Árni Tryggvason

Rammaáætlun samþykkt: Virkjanir í Héraðsvötnum og við Þjórsárver aftur á dagskrá

Atkvæðagreiðsla um rammaáætlun á Alþingi kom ekki stórkostlega á óvart. Kosið var nokkurn veginn eftir flokkslínum ef undan er skilinn Bjarni Jónsson, þingmaður Vinstri grænna. „Þingmaðurinn segir nei,“ sagði hins vegar forsætisráðherra um tillögu þess efnis að halda Héraðsvötnum og Kjalölduveitu í verndarflokki. Farið var fram á nafnakall.

Til­laga um að færa Hvamms­virkjun úr nýt­ingu í bið­flokk: Felld (Já: 13, nei: 37).

Til­laga um að færa Hval­ár­virkjun úr nýt­ing­ar­flokki í bið: Felld (Já: 17, nei: 32).

Til­laga um að halda virkj­unum í Hér­aðs­vötnum og Kjalöldu­veitu í vernd­ar­flokki: Felld (Já: 21, nei: 33).

Breyt­ing­ar­til­laga meiri­hluta umhverf­is- og sam­göngu­nefnd­ar: Sam­þykkt (Já: 33, nei: 13).

Breytt þings­á­lykt­un­ar­til­laga að þriðja áfanga ramma­á­ætl­unar í heild: Sam­þykkt (Já: 34, nei: 7, greiddu ekki atkvæði: 15).

Þá er hún loks afgreidd á Alþingi, til­laga að þriðja áfanga ramma­á­ætl­unar um vernd og nýt­ingu land­svæða. Í tæp sex ár hefur hún þvælst á milli umhverf­is­ráð­herra, alls fjög­urra tals­ins, til­lagan sem upp­runa­lega var alfarið byggð á til­lögum verk­efn­is­stjórnar ramma­á­ætl­unar sem lauk störfum haustið 2016.

Síðan hefur mikið vatn til sjávar runn­ið.

Það er þó ekki lengur stór­iðjan sem kallar á fleiri virkj­anir líkt og var fyrir nokkrum árum og ára­tugum heldur orku­skiptin svoköll­uðu sem eru áherslu­at­riði íslenskra stjórn­valda í við­brögðum við lofts­lags­vánni. Hvort að virkja þurfi sér­stak­lega vegna þeirra er hins vegar umdeilt.

Sú ramma­á­ætlun sem sam­þykkt var á Alþingi í dag er tals­vert frá­brugðin upp­runan­um. Í takti við til­lögur meiri­hluta umhverf­is- og sam­göngu­nefndar eru þrír virkj­un­ar­kostir færðir úr nýt­ing­ar­flokki til­lög­unnar í bið­flokk og fimm úr vernd­ar­flokki í bið. Einn kost­ur, vind­orku­verið Búr­fellslund­ur, er færður úr bið í nýt­ing­ar­flokk. Þá hafa verið felldar út úr áætl­un­inni tæp­lega þrjá­tíu virkj­ana­kostir sem Orku­stofnun lagði fram á sínum tíma en eng­inn ákveð­inn virkj­un­ar­að­ili hafði sóst eftir að nýta.

Ramma­á­ætlun er stjórn­tæki, byggt á lögum um vernd og nýt­ingu land­svæða, þar sem verk­efn­is­stjórn hvers áfanga og fag­hópar hans, skip­aðir sér­fræð­ingum úr ýmsum átt­um, meta fram­lagða virkj­un­ar­kosti og flokka þá í þrennt. Í orku­nýt­ing­ar­flokk fara þeir kostir sem talið er ásætt­an­legt að verði að veru­leika. Í vernd­ar­flokk fara þeir kostir og þau land­svæði sem þeir til­heyra sem talið er að beri að vernda fyrir orku­vinnslu. Í bið­flokk­inn fara svo þeir kostir sem upp­lýs­ingar og gögn um skortir áður en ákveðið verður í hvorn hinna tveggja flokk­anna þeir skip­ast.

Með breyt­ing­unum sem gerðar voru enda sextán virkj­ana­kostir í nýt­ing­ar­flokki, sautján í bið­flokki og níu í vernd­ar­flokki.

Atkvæða­greiðslan um ramma­á­ætlun með orðum ráð­herra og þing­manna

„Þing­mað­ur­inn segir nei.“

Katrín Jak­obs­dótt­ir, for­sæt­is­ráð­herra, svarar í nafna­kalli í afgreiðslu á til­lögu um að halda Hér­aðs­vötnum og Kjalöldu­veitu í vernd­ar­flokki.

„Já ... Nei!“

Teitur Björn Ein­ars­son, þing­maður Sjálf­stæð­is­flokks­ins, er hann var að greiða atkvæði um sömu til­lögu og Katrín.

„Þing­menn sem greiða atkvæði með því að að taka Hér­aðs­vötn og Kjalöldu­veitu úr vernd munu ekki koma vel út í ljósi sög­unn­ar.“

Rósa Björk Brynj­ólfs­dótt­ir, vara­þing­maður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar.

„Ég legg til að þing­menn meiri­hlut­ans fletti orð­inu vernd upp í orða­bók. Ég kýs með nátt­úr­unni og ég kýs með nátt­úr­unni á Vest­fjörðum og þeirri feg­urð sem er á Strönd­um.“

Gísli Rafn Ólafs­son, þing­maður Pírata.

„Sá partur sem fær kannski mestu vernd­ina í gegnum rammann er kannski bara rík­is­stjórnin sjálf.“

Þor­gerður Katrín Gunn­ars­dótt­ir, for­maður Við­reisn­ar.

„Það er engum blöðum um það að fletta að í Hér­aðs­vötnum er um mikil nátt­úru­verð­mæti að ræða. Þau nátt­úru­verð­mæti eru ekk­ert að fara. Þetta er bið­leikur í nátt­úru­vernd.“

Guð­mundur Ingi Guð­brands­son, félags- og vinnu­mark­aðs­ráð­herra og fyrr­ver­andi umhverf­is­ráð­herra.

„Annað hvort er fólk, virð­ist vera uppi á hálendi að gróð­ur­setja eða uppi á hálendi með gröfu. Eins og það sé aldrei neinn milli­vegur þar á milli. Ef menn ætla að spila ein­hverja bið­leiki þarf að gera það með rök­um. Rök skort­ir. Þess vegna leika menn ekki bið­leik­i.“

Sig­mar Guð­munds­son, þing­maður Við­reisn­ar.

„Nei, við þurfum ekki að leika þann bið­leik. Við getum staðið í lapp­irnar með nátt­úru Íslands“

Helga Vala Helga­dótt­ir, þing­maður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar.

„Það má vera að Kaup­fé­lag Skag­firð­inga sé í sér­stökum vernd­ar­flokki hjá þess­ari rík­is­stjórn en ég tel að þessar nátt­úruperlur megi vera það lík­a.“

Jóhann Páll Jóhanns­son, þing­maður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar.

„Meiri­hluti stjórn­ar­flokk­anna vil láta athuga hvort ekki sé í lagi að láta þurrka upp foss­inn Dynk.“

Andrés Ingi Jóns­son, þing­maður Pírata, um þá ákvörðun að færa Kjalöldu­veitu í bið­flokk.

„Hér erum við með skóla­bók­ar­dæmi um pólun sam­fé­lags­ins, þessi atkvæða­greiðsla sem hér fer fram ætti að vera að kennd í félags­fræð­inni uppi í háskóla. Þeir sem eru ekki allir alfarið með kostum til frið­un­ar, þeir eru gjör­nýt­ing­ar­sinn­ar.“

Bjarni Bene­dikts­son, fjár­mála­ráð­herra.

„Við Vinstri græn gætum að [nátt­úru­vernd­ar­sjón­ar­mið­u­m], það er eitt af okkar brýn­asta erindi í stjórn­mál­um, hér eftir sem hingað til.“

Svan­dís Svav­ars­dótt­ir, mat­væla­ráð­herra.

„Með stærri bið­flokki erum við ein­ungis að leggja til að hlutir séu skoð­aðir bet­ur.“

Orri Páll Jóhanns­son, þing­maður Vinstri grænna.

„Að lokum vil ég spyrja: Hvar er hæst­virtur umhverf­is­ráð­herra?“

Helga Vala Helga­dótt­ir, þing­maður Sam­fylk­ing­ar­innar er atkvæða­greiðsla var að hefj­ast.

„Hæst­virtur umhverf­is­ráð­herra er með fjar­vist í dag.“

Birgir Ármanns­son, for­seti Alþing­is.

„Mín kyn­slóð eru nátt­úru­sóð­ar. Ég ætla að kjósa með mínum barna­börn­um. Ég tel að í þess­ari ramma­á­ætlun séu ákveðin atriði sem er alls ekki hægt að styðja.“

Guð­mundur Ingi Krist­ins­son, þing­maður Flokks fólks­ins.

„Með Kjalöldu­veitu er látið undan dylgjum Lands­virkj­un­ar. [...] Það er hlustað á vælið í Kaup­fé­lagi Skag­firð­inga því það vill fá sína virkj­un.“

Andrés Ingi Jóns­son, þing­maður Pírata. Kaup­fé­lag Skag­firð­inga á mik­inn meiri­hluta í Hér­aðs­vötnum ehf. sem standa að virkj­ana­hug­myndum á svæð­inu.

„Ég hélt að rík­is­stjórn Vinstri grænna, Sjálf­stæð­is­flokks og Fram­sókn­ar­flokks hefði verið stofnuð til að end­ur­spegla breidd­ina í sam­fé­lag­inu – alla leið frá vinstri til hægri. Alla leið frá vernd yfir í þaul­nýt­ingu. Í dag kemur í ljós að það er ekki erindi þess­arar rík­is­stjórn­ar. Hún end­ur­speglar sinn innri berg­máls­helli. Og þar heyr­ast köllin úr Skaga­firð­inum hæst, köllin frá þeim sem vilja færa auð­mönnum og stór­fyr­ir­tækjum nátt­úru­ger­semarnar okkar á silf­ur­fat­i.“

Þór­unn Svein­bjarn­ar­dótt­ir, þing­maður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar.

„Ég segi: Til ham­ingju Ísland.“

Vil­hjálmur Árna­son, þing­maður Sjálf­stæð­is­flokks­ins og for­maður umhverf­is- og sam­göngu­nefnd­ar, er ramma­á­ætlun hafði verið sam­þykkt.

„Fyrir er tekið annað dag­skrár­mál­ið, pakka­ferðir og sam­tengd ferða­til­hög­un.“

Birgir Ármanns­son, for­seti Alþing­is, er atkvæða­greiðslu vegna ramma­á­ætl­unar lauk. Yfir fjöru­tíu mál voru á dag­skrá þings­ins á síð­asta starfs­degi þess.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiInnlent