Mynd: Bára Huld Beck Stjórnarráðið

Stjórnendur í ráðuneytum eiga milljónir í hlutabréfum

Einn ráðuneytisstjóri og tveir skrifstofustjórar ráðuneytanna eiga hlutabréf í félögum sem skráð eru á markaði í Kauphöllinni fyrir meira en milljón krónur. Ekki er greint frá hlutabréfaeign ráðuneytisstjórans í opinberri hagsmunaskrá.

Ráðuneytisstjóri samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins á hlutabréf í Marel að andvirði rúmlega milljón króna sem ekki eru tilgreind í hagsmunaskrá hennar á vef Stjórnarráðsins. Tveir skrifstofustjórar, annars vegar í fjármálaráðuneytinu og hins vegar í atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu, eiga einnig hlutabréf í Kauphallarfyrirtækjum fyrir 16 og 33 milljónir króna.

Hlutabréfaeign skráð til að forðast hagsmunaárekstur

Í janúar á síðasta ári lagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fram frumvarp um varnir gegn hagsmunaárekstrum í Stjórnarráðinu og var það samþykkt í fyrrasumar. Lögin tóku svo gildi í byrjun þessa árs.

Samkvæmt lögunum ber ráðuneytisstjórum, aðstoðarmönnum, skrifstofustjórum og sendiherrum að skila hagsmunaskráningu til forsætisráðuneytisins, þar sem hlutabréfaeign þeirra kemur fram.

Hagsmunaskráning á hagsmunum ráðuneytisstjóra og aðstoðarmanna ráðherra er aðgengileg á vef hvers ráðuneytis fyrir sig, en hagsmunaskráning skrifstofustjóra og sendiherra er ekki birt opinberlega. Hins vegar mun forsætisráðuneytið halda utan um allar þessar upplýsingar og og á það birta þær opinberlega þegar almannahagsmunir krefjast þess.

Auglýsing

Katrín skrifaði sjálf grein um lögin á Kjarnanum í fyrra, en þar sagði hún að það væri mikilvægt að skýrar reglur um skráningu æðstu stjórnenda hins opinbera séu settar svo að traust geti skapast í garð stjórnvalda.

Lögin voru unnin með hliðsjón af ábendingum frá GRECO, samtaka ríkja gegn spillingu, og leiðbeiningum efnahags- og framfarastofnunar (OECD) um opinber heilindi.

Eignarhlutur ekki gefinn upp í hagsmunaskrá

Engin hlutabréfaeign er skráð í hagsmunaskrá Ragnhildar Hjaltadóttur, ráðuneytisstjóra samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, en hún var síðast uppfærð árið 2018. Hins vegar er hún skráður hluthafi í fjórum Kauphallarfélögum, en þar af er eignarhlutur að virði rúmlega milljón króna í Marel.

Auglýsing

Í svari við fyrirspurn Kjarnans um eign sína í Marel segir Ragnhildur að bréfin séu í eignastýringu hjá Kviku og fylgi fjárfestingastefnu bankans. Því hafi hún ekki áhrif á fjárfestingaákvarðanir þegar kemur að einstökum bréfum og ættu þar af leiðandi engir hagsmunaárekstrar að vera til staðar.

Tveir skrifstofustjórar einnig með hlut

Kolbeinn Árnason, skrifstofustjóri í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, og Nökkvi Bragason, skrifstofustjóri í fjármálaráðuneytinu, eru einnig skráðir hluthafar í fjölda fyrirtækja í Kauphöllinni.

Samkvæmt samstæðureikningum síðasta árs á Kolbeinn hlutabréf í Marel að andvirði 18 milljóna króna, auk bréfa í Reginn að andvirði 2,6 milljóna króna og bréfa í Origo að virði tæplega 1,8 milljóna króna. Einnig á hann tíu milljóna króna hlutabréf í Símanum, en hann var stjórnarmaður fyrirtækisins í fyrra og sat í endurskoðunarnefnd þess. Samtals er virði hlutabréfaeignar hans 33 milljónir króna.

Kolbeinn Árnason, skrifstofustjóri í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, er fyrrverandi framkvæmdastjóri LÍÚ
Mynd: Anton Brink

Sjálfur segist Kolbeinn hafa tilkynnt hlutabréfaeign sína í samræmi við lög, en telur þó ekki að hagsmunárekstur gæti skapast í störfum sínum sem skrifstofustjóri vegna hennar.

Nökkvi Bragason er skráður hluthafi í fjórum félögum í Kauphöllinni, Brim, Eimskip, Iceland Seafood og Sýn. Markaðsvirði hlutabréfaeignar Nökkva í Brimi, Eimskipi og Sýn nemur rúmlega þremur milljónum króna fyrir hvert fyrirtæki, en eignarhlutur hans í Iceland Seafood nemur rúmlega fimm milljónum króna.

Auglýsing

Í svari við fyrirspurn Kjarnans segist Nökkvi einnig hafa tilkynnt forsætisráðuneytinu um þessa eign, auk þess sem regluverðir fjármálaráðuneytisins hafi verið látnir vita.

„Ég tel að það sé hafið yfir allan vafa að ég hef hvorki fyrr né síðar búið yfir neinum innherjaupplýsingum sem varða umrædd hlutafélög og að verkefni sem ég vinn að hjá ráðuneytinu varða ekki hagsmuni þessara fyrirtækja sérstaklega,“ bætir hann við. „Ef svo ólíklega vildi til að ég ætti hlut í félagi sem með einhverjum hætti varðaði mín verkefni mundi ég að sjálfsögðu gæta að stöðu minni og standa rétt að málum í samráði við mína yfirboðara í ráðuneytinu og gera reglugerði viðvart.“

Ný lög leiddu til birtingar á hluthafalistum

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, lagði fram frumvarp um breytingar á lögum um ársreikninga í fyrra sem átti að stuðla að auknu gagnsæi stærri kerfislega mikilvægra félaga. Frumvarpið var samþykkt á Alþingi og tóku lögin svo gildi í upphafi árs 2021.

Á meðal þess sem lögin leiddu af sér var að öll skráð félög á hlutabréfamarkaði þurftu, í fyrsta sinn, að birta heildarhluthafalista sína opinberlega í samstæðureikningum sem þau skiluðu inn til ársreikningaskrár. Áður hafði einungis verið hægt að sjá hverjir 20 stærstu eigendur hvers félags voru. Því var um mikla breytingu að ræða.

Önnur breyting sem varð þegar lögin tóku gildi er sú að aðgangur að ársreikningum er gjaldfrjáls á vef Ríkisskattstjóra. Því var, allt í einu, hægt að nálgast upplýsingar um fjárhagslega hagsmuni þúsunda einstaklinga, þar án greiðslu.

Á undanförnum árum hafa verið stigin skref í sem skylda ákveðna hópa til að skrá skilgreinda hagsmuni sína og gera þá skráningu opinbera. Tilgangur þess er að auka traust í samfélaginu. Þannig þurfa þingmenn, sumir sveitarstjórnarmenn og embættismenn til dæmis að gera grein fyrir ákveðnum eignum sínum í hagsmunaskráningu. Þar á meðal er hlutafjáreign. Til viðbótar liggur fyrir að aðrir, til dæmis blaða- og fréttamenn, geta skapað hagsmunaárekstra með því að eiga hlut í skráðum félögum sem þeir svo fjalla um í starfi sínu.

Kjarninn hefur undanfarnar vikur greint þá hluthafalista sem birti voru í samstæðureikningum skráðra félaga með það fyrir augum að ganga úr skugga hvort settum reglum um hagsmunaskráningu sé fylgt, og hvort mögulegir hagsmunaárekstrar séu til staðar.

Telur birtinguna fara gegn lögum

Ekki er víst hvort heildarhluthafalistarnir sem notaðir voru til að finna hlutabréfaeign embættismanna verði aðgengilegir í langan tíma, en líkt og Kjarninn fjallaði um á dögunum telur Persónuvernd birtingu þeirra fara gegn lögum.

Í áliti sem stofnunin birti í þarsíðustu viku segir að orðalag lagabreytinganna feli að óbreyttu ekki í sér nægilega skýra heimild til birtingarlista yfir alla hluthafa félaga sem undir lögin falla með ársreikningum þeirra.

Þess má geta að árið 2018 fetti stofnunin fingur út í það að Kauphöllin sjálf birti reglulega uppfærðar upplýsingar um 20 stærstu hluthafa skráðra félaga á vef sínum.

Persónuvernd lagði fyrir ríkisskattstjóra að láta af slíkri birtingu upplýsinga innan mánaðar frá ákvörðuninni, það er að segja fyrir 18. júlí næstkomandi.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnJónas Atli Gunnarsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar