Root

Sjö molar um efnahags- og stjórnmálastorm í Bretlandi

Er Bretar leyfðu sér loks að líta upp úr langdreginni erfidrykkju Elísabetar drottningar tók ekki skárra við. Ný ríkisstjórn Liz Truss virðist búin að skapa sér djúpa efnahagslega og pólitíska krísu, ofan á orkukrísuna.

Óhætt er að segja að und­an­farin rúm vika hafi verið svipti­vinda­söm í meira lagi á breskum fjár­mála­mark­aði og ekki síður á stjórn­mála­svið­inu. Kjarn­inn tók saman nokkra mola um atburði síð­ustu daga, sem kalla má erf­iða hveiti­brauðs­daga nýrrar rík­is­stjórn­ar.

Risa­vax­in, en ófjár­mögnuð skatta­lækk­unar­á­form

Að nota skatta­lækk­anir sem kveikju vaxtar í Bret­landi var það sem Liz Truss, nýr for­sæt­is­ráð­herra Bret­lands, sagði að hún myndi gera er hún sann­færði meiri­hluta flokks­manna um að kjósa sig í leið­toga­stól Íhalds­flokks­ins í lok sum­ars.

Ný rík­is­stjórn hennar beið ekki boð­anna í þessum efn­um. Á föstu­dag­inn í síð­ustu viku kynnti Kwasi Kwar­teng fjár­mála­ráð­herra fyr­ir­hug­aðar efna­hags­að­gerð­ir, svokölluð „smá-fjár­lög“, sem fela í sér miklar skatta­lækk­an­ir, raunar þær mestu sem boð­aðar hafa verið á einu bretti í Bret­landi í um 50 ár.

Sam­kvæmt til­lög­un­um, sem meðal ann­ars gera ráð fyrir því að hæsta tekju­skatts­þrepið verði fellt á brott, yrði kostn­að­ur­inn við skatta­lækk­anir um 45 millj­arðar punda á árs­grund­velli. Sam­hliða stendur til að breska rík­is­stjórn­in, eins og margar aðrar í Evr­ópu, verji gríð­ar­miklu fé til þess að greiða niður orku­kostnað heim­ila.

Í Bret­landi er sjálf­stæður eft­ir­lits­að­ili á vegum hins opin­bera, Office for Budget Responsi­bility, sem leggur mat á efna­hags­leg áhrif aðgerða sem snerta afkomu hins opin­bera. Engin grein­ing þaðan var sett fram sam­hliða kynn­ingu til­lagn­anna, en Kwar­teng fjár­mála­ráð­herra kaus að fá eft­ir­lits­að­il­ann ekki til þess að rýna í áætl­an­irnar sem hann lagði fram og hafði raunar látið kröfur þing­manna þess efnis sem vind um eyru þjóta.

Kwasi Kwarteng fjármálaráðherra Bretlands.
EPA

Að hafa enga rýni frá eft­ir­lits­að­il­an­um, og þar með enga óháða grein­ingu á því hvort full­yrð­ingar fjár­mála­ráð­herr­ans um áhrif aðgerð­anna stæð­ust skoð­un, leiddi til þess að þeir sem sýsla með fé, sitt eigið eða ann­arra, þurftu ein­fald­lega að vega og meta orð fjár­mála­ráð­herr­ans um að það sem hann og rík­is­stjórn Liz Truss settu fram væri skot­held leið til vaxt­ar.

Sterl­ingspundið kol­féll og vextir rík­is­skulda­bréfa snar­hækk­uðu

Nið­ur­staða flestra á mark­aði var og er sú að áform bresku stjórn­ar­innar séu hæp­in. Margir fjár­festar ótt­ast að aðgerð­irnar sem boð­aðar hafa verið muni leiða til frek­ari efna­hags­vand­ræða í Bret­landi og að skulda­staða rík­is­sjóðs muni fara æ versn­andi.

Áhrifin komu fljótt fram, fjár­festar los­uðu sig við stöður í breskum pundum og urðu afhuga því að kaupa bresk rík­is­skulda­bréf. Virði breska punds­ins féll nokkuð strax eftir kynn­ingu Kwar­teng á aðgerðum og náði svo sögu­legum botni á mánu­dag­inn, er hægt var að kaupa eitt breskt pund fyrir tæp­lega 1,04 banda­ríkja­dali. Eftir því sem leið á vik­una reis pundið þó á ný gagn­vart doll­ar­anum og var gengið komið yfir 1,1 síð­degis í gær. Álag á bresk rík­is­skulda­bréf rauk á sama tíma upp, sem þýðir að orðið er dýr­ara fyrir ríkið að taka fé að láni.

Alþjóða­gjald­eyr­is­sjóð­ur­inn lét í sér heyra

Alþjóða­gjald­eyr­is­sjóð­ur­inn fylgd­ist grannt með stöðu mála í Bret­landi og sendi frá sér nokkuð óvenju­lega yfir­lýs­ingu á mið­viku­dag. Þar voru áætl­anir breskra stjórn­valda gagn­rýndar harka­lega og rík­is­stjórn Truss hrein­lega bent á að vit­ur­legt væri að end­ur­skoða þær.

Í yfir­lýs­ingu AGS sagði að vegna verð­bólgu­þrýst­ings í mörgum ríkj­um, meðal ann­ars Bret­landi, myndi sjóð­ur­inn ekki mæla með stórum og ómark­vissum útgjalda­pökkum á þessum tíma­punkti, en sjóð­ur­inn hefur í ráð­legg­ingum sínum lagt áherslu á það að rík­is­út­gjöldum sé for­gangs­raðað í þágu þeirra hópa sem verða fyrir mestum áhrifum af hækk­andi verði orku og dag­legra nauð­synja.

Sagði AGS að aðgerð­irnar í Bret­landi væru til þess fallnar að auka ójöfn­uð, enda koma skatta­lækk­an­irnar sem boð­aðar eru aðal­lega efn­uðu fólki til góða.

Seðla­bank­inn steig inn til að tryggja fjár­mála­stöð­ug­leika

Á mið­viku­dag bár­ust fréttir af því að breski seðla­bank­inn, Eng­lands­banki, hefði ákveðið að grípa til neyð­ar­að­gerða til að koma í veg fyrir að á staða mála á skulda­bréfa­mörk­uðum færi úr bönd­un­um.

Aðgerðir Seðla­bank­ans eru á stórum skala, en bank­inn hyggst kaupa bresk rík­is­skulda­bréf fyrir allt að 5 millj­arða punda á dag fram til 14. októ­ber.

Liz Truss forsætisráðherra Bretlands
EPA

Breskir fjöl­miðlar hafa sagt frá því að bank­inn hafi kosið að stíga inn á mark­að­inn til þess að koma í veg fyrir að breskir líf­eyr­is­sjóðir eða trygg­inga­fé­lög hrein­lega færu í greiðslu­þrot, en raun­veru­leg hætta ku hafa verið talin á því að svo færi á mið­viku­dag.

Óvissa á hús­næð­is­lána­mark­aði

Þegar hag­fræð­ingar fóru að reyna að rýna í vænt áhrif af aðgerðum Trus­s-­stjórn­ar­innar sem kynntar voru fyrir rúmri viku varð nið­ur­staða margra þeirra sú að Eng­lands­banki myndi þurfa að grípa til veru­legra vaxta­hækk­ana.

Meg­in­vextir seðla­bank­ans eru í dag 2,25 pró­sent en nú búast sumir við því að þeir verði jafn­vel komnir vel yfir 5 pró­sentu­stig snemma á næsta ári.

Áhrif svo örra vaxta­hækk­ana gætu svo orðið þau að hús­næð­is­mark­að­ur­inn í land­inu kóln­aði mjög mik­ið. Í grein­ingu frá fjár­fest­inga­bank­anum Credit Suisse sagði að hús­næð­is­verð gæti „auð­veld­lega“ lækkað um 10-15 pró­sent á nokkuð skömmum tíma, eða 18 mán­uð­um.

Þessi nýja staða leiddi til þess að í vik­unni end­ur­skoð­uðu fjár­mála­stofn­anir sem veita hús­næð­is­lán vöru­fram­boð sitt og kipptu ýmsum val­kostum sem voru í boði í síð­ustu viku af borð­inu, ekki síst hag­kvæmum leiðum til end­ur­fjár­mögn­un­ar. Neyt­endur finna fyrir því nú þegar – það er orðið dýr­ara en áður að taka ný hús­næð­is­lán.

Truss og Kwar­teng standa keik

Þrátt fyrir að ein­ungis kynn­ingin á fyr­ir­hug­uðum aðgerðum nýrrar rík­is­stjórnar hafi valdið glund­roða á fjár­mála­mörk­uðum hafa leið­togar bresku stjórn­ar­innar ekki látið neinn bil­bug á sér finna.

Truss for­sæt­is­ráð­herra skrif­aði aðsenda grein í The Sun í gær, og lof­aði því þar að engin U-beygja yrði tekin frá þeirri stefnu sem mörkuð hefur ver­ið.

„Það verða ekki allir hrifnir af því sem við erum að gera, en ég vil full­vissa almenn­ing um að rík­is­stjórnin er með skýra áætlun sem ég trúi að sé sú rétta fyrir land­ið,“ skrif­aði Truss.

Um helg­ina fer fram lands­fundur Íhalds­flokks­ins, þar sem Truss mun þurfa að sann­færa flokks­menn um hið sama, en veru­leg ólga hefur verið í þing­liði flokks­ins und­an­farna daga og hreint ekki allir á eitt sáttir um ágæti þeirrar nýju efna­hags­stefnu sem Truss og Kwar­teng boða. Jafn­vel hefur verið kallað eftir afsögn Kwar­teng nú þeg­ar.

Kann­anir sýna sögu­lega mikla for­ystu Verka­manna­flokks­ins

Skoð­ana­kann­anir í vik­unni hafa komið hreint bölv­an­lega út fyrir nýja rík­is­stjórn Íhalds­flokks­ins. Könnun frá You­Gov sem birt var á fimmtu­dag sýndi hvorki meira né minna en 33 pró­sentu­stiga for­skor Verka­manna­flokks­ins, sem mæld­ist með 54 pró­senta fylgi á lands­vísu gegn 21 pró­sents fylgi Íhalds­flokks­ins.

Aðrar kann­anir hafa sýnt minna for­skot, en þó mjög afger­andi for­ystu og gríð­ar­mikið fylgi Verka­manna­flokks Keir Star­mer, sem hefur í vik­unni talað með ein­örðum hætti fyrir því að Truss og Kwar­teng dragi til­lögur sínar um skatta­lækk­anir til baka.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar