Sjö molar um efnahags- og stjórnmálastorm í Bretlandi
Er Bretar leyfðu sér loks að líta upp úr langdreginni erfidrykkju Elísabetar drottningar tók ekki skárra við. Ný ríkisstjórn Liz Truss virðist búin að skapa sér djúpa efnahagslega og pólitíska krísu, ofan á orkukrísuna.
Óhætt er að segja að undanfarin rúm vika hafi verið sviptivindasöm í meira lagi á breskum fjármálamarkaði og ekki síður á stjórnmálasviðinu. Kjarninn tók saman nokkra mola um atburði síðustu daga, sem kalla má erfiða hveitibrauðsdaga nýrrar ríkisstjórnar.
Risavaxin, en ófjármögnuð skattalækkunaráform
Að nota skattalækkanir sem kveikju vaxtar í Bretlandi var það sem Liz Truss, nýr forsætisráðherra Bretlands, sagði að hún myndi gera er hún sannfærði meirihluta flokksmanna um að kjósa sig í leiðtogastól Íhaldsflokksins í lok sumars.
Ný ríkisstjórn hennar beið ekki boðanna í þessum efnum. Á föstudaginn í síðustu viku kynnti Kwasi Kwarteng fjármálaráðherra fyrirhugaðar efnahagsaðgerðir, svokölluð „smá-fjárlög“, sem fela í sér miklar skattalækkanir, raunar þær mestu sem boðaðar hafa verið á einu bretti í Bretlandi í um 50 ár.
Samkvæmt tillögunum, sem meðal annars gera ráð fyrir því að hæsta tekjuskattsþrepið verði fellt á brott, yrði kostnaðurinn við skattalækkanir um 45 milljarðar punda á ársgrundvelli. Samhliða stendur til að breska ríkisstjórnin, eins og margar aðrar í Evrópu, verji gríðarmiklu fé til þess að greiða niður orkukostnað heimila.
Í Bretlandi er sjálfstæður eftirlitsaðili á vegum hins opinbera, Office for Budget Responsibility, sem leggur mat á efnahagsleg áhrif aðgerða sem snerta afkomu hins opinbera. Engin greining þaðan var sett fram samhliða kynningu tillagnanna, en Kwarteng fjármálaráðherra kaus að fá eftirlitsaðilann ekki til þess að rýna í áætlanirnar sem hann lagði fram og hafði raunar látið kröfur þingmanna þess efnis sem vind um eyru þjóta.
Að hafa enga rýni frá eftirlitsaðilanum, og þar með enga óháða greiningu á því hvort fullyrðingar fjármálaráðherrans um áhrif aðgerðanna stæðust skoðun, leiddi til þess að þeir sem sýsla með fé, sitt eigið eða annarra, þurftu einfaldlega að vega og meta orð fjármálaráðherrans um að það sem hann og ríkisstjórn Liz Truss settu fram væri skotheld leið til vaxtar.
Sterlingspundið kolféll og vextir ríkisskuldabréfa snarhækkuðu
Niðurstaða flestra á markaði var og er sú að áform bresku stjórnarinnar séu hæpin. Margir fjárfestar óttast að aðgerðirnar sem boðaðar hafa verið muni leiða til frekari efnahagsvandræða í Bretlandi og að skuldastaða ríkissjóðs muni fara æ versnandi.
Áhrifin komu fljótt fram, fjárfestar losuðu sig við stöður í breskum pundum og urðu afhuga því að kaupa bresk ríkisskuldabréf. Virði breska pundsins féll nokkuð strax eftir kynningu Kwarteng á aðgerðum og náði svo sögulegum botni á mánudaginn, er hægt var að kaupa eitt breskt pund fyrir tæplega 1,04 bandaríkjadali. Eftir því sem leið á vikuna reis pundið þó á ný gagnvart dollaranum og var gengið komið yfir 1,1 síðdegis í gær. Álag á bresk ríkisskuldabréf rauk á sama tíma upp, sem þýðir að orðið er dýrara fyrir ríkið að taka fé að láni.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lét í sér heyra
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn fylgdist grannt með stöðu mála í Bretlandi og sendi frá sér nokkuð óvenjulega yfirlýsingu á miðvikudag. Þar voru áætlanir breskra stjórnvalda gagnrýndar harkalega og ríkisstjórn Truss hreinlega bent á að viturlegt væri að endurskoða þær.
Í yfirlýsingu AGS sagði að vegna verðbólguþrýstings í mörgum ríkjum, meðal annars Bretlandi, myndi sjóðurinn ekki mæla með stórum og ómarkvissum útgjaldapökkum á þessum tímapunkti, en sjóðurinn hefur í ráðleggingum sínum lagt áherslu á það að ríkisútgjöldum sé forgangsraðað í þágu þeirra hópa sem verða fyrir mestum áhrifum af hækkandi verði orku og daglegra nauðsynja.
Sagði AGS að aðgerðirnar í Bretlandi væru til þess fallnar að auka ójöfnuð, enda koma skattalækkanirnar sem boðaðar eru aðallega efnuðu fólki til góða.
Seðlabankinn steig inn til að tryggja fjármálastöðugleika
Á miðvikudag bárust fréttir af því að breski seðlabankinn, Englandsbanki, hefði ákveðið að grípa til neyðaraðgerða til að koma í veg fyrir að á staða mála á skuldabréfamörkuðum færi úr böndunum.
Aðgerðir Seðlabankans eru á stórum skala, en bankinn hyggst kaupa bresk ríkisskuldabréf fyrir allt að 5 milljarða punda á dag fram til 14. október.
Breskir fjölmiðlar hafa sagt frá því að bankinn hafi kosið að stíga inn á markaðinn til þess að koma í veg fyrir að breskir lífeyrissjóðir eða tryggingafélög hreinlega færu í greiðsluþrot, en raunveruleg hætta ku hafa verið talin á því að svo færi á miðvikudag.
Óvissa á húsnæðislánamarkaði
Þegar hagfræðingar fóru að reyna að rýna í vænt áhrif af aðgerðum Truss-stjórnarinnar sem kynntar voru fyrir rúmri viku varð niðurstaða margra þeirra sú að Englandsbanki myndi þurfa að grípa til verulegra vaxtahækkana.
Meginvextir seðlabankans eru í dag 2,25 prósent en nú búast sumir við því að þeir verði jafnvel komnir vel yfir 5 prósentustig snemma á næsta ári.
Áhrif svo örra vaxtahækkana gætu svo orðið þau að húsnæðismarkaðurinn í landinu kólnaði mjög mikið. Í greiningu frá fjárfestingabankanum Credit Suisse sagði að húsnæðisverð gæti „auðveldlega“ lækkað um 10-15 prósent á nokkuð skömmum tíma, eða 18 mánuðum.
Þessi nýja staða leiddi til þess að í vikunni endurskoðuðu fjármálastofnanir sem veita húsnæðislán vöruframboð sitt og kipptu ýmsum valkostum sem voru í boði í síðustu viku af borðinu, ekki síst hagkvæmum leiðum til endurfjármögnunar. Neytendur finna fyrir því nú þegar – það er orðið dýrara en áður að taka ný húsnæðislán.
Truss og Kwarteng standa keik
Þrátt fyrir að einungis kynningin á fyrirhuguðum aðgerðum nýrrar ríkisstjórnar hafi valdið glundroða á fjármálamörkuðum hafa leiðtogar bresku stjórnarinnar ekki látið neinn bilbug á sér finna.
Truss forsætisráðherra skrifaði aðsenda grein í The Sun í gær, og lofaði því þar að engin U-beygja yrði tekin frá þeirri stefnu sem mörkuð hefur verið.
„Það verða ekki allir hrifnir af því sem við erum að gera, en ég vil fullvissa almenning um að ríkisstjórnin er með skýra áætlun sem ég trúi að sé sú rétta fyrir landið,“ skrifaði Truss.
Um helgina fer fram landsfundur Íhaldsflokksins, þar sem Truss mun þurfa að sannfæra flokksmenn um hið sama, en veruleg ólga hefur verið í þingliði flokksins undanfarna daga og hreint ekki allir á eitt sáttir um ágæti þeirrar nýju efnahagsstefnu sem Truss og Kwarteng boða. Jafnvel hefur verið kallað eftir afsögn Kwarteng nú þegar.
Kannanir sýna sögulega mikla forystu Verkamannaflokksins
Skoðanakannanir í vikunni hafa komið hreint bölvanlega út fyrir nýja ríkisstjórn Íhaldsflokksins. Könnun frá YouGov sem birt var á fimmtudag sýndi hvorki meira né minna en 33 prósentustiga forskor Verkamannaflokksins, sem mældist með 54 prósenta fylgi á landsvísu gegn 21 prósents fylgi Íhaldsflokksins.
Aðrar kannanir hafa sýnt minna forskot, en þó mjög afgerandi forystu og gríðarmikið fylgi Verkamannaflokks Keir Starmer, sem hefur í vikunni talað með einörðum hætti fyrir því að Truss og Kwarteng dragi tillögur sínar um skattalækkanir til baka.