Hljótum að reyna að „vinna flauminn“ sem bráðnun jökla veldur

Forstjóri Landsvirkjunar segir að fyrirséð bráðnun jökla muni auka rennsli í ám á borð við Þjórsá og að „við hljótum að reyna að vinna hreina, græna orku úr þeim mikla flaumi“. Fyrirtækið hefur nú sótt um virkjunarleyfi vegna Hvammsvirkjunar.

Hvammsvirkjun í neðri hluta Þjórsár yrði um 93 MW að afli.
Hvammsvirkjun í neðri hluta Þjórsár yrði um 93 MW að afli.
Auglýsing

Landsvirkjun hefur lagt inn umsókn hjá Orkustofnun um virkjunarleyfi vegna Hvammsvirkjunar sem fyrirhuguð er í Þjórsá. Virkjunin yrði áttunda virkjunin á vatnasviði árinnar og þveráa hennar. Slíkt leyfi er forsenda þess að síðar verði hægt að óska eftir framkvæmdaleyfi til sveitarfélaganna Skeiða- og Gnúpverjahrepps og Rangárþings ytra. „Umsókn um virkjunarleyfi er því ein varðan á þeirri leið að nýta betur – og enn og aftur – gríðarmikla orkuna í fallvötnum þessa gjöfula svæðis,“ skrifar Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, í grein sem birtist á Vísi í morgun. Enn hafi hins vegar ekki verið tekin ákvörðun um hvort eða hvenær sótt verði um leyfi til að hefja framkvæmdir. „Þjórsá hefur gefið okkur orku sína allt frá því að Búrfellsvirkjun var reist þar fyrir hálfum sjötta áratug,“ rifjar Hörður upp.

„Fyrirséð er, að bráðnun jökla eykur rennsli í ám eins og Þjórsá, sem þegar er næst vatnsmesta á landsins,“ skrifar Hörður. „Við hljótum að reyna að vinna hreina, græna orku úr þeim mikla flaumi. Suðurlandið er sem fyrr vænsti kosturinn til orkuvinnslu, enda er eftirspurnin eftir orkunni mest á suðvesturhluta landsins og flutningskerfið til að koma orkunni á markað er þar tryggt og gott.“

Auglýsing

Virkjanir Landsvirkjunar í Þjórsá sem Hörður nefnir eru á hálendinu eða í jaðri þess. Hvammsvirkjun yrði hins vegar reist í blómlegri byggð og stæði um fimmtán kílómetrum neðan Búrfellsstöðvar.

Framkvæmdasvæðið myndi afmarkast af landsvæði norðan og vestan við Skarðsfjall að farvegi Þjórsár. Það yrði innan sveitarfélaganna Skeiða- og Gnúpverjahrepps og Rangárþings ytra en flest mannvirki eru staðsett í því síðarnefnda.

Tölvuteiknaðar myndir úr kynningarefni Landvirkjunar á hinni fyrirhuguðu Hvammsvirkjun í Þjórsá. Á efri myndinni er svæðið ósnortið en sú neðri á að sýna ásýnd landsins að framkvæmdum loknum.

Virkjunin myndi nýta 32 metra fall Þjórsár ofan við bæinn Haga. Stífla yrði gerð í ánni um 400 metrum fyrir ofan hina friðuðu og sérstæðu Viðey og ofan hennar yrði til fjögurra ferkílómetra inntakslón. Uppsett afl yrði 93 MW.

Athuganir á hagkvæmni virkjana í neðanverðri Þjórsá hófust árið 1999. Ýmist tvær eða þrjár virkjanir voru þá nefndar; Núpsvirkjun og Urriðafossvirkjun eða Hvamms-, Holta- og Urriðafossvirkjun. Árið 2003 kom út skýrsla um mat á umhverfisáhrifum allra þessara kosta. Metin voru áhrif virkjunar við Núp í einu skrefi (Núpsvirkjun) og í tveimur skrefum (Holta- og Hvammsvirkjun).

Hugmyndir á ís um hríð

Mikil andstaða var við þessi áform og að auki breyttust ýmsar forsendur í þjóðfélaginu sem urðu til þess að Landsvirkjun setti þau á ís. Nokkru síðar hófst vinna við áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, svonefnda rammaáætlun, þar sem virkjanakostir voru flokkaðir í orkunýtingar-, bið- og verndarflokk. Árið 2013 var tekin ákvörðun á Alþingi um að Hvamms-, Holta- og Urriðafossvirkjun færu í biðflokk, m.a. vegna óvissu um áhrif á laxfiska í Þjórsá.

En tveimur árum síðar, í byrjun sumars 2015, samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu um að færa Hvammsvirkjun eina og sér í orkunýtingarflokk. Og í nýjustu tillögunni, sem orðin er tæplega fimm ára, er lagt til að hinar tvær virkjanahugmyndirnar, Holta- og Urriðafossvirkjun, verði einnig færðar úr biðflokki í orkunýtingarflokk. Sú tillaga, sem fyrst var lögð fram á Alþingi haustið 2016, bíður enn afgreiðslu Alþingis.

Auglýsing

Þar með yrðu allar virkjanirnar, sem svo umdeildar voru í upphafi aldarinnar, aftur komnar á dagskrá. Samanlagt afl þeirra yrði um 290 MW en til samanburðar er Búrfellsstöð 270 MW.

Skipulagsstofnun komst að því í úrskurði sínum árið 2015 að endurskoða skyldi umhverfisáhrif Hvammsvirkjunar að hluta en matsskýrsla Landsvirkjunar vegna áformanna var þá orðin meira en áratugar gömul.

Álit hennar á þeirri endurskoðun, sem sneri eingöngu að áhrifum á landslag, ásýnd lands, ferðaþjónustu og útivist, lá fyrir árið 2018 og í því kom fram að framkvæmdaþættir virkjunarinnar, sem saman stæðu af stíflu, stöðvarhúsi, varnargörðum, vegum, efnistöku, lóni í farvegi Þjórsár og fleiru, myndu einir sér og til samans verða „mjög umfangsmiklir og ljóst að ásýnd og yfirbragð á stóru svæði kæmi til með að taka miklum breytingum með tilkomu virkjunarinnar“. Áhrifasvæði fyrirhugaðra framkvæmda einkennist af landbúnaði „og að mestu ósnortinni náttúru og virkjunin er fyrirhuguð í mikilli nálægð við byggð á svæði“. Taldi stofnunin að áhrif Hvammsvirkjunar á landslag yrðu verulega neikvæð og að mjög margir yrðu fyrir „neikvæðum áhrifum vegna ásýndar- og yfirbragðsbreytinga“. Þá taldi stofnunin ennfremur að virkjunarframkvæmdirnar væru líklegar til að hafa talsverð neikvæð áhrif á útivist og ferðaþjónustu.

Virkjanaþrennan

Íbúar við Þjórsá hafa í gegnum árin lýst yfir áhyggjum sínum vegna áformanna enda yrði virkjunin í túnfæti bæja. Þá myndi hún kaffæra flúðum og niður árinnar, sem fólk á svæðinu hefur alist upp við, þagna.

Hörður sagði í viðtali við mbl.is haustið 2017 að Hvammsvirkjun væri algjörlega óháð hinum tveimur virkjanahugmyndunum. Yrði hún að veruleika þýddi það ekki að Holta- og Urriðafossvirkjun myndu fylgja sjálfkrafa í kjölfarið. „Hver þessara þriggja virkjana einar og sér eru arðbærir kostir, Urriðafoss hvað arðbærastur,“ sagði Hörður. „En sú virkjun yrði alltaf síðust, m.a. vegna umhverfisáhrifa. En það er ekki þannig að Hvammsvirkjun myndi á einhvern hátt kalla á að ráðist yrði í hinar tvær.“

Landsvirkjun er með að minnsta kosti sextán virkjanakosti til skoðunar, ýmist stækkanir á eldri virkjunum eða nýjar. Í þingsályktunartillögu að þriðja áfanga rammaáætlunar eru átta hugmyndir Landsvirkjunar í nýtingarflokki og fimm í biðflokki. Að auki áformar fyrirtækið stækkun þriggja virkjana á hálendinu; Hrauneyjafossstöð, Vatnsfellsstöð og Sigöldustöð. Með því að bæta við einni vél í þeim öllum yrði afl þeirra samanlagt aukið um 210 MW án þess að til stækkunar lóna, breytinga á stíflum og lengingu aðrennslis- og frárennslisskurða þyrfti að koma.

Í tillögudrögum verkefnisstjórnar fjórða áfanga rammaáætlunar, sem birt voru í vor, eru allar stækkanirnar flokkaðar í orkunýtingarflokk.

Fjölga þarf körfunum

Í grein sinni á Vísi fjallar Hörður einnig um vindorku og segir nýtingu hennar mikilvæga til að hafa ekki „öll egg í sömu körfu. Ef við værum byrjuð að fanga vindinn til orkuvinnslu í umtalsverðu magni myndi hann skjóta styrkri stoð undir afhendingaröryggi raforku. Vindurinn spyr ekkert um hitastig á fjöllum og rennsli í ám. Við getum gengið að honum nokkuð vísum stóran hluta ársins, mörgum vissulega til mæðu en grænni orkuvinnslu til framdráttar“.

Áætlanir Landsvirkjunar um vindorkuverið Búrfellslund á Þjórsársvæðinu, innan sveitarfélagsins Rangárþings ytra, eru að sögn Harðar tilbúnar. Til að koma til móts við athugasemdir og ábendingar við Búrfellslund sem komu fram í umhverfismati og 3. áfanga rammaáætlunar endurhannaði Landsvirkjun hið áformaða vindorkuver, stærð þess og staðsetningu. Uppsett afl þess, er nú áætlað 120 MW og vindmyllurnar um 30 í stað allt að 80.

Sýnileiki hins áformaða Búrfellslundar. Myndin er úr skýrslu verkefnisstjórnar 4. áfanga rammaáætlunar.

Sá virkjunarkostur var einn þeirra sem verkefnisstjórn 4. áfanga rammaáætlunar fjallaði um og setti í biðflokk í tillögudrögum sínum í vor. Rökin eru helst þau að virkjunin myndi hafa mikil áhrif á mörg ferðasvæði. Í umfjöllun faghóps sem hafði það hlutverk að meta áhrif virkjanakosta á ferðamennsku og útivist kemur fram að Búrfellslundur yrði á ferðasvæðunum Þjórsárdal og Þórisvatni en um það liggi ferðaleiðir inn á tvö mikilvæg hálendissvæði, þ.e. Fjallabak og Sprengisandsleið. „Áhrifasvæði Búrfellslundar teygir sig því austur að Skaftá með þeim vinsælu ferðaleiðum sem liggja um svæðið en einnig norður Sprengisand þar sem ferðamenn á leið um hann kæmu til með að sjá vindmyllurnar í upphafi eða enda ferðar.“ Faghópurinn sagði að þótt vindorkuverið yrði vissulega á svæði sem nú þegar er mikið nýtt til orkuframleiðslu séu slíkar virkjanir „óumflýjanlega áberandi í landslaginu“ og vindmyllurnar myndu sjást langt að. Því megi ætla að vindorkuver „af þeirri stærðargráðu sem hér um ræðir hafi mun meiri áhrif á ásýnd svæðisins en núverandi mannvirki og geri umhverfið enn minna náttúrulegt í hugum ferðamanna en það er nú“.

Þar með dragi enn frekar úr náttúruupplifun ferðamannanna og upplifun þeirra á landslaginu og svæðinu í heild verður síðri.

Ekki í farleið fugla

Í grein Harðar á Vísi í morgun kemur fram að ítarlegar rannsóknir hafi verið gerðar á hinu fyrirhugaða framkvæmdasvæði Búrfellslundar árum saman. „Við vitum til dæmis, að vindmyllur í Búrfellslundi myndu ekki standa í farleið fugla og við vitum að ef þær væru fjarlægðar síðar væru lítil ef nokkur ummerki um að þarna hefði nokkurn tímann staðið aflstöð. Því miður verður hins vegar enn bið á að við getum nýtt vindinn, þar sem löggjafarvaldið hefur ekki náð að koma þeim málum í viðunandi farveg.“

Sumir íbúar við Þjórsá sem og samtök á borð við Landvernd sem gagnrýnt hafa hugmyndir um frekari uppbyggingu nýrra virkjana á Þjórsársvæðinu, hafa m.a. lagt áherslu á að ekki verði farið í slíkar framkvæmdir nema að brýn þörf sé á, að orkan verði ekki notuð til stóriðju, líkt og um 80 prósent allrar orku sem framleidd er í landinu nú þegar, heldur til uppbyggingar í nærsveitum virkjananna.

Nauðsynleg orkuskipti

Hörður skrifar í grein sinni að fáar þjóðir séu jafn vel í stakk búnar til að „takast á við nauðsynleg orkuskipti“ og Íslendingar. „Við getum tekið risaskref í loftslagsmálum með því að knýja allan bílaflota okkar með grænu rafmagni og við munum áreiðanlega knýja öll stærri farartæki, flutningabíla og flugvélar, með rafeldsneyti innan nokkurra ára.“

Einnig skrifar hann að ekki eigi að taka ákvarðanir um orkuvinnslu nema að mjög vel rannsökuðu máli en „um leið verðum við að horfast í augu við að aukning í vinnslu grænu raforkunnar okkar er nauðsynleg til þess að ná þeim árangri sem við höfum skuldbundið okkur til þess að ná í loftlagsmálum og á sama tíma yrðu til áhugaverð, vel launuð störf og aukin efnahagsleg hagsæld. Vinnum græna orku, fyrir framtíðina“.

Umdeilt er hins vegar hvort virkja þurfi sérstaklega til orkuskiptanna, að minnsta kosti í bráð. Þannig hefur Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitunnar, sagt að ekki þurfi að virkja næstu tíu árin til að rafvæða samgöngur. Orkuveitan spái því að rafbílar verði orðnir 100 þúsund árið 2030. Bjarni sagði í haust að um 7,5-8 prósent af öllu rafmagni sem hægt væri að vinna árlega í landinu væri óselt. Það myndi duga til að knýja allan einkabílaflota landsins og vel það.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Ari Trausti Guðmundsson
Faraldur er ekki fyrirsjáanlegur
Kjarninn 29. júlí 2021
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
„Ekki má hringla með marklínuna“
Dómsmálaráðherra vonar að stjórnarandstöðunni „auðnist ekki að slíta í sundur þá einingu sem ríkt hefur meðal landsmanna í baráttunni gegn veirunni“. Samhliða útbreiddri bólusetningu þurfi að slá nýjan takt og „leggja grunn að eðlilegu lífi á ný“.
Kjarninn 29. júlí 2021
Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja.
Samherji kannar hvernig afsökunarbeiðnir leggjast í landann
Þátttakendur í viðhorfahópi Gallup fengu í vikunni sendar spurningar um Samherja. Fyrirtækið, sem baðst tvívegis afsökunar fyrr í sumar, virðist fylgjast grannt með almenningsálitinu.
Kjarninn 29. júlí 2021
Ríkisstjórnin héldi ekki þingmeirihluta sínum ef niðurstöður kosninga yrðu í takt við nýja könnun Maskínu.
Ríkisstjórnarflokkarnir fengju einungis 30 þingmenn samkvæmt nýrri könnun Maskínu
Í nýrri könnun Maskínu fyrir fréttastofu Stöðvar 2, Bylgjunnar og Vísis dalar fylgi Sjálfstæðisflokksins um tæp þrjú prósentustig. Ríkisstjórnin myndi ekki halda þingmeirihluta sínum, samkvæmt könnuninni.
Kjarninn 28. júlí 2021
Birna Einarsdóttir bankastjóri segir fyrri hluta þessa árs hafa verið viðburðaríkan.
5,4 milljarða hagnaður hjá Íslandsbanka á öðrum ársfjórðungi
Hagnaður bankans jókst umtalsvert á öðrum ársfjórðungi, og í raun á fyrri hluta ársins, miðað við sama tíma í fyrra. Útlán bankans hafa aukist um 8,2 prósent það sem af er ári vegna umsvifa í húsnæðislánum.
Kjarninn 28. júlí 2021
Benedikt Gíslason er forstjóri Arion banka og segir hann reksturinn ganga mjög vel.
Arion banki hagnaðist um 7,8 milljarða á öðrum ársfjórðungi
Bankinn hagnaðist um 7,8 milljarða á öðrum ársfjórðungi 2021 og arðsemi eigin fjár var 16,3 prósent.
Kjarninn 28. júlí 2021
Gunnar Alexander Ólafsson
Brunar lestin?
Kjarninn 28. júlí 2021
Stór hluti fólksfjölgunar hér á landi er tilkominn vegna fólksflutninga.
Færri Íslendingar flutt af landi brott í faraldri
Samsetning brottfluttra og aðfluttra hefur breyst töluvert í kórónuveirufaraldri. Í fyrra fluttu 506 fleiri íslenskir ríkisborgarar til landsins en frá því og hefur fjöldinn ekki verið meiri síðan 1987.
Kjarninn 28. júlí 2021
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar