EPA

Þegar gígantískt skip strandar í skurði

Á þeim um það bil sex sólarhringum sem hið tröllvaxna Ever Given sat pikkfast í Súes-skurðinum tókst því, einu og óstuddu, að setja alþjóða viðskipti í hnút, valda hundruð milljarða króna skaða og fá annað hvert mannsbarn til að glotta í kampinn en samtímis klóra sér í hausnum og spyrja: Hvernig gat þetta gerst? Og kannski ekki síður: Er hagkerfi heimsins virkilega svo veikbyggt að eitt skipsstrand í þröngum manngerðum skurði setur það á hliðina?

Í meira en 150 ár hafa flutningaskip geta siglt með vörur heimshorna á milli í gegnum Súes-skurðinn og stytt för sína milli áfangastaða um þúsundir kílómetra og fleiri sólarhringa. Svo mikið verkfræðiundur þótti skurðurinn á sínum tíma að mektarfólk Evrópu flykktist að á lystibátum sínum til að verða vitni að því er haftið var rofið og sjór úr Miðjarðarhafi tók að flæða inn í Rauðahafið. Og síðan hefur skurðurinn verið þarna og fæstum sérstaklega ofarlega í huga nema auðvitað skipstjórum og hafnarstjórum. Þeir sem siglt hafa í gegnum hann segja það þó ævintýri líkast. Að fylgjast með því sem fyrir augu ber; heimamönnum, Egyptum, á gangi eða á baki asna með varning – kannski á leið á markað. Eins og dæmisaga úr Biblíunni sem lifnað hefur við.

En þeir sem halda um stýri flutningaskipanna, sem í tuga tali fara um hinn 193 kílómetra langa skurð daglega, geta ekki leyft sér að fylgjast með mannlífinu á bökkum hans. Það er ekki einfalt að sigla 220 þúsund tonna stálklumpi, fullum af allra handa vörum og jafnvel lifandi skepnum, í gegn. Það krefst einbeitingar. Mikillar einbeitingar. Og þó að Súes-skurðurinn sé kannski í okkar huga í veðurparadís heimsins, lækurinn úr hinu sólríka Miðjarðarhafi sem við heimsækjum að sumarlagi til að láta streitu vetrarins í norðri líða úr okkur, er þar allra veðra von.

Auglýsing

Það sem skipstjórarnir óttast mest eru hinir alræmdu sandbyljir. Þegar skyggnið verður, stundum skyndilega, lítið sem ekkert og sveipar sjóndeildarhringinn grábrúnni hulu og litbrigði landsins til allra átta verða dauf.

Þetta er einmitt skýringin sem skipafélagið sem rekur flutningaskipið með skrítna nafninu, Ever Given, hefur gefið á því að það festist í skurðinum að morgni þriðjudagsins í síðustu viku og bifaðist ekki af strandstað sólarhringum saman. Allir 20 þúsund gámarnir um borð hafi virkað eins og heljarinnar segl og þrátt fyrir að skipstjórinn hafi reynt allt hvað hann gat endaði siglingin frá Malasíu til Rotterdam í Hollandi svona: Skip sem er sambærilegt fjórum fótboltavöllum á breidd og svipað á lengd og hæð Empire State-byggingarinnar, gróf sig niður í leirkenndan botninn og lokaði augunum.

Eða svo mætti halda. Að það þyrfti bara að hvíla sig.

Til að koma í veg fyrir að Súes-skurðurinn yrði hinsti hvílustaður þess var óðara kölluð út aðstoð. Bubbi byggir mætti á gröfunni sinni og kepptist við að moka sandi frá stefni þess.

Eða svo mætti halda. Að einn kraftaverkamaður úr eyðimörkinni hefði verið kallaður til. Að hér ætti að leika sama leikinn og fyrir nokkur þúsund árum: Þegar Davíð sigraði Golíat.

EPA

En Golíat virðist hafa safnað ægilegum kröftum síðan hann barðist síðast við litla manninn. Sama hvað var ýtt, togað, grafið, dælt og tæmt beit það ekki á hans stóra skrokki. Vélar með samtals tugþúsundir hestafla að vopni máttu sín lítils. Það var ekki fyrr en náttúrufyrirbrigði brá fyrir á himinhvolfinu að hann fór að mjakast úr stað. Og loks losna.

Þetta fannst okkur mörgum fyndið. Þegar myndin af litlu gröfunni að reyna sitt besta birtist fyrst var eins og elding færi um heilabúið og kveikti neista sem vakti okkur rækilega af farsóttarþreytunni: Árið 2021, mörgum áratugum eftir að fyrsta fólkið steig fæti á tunglið, hundruðum ára eftir að Kínamúrinn var byggður, árþúsundum eftir að píramídarnir voru reistir, strandar ferlíki byggt af mönnum – í skurði gröfnum af mönnum – og fát kemur á mannskapinn. Verkfræðiþekkingin var þá ekki meiri.

Kannski minnti þetta okkur með einhverjum hætti á veiruna örsmáu sem við höfðum kannski ekki sérstaklega miklar áhyggjur af í upphafi. Því var það ekki þannig að læknavísindin höfðu tekið svo miklum framförum á stuttum tíma?

Jú, en náttúran getur verið óútreiknanleg. Þar er fyrirsjáanleikinn ekki alltaf mikill. Sérstaklega ekki þegar misjafnar athafnir manna hafa breytt flæði hennar. Spillt takti hennar. Hrynjanda. Sveiflum og straumum.

Litla grafan og stóra skipið.
EPA

„Ég að reyna að berjast við faraldurinn,“ skrifar netverji við myndina af gröfunni við skipið og uppsker óteljandi læk. Myndlíkingin er svo sterk að fjöldi fólks stóðst ekki freistinguna að nota hana til að lýsa tilfinningum sínum eftir meira en árs stríð við veiruna.

Annar samkvæmisleikur hefur falist í því að máta Ever Given á hinn og þennan staðinn á heimskortinu. „Smellpassar í höfnina í Neskaupstað, en svolítið klunnalegt við bæjarbryggjuna,“ skrifar einn og annar athugar hvernig færi á því að hafa það í Stuðlagili.

Því það er stórt. Svo risastórt. Ekki svo stórt að enginn komist yfir það nema fuglinn fljúgandi en þó svo stórt að það getur ekki siglt í gegnum Panama-skurðinn. Og augljóslega tæplega í gegnum félaga hans, Súes.

Stærðin hefur fengið okkur til að taka andköf, skip Eimskips og Samskips virðast dvergvaxin í samanburðinum, en þó er Ever Given ekki stærsta flutningaskip heims. Skipið sem það met á getur borið yfir 30 þúsund gáma.

Um 20 þúsund gámar voru um borð í skipinu er það strandaði.
EPA

Gámaflutningar hófust á sjötta áratugnum eftir að bandarískum viðskiptamanni hafði hugkvæmst að staðla þau ílát sem varningur er fluttur í um heim allan. Til varð „gámurinn“, ýmist 20 fet eða 40 fet að lengd, og í kjölfarið gátu skipafélög skipulagt flutninga sína af nákvæmni. Þetta umbylti vöruflutningum og í kjölfarið hófu skipasmíðastöðvar að smíða flutningaskip sem gátu flutt marga gáma í einu. Smám saman stækkuðu skipin. Og um aldamótin þótti nokkuð gott ef þau gátu flutt um 5.000 gáma í einu.

En svo gerðist eitthvað.

Í upphafi nýs árþúsunds hófu skipin að stökkbreytast í stærð. Skipasmíðastöðvar í t.d. Japan og Kína dældu út skipum, ekki aðeins stórum heldur gígantískt stórum.

Eitt þeirra er Ever Given. Sem við fæst höfðum nokkra hugmynd um að vaggaði og veltist um heimshöfin stútfullt af öllum þeim vörum sem við helst óskum okkur.

Ef þú lítur í kringum þig núna, lesandi góður, má ætla að um 90 prósent af þeim hlutum sem þú sérð hafi verið fluttir til þín frá upprunastað með skipi. Ef þú situr er líklegt að stólinn eða sófinn hafi komið til landsins í skipi, sömuleiðis öll þau föt sem þú klæðist og mögulega bróðurparturinn af því sem þú ætlar að snæða í dag.

Svo umfangsmiklir eru vöruflutningar milli landa og heimsálfa í nútíma samfélagi.

Auglýsing

Við leyfðum okkur að gera grín að strandi Ever Given af því atburðurinn ógnaði mjög ólíklega lífi. Við leyfðum okkur að gantast með stóra skipið í skurðinum af því að við höfum mörg hvert haft það svolítið skítt, svona miðað við aldur og fyrri störf, síðustu mánuði.

En að baki strandinu er þó töluverð alvara. Ever Given, yfirfullt af vörum sem það var, var langt í frá eina skipið sem beið eftir að komast í gegnum Súes-skurðinn í tæpa viku. Það gerðu einnig um 300 önnur flutningaskip. Sum voru að flytja matvæli. Sum dýr. Dýr sem flutt eru langar leiðir landa á milli til slátrunar og sífellt er harðara gagnrýnt með tilliti til dýraverndar og loftslagsmála.

Við vitum hvað getur gerst í ísskápnum okkar á einni viku. Hversu fljótt girnilegar matvörur geta misst sjarmann. Það sama hefur í einhverjum tilvikum átt sér stað um borð í flutningaskipunum í Súes. Í þessu fellst sóun á náttúrunnar gjöfum og fjárhagslegur skaði.

Afhendingar á vörum úr skipunum töfðust einnig. Ekki aðeins um viku heldur stundum mun lengur því stæði við hafnir eru takmörkuð auðlind og mannskapur til uppskipunar sömuleiðis.

Gámar eru líka takmörkuð auðlind. Nú bíða óþolinmóðir framleiðendur með vörur sínar hér og hvar um heiminn eftir að fá járnkassa til að senda þær vestur á bóginn, til norðurs, suðurs eða vesturs. Svo þær komist inn um dyrnar á þínu heimili. Inn í ís- eða búrskáp. Upp á vegg eða ofan í skúffu. Svo þú getir klætt þig í þær eða stungið þeim upp í þig.

Þversum í Súes-skurðinum.
ESA

Sérfræðingar telja að það geti tekið marga mánuði að vinda ofan af þessum töfum. Afsökunin „því miður, varan þín var föst í Súes-skurðinum“ gæti orðið viðhöfð næstu vikurnar í það minnsta.

Því um leið og Ever Given stíflaði skurðinn stíflaði það líka hagkerfið. Setti í það tappa um hríð þó að hann hafi verið lekur. Hefti frjálst flæði vara og myndaði þrýsting á framleiðslu- og neyslukeðjurnar sem við leiðum í dagsins önn sjaldan hugann að.

Eftir að ljóst var að Bubbi byggir og litla skurð(!)grafan hans hafði ekkert í Ever Given voru togbátar kallaðir út og fleiri vélknúin tæki til að reyna sig við verkið. Eitthvað vandræðalegt var við það hversu lítið (sama sem ekkert) miðaði. Vinnuvélarnar og mannfólkið voru eins og iðnir en ósköp vanmáttugir maurar við hlið flikkisins.

En þá fórnaði náttúran höndum og minnti á að hún byggi yfir togkröftum öflugri en nokkuð af því sem manninum hefði tekist að skapa. Þetta ákvað svo fólkið að nýta sér til að „frelsa“ Súes-skurðinn. Koma Ever Given á flot.

Gervitunglamynd Evrópsku geimvísindastofnunarinnar þar sem til hægri sjást áhrifin af strandinu á skip sem bíða við skurðinn í Rauðahafinu.
ESA

Á mánudag röðuðu sólin og tunglið sér þannig upp að óvenju stórstreymt varð, tveimur dögum eftir að tunglið náði fyllingu og var óvenju nálægt jörðu, meira en búast má í flestum mánuðum ársins. Sjávarborð hækkaði við þetta um tæplega hálfan metra.

Og þannig atvikaðist það að Ever Given, „skrímslið“ eins og sumir vilja kalla það, tók að hreyfast á ný og það sem vantaði upp náðist með maskínum mannanna.

Ekki er enn vitað hvað varð til þess að skipið strandaði. Mögulega áttu þar nokkrir þættir hlut að máli. Ekki er útilokað að tæknin hafi verið að stríða skipstjóranum og ekki er heldur hægt að afskrifa að mannleg mistök hafi átt sér stað. Veðrið lék svo sitt hlutverk. En vindur er þar stundum mikill, það er ekkert nýtt, og í fyrra, svo dæmi sé tekið, fóru tæplega 19 þúsund skip af öllum stærðum og gerðum í gegnum skurðinn án nokkurra vandkvæða.

Ever Given var siglt í öruggt skjól þar sem þetta verður rannsakað til hlítar. Á meðan sitja margir sveittir við að reikna út hinn fjárhagslega skaða sem talinn er hlaupa á tugum milljarða bandaríkjadala. Og reyna að finna þann sem á að borga – ber hina fjárhagslegu ábyrgð.

Þegar fyrstu bátarnir sigldu í gegnum Súes-skurðinn árið 1869.

Þegar fyrsta skóflustungan að Súes-skurðinum var tekin árið 1858 var hún ekki sú síðasta. Skurðurinn var bókstaflega mokaður með handafli fyrst í stað. Frakkar höfðu tryggt sér samninga við Egypta um gerð hans. Það þurfti margar hendur. Þær voru egypskar. Þúsundir verkamannanna létu lífið. Sjórinn á þessum slóðum mun því um alla eilífð vera litaður blóði þeirra.

Bretar tryggðu sér lengi vel yfirráðaréttinn og hernámu nokkrum árum síðar Egyptaland. Það var svo ekki fyrr en árið 1956, sama ár og gámurinn var fundinn upp, að Egyptar ákváðu að þjóðnýta skipaskurðinn. Þeir vildu fá umsýslugjöldin í sinn vasa til að byggja stóra virkjun í Nílarfljóti, koma landi sínu áleiðis inn í nútímann. Sú yfirfærsla á valdi fór ekki hljóðlega fram. Ísraelar, Bretar og Frakkar sýndu klærnar en hörfuðu nokkrum mánuðum síðar vegna þrýstings frá Sameinuðu þjóðunum. Á meðan þessu brölti stóð var skurðurinn meira og minna lokaður.

Er hann var opnaður að nýju fyrir skipaumferð árið 1957, þá að fullu undir stjórn Egypta, varð hann að táknmynd fyrir endalok nýlendutímans. Um hann var aftur deilt síðar, m.a. í sex daga stríðinu við Ísraela árið 1967. Nokkur flutningaskip urðu þá innlyksa í skurðinum og losnuðu ekki úr herkvínni fyrr en árið 1975. Skipin fimmtán voru frá átta löndum og skipverjarnir bundust vinaböndum og héldu m.a. sína eigin ólympíuleika árið 1968, árið sem hinir eiginlegu leikar fóru fram í Mexíkó.

Auglýsing

Súes-skurðurinn breytti heiminum. Hann breytti heimsmynd okkar. Stytti leiðina milli Asíu og Evrópu um helming. Ekki þurfti lengur að sigla fyrir Góðrarvonarhöfða, syðst í Afríku, til að koma sendibréfum og margvíslegum varningi – og fólki – milli nýlendanna við miðbaug og herraþjóðanna í Evrópu.

Í dag er hann fjórða fjölfarnasta siglingaleið flutningaskipa heimsins.

Lítið sem ekkert hefur heyrst frá skipverjum Ever Given, hvorki á meðan strandinu stóð né eftir það. Þeir eru flestir frá Indlandi. Landi sem Bretar arðrændu áratugum saman og klöppuðu því hátt er siglingaleiðin með ránsfenginn helmingaðist á sínum tíma. Landi sem var á löngu tímabili, allt til ársins 1947, kallað „krúnudjásn“ breska heimsveldisins.

Þegar hreyfing komst loks á Ever Given á mánudag heyrðist enginn hvellur. Ekkert brak. Engir skruðningar. Það bara fór á flot á ný. Var vaknað. Tilbúið að halda áfram. Það mátti þó heyra fagnaðaróp björgunarsveitanna og jafnvel bergmál andvarpa allra þeirra sem setið höfðu límdir við tölvur og síma um víða veröld og fylgst með aðgerðum. Sumir í sóttkví, aðrir í einangrun og velflestir búandi við harðar takmarkanir vegna heimsfaraldursins.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar