Andrés Skúlason

Átta virkjanir áformaðar á vatnasviði Hraunasvæðis

„Nýtt virkjanaáhlaup“ er hafið á Austurlandi að mati náttúruverndarsamtaka. Margar smávirkjanir eru fyrirhugaðar í ám austan Vatnajökuls sem áður voru hluti af stærri virkjanahugmyndum. Hamarsvirkjun er stærst og yrði önnur stíflan 50 metrar á hæð.

Að minnsta kosti átta virkjanir eru fyrirhugaðar á vatnasviði Hraunasvæðisins á Austurlandi. Sú stærsta, Hamarsvirkjun sem Arctic Hydro áformar, er meðal þeirra tólf nýju virkjanakosta sem verkefnisstjórn fjórða áfanga rammaáætlunar hefur nú fengið til meðferðar. Virkjunin yrði í Hamarsfirði í Djúpavogshreppi og uppsett afl hennar 60 MW. Arctic Hydro hefur á síðustu árum fengið rannsóknarleyfi fyrir tveimur öðrum virkjunum á svæðinu. Önnur þeirra er Geitdalsárvirkjun á Fljótsdalshéraði, sem þegar er orðin umdeild.

Upptakasvæði ánna austan Vatnajökuls eru Hraunin sem til forna nefndust Sviðinhornahraun. Þær renna um langa og litríka dali og einkennist umhverfið meðal annars af smájöklum, vötnum og stöflum hraunlaga.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem áformað er að virkja á þessu svæði. Orkustofnun lagði til hugmynd um 126 MW Hraunavirkjun til Berufjarðar, eins og hún nefnist, í 3. áfanga rammaáætlunar. Hugmyndin er í biðflokki samkvæmt þingsályktunartillögu. Önnur virkjun, Hraunavirkjun til Suðurdals í Fljótsdal, sem Orkustofnun lagði einnig til, hlaut sömu örlög. Sú hugmynd gerir ráð fyrir 115 MW virkjun. Ákvörðun verkefnisstjórnar byggði á því að ekki lægju fyrir nægjanleg gögn.  

Svo horft sé enn lengra í baksýnisspegilinn voru virkjanir á Hraunasvæðinu fyrirhugaðar sem hluti af risavaxinni Hrauna- og Jökulsárveitu við uppaf aldarinnar. Sú veita tók m.a. til Kárahnjúka, Eyjabakka og vatnsfalla á Hraunasvæðinu.

Hugmyndirnar átta sem eru til skoðunar á svæðinu nú, í mörgum þeirra áa sem stóru virkjanirnar tvær gerðu ráð fyrir, eru nær allar undir 10 MW. Þar af leiðandi þurfa þær ekki lögum samkvæmt að fara í gegnum ferli rammaáætlunar. Orkustofnun hefur gefið út rannsóknarleyfi vegna þeirra allra, fimm til Orkusölunnar ehf., sem er í eigu Rarik og þar með ríkisins, og þrjú til Arctic Hydro, félags sem er í 40% eigu Benedikts Einarssonar.

Undir fölsuðum formerkjum smávirkjana

 „Í aðdraganda Kárahnjúkavirkjunar og aðliggjandi Hraunaveitna voru gefin fyrirheit um að það þyrfti ekki framar að virkja meir fyrir austan. Nú, aðeins 15 árum síðar, er hinsvegar hafið nýtt virkjanaáhlaup á restina af ósnortnum víðernum á hálendi Austurlands og nú undir fölsuðum formerkjum „smávirkjana“ 9,9 MW,“ segir í bréfi frá Náttúruverndarsamtökum Austurlands og Landvernd sem sent var nýverið til forsætis-, fjármála- og umhverfisráðherra.

Í bréfinu er fjallað sérstaklega um fyrirhugaða Geitdalsárvirkjun og á það bent að samkvæmt samningi Arctic Hydro við Fljótdalshérað sé talað um stækkunarmöguleika virkjunarinnar. Þar með yrði hún komin yfir stærðarmörkin sem þarf til faglegrar meðferðar í rammaáætlun.

Hraunasvæðið. Á kortinu má sjá staðsetningu þeirra virkjanahugmynda sem Orkustofnun hefur gefið út rannsóknarleyfi á sem og virkjanir sem þegar eru á svæðinu.
Náttúruverndarsamtök Austurlands

Í desember 2016 kynnti Orkustofnun fyrir atvinnuvegaráðuneytinu hugmynd að smávirkjanaverkefni sem hefði það að markmiði að stuðla að aukinni raforkuframleiðslu á landsbyggðinni. Stofnunin kallaði í kjölfarið eftir hugmyndum og kynnti það fyrir áhugasömum. Viðbrögðin létu ekki á sér standa. Á síðustu árum hefur stofnunin gefið út mörg rannsóknarleyfi vegna hugmynda að virkjunum undir 10 MW.

Í haust, er Orkustofnun kallaði eftir virkjanakostum til meðferðar í 4. áfanga rammaáætlunar, kom fram í tilkynningu að gera mætti ráð fyrir að verkefnisstjórn fjallaði um alla virkjanakosti sem eru þegar í biðflokki. „Ef aðilar vilja að verkefnisstjórn fjalli um nýjar útfærslur á þeim virkjunarkostum sem eru í biðflokki í dag, geta þeir sent þær hugmyndir til Orkustofnunar,“ stóð í tilkynningunni.

Sú staðreynd að 3. áfangi rammaáætlunar er enn ófrágenginn, fjórum og hálfu ári eftir að verkefnisstjórn skilaði lokaskýrslu, hefur mögulega einnig haft áhrif á það að virkjanahugmyndir sem þar voru flokkaðar í biðflokk hafa sumar hverjar tekið á sig aðra mynd. Fyrirhuguð Hagavatnsvirkjun er dæmi um slíkt og Hraunavirkjanirnar tvær nú sömuleiðis.

Óvirkjuð orka í boði

Í gögnum sem Orkustofnun sendi til verkefnisstjórnar rammaáætlunar árið 2015 vegna Hraunavirkjananna sagði að „mikil rennslisorka“ væri „í boði“ á Hraunum austan við Vatnajökul og að „óvirkjuð orka“ á svæðinu væri af stærðargráðunni 1500-2000 GWh á ári og um 250-300 MW. Hugmyndirnar gerðu ráð fyrir tíu 5-60 metra háum stíflum, samtals rúmlega 11 kílómetrum að lengd. Nýta átti afrennsli vatns af hálendishluta fimm vatnasviða, m.a. Hamarsár og Geitdalsár. 

Horft inn eftir Hamarsdal. Hamarsá rennur um dalinn miðjan.
Skaprhéðinn Þórisson

Í skýrslu sem Mannvit vann fyrir Hamarsvirkjun ehf. (sem er í eigu Arctic Hydro) og er nú komin til verkefnisstjórnar rammaáætlunar, segir að tilhögunin nú geri ráð fyrir að virkja eingöngu vatnasvið Hamarsár. Í henni kemur þó fram að þrjár aðrar ár yrðu fyrir áhrifum og veitt að hluta inn í fyrirhuguð aðrennslisgöng.

Hamarsá á upptök sín í smávötnum og tjörnum á Hraunum og er Hamarsvatn, norður af Þrándarjökli, stærst.  Yrði Hamarsvirkjun að veruleika yrði vatni miðlað á tveimur stöðum, annars vegar í Hamarsvatni og svo í inntakslóni í Vesturbót. Við Hamarsvatn yrði gerð þriggja kílómetra löng stífla, mest 15 metra há. Vatninu yrði miðlað í inntakslónið neðar í farvegi árinnar. Þar yrði reist önnur stífla, tæplega kílómetri á lengd. Hún yrði mest fimmtíu metrar á hæð.

Skert og stýrt rennsli í fossum

Frá inntakslóni yrði vatni veitt um aðrennslisgöng að Ytri-Þrándará. Gert er ráð fyrir að veita ánni Morsa og Ytri-Þrándará inn í aðrennslisgöngin og einnig er gert ráð fyrir því að veita efsta hluta af Leirdalsá í Ytri-Þrándará með veituskurði. Stöðvarhús er samkvæmt skýrslunni fyrirhugað inni í Afréttarfjalli, um 2,3 kílómetra frá Hamarsá.

Samkvæmt skýrslunni er talið að helstu umhverfisáhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar yrðu á fossa sem njóta sérstakrar verndar í náttúruverndarlögum. „Í Hamarsá eru margir fossar og verður stýrt rennsli á fossum frá Hamarsvatni að inntakslóni og skert rennsli í fossum frá inntakslóni að frárennslisgöngum. Einnig verður skert rennsli í fossum í Morsa, Ytri-Þrándará og Leirdalsá.“

Fossarnir afturkræfir

Svo segir: „Hafa ber í huga að allir þeir fossar sem hafa skert eða stýrt rennsli eru að fullu afturkræfir ef komandi kynslóðir kjósa svo.“ Þá kemur fram að önnur fyrirsjáanleg áhrif séu helst þau að óbyggð víðerni myndu skerðast „en hafa ber í huga að tiltölulega stutt er í veitur Kárahnjúkavirkjunar og Grímsárvirkjunar“.

 Í skýrslunni stendur að ferðamenn á svæðinu séu fáir vegna lélegra samgangna en með virkjun myndi „opnast mögulega á aðgang ferðafólks og íbúa nærsvæðis til að nýta svæðið betur“.

Í jaðri Hraunasvæðis við botn Hamarsdals.
Skarphéðinn Þórisson

Hugmyndir að sjö öðrum virkjunum á Hraunasvæðinu austan Vatnajökuls hafa verið til skoðunar síðustu misseri. Orkustofnun gaf út rannsóknarleyfi vegna þeirra á árunum 2016-2019.

Orkusalan með fimm rannsóknarleyfi

Fimm þessara leyfa hefur Orkusalan sótt um og fengið. Árið 2018 fékk hún leyfi til rannsókna vegna fyrirhugaðrar 2-3 MW Gilsárvirkjunar sem myndi nýta fallvatn Gilsár á Héraði. Sama ár fékk hún leyfi til rannsókna á 2 MW virkjun Köldukvíslar á Austur-Héraði sem og vegna 8-10 MW Bessastaðaárvirkjunar í Fljótsdal.

Í fyrra fékk hún svo rannsóknarleyfi vegna 5 MW virkjunar Kaldár og Ásdalsár í Jökulsárhlíð. Fimmta virkjunarhugmyndin sem Orkusalan hefur fengið rannsóknarleyfi vegna er Ódáðavötn niður í Suðurdal Skriðdals. Þar á að kanna forsendur fyrir 4 MW virkjun en á svæðinu er þegar önnur virkjun fyrirtækisins, Grímsárvirkjun.

Fyrir utan Hamarsvirkjun og Geitdalsárvirkjun fékk fyrirtækið Arctic Hydro rannsóknarleyfi vegna Kiðufellsvirkjunar árið 2016. Samkvæmt vefsíðu Orkustofnunar er það nú útrunnið. Sú virkjun yrði á vatnasviði Fellsár og Kelduár í Fljótsdalshreppi og var afl hennar samkvæmt leyfinu áætlað um 20 MW.

Margar ár sem nefndar eru í tengslum við þessar virkjanir sem að framan eru taldar stóð til að virkja áður og eru enn hluti af virkjanahugmyndum sem bíða þess að vera afgreiddar í tillögu að rammaáætlun. 

Á göngu um Geitdal.
Ingibjörg Jónsdóttir

Arctic Hydro fékk rannsóknarleyfi vegna Geitdalsárvirkjunar árið 2016 og árið 2017 samþykkti Orkustofnun að rannsóknarsvæðið yrði stækkað. Í leyfinu sagði að stækkunin væri þess eðlis að „bersýnilega“ væri „óþarfi að leita umsagnar umsagnaraðila að nýju“.

Í umsókn fyrirtækisins um stækkunina kom fram að athuganir bentu til þess að hagkvæmt gæti reynst að miðla vatni á svæði sem var utan þess sem fyrra leyfið tók til, nánar tiltekið í Leirudal. „Um gæti verið að ræða miðlunarlón sem í hæstu stöðu væri 2,8 km2 að flatarmáli,“ segir í umsókninni. Mesta hæð stíflu yrði átján metrar og lengd um 970 metrar samkvæmt frumathugunum.

Sameign þjóðarinnar

Fyrir tæpum tveimur árum gerðu Arctic Hydro og sveitarfélagið Fljótsdalshérað með sér samkomulag vegna áætlana um rannsóknir fyrirhugaðrar virkjunar í Geitdal. Þar er sveitarfélagið skilgreint sem landeigandi. 

Þetta segja Landvernd og Náttúruverndarsamtök Austurlands ekki fyllilega rétt í nýlegu bréfi sínu til þriggja ráðherra. „Athugun okkar bendir til þess að stór hluti af því svæði sem samningurinn nær til sé eignarland ríkisins. Því er um sameign þjóðarinnar að ræða, land í ríkiseigu sem verður hugsanlega þjóðlenda í framtíðinni. Engu að síður virðist sem framangreindur samningur veiti rétthafa umtalsverða heimild og loforð á öllu því landsvæði sem um er að ræða.“

Fossar í Geitdal. Vatnsmagn í Geitdalsá sveiflast töluvert yfir árið.
Andrés Skúlason

Í bréfinu kemur enn fremur fram að fjármála- og efnahagsráðuneytið hafi staðfest að viðræður hafi staðið yfir á vegum ríkisins við sveitarfélagið Fljótsdalshérað um hvernig skuli staðið að skiptingu á endurgjaldi fyrir vatnsréttindin í tengslum við áform um Geitdalsárvirkjun. Að sögn ráðuneytisins liggja drög að samkomulagi fyrir sem gera ráð fyrir jafnri skiptingu endurgjalds vegna nýtingar á auðlindinni, en ekki hefur verið gengið frá undirritun þess. Ráðuneytið neitar hins vegar að afhenda samkomulagið fyrr en það hefur verið gengið endanlega frá því.

Innan miðhálendislínu

„Vatnasvið áformaðar Geitdalsvirkjunar er innan miðhálendislínu á öræfum Austurlands sem nefnd eru Hraun,“ segir í bréfi samtakanna. „Sá hluti Hraunanna sem ekki er undir beinum áhrifum mannvirkja Kárahnjúkavirkjunar er eðlilegur hluti þess þjóðgarðs á miðhálendinu sem ríkisstjórnin áformar.“

Mælast samtökin í bréfinu til þess að ríkið afhendi ekki nýtingarrétt á umræddu vatnasviði, svæði sem Óbyggðanefnd er að hefjast handa við vinnu á afmörkun á þjóðlendum.

Virkjanahugmyndirnar átta sem síðustu ár hafa verið rannsakaðar með leyfi Orkustofnunar á Hraunasvæðinu eru samtals um 110 MW. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar