EPA

Þegar gígantískt skip strandar í skurði

Á þeim um það bil sex sólarhringum sem hið tröllvaxna Ever Given sat pikkfast í Súes-skurðinum tókst því, einu og óstuddu, að setja alþjóða viðskipti í hnút, valda hundruð milljarða króna skaða og fá annað hvert mannsbarn til að glotta í kampinn en samtímis klóra sér í hausnum og spyrja: Hvernig gat þetta gerst? Og kannski ekki síður: Er hagkerfi heimsins virkilega svo veikbyggt að eitt skipsstrand í þröngum manngerðum skurði setur það á hliðina?

Í meira en 150 ár hafa flutn­inga­skip geta siglt með vörur heims­horna á milli í gegnum Súes-­skurð­inn og stytt för sína milli áfanga­staða um þús­undir kíló­metra og fleiri sól­ar­hringa. Svo mikið verk­fræði­undur þótti skurð­ur­inn á sínum tíma að mekt­ar­fólk Evr­ópu flykkt­ist að á lysti­bátum sínum til að verða vitni að því er haftið var rofið og sjór úr Mið­jarð­ar­hafi tók að flæða inn í Rauða­haf­ið. Og síðan hefur skurð­ur­inn verið þarna og fæstum sér­stak­lega ofar­lega í huga nema auð­vitað skip­stjórum og hafn­ar­stjór­um. Þeir sem siglt hafa í gegnum hann segja það þó ævin­týri lík­ast. Að fylgj­ast með því sem fyrir augu ber; heima­mönn­um, Egypt­um, á gangi eða á baki asna með varn­ing – kannski á leið á mark­að. Eins og dæmi­saga úr Bibl­í­unni sem lifnað hefur við.

En þeir sem halda um stýri flutn­inga­skip­anna, sem í tuga tali fara um hinn 193 kíló­metra langa skurð dag­lega, geta ekki leyft sér að fylgj­ast með mann­líf­inu á bökkum hans. Það er ekki ein­falt að sigla 220 þús­und tonna stál­klumpi, fullum af allra handa vörum og jafn­vel lif­andi skepn­um, í gegn. Það krefst ein­beit­ing­ar. Mik­illar ein­beit­ing­ar. Og þó að Súes-­skurð­ur­inn sé kannski í okkar huga í veð­ur­para­dís heims­ins, læk­ur­inn úr hinu sól­ríka Mið­jarð­ar­hafi sem við heim­sækjum að sum­ar­lagi til að láta streitu vetr­ar­ins í norðri líða úr okk­ur, er þar allra veðra von.

Auglýsing

Það sem skip­stjór­arnir ótt­ast mest eru hinir alræmdu sand­bylj­ir. Þegar skyggnið verð­ur, stundum skyndi­lega, lítið sem ekk­ert og sveipar sjón­deild­ar­hring­inn grá­brúnni hulu og lit­brigði lands­ins til allra átta verða dauf.

Þetta er einmitt skýr­ingin sem skipa­fé­lagið sem rekur flutn­inga­skipið með skrítna nafn­inu, Ever Given, hefur gefið á því að það fest­ist í skurð­inum að morgni þriðju­dags­ins í síð­ustu viku og bif­að­ist ekki af strand­stað sól­ar­hringum sam­an. Allir 20 þús­und gám­arnir um borð hafi virkað eins og helj­ar­innar segl og þrátt fyrir að skip­stjór­inn hafi reynt allt hvað hann gat end­aði sigl­ingin frá Malasíu til Rott­er­dam í Hollandi svona: Skip sem er sam­bæri­legt fjórum fót­bolta­völlum á breidd og svipað á lengd og hæð Emp­ire State-­bygg­ing­ar­inn­ar, gróf sig niður í leir­kenndan botn­inn og lok­aði aug­un­um.

Eða svo mætti halda. Að það þyrfti bara að hvíla sig.

Til að koma í veg fyrir að Súes-­skurð­ur­inn yrði hinsti hvílu­staður þess var óðara kölluð út aðstoð. Bubbi byggir mætti á gröf­unni sinni og keppt­ist við að moka sandi frá stefni þess.

Eða svo mætti halda. Að einn krafta­verka­maður úr eyði­mörk­inni hefði verið kall­aður til. Að hér ætti að leika sama leik­inn og fyrir nokkur þús­und árum: Þegar Davíð sigr­aði Gol­í­at.

EPA

En Gol­íat virð­ist hafa safnað ægi­legum kröftum síðan hann barð­ist síð­ast við litla mann­inn. Sama hvað var ýtt, tog­að, graf­ið, dælt og tæmt beit það ekki á hans stóra skrokki. Vélar með sam­tals tug­þús­undir hest­afla að vopni máttu sín lít­ils. Það var ekki fyrr en nátt­úru­fyr­ir­brigði brá fyrir á him­in­hvolf­inu að hann fór að mjakast úr stað. Og loks losna.

Þetta fannst okkur mörgum fynd­ið. Þegar myndin af litlu gröf­unni að reyna sitt besta birt­ist fyrst var eins og eld­ing færi um heila­búið og kveikti neista sem vakti okkur ræki­lega af far­sótt­ar­þreyt­unni: Árið 2021, mörgum ára­tugum eftir að fyrsta fólkið steig fæti á tung­lið, hund­ruðum ára eftir að Kína­m­úr­inn var byggð­ur, árþús­undum eftir að píramíd­arnir voru reist­ir, strandar fer­líki byggt af mönnum – í skurði gröfnum af mönnum – og fát kemur á mann­skap­inn. Verk­fræði­þekk­ingin var þá ekki meiri.

Kannski minnti þetta okkur með ein­hverjum hætti á veiruna örsmáu sem við höfðum kannski ekki sér­stak­lega miklar áhyggjur af í upp­hafi. Því var það ekki þannig að lækna­vís­indin höfðu tekið svo miklum fram­förum á stuttum tíma?

Jú, en nátt­úran getur verið óút­reikn­an­leg. Þar er fyr­ir­sjá­an­leik­inn ekki alltaf mik­ill. Sér­stak­lega ekki þegar mis­jafnar athafnir manna hafa breytt flæði henn­ar. Spillt takti henn­ar. Hrynj­anda. Sveiflum og straum­um.

Litla grafan og stóra skipið.
EPA

„Ég að reyna að berj­ast við far­ald­ur­inn,“ skrifar net­verji við mynd­ina af gröf­unni við skipið og upp­sker ótelj­andi læk. Mynd­lík­ingin er svo sterk að fjöldi fólks stóðst ekki freist­ing­una að nota hana til að lýsa til­finn­ingum sínum eftir meira en árs stríð við veiruna.

Annar sam­kvæm­is­leikur hefur falist í því að máta Ever Given á hinn og þennan stað­inn á heimskort­inu. „Smellpassar í höfn­ina í Nes­kaup­stað, en svo­lítið klunna­legt við bæj­ar­bryggj­una,“ skrifar einn og annar athugar hvernig færi á því að hafa það í Stuðla­gili.

Því það er stórt. Svo risa­stórt. Ekki svo stórt að eng­inn kom­ist yfir það nema fugl­inn fljúg­andi en þó svo stórt að það getur ekki siglt í gegnum Pana­ma-­skurð­inn. Og aug­ljós­lega tæp­lega í gegnum félaga hans, Súes.

Stærðin hefur fengið okkur til að taka and­köf, skip Eim­skips og Sam­skips virð­ast dverg­vaxin í sam­an­burð­in­um, en þó er Ever Given ekki stærsta flutn­inga­skip heims. Skipið sem það met á getur borið yfir 30 þús­und gáma.

Um 20 þúsund gámar voru um borð í skipinu er það strandaði.
EPA

Gáma­flutn­ingar hófust á sjötta ára­tugnum eftir að banda­rískum við­skipta­manni hafði hug­kvæmst að staðla þau ílát sem varn­ingur er fluttur í um heim all­an. Til varð „gámur­inn“, ýmist 20 fet eða 40 fet að lengd, og í kjöl­farið gátu skipa­fé­lög skipu­lagt flutn­inga sína af nákvæmni. Þetta umbylti vöru­flutn­ingum og í kjöl­farið hófu skipa­smíða­stöðvar að smíða flutn­inga­skip sem gátu flutt marga gáma í einu. Smám saman stækk­uðu skip­in. Og um alda­mótin þótti nokkuð gott ef þau gátu flutt um 5.000 gáma í einu.

En svo gerð­ist eitt­hvað.

Í upp­hafi nýs árþús­unds hófu skipin að stökk­breyt­ast í stærð. Skipa­smíða­stöðvar í t.d. Japan og Kína dældu út skip­um, ekki aðeins stórum heldur gígantískt stór­um.

Eitt þeirra er Ever Given. Sem við fæst höfðum nokkra hug­mynd um að vagg­aði og velt­ist um heims­höfin stút­fullt af öllum þeim vörum sem við helst óskum okk­ur.

Ef þú lítur í kringum þig núna, les­andi góð­ur, má ætla að um 90 pró­sent af þeim hlutum sem þú sérð hafi verið fluttir til þín frá upp­runa­stað með skipi. Ef þú situr er lík­legt að stól­inn eða sóf­inn hafi komið til lands­ins í skipi, sömu­leiðis öll þau föt sem þú klæð­ist og mögu­lega bróð­ur­part­ur­inn af því sem þú ætlar að snæða í dag.

Svo umfangs­miklir eru vöru­flutn­ingar milli landa og heims­álfa í nútíma sam­fé­lagi.

Auglýsing

Við leyfðum okkur að gera grín að strandi Ever Given af því atburð­ur­inn ógn­aði mjög ólík­lega lífi. Við leyfðum okkur að gant­ast með stóra skipið í skurð­inum af því að við höfum mörg hvert haft það svo­lítið skítt, svona miðað við aldur og fyrri störf, síð­ustu mán­uði.

En að baki strand­inu er þó tölu­verð alvara. Ever Given, yfir­fullt af vörum sem það var, var langt í frá eina skipið sem beið eftir að kom­ast í gegnum Súes-­skurð­inn í tæpa viku. Það gerðu einnig um 300 önnur flutn­inga­skip. Sum voru að flytja mat­væli. Sum dýr. Dýr sem flutt eru langar leiðir landa á milli til slátr­unar og sífellt er harð­ara gagn­rýnt með til­liti til dýra­verndar og lofts­lags­mála.

Við vitum hvað getur gerst í ísskápnum okkar á einni viku. Hversu fljótt girni­legar mat­vörur geta misst sjar­mann. Það sama hefur í ein­hverjum til­vikum átt sér stað um borð í flutn­inga­skip­unum í Súes. Í þessu fellst sóun á nátt­úr­unnar gjöfum og fjár­hags­legur skaði.

Afhend­ingar á vörum úr skip­unum töfð­ust einnig. Ekki aðeins um viku heldur stundum mun lengur því stæði við hafnir eru tak­mörkuð auð­lind og mann­skapur til upp­skip­unar sömu­leið­is.

Gámar eru líka tak­mörkuð auð­lind. Nú bíða óþol­in­móðir fram­leið­endur með vörur sínar hér og hvar um heim­inn eftir að fá járn­kassa til að senda þær vestur á bóg­inn, til norð­urs, suð­urs eða vest­urs. Svo þær kom­ist inn um dyrnar á þínu heim­ili. Inn í ís- eða búr­skáp. Upp á vegg eða ofan í skúffu. Svo þú getir klætt þig í þær eða stungið þeim upp í þig.

Þversum í Súes-skurðinum.
ESA

Sér­fræð­ingar telja að það geti tekið marga mán­uði að vinda ofan af þessum töf­um. Afsök­unin „því mið­ur, varan þín var föst í Súes-­skurð­in­um“ gæti orðið við­höfð næstu vik­urnar í það minnsta.

Því um leið og Ever Given stífl­aði skurð­inn stífl­aði það líka hag­kerf­ið. Setti í það tappa um hríð þó að hann hafi verið lek­ur. Hefti frjálst flæði vara og mynd­aði þrýst­ing á fram­leiðslu- og neyslu­keðj­urnar sem við leiðum í dags­ins önn sjaldan hug­ann að.

Eftir að ljóst var að Bubbi byggir og litla skurð(!)grafan hans hafði ekk­ert í Ever Given voru tog­bátar kall­aðir út og fleiri vél­knúin tæki til að reyna sig við verk­ið. Eitt­hvað vand­ræða­legt var við það hversu lítið (sama sem ekk­ert) mið­aði. Vinnu­vél­arnar og mann­fólkið voru eins og iðnir en ósköp van­máttugir maurar við hlið flikk­isins.

En þá fórn­aði nátt­úran höndum og minnti á að hún byggi yfir tog­kröftum öfl­ugri en nokkuð af því sem mann­inum hefði tek­ist að skapa. Þetta ákvað svo fólkið að nýta sér til að „frelsa“ Súes-­skurð­inn. Koma Ever Given á flot.

Gervitunglamynd Evrópsku geimvísindastofnunarinnar þar sem til hægri sjást áhrifin af strandinu á skip sem bíða við skurðinn í Rauðahafinu.
ESA

Á mánu­dag röð­uðu sólin og tunglið sér þannig upp að óvenju stór­streymt varð, tveimur dögum eftir að tunglið náði fyll­ingu og var óvenju nálægt jörðu, meira en búast má í flestum mán­uðum árs­ins. Sjáv­ar­borð hækk­aði við þetta um tæp­lega hálfan metra.

Og þannig atvik­að­ist það að Ever Given, „skrímslið“ eins og sumir vilja kalla það, tók að hreyfast á ný og það sem vant­aði upp náð­ist með mask­ínum mann­anna.

Ekki er enn vitað hvað varð til þess að skipið strand­aði. Mögu­lega áttu þar nokkrir þættir hlut að máli. Ekki er úti­lokað að tæknin hafi verið að stríða skip­stjór­anum og ekki er heldur hægt að afskrifa að mann­leg mis­tök hafi átt sér stað. Veðrið lék svo sitt hlut­verk. En vindur er þar stundum mik­ill, það er ekk­ert nýtt, og í fyrra, svo dæmi sé tek­ið, fóru tæp­lega 19 þús­und skip af öllum stærðum og gerðum í gegnum skurð­inn án nokk­urra vand­kvæða.

Ever Given var siglt í öruggt skjól þar sem þetta verður rann­sakað til hlít­ar. Á meðan sitja margir sveittir við að reikna út hinn fjár­hags­lega skaða sem tal­inn er hlaupa á tugum millj­arða banda­ríkja­dala. Og reyna að finna þann sem á að borga – ber hina fjár­hags­legu ábyrgð.

Þegar fyrstu bátarnir sigldu í gegnum Súes-skurðinn árið 1869.

Þegar fyrsta skóflustungan að Súes-­skurð­inum var tekin árið 1858 var hún ekki sú síð­asta. Skurð­ur­inn var bók­staf­lega mok­aður með handafli fyrst í stað. Frakkar höfðu tryggt sér samn­inga við Egypta um gerð hans. Það þurfti margar hend­ur. Þær voru egyp­sk­ar. Þús­undir verka­mann­anna létu líf­ið. Sjór­inn á þessum slóðum mun því um alla eilífð vera lit­aður blóði þeirra.

Bretar tryggðu sér lengi vel yfir­ráða­rétt­inn og her­námu nokkrum árum síðar Egypta­land. Það var svo ekki fyrr en árið 1956, sama ár og gámur­inn var fund­inn upp, að Egyptar ákváðu að þjóð­nýta skipa­skurð­inn. Þeir vildu fá umsýslu­gjöldin í sinn vasa til að byggja stóra virkjun í Níl­ar­fljóti, koma landi sínu áleiðis inn í nútím­ann. Sú yfir­færsla á valdi fór ekki hljóð­lega fram. Ísra­el­ar, Bretar og Frakkar sýndu klærnar en hörf­uðu nokkrum mán­uðum síðar vegna þrýst­ings frá Sam­ein­uðu þjóð­un­um. Á meðan þessu brölti stóð var skurð­ur­inn meira og minna lok­að­ur.

Er hann var opn­aður að nýju fyrir skipa­um­ferð árið 1957, þá að fullu undir stjórn Egypta, varð hann að tákn­mynd fyrir enda­lok nýlendu­tím­ans. Um hann var aftur deilt síð­ar, m.a. í sex daga stríð­inu við Ísra­ela árið 1967. Nokkur flutn­inga­skip urðu þá inn­lyksa í skurð­inum og losn­uðu ekki úr herkvínni fyrr en árið 1975. Skipin fimmtán voru frá átta löndum og skip­verjarnir bund­ust vina­böndum og héldu m.a. sína eigin ólymp­íu­leika árið 1968, árið sem hinir eig­in­legu leikar fóru fram í Mexíkó.

Auglýsing

Súes-­skurð­ur­inn breytti heim­in­um. Hann breytti heims­mynd okk­ar. Stytti leið­ina milli Asíu og Evr­ópu um helm­ing. Ekki þurfti lengur að sigla fyrir Góðr­ar­von­ar­höfða, syðst í Afr­íku, til að koma sendi­bréfum og marg­vís­legum varn­ingi – og fólki – milli nýlend­anna við mið­baug og herra­þjóð­anna í Evr­ópu.

Í dag er hann fjórða fjöl­farn­asta sigl­inga­leið flutn­inga­skipa heims­ins.

Lítið sem ekk­ert hefur heyrst frá skip­verjum Ever Given, hvorki á meðan strand­inu stóð né eftir það. Þeir eru flestir frá Ind­landi. Landi sem Bretar arð­rændu ára­tugum saman og klöpp­uðu því hátt er sigl­inga­leiðin með ráns­feng­inn helm­ing­að­ist á sínum tíma. Landi sem var á löngu tíma­bili, allt til árs­ins 1947, kallað „krúnu­djásn“ breska heims­veld­is­ins.

Þegar hreyf­ing komst loks á Ever Given á mánu­dag heyrð­ist eng­inn hvell­ur. Ekk­ert brak. Engir skruðn­ing­ar. Það bara fór á flot á ný. Var vakn­að. Til­búið að halda áfram. Það mátti þó heyra fagn­að­aróp björg­un­ar­sveit­anna og jafn­vel berg­mál and­varpa allra þeirra sem setið höfðu límdir við tölvur og síma um víða ver­öld og fylgst með aðgerð­um. Sumir í sótt­kví, aðrir í ein­angrun og vel­flestir búandi við harðar tak­mark­anir vegna heims­far­ald­urs­ins.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar