EPA Champlain Tower

Viðvörunarbjöllur hringt í þrjú ár

Flestir voru í fastasvefni er hrikta tók í stoðum Champlain Towers South-byggingarinnar. Svo tóku hæðirnar þrettán að falla ein af annarri. Rétt eins og veikbyggð spilaborg. Sextán hafa fundist látin og 149 er enn leitað.

Í fyrstu virtist ekkert athugavert við Champlain Towers South-bygginguna í bænum Surfside í Suður-Flórída er verktaki, sem ætlaði að gera tilboð í endurbætur á sundlaugarsvæði hennar, litaðist þar um á þriðjudag í síðustu viku. Sundlaugin og nánasta umhverfi hennar var hrein og leit út fyrir að vera vel við haldið.

En síðan fór hann ofan í kjallara þar sem m.a. er að finna stýribúnað fyrir sundlaugina. Hann leit einnig inn í bílakjallarann við hliðina. Og þar lá vatn yfir öllu. Verktakinn tók svo eftir sprungum í steypunni og tærðu steypustyrktarjárni – beint undir sundlauginni.

36 klukkustundum síðar var byggingin hrunin til grunna. Inni voru tugir íbúa og enn, fimm sólarhringum eftir slysið, er enn 144 þeirra saknað.

Auglýsing

Verktakinn lýsir þessu í samtali við dagblaðið Miami Herald. Hann hafði ætlað sér að bjóða í lítinn hluta umfangsmikilla og dýrra framkvæmda sem voru fyrir höndum í hinu fjörutíu ár gamla húsi.

Er hann gekk um bílakjallarann tók hann eftir að vatnið var mest í kringum einn stað: Bílastæði nr. 78. Samkvæmt teikningum af húsinu var það stæði beint undir sundlauginni. Það er líka á sama stað og tekið var sérstaklega fyrir í eftirlitsskýrslu verkfræðingsins Frank Morabito árið 2018. Morabito sagði hönnunargalla í byggingunni valda því að vatn kæmist um steypuna sem gæti valdið stórskaða á styrktarstoðum.

Verktakinn segir við Miami Herald að í stjórnherbergi laugarinnar, sem er við hlið bílakjallarans, hafi hann einnig komið auga á vandamál. Þar stóðu steypustyrktarjárn úr út steypunni í loftinu og voru farin að tærast. Hann tók myndir af þessu og sendi á yfirmann sinn og lýsti áhyggjum af umfangi verksins sem þeir ætluðu sér að gera tilboð í. Það yrði að öllum líkindum flóknara og stærra í sniðum en þeim hafði upphaflega verið sagt.

Einn turninn hrundi til grunna en annar hrundi að hluta.
EPA

Innan við tveimur sólarhringum síðar var byggingin hrunin og þó enn sé ekki búið að rannsaka til fulls hvað olli því spyr verktakinn hvort að skemmdirnar undir sundlauginni geti að minnsta kosti hafa átt hlut að máli.

Umsjónarmaður byggingarinnar á tíunda áratug síðustu aldar sagði í viðtali við CBS að sjór hefði stöðugt lekið inn í kjallarann og í það miklu magni að „dælur höfðu aldrei við“. Vatn, ýmist úr sjónum eða sundlauginni, hefur því líkast til verið óvinur Champlain Towers South í fleiri ár.

Félagið sem á húsið vildi ekki bregðast við orðum verktakans er Miami Herald leitaði eftir því. Verkfræðingar sem blaðið hafði samband við og skoðuðu myndir verktakans segja að skemmdirnar sem á þeim sjáist gætu án efa verið vísbendingar um ástand steypunnar og styrktarjárnanna á öðrum stöðum í húsinu, m.a. þeim sem síðar gaf sig undan þunga þess. Einn þeirra bendir þó á að algengt sé að járn og yfirborðsfletir verði fyrir áhrifum af kemískum efnum sem notuð eru í sundlaugar og líti verr út. Annar bendir á að þótt svæðið sem verktakinn fór um og leit illa út hafi ekki hrunið geti það hafa valdið því að önnur svæði, minna skemmd, hafi snúist eða hallað og undirstöðurnar því orðið fyrir óeðlilegu álagi.

EPA

Fleiri kenningar eru á kreiki um ástæður hruns byggingarinnar. Sífellt fleiri fréttir um ábendingar og áhyggjur af stöðu hússins hafa verið að birtast vestanhafs. Maðkur virðist líka í mysunni þegar kemur að þeim upplýsingum sem gefnar voru stjórn Champlain Tower fyrir þremur árum. Í kjölfar frumskýrslu verkfræðings sem rannsakaði bygginguna árið 2018 og komst m.a. að því að í henni mætti finna „meiriháttar skemmdir“ fékk stjórn hússins hins vegar þær upplýsingar frá byggingaryfirvöldum í Surfside að það væri í „mjög góðu ástandi“. Skýrsla verkfræðingsins benti ekki til þess að byggingin væri að hruni komin en í henni var engu að síður farið yfir til hvaða viðhalds þyrfti nauðsynlega að grípa. Kostnaðurinn við það hljóp á milljónum Bandaríkjadala.

Nýverið birti svo New York Times bréf frá formanni sambands fjölbýlishúsa á svæðinu til félagsmanna sinna þar sem hann lýsti „alvarlegum áhyggjum“ af byggingunni. Bréfið sendi hann þremur mánuðum áður en húsið hrundi.

Rannsókn stendur yfir og þrýstingur er á yfirvöld að hún gangi hratt fyrir sig og sýni fram á óyggjandi niðurstöður. Skipa á sérstakan kviðdóm til að rannsaka málið líkt og fordæmi eru fyrir í sambærilegum slysum í Bandaríkjunum.

BJörgunarmenn vinna í kapphlaupi við tímann að færa til brak í leit að lífi í rústunum.
EPA

Það eiga margir um sárt að binda. Sextán hafa fundist látnir og þeirra 149 sem er saknað er enn leitað í rústunum. Vonin dofnar. Hundruð björgunarmanna, víðsvegar að úr heiminum, taka þátt. Síðustu daga hefur vinna þeirra m.a. falist í því að flytja til brak í rústunum. Þegar er búið að færa til hundruð þúsunda tonna. Það er ekki hættulaus vinna og þarf að gerast af ítrustu varúð samkvæmt leiðbeiningum færustu verkfræðinga. Rústirnar eru hættulegar. Brakið er í háum hraukum sem geta fallið við minnstu mistök.

„Markmiðið er að sjálfsögðu að komast að því hvað gerðist og hvernig megi koma í veg fyrir að þetta endurtaki sig,“ sagði blaðafulltrúi Hvíta hússins, Jen Psaki, í viðtali í nótt. Stórslysið, sem gæti orðið meðal þeirra mannskæðustu af þessum toga í Bandaríkjunum, hefur enda vakið ugg í brjóstum fólks sem býr í fjölbýlishúsum sem byggð voru á svipuðum tíma, þ.e. á níunda áratug síðustu aldar. Íbúar í Suður-Flórída, á svæðinu þar sem byggingin stóð, krefjast þess að gengið verði úr skugga um að þeirra hús séu örugg.

Auglýsing

Hluti byggingarinnar, turninn sem kenndur er við suður, tók að hrynja undir morgun fimmtudaginn í síðustu viku. Þá voru flestir íbúar enn í fasta svefni. Svo virðist sem hver hæðin á fætur annarri, frá þeirri neðstu og til þeirrar efstu, hafi hrunið. Byggingin taldi þrettán hæðir.

Í dag og í gær hafa ástvinir þeirra sem grafnir eru í rústunum fengið að koma að þeim og fylgjast með björgunarstörfum um stund. Og til að syrgja. „Ég elska þig!“ hrópa sumir að húsinu til ástvina sinna sem þeir vita ekki hvort eru lífs eða liðnir inni í haugum braksins. „Gerðu það, komdu út. Ég bíð eftir þér.“

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar