Sólveig Anna: „Þetta var ómögulegt verkefni“
Það fólk sem í morgun virtist líklegast til þess að standa í stafni Alþýðusambands Íslands næstu misserin tilkynnti flest í dag að þau væru hætt við framboð og véku af þingi sambandsins. Kjarninn ræddi við Sólveigu Önnu Jónsdóttur um ástæðurnar fyrir því.
„Efling, Efling, Efling,“ hrópuðu þingfulltrúar stéttarfélagsins Eflingar, er þau gengu saman fylktu liði úr fundarsal Alþýðusambands Íslands á Hilton Nordica-hótelinu við Suðurlandsbraut fyrr í dag að baki Ragnari Þór Ingólfssyni formanni VR, sem gekk einna fyrstur út úr salnum, án þess að vilja ræða við fjölmiðla.
Eftir í salnum sátu fulltrúar fleiri samtaka launafólks af landinu öllu og samþykktu að fresta þingi ASÍ þar til í fyrramálið. Hvað nákvæmlega gerist þá er óráðið, en til stendur að kjósa nýja forystu Alþýðusambandsins á morgun og enn er opið fyrir framboð. Sem stendur er Ólöf Helga Adolfsdóttir ritari stjórnar Eflingar ein í framboði til embættis forseta.
Fyrir daginn í dag þótti næsta víst að Ragnar Þór yrði næsti forseti Alþýðusambandsins, en svo verður ekki. Í hópi þeirra tuga fulltrúa sem skyndilega gengu af þinginu á fjórða tímanum í dag voru auk Ragnar Þórs þau Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar og Vilhjálmur Birgisson formaður Starfsgreinasambandsins og VLFA, sem fyrir daginn í dag þóttu líklegust til þess að verða 2. og 3. varaforseta sambandsins.
En þau Ragnar Þór, Sólveig Anna og Vilhjálmur verða ekki í framboði. Fyrstu fréttir af því bárust um kl. 15 í dag, kvisuðust út úr þingsalnum á Nordica sem var harðlokaður fjölmiðlum. Blaðamaður Kjarnans fór á staðinn og náði tali af Sólveigu Önnu eftir að hún gekk úr salnum, ásamt félögum sínum.
Erfiðlega gekk að hefja samtalið þar sem formaðurinn var sífellt að taka við faðmlögum frá þingfulltrúum Eflingar, í anddyri hótelsins og ráðstefnumiðstöðvarinnar. „Þetta var rétt,“ sögðu mörg þeirra.
„Aldrei notið nokkurs sannmælist“ innan ASÍ
En hvað olli því að nákvæmlega hvað var rétt? Blaðamaður spurði Sólveigu Önnu að því hver kveikjan hefði orðið að atburðum dagsins og tók Sólveig fram að hún gæti einungis svarað því fyrir sína félaga, í Eflingu.
Í samtali við blaðamann sagði hún einnig að ræða þyrfti „á hinum stóra lýðræðislega vettvangi“ Eflingar hvort draga skyldi Eflingu frá þátttöku í starfi Alþýðusambands Íslands og að það yrði „eflaust gert en hvenær og hvernig á enn eftir að koma í ljós.“ Þingfulltrúar Eflingar munu ekki taka frekari þátt í þingi ASÍ þetta árið.
„Við Eflingarfólk áttuðum okkur á því að þetta yrði ómögulegt verkefni, að vera áfram þarna inni á þessum vettvangi,“ sagði Sólveig Anna og bætti því við Eflingarfólk, undir hennar forystu, hefði „aldrei notið nokkurs sannmælis inni í þessari stóru hreyfingu“. Þrátt fyrir að hafa náð miklum árangri, í kjarabaráttu, skipulagningu verkfallsaðgerða og annarri starfsemi félagsins, hefðu þau sem stjórna Eflingu verið „jaðarsett“ á vettvangi ASÍ.
Nokkrir hlutir leiddu til þess að Eflingarfólk taldi sig ekki lengur geta við unað á þingi ASÍ.
Sólveig Anna nefnir grein sem hópur forystufólks í verkalýðsfélögum fengu birta á Vísi í síðustu viku „þar sem ég er kölluð „gerandinn“ og Ragnari er lýst sem einhverjum ofstopamanni og bara einhverjum hryllingskóngi“.
Sagði Sólveig Anna þá blaðagrein hafa verið „mjög sterkt merki um það sem koma skyldi, þá orðræðu sem skuli fara í“ og nefnir til viðbótar atburð sem átti sér stað á þingi ASÍ í gærmorgun, þegar Ólöf Helga Adolfsdóttir ritari Eflingar lagði fram tillögu „í bandalagi við formenn innan ASÍ og stóran hóp frá ASÍ-Ung“ um að láta vísa öllum þingfulltrúum Eflingar af þinginu.
Sólveig segir að þetta hafi Ólöf Helga gert, „leitt aðför“ gegn Eflingarfólkinu þrátt fyrir að hafa „fengið álitsgerð í hendur sem sýnir með mjög skýrum hætti að Efling hafi farið 100 prósent rétt að öllu“.
„Það er hrikalegt að sjá að hún er ekki þarna ein að verki, heldur er hún þarna í bandalagi við fólk sem ætti að sjálfsögðu vita betur en sýnir og sannar að það er tilbúið að taka þátt í bókstaflega hverju sem er til að koma höggi á mig,“ segir Sólveig Anna.
Hún nefnir að þetta gerist þrátt fyrir að í síðustu viku hafi komið fram að Ólöf Helga og Agnieszka Eva, varaformaður Eflingar, hefðu fyrr á árinu fengið aðgang að tölvupóstfangi Sólveigar Önnu hjá Eflingu, og með því stundað „pólitískar njósnir“, að sögn Sólveigar.
„Það er ekkert sem dugar og maður áttar sig á því, þegar maður horfist í augu við þetta, plús allt annað sem maður veit að er að innan vébanda Alþýðusambandsins, að það er ekki nein manneskja með fullu með sem vill nota orkuna sína í þetta,“ segir Sólveig Anna.
„Það er aldrei að fara að skila neinu, það er alveg nákvæmlega sama hvað við værum að fara að gera, það væri alveg sama hverju við værum að berjast fyrir, hvaða mál væru til umfjöllunar, okkur yrði aldrei leyft að komast áfram með það. Þetta yrði bara svona áfram, bara endalausar ásakanir og svívirðingar, undirróðursstarfsemi, skemmdarverk og svo framvegis,“ bætir hún við.
Sem áður segir gaf Ragnar Þór ekki kost á fjölmiðlaviðtölum eftir að hann gekk úr þingsalnum á Nordica í dag.
„Ég svara auðvitað ekki fyrir Ragnar en ég held að hann hafi þá sömu afstöðu og ég í þessu máli,“ sagði Sólveig Anna, spurð hvort hún teldi hans ástæður fyrir því að draga framboð sitt til baka af sama meiði.