur sem gaf sig eitt sinn út fyrir að vera „besti nátt­úru­vernd­ar­flokkur í heimi“ væri kom­inn í lið með öfl­ugum hags­muna­öflum þá hefði bar­áttu­fólk, sem sumt hvert hefði barist við „ofureflið Lands­virkj­un“ í ára­tugi misst mik­il­vægt bak­land.

Þórunn Sveinbjarnar er döpur vegna breytinga sem til standa á rammaáætlun. Mynd: Alþingi/skjáskot

„En hvað ger­ist?“ spurði hann. „Flokkar skrælna stund­um. Skrælna að utan og inn­an.“ Það muni sjást í atkvæða­greiðsl­unni um þetta mál hvað þing­mönnum flokks­ins raun­veru­lega finnst.

Guð­laugur Þór, umhverf­is- orku- og lofts­lags­ráð­herra, sagði alltaf hafa legið fyrir að það væri alþing­is­manna að lokum að taka ákvörðun um ramma­á­ætl­un. Afgreiðsla hennar hefði dreg­ist og mik­il­vægt væri að ljúka henni. En engin mann­anna verk væru full­kom­in, „ekki einu sinni þing­mál eða nið­ur­stöður hátt­virtrar nefnd­ar“.

Þór­unn biðl­aði til þing­manna allra flokka að styðja ekki breyt­inga­til­lögu meiri­hlut­ans, svo að þau „hrika­legu mis­tök“ yrðu ekki gerð að virkj­ana­kostir í Skaga­firði og í jaðri Þjórs­ár­vera færu úr vernd­ar­flokki. Hún klökkn­aði er hún þakk­aði nátt­úru­vernd­ar­fólki fyrir sína bar­áttu.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. Mynd: Bára Huld Beck

Andrés hvatti sömu­leiðis þing­menn til að verja vernd­ar­flokk­inn fyrir „póli­tískum árásum“ stjórn­ar­flokk­anna. Guð­mundur Ingi Krist­ins­son, þing­maður Flokks fólks­ins, sagð­ist hafa margar efa­semdir um breyt­ing­ar­til­lögur meiri­hlut­ans og að hann gæti ekki stutt þær þótt flokks­fé­lagi hans, Jakob Frí­mann Magn­ús­son, áheyrn­ar­full­trúi í umhverf­is- og sam­göngu­nefnd, hafi skrifað undir meiri­hluta­á­lit­ið.

„Það hefur legið alveg fyr­ir,“ sagði Guð­laugur Þór, „hefur alltaf legið fyrir og mun alltaf liggja fyr­ir, að það eru fáir tveir Íslend­ingar sem eru algjör­lega sam­mála í þessum mál­u­m.“

Atkvæða­greiðsla um ramma­á­ætlun fer sam­kvæmt dag­skrá fram á Alþingi í dag. Þar verða einnig greidd atkvæði um allar þær breyt­inga­til­lögur sem minni­hlut­inn hefur lagt fram.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar