Mynd: Birgir Þór Harðarson Bjarni Benediktsson Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra

Grundvallarbreyting gerð á eigendastefnu ríkisins gagnvart Landsbankanum

Málamiðlun virðist hafa náðst milli stjórnarflokkanna sem gerir það kleift að hægt verði að hefja sölu á Íslandsbanka á yfirstandandi kjörtímabili. Í henni felst grundvallarbreyting á eigendastefnu varðandi Landsbankann. Búið er að fjarlægja hugmyndir um að selja hluta hans úr stefnunni og nýtt markmið um eignarhaldið hefur verið smíðað.

Í nýrri eigendastefnu íslenska ríkisins fyrir fjármálafyrirtæki, sem birt var seint á föstudag, er búið að gera umtalsverðar breytingar á þeim markmiðum sem ríkið hefur varðandi eignarhald á Landsbankanum. Í eldri eigendastefnunni, sem var frá árinu 2017, sagði að stefnt yrði að því að ríkið ætti verulegan eignarhlut, 34 til 40 prósent, í bankanum til langframa. Að öðru leyti yrðu eignarhlutir ríkisins seldir „á næstu árum þegar hagfelld og æskileg skilyrði eru fyrir hendi“ samhliða því að hann yrði skráður á hlutabréfamarkað.

Í nýju eigendastefnunni er búið að taka út það stærðarmark sem æskilegt sé að ríkið eigi í Landsbankanum. Þess í stað segir að ríkið eigi að eiga „verulegan hlut“ í bankanum til langframa. 

Búið er að taka út áform um að selja eignarhlutinn strax og hagfelld og æskileg skilyrði séu fyrir hendi og áform um að skrá hann á hlutabréfamarkað. Þess í stað er búið að bæta því inn í eigendastefnuna að ákvörðun um sölu Landsbankans verði ekki tekin fyrr en að söluferli Íslandsbanka sé lokið.

Markmiðið með eignarhaldi ríkisins á þessum stærsta banka landsins hefur líka breyst. Í gömlu eigendastefnunni sagði að ástæða þessa væri „til að stuðla að stöðugleika í fjármálakerfinu og tryggja nauðsynlega innviði þess.“ 

Í nýju stefnunni segir að markmiðið með eignarhaldinu sé að „stjórnvöld hafi ráðandi ítök í a.m.k. einni fjármálastofnun sem þjónustar almenning og fyrirtæki og hefur höfuðstöðvar hér á landi. Þannig tryggja stjórnvöld að almenn, vönduð og traust fjármálaþjónusta standi öllum til boða óháð m.a. búsetu. Markmiðið með eignarhaldinu er ennfremur að stuðla að stöðugleika í fjármálakerfinu, ásamt því að tryggja nauðsynlega og áreiðanlega innviði þess.“

Bjarni vill hefja söluferlið á kjörtímabilinu

Engin breyting er hins vegar gerð á markmiðum ríkisins hvað varðar eignarhald á hinum bankanum sem það á, Íslandsbanka. Enn er stefnt að því að selja bankann „þegar hagfelld og æskileg skilyrði eru fyrir hendi.“

Það blasir við að Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, er mjög áfram um að hefja söluferli á ríkisbönkunum. Eftir að Hvít­­­bók um fram­­­tíð­­­ar­­­sýn fyrir fjár­­­­­mála­­­kerfið, þar sem var fjallað ítar­­­lega um hvernig skuli standa að sölu á hlutafé í þeim, var birt í lok árs 2018 hefur Bjarni ítrekað tjáð sig um það opinberlega að hann vilji byrja að selja, að minnsta kosti hluta, af Íslandsbanka áður en kjörtímabilinu lýkur. Í janúar í fyrra ræddi hann einnig um mögulega sölu á stórum hlut í Landsbankanum, líkt og gert var ráð fyrir í þágildandi eigendastefnu og fjárlögum. 

Málið komst hins vegar ekki á almennilegt skrið á þeim tíma, meðal annars vegna þess að það var margt annað í efnahagslífinu sem kallaði á athygli ráðamanna, líkt og gjaldþrot WOW air, loðnubrestur og erfiðleikar Icelandair vegna kyrrsetningar á Boeing 737 Max vélum sem fyrirtækið hafði fest kaup á. Því sköpuðust ekki hagfelld né æskileg skilyrði til að hefja söluferli. 

Það verður heldur ekki gert nema að tillögu Bankasýslu ríkisins til fjármála- og efnahagsráðherra. Stjórnarformaður hennar er Lárus Blöndal. Hann var líka formaður þess hóps sem vann Hvítbókina um fjármálakerfið og hefur verið trúnaðar- og stuðningsmaður Bjarna Benediktssonar um árabil, enda skipaður í störfin af honum.

Það er enda fjallað um eignarhald ríkisins á bönkum í stjórn­ar­sátt­mála rík­is­stjórn­ar­innar og því fyrirliggjandi að þeir þrír ólíku flokkar sem mynda ríkisstjórnina hafa rætt málið þegar hún var mynduð. Þar segir að eign­­ar­hald rík­­is­ins á fjár­­­mála­­fyr­ir­tækjum sé „það umfangs­­mesta í Evr­­ópu og vill rík­­is­­stjórnin leita leiða til að draga úr því.“ Meðvitað var hins vegar ekki farið í nánari skilgreiningar á hvernig það markmið ætti að nást.

Hreyfing á málið í fyrrahaust

Greint var frá því í Mark­aðn­­um, fylg­i­­riti Frétta­­blaðs­ins um efna­hags­­mál og við­­skipti, í byrjun sept­­em­ber­mán­aðar í fyrra að í nýlegu gerðu minn­is­­­­blaði Banka­­­­sýsl­unnar væri lagt til að annað hvort ætti að selja að minnsta kosti 25 pró­­­­­sent hlut í Íslands­­­­­­­­­banka í hluta­fjár­­­­­út­­­­­­­­­boði og skrá þau bréf tví­­­­­hliða á mark­að, eða að selja allt að öllu hlutafé í bank­­­­­anum með upp­­­­­­­­­boðs­­­­­leið þar sem önnur fjár­­­­­­­­­mála­­­­­fyr­ir­tæki eða sjóðir geti gert til­­­­­­­­­boð í hann. 

Banka­­­sýslan hefur ekki lagt það minn­is­­­blað enn fram opin­ber­­­lega. 

Á svipuðum tíma tók Bjarni að tala aftur um sölu á ríkisbönkunum, og nú í samhengi við fjármögnun á samgöngusáttmála.

Á svipuðum tíma tjáði Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins, sig um sölu á ríkisbönkunum í útvarpsþættinum Sprengisandi. Lilja situr í ráðherranefnd um efnahagsmál og endurskipulagningu fjármálakerfisins ásamt Bjarna og Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra. Fyrirkomulagið er um margt óvenjulegt, enda Lilja ekki formaður síns flokks. Hún býr hins vegar yfir mikilli reynslu af því að starfa við efnahagsmál, bæði í Seðlabanka Íslands og á alþjóðavettvangi. 

Lilja Alfreðsdóttir situr í ráðherranefnd um efnahagsmál og endurskipulagningu fjármálakerfisins.
Mynd: Bára Huld Beck

Í þættinum sagði Lilja að það væri forsenda fyrir sölu á eignarhlut ríkisins í bönkunum að eigendastefna ríkisins yrði uppfærð. Aðkoma og hlutverk ríkisins þyrfti að liggja skýr fyrir. Þá sé forsenda að uppfæra eigendastefnu ríkisins. „Við höfum talað um að Landsbankinn verði í eigu ríkissjóðs en í núverandi eigendastefnu er það ekki gefið til kynna[...]Allt sem við gerum með þetta þarf að vera gert í opnu og gagnsæju ferli og mögulegir kaupendur, hvort sem það er almenningar eða aðrir aðilar, það þarf að vera alveg skýrt hvert hlutverk ríkissjóðs er á þessum markaði.“ 

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði á svipuðum tíma við RÚV: „Það hefur ekki verið mín sýn eða ríkisstjórnarinnar að halda eignarhaldi yfir Íslandsbanka, þar sem við höfum sagt er að það skipti miklu máli að Landsbankinn, að þar verði ríkið áfram leiðandi fjárfestir.”

Þær breytingar sem nú hafa verið gerðar á eigendastefnunni eru að öllu leyti í takti við það sem Lilja kallaði eftir í ofangreindu viðtali og eru að miklu leyti í takti við það sem forsætisráðherra sagði um svipað leyti.

Eigendur með langtímasjónarmið að leiðarljósi

Lilja hefur einnig talað með þeim hætti í gegnum tíðina að það sé ekki einungis mikilvægt að selja banka, heldur skipti máli hverjum sé selt, í ljósi þess hversu kerfislega mikilvægir þrír stærstu bankarnir eru hérlendis. Það þurfi að horfa til þess að kaupendur séu til staðar sem hafi þekkingu á rekstri fjármálafyrirtækja, eigi fjármuni til að kaupa þau og séu með langtímamarkmið að leiðarljósi í fjárfestingunni, ekki skammtíma hagnaðarvon. Þessi skoðun hennar var til að mynda mjög sýnileg þegar umræða var um breytingar á eignarhaldi á Arion banka á árinu 2017, þegar erlendir skammtímasjóðir, oft kallaðir vogunarsjóðir, voru að gerast virkir eigendur í bankanum. 

Sú afstaða Lilju er mjög í takt við umfjöllunar Hvítbókarinnar um eignarhald á bankakerfinu. Þar sagði: „Heil­brigt eign­ar­hald er mik­il­væg for­senda þess að banka­kerfi hald­ist traust um langa fram­tíð. Í því felst að eig­endur banka séu traust­ir, hafi umfangs­mikla reynslu og þekk­ingu á starf­semi banka og fjár­hags­lega burði til að standa á bak við bank­ann þegar á móti blæs. Mik­il­vægt er að eig­endur hafi lang­tíma­sjón­ar­mið að leið­ar­ljósi.“

Byrjað að undirbúa jarðveginn fyrir söluferli

Fyrir liggur þó að nú er upptaktur í söluferlinu og uppfærða eigendastefnan, sem breytir markmiðum vegna eignarhalds á Landsbankanum í grundvallaratriðum, er stórt skref í því. 

Bjarni hafði opnað aftur á að það myndi fara að hefjast í viðtali við Morg­un­blaðið í byrjun febrúar. Þar sagði hann að nú þegar að hag­­kerfið væri að kólna væri það kostur að losa um eign­­ar­hald rík­­is­ins í bönkum og nota fjár­­mun­ina sem fást út úr slíkri sölu í inn­­viða­fjár­­­fest­ing­­ar. Ólík­legt væri, miðað við verð­mat mark­að­ar­ins á fjár­mála­fyr­ir­tækjum að fullt bók­fært verð, sem er um 180 millj­arðar króna, feng­ist fyrir hlut í Íslands­banka. Það væri engu að síður rétt að losa um eign­­ar­haldið í skrefum og 25 pró­­sent hlutur í bank­­anum væri tuga millj­­arða króna virði.

Í auka­blaði Sjálf­stæð­is­flokks­ins, sem bar nafnið „Á réttri leið“ og var dreift í aldreif­ingu með Morg­un­blað­inu skömmu síðar, sagði Bjarni að sala á 25 til 50 pró­sent hlut í Íslands­banka á næstu árum myndi opna á stór tæki­færi til fjár­fest­inga. „Á und­an­förnum árum hefur mikið verið rætt um gjald­töku til að fjár­magna sam­göngu­bætur og það er skilj­an­legt, vegna þess að við þurfum að hraða fram­kvæmd­um, en nær­tæk­ari leið er að losa um þessa verð­mætu eign og afmarka gjald­töku í fram­tíð­inni við stærri fram­kvæmdir á borð við Sunda­braut, Hval­fjarð­ar­göng og aðra ganga­gerð. Núna er góður tími til að huga að átaki í þessum efn­um, efna­hags­lífið er til­búið fyrir opin­berar fram­kvæmd­ir.“

Málamiðlun náðst milli stjórnarflokkanna

Katrín Jak­obs­dóttir for­sæt­is­ráð­herra sagði í kjölfarið í samtali við Kjarnann að það væri skyn­sam­legt að ráð­ast í sölu á hlut í Íslands­banka ef það væri tengt við það að nota ávinn­ing­inn í inn­viða­fjár­fest­ing­ar. Þannig væri hægt að losa um eignir rík­is­ins og nýta fjármuni í þörf verk­efni. Hún staðfesti að vænt sölu­ferli Íslands­banka hefði þá þegar verið rætt á vett­vangi ráð­herra­nefnd um efna­hags­mál, en í henni sitja auk Katrínar þau Bjarni Bene­dikts­son, fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra, og Lilja D. Alfreðs­dótt­ir, mennta- og menn­ing­ar­mála­ráð­herra.

Katrín sagðist leggja áherslu á að sölu­ferlið verði að vera opið og gagn­sætt. Það væri hins vegar ekki rík­is­ins að ákveða hverjir kaupi ef til dæmis 25 pró­sent hlutur í bank­anum yrði seldur í gegnum skrán­ingu á hluta­bréfa­mark­að. „Það skiptir máli að það sé jafn­ræði á milli þeirra sem hafa áhuga.“

Vert er þó að rifja upp að forsætisráðherrann hefur áður tjáð sig um að henni hugnist ekki að hluti af eign ríkisins í Landsbankanum verði seldur, líkt og fyrri eigendastefna gerði ráð fyrir. Í fyrirspurnatíma á Alþingi í febrúar 2016 spurði hún Bjarna út í slíkt áform og sagði þá að þau deildu „ekki endilega skoðun á því hvort æskilegt sé að selja hlut í Landsbankanum. Ég hef talað fyrir því að eðlilegt sé að við skoðum aðra hugsun inn í fjármálakerfið. Ég hefði til dæmis viljað sjá miklu lengra gengið í endurskipulagningu fjármálakerfisins og að lokið yrði við aðskilnað viðskipta- og fjárfestingabankastarfsemi á meðan við getum sagt að ríkið sé í þessari stöðu að halda utan um þá eignarhluti sem ríkið heldur utan um núna.“ 

Málamiðlun virðist hafa náðst um söluferli bankanna. Hún opinberast í nýju eigendastefnunni og ber þess merki að þeir þrír stjórnmálamenn sem bera að uppistöðu ábyrgð á því að setja ferlið af stað, hafi allir gefið eitthvað eftir af afstöðu sinni. Sú málamiðlun mun koma hreyfingu á málið.

Í samtali við mbl.is um liðna helgi, eftir að eigendastefnan var birt, sagði Bjarni enda að hann vænti þess að ríkisstjórnin gæti tekið „mikilvæg skref“ til að losa um eignarhluti í Íslandsbanka á næstu vikum. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar