Ný virkjun í neðri hluta Þjórsár í forgangi hjá Landsvirkjun

Landsvirkjun hefur sett fimm virkjanahugmyndir í forgang. Ein þeirra er Hvammsvirkjun í neðri hluta Þjórsár. Tvær virkjanir til viðbótar eru svo fyrirhugaðar í ánni. Fyrirtækið áformar auk þess stækkun þriggja virkjana á hálendinu.

Hvammsvirkjun er fyrirhuguð í neðri hluta Þjórsár. Myndað yrði lón í farvegi árinnar.
Hvammsvirkjun er fyrirhuguð í neðri hluta Þjórsár. Myndað yrði lón í farvegi árinnar.
Auglýsing

Landsvirkjun er með að minnsta kosti sextán virkjanakosti til skoðunar, ýmist stækkanir á eldri virkjunum eða nýjar. Í þingsályktunartillögu að þriðja áfanga rammaáætlunar eru átta hugmyndir Landsvirkjunar í nýtingarflokki og fimm í biðflokki. Að auki áformar fyrirtækið stækkun þriggja virkjana á hálendinu og hafa gögn þar um verið send verkefnisstjórn fjórða áfanga áætlunarinnar til meðferðar.

Af mögulegum framtíðarkostum hefur Landsvirkjun skilgreint fimm forgangsverkefni og eru þeir líklegir sem næstu virkjunarframkvæmdir fyrirtækisins. Í nýrri ársskýrslu fyrirtækisins kemur fram að í forgang hafi verið settar hugmyndir að Hvammsvirkjun í Þjórsá, virkjanir í Blönduveitu, endurhönnun Búrfellslundar, aflaukning Kröflu- og Þeistareykjavirkjana og stækkun Þeistareykjavirkjunar.

Vilja stækka þrjár virkjanir á hálendinu

Orkustofnun hefur sent verkefnisstjórn fjórða áfanga rammaáætlunar um vernd og orkunýtingu landsvæða tólf virkjanahugmyndir sem ekki hafa áður verið teknar til meðferðar. Um er að ræða eina jarðvarmavirkjun, fimm vatnsaflsvirkjanir og sex vindorkuver. Stækkun þriggja virkjana Landsvirkjunar eru meðal þessara hugmynda. Stofnunin hyggst senda verkefnisstjórninni fleiri nýjar virkjanahugmyndir í apríl.

Auglýsing

Samanlagt uppsett afl sjö virkjana Landsvirkjunar á Þjórsár- og Tungnasvæðinu er 1.037 MW. Fyrirtækið áformar nú að stækka þrjár þeirra; Hrauneyjafossstöð, Vatnsfellsstöð og Sigöldustöð. Með því að bæta við einni vél í þeim öllum yrði afl þeirra samanlagt aukið um 210 MW án þess að til stækkunar lóna, breytinga á stíflum og lengingu aðrennslis- og frárennslisskurða þyrfti að koma. Þá yrðu tengingar við flutningskerfið einnig óbreyttar sem og vegir um svæðin. Stöðvar- og inntakshús yrðu hins vegar stækkuð og þrýstipípum bætt við.

Landsvirkjun rekur nítján virkjanir um allt land og er uppsett afl þeirra 2.155 MW. Sú stærsta, Fljótsdalsstöð (Kárahnjúkavirkjun) er 690 MW, en sú minnsta er vindaflsstöðin Hafið, 1,9 MW. Um 80% orkuframleiðslu fyrirtækisins er seldur til orkufreks iðnaðar og eru stærstu viðskiptavinirnir m.a. Alcoa, Elkem, Norðurál, Rio Tinto og PCC BakkiSilicon.

Sala Landsvirkjunar til gagnavera jókst um 50% á milli áranna 2018 og 2019. Viðskiptavinir fyrirtækisins í þeim geira eru nú fjórir: Reykjavík DC, Etix Everywhere Iceland, Advania Data Centers og Verne Global. Í lok síðasta árs var svo skrifað undir nýjan rafmagnssamning upp á 12 MW við Reykjavík DC, nýtt gagnaver í Reykjavík í eigu Opinna kerfa, Sýnar, Reiknistofu bankanna og Korputorgs.

Í þingsályktunartillögu að þriðja áfanga rammaáætlunar, sem byggir á niðurstöðum lokaskýrslu verkefnisstjórnar, og til stendur að leggja fram á Alþingi til afgreiðslu í þriðja sinn nú á vorþingi, eru þrettán virkjanahugmyndir Landsvirkjunar í orkunýtingar- eða biðflokki. Flestar myndu nýta vatnsafl en sumar jarðhita eða vindorku. Í nýtingarflokki eru átta hugmyndir og samanlagt afl þeirra áætlað 706 MW. Í biðflokki eru fimm fyrirhugaðar virkjanir og samanlagt afl þeirra 522 MW.

Ásýnd tæki miklum breytingum

Lagt er til að þrjár hugmyndir að nýjum virkjunum í Þjórsá fari í orkunýtingarflokk: Hvammsvirkjun,  Urriðafossvirkjun og Holtavirkjun. Allar eru þær í byggð og allar voru þær í biðflokki annars áfanga áætlunarinnar. Hvammsvirkjun var hins vegar færð í nýtingarflokk með sérstakri þingsályktun um mitt ár 2015. 

Í áliti Skipulagsstofnunar frá árinu 2018 vegna frummatsskýrslu um Hvammsvirkjun sagði að um væri að ræða framkvæmd sem samanstæði af mörgum framkvæmdaþáttum, s.s. stíflumannvirkjum, varnargörðum, vegum og lóni í farvegi Þjórsár. Fram kom að ljóst væri að ásýnd og yfirbragð á stóru svæði komi til með að taka miklum breytingum með tilkomu Hvammsvirkjunar. Áhrifasvæðið einkennist af landbúnaði og að mestu ósnortinni náttúru. Þá væri virkjunin fyrirhuguð í mikilli nálægð við byggð.

Samanlögð aflgeta virkjanaþrennunnar yrði 290 MW. Yrðu þær allar að veruleika myndu virkjanir Landsvirkjunar á Þjórsár- og Tungnasvæðinu verða tíu.

Meðal annarra virkjanahugmynda Landsvirkjunar sem lagt er til að fari í nýtingarflokk er Skrokkalda, virkjun á hálendinu milli Hofsjökuls og Vatnajökuls. Fleiri virkjanakostir fyrirtækisins eru einnig á hálendinu, s.s. 150 MW jarðvarmavirkjun við Hágöngur. Sú hugmynd er í biðflokki.

Þá er lagt til að 26 virkjanahugmyndir fari í verndarflokk rammaáætlunar, þar með talið hugmyndir að fjórum virkjunum í Skjálfandafljóti. Einnig er lagt til að Kjalölduveita, hugmynd Landsvirkjunar að virkjun í efri hluta Þjórsár, fari í þann flokk.

Heimilt að hafa nýjar virkjanir innan þjóðgarðs

Samhliða þingsályktunartillögu að rammaáætlun hyggst umhverfisráðherra leggja fram á vorþingi frumvarp um hálendisþjóðgarð. Í drögum frumvarpsins er lögð til ákveðin stefna fyrir virkjanakosti innan þess svæðis sem til stendur að friðlýsa. Samkvæmt þeim verður heimilt að ráðast í þær virkjanahugmyndir sem falla munu í nýtingarflokk í 3. áfanga nú að undangengnu mati á umhverfisáhrifum og lögbundnum leyfisveitingum, þó með þeim formerkjum að þær virkjanir hafi lágmarks rask í för með sér og lágmarks sýnileika á yfirborði.

Að sama skapi verður samkvæmt drögunum leyfilegt að þær hugmyndir sem enda í biðflokki nú geti verkefnastjórn tekið til skoðunar í næstu áætlunum sínum.

„Við erum með þessar leikreglur sem rammaáætlunin er og Alþingi hefur sett,“ sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, sagði í samtali við Kjarnann í janúar. „Við erum samkvæmt henni að flokka í nýtingu og vernd og svo í bið þær hugmyndir sem við þurfum frekari upplýsingar um. Við þurfum hins vegar þegar um þjóðgarð er að ræða að draga einhverja línu í sandinn. Við getum ekki til framtíðar litið alltaf verið að skoða nýja virkjanakosti innan þessa svæðis. Þess vegna er í frumvarpsdrögunum gert ráð fyrir því að lína verði dregin í sandinn við þennan 3. áfanga rammaáætlunar[.]“

Ekki allir virkjanakostir verða að veruleika

Gangi allar þær hugmyndir Landsvirkjunar eftir, sem lagt er til að verði í nýtingar- eða biðflokki 3. áfanga rammaáætlunar sem og stækkanir virkjana sem verkefnisstjórn fjórða áfanga hefur nú fengið til umfjöllunar, myndi virkjunum fyrirtækisins fjölga um þrettán og þrjár eldri stækka og uppsett afl þar með aukast samtals um rúmlega 1.400 MW.

Í nýrri ársskýrslu Landsvirkjunar kemur fram að til að mæta „orkuþörf framtíðarinnar á hverjum tíma sé fjölbreytt úrval virkjunarkosta til skoðunar“. Tekið er fram að einungis hluti þeirra kosta sem séu skoðaðir verði að veruleika.

Einnig er bent á að undirbúningur virkjana sé langt ferli sem spanni oft mörg ár og jafnvel áratugi.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Örn Bárður Jónsson
Ný stjórnarskrá í 10 ár – Viska almennings og máttur kvenna
Kjarninn 29. júlí 2021
Til að fá að fljúga með flugfélaginu Play verða farþegar að skila inn vottorði um neikvæða niðurstöðu úr PCR-prófi eða hraðprófi.
Hafa þurft að vísa vottorðalausum farþegum frá
Flugfélagið Play hefur fengið jákvæð viðbrögð við þeirri ákvörðun að meina farþegum um flug sem ekki hafa vottorð um neikvætt COVID próf. Fyrirkomulagið verður enn í gildi hjá Play þrátt fyrir að vottorðalausum muni bjóðast sýnataka á landamærunum.
Kjarninn 29. júlí 2021
Kamilla Jósefsdóttir og Alma Möller landlæknir.
Sértæk bóluefni gegn delta-afbrigði „okkar helsta von“
Frá því að fjórða bylgja faraldursins hófst hér á landi hafa sextán sjúklingar legið á Landspítala með COVID-19. Tíu eru inniliggjandi í dag, þar af tveir á gjörgæslu.
Kjarninn 29. júlí 2021
Kort Sóttvarnastofnunar Evrópu sem uppfært var í dag.
Ísland orðið appelsínugult á korti Sóttvarnastofnunar Evrópu
Mikil fjölgun greindra smita hér á landi hefur haft það í för með sér að Ísland er ekki lengur grænt á korti Sóttvarnastofnunar Evrópu. Væru nýjustu upplýsingar um faraldurinn notaðar yrði Ísland rautt á kortinu.
Kjarninn 29. júlí 2021
Jóhann Björn Skúlason, yfirmaður smitrakningateymis almannavarna.
Smitrakningunni „sjálfhætt“ ef fjöldi smita vex gríðarlega úr þessu
Miklar annir eru nú hjá smitrakningarteymi almannavarna. Á bilinu 180-200 þúsund notendur eru með smitrakningarforrit yfirvalda í símum sínum og það gæti reynst vel ef álagið verður svo mikið að rakningarteymið hafi ekki undan. Sem gæti gerst.
Kjarninn 29. júlí 2021
Ari Trausti Guðmundsson
Faraldur er ekki fyrirsjáanlegur
Kjarninn 29. júlí 2021
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
„Ekki má hringla með marklínuna“
Dómsmálaráðherra vonar að stjórnarandstöðunni „auðnist ekki að slíta í sundur þá einingu sem ríkt hefur meðal landsmanna í baráttunni gegn veirunni“. Samhliða útbreiddri bólusetningu þurfi að slá nýjan takt og „leggja grunn að eðlilegu lífi á ný“.
Kjarninn 29. júlí 2021
Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja.
Samherji kannar hvernig afsökunarbeiðnir leggjast í landann
Þátttakendur í viðhorfahópi Gallup fengu í vikunni sendar spurningar um Samherja. Fyrirtækið, sem baðst tvívegis afsökunar fyrr í sumar, virðist fylgjast grannt með almenningsálitinu.
Kjarninn 29. júlí 2021
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar