Mynd: Úr safni.

Hluthafar Arion banka gætu tekið út tugi milljarða úr bankanum í ár

Áframhaldandi breytt fjármögnun, samdráttur í útlánum, stórtæk uppkaup á eigin bréfum og arðgreiðslur sem eru langt umfram hagnað eru allt leiðir sem er verið að fullnýta til að auka getu Arion banka til að greiða út eigið fé bankans í vasa hluthafa. Greinendur spá því að arðgreiðslugetan geti aukist um 50 milljarða á næstu 12 mánuðum.

Eigið fé er í raun skuld bankans við eigendur og er dýrasta fjármögnun bankans. Því skiptir miklu að hafa ekki meira eigin fé en þörf krefur. Endurkaupaáætlun var hrint í framkvæmd síðla árs 2019 og arður greiddur út á árinu. Jafnframt stendur til að leggja fyrir aðalfund bankans í mars n.k. tillögu um frekari útgreiðslu arðs. Lækkun eiginfjár er mikilvægur liður í að bankinn nái markmiðum sínum um 10% arðsemi eiginfjár enda eru vaxtartækifæri sem bjóða ásættanlega arðsemi takmörkuð í lækkandi vaxtaumhverfi.“

Þetta sagði Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, í tilkynningu til Kauphallar Íslands vegna birtingar á ársreikningi bankans fyrir árið 2019. Arion banki hagnaðist um 1,1 milljarð króna í fyrra og arðsemi eigin fjár bankans var 0,6 prósent. Samt sem áður var lögð til tíu milljarða króna arðgreiðsla til hluthafa vegna síðasta árs. Það stendur til að greiða út nífaldan hagnað í arð.

Ekkert í þessum áformum kemur á óvart. Það hefur legið fyrir frá aðdraganda skráningar Arion banka á markað á fyrri hluta ársins 2018 að markmið ráðandi hluthafa, sem eru að uppistöðu erlendir skammtímasjóðir, sé að greiða út eins mikið af eigin fé bankans og hægt er á sem skemmstum tíma. Þessir sjóðir eru stærstu eigendur Kaupþings ehf. og keyptu þorra þeirra hluta sem það félag seldu í Arion banka árið 2018 af sjálfum sér. 

Í fjárfestakynningu sem Kvika vann fyrir Kaupþing á þessum tíma kom fram að svigrúm væri til að greiða út allt að 80 milljarða króna, eða þriðjung alls eigin fjár Arion banka, á tiltölulega skömmum tíma með ýmsum hætti. Það væri hægt að gera í gegnum breytingu á fjármögnun bankans, með því að draga úr útlánum hans, með því að minnka kostnað í gegnum uppsagnir á starfsfólki, með því að hrinda í gang umfangsmikilli endurkaupaáætlun á hlutabréfum í bankanum og svo auðvitað í gegnum arðgreiðslur. 

Þá átti að selja undirliggjandi eignir sem væru ekki hluti af kjarnastarfsemi Arion banka. Var þar helst horft til greiðslumiðlunarfyrirtækisins Valitor og United Silicon, kísilmálmverksmiðju í Helguvík sem bankinn sat uppi með eftir að starfsemi hennar var stöðvuð og fyrri eigandi fór í þrot. 

Útlán dragast saman um tugi milljarða króna

Flest í ofangreindri leikáætlun hefur gengið eftir. Eigið fé Arion banka hefur lækkað úr 225,7 milljörðum króna í 190 milljarða króna frá lokum árs 2017 og fram til síðust áramóta, eða um tæpa 36 milljarða króna. 

Til viðbótar telja greiningaraðilar að bankinn geti búið þannig um hnútanna að það losni um tugi milljarða króna til útgreiðslu þegar árið 2020 er á enda. 

Til að ná þessu markmiði þarf Arion banki í fyrsta lagi að halda áfram að minnka útlán sín. Útlán Arion banka drógust saman um 7,2 prósent í fyrra, eða um tæpa 60 milljarða króna. Þar skipti mestu máli sala á 48 milljarða króna íbúðalánasafni til Íbúðalánasjóðs í október 2019 og ákvörðun bankans um að „auka áherslu á arðsemi útlána til fyrirtækja“, sem þýðir að vextir lána voru hækkaðir þar sem möguleiki var. 

Afleiðingin af þeim hækkunum varð fyrirsjáanlega sú að uppgreiðslur jukust. Viðskiptavinirnir sættu sig ekki við vaxtahækkunina og færðu lánaviðskipti sín annað. Í raun gat Arion banki ekki tapað á þessari ákvörðun. Annað hvort fékk bankinn meiri vaxtatekjur, sem er í samræmi við markmið hans um að auka vaxtamun, eða stórir viðskiptavinir pökkuðu saman og fóru annað, sem minnkaði útlánasafn bankans, í samræmi við annað markmið bankans. 

Þessi þróun mun svo halda hratt áfram á þessu ári. Í nýlegri fjárfestakynningu, sem aðstoðarbankastjóri Arion banka kynnti á markaðsdegi hans í London 12. nóvember síðastliðinn, kom fram að bankinn ætli sér að minnka fyrirtækjaútlán sín um 20 prósent til viðbótar fyrir árslok 2020. Áhersla Arion banka verður þá á viðskiptavini sem þurfa á bilinu 500 til 10 milljarða króna fjármögnun. Stærri kúnnum verði beint í skuldabréfaútboð þar sem Arion banki hyggst verða milliliður og taka þóknanir fyrir, en lánin sjálf verða ekki hluti af efnahagsreikningi bankans. 

Minnkandi útlán og lægri eiginfjárkrafa

Í afkomuspá sem Hagfræðideild Landsbankans vann um uppgjör Arion banka í aðdraganda þess er því spáð að arðgeiðslubankans gæti orðið 50 milljarðar króna á næstu tólf mánuðum. Til þess að svo verði þarf ýmislegt að gerast.

Gangi áform Arion banka um að draga úr fyrirtækjalánum um 20 prósent á árinu eftir mun slík minnkun á lánabók til fyrirtækja þýða að þau dragist saman um 80 milljarða króna. Það ætti að losa um 15 milljarða króna af eigin fé til að greiða út til hluthafa.  

Benedikt Gíslason var ráðinn bankastjóri Arion banka í fyrra. Áður hafði hann setið í stjórn Kaupþings.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Eiginfjárkrafa á Arion baka stendur nú í 21,2 prósentum, að teknu tilliti til nýlegrar hækkunar á sveiflujöfnunar- og stjórnendaauka. Eiginfjárhlutfall bankans er nú 24 prósent og umfram eigið fé því vel á annan tug milljarða króna.

Hagfræðideild Landsbankans telur að frekari sala á íbúðalánum Arion banka til Íbúðalánasjóðs geti losað um 3,5 milljarða króna í eigið fé og frekari útgáfa af víkjandi bréfum geti gefið um 22 milljarða króna í arðgreiðslur, samkvæmt greiningunni.

Í tilkynningu vegna birtingu á ársreikningi Arion banka fyrir árið 2019 kom fram að bankinn hefði að undanförnu „tekið mikilvæg skref í átt að eðlilegri samsetningu eiginfjár og víkjandi lántöku í takt við stefnu bankans í þeim efnum“. 

Arður og uppkaup á eigin bréfum

Í apríl 2019 var hlutafé Arion banka lækkað um 186 milljónir króna að nafnvirði með því að eyða eigin hlutum bankans. Hlutafé Arion banka er eftir lækkunina 1.814 milljónir króna að nafnvirði. 

Segjast ekki vera samkeppnishæfir

Í tilkynningu vegna uppgjörs Arion banka fyrir síðasta ár segir Benedikt Gíslason, bankastjóri, að sökum hárra eiginfjárkrafna og skatta sé bankinn í raun ekki samkeppnisfær við lífeyrissjóði og erlenda banka þegar kemur að lánum til stærri fyrirtækja. „Arion banki mun því gagnvart þessum fyrirtækjum leggja höfuðáherslu á að veita faglega ráðgjöf og aðstoða þau við að finna hagstæðustu fjármögnun hverju sinni, en auðvitað leggja þeim til lánsfé þegar svo ber undir. Hvað varðar lánveitingar til einstaklinga og lítilla og meðal stórra fyrirtækja er stefna bankans óbreytt og þrátt fyrir áherslu á arðsemi lánasafnsins umfram vöxt þá var á fjórða ársfjórðungi góður gangur í nýjum útlánum sem námu alls 24 milljörðum króna á fjórðungnum, þar af voru lán til einstaklinga um 10 milljarðar króna.“

Á árinu 2019 hækkuðu víkjandi lán í eiginfjárþætti 2 um 13,5 milljarða króna með útgáfu nýrra skuldabréfa og arðgreiðslur og kaup á eigin bréfum námu samtals 12,4 milljörðum króna á árinu. 

Í september 2019 heimilaði stjórn Arion banka stjórnendum hans að setja af stað endurkaupaáætlun á eigin hlutabréfum í kauphöllum á Íslandi og í Svíþjóð. Heimildin gaf leyfi til að kaupa 3,25 prósent af útgefnu hlutafé fyrir allt að 4,5 milljarða króna. Frekari heimild var svo gefin í janúar 2020 til að kaupa eigin bréf fyrir allt að 3,5 milljarða króna og er ætlunin að Arion banki nýti hana alla fram að aðalfundi í næsta mánuði. Þá verður væntanlega lögð fram ný áætlun um uppkaup á eigin bréfum til að skila enn meiri peningum til hluthafa bankans. 

Líkt og áður sagði leggur Arion banki til að tíu milljarðar króna verði greiddir út í arð vegna síðasta árs, þrátt fyrir að hagnaður bankans hafi einungis verið 1,1 milljarður króna í fyrra. Af þeirri arðgreiðslu fara tæpir 2,4 milljarðar króna til stærsta eigandans, fjárfestingasjóðarins Taconic Capital, og sjóður sem tengist Och Ziff Capital Management, getur átt von á því að fá tæpan milljarð króna. Sjóðurinn Landsdowne Partners fær 424 milljónir króna og sjóður í stýringu hjá Goldman Sachs fær 372 milljónir króna. Ekkert liggur fyrir um hverjir eru endanlegir eigendur þessarra erlendu skammtímasjóða sem voru áður á meðal kröfuhafa Kaupþings, en hafa frá árinu 2018 verið stærstu eigendur Arion banka, eftir að hafa keypt bankann af sjálfum sér. Alls eiga slíkir sjóðir samanlagt að minnsta kosti tæplega 44 prósent í Arion banka, samkvæmt lista yfir 20 stærstu hluthafa bankans.

Þeir innlendu aðilar sem fá hæstu arðgreiðslurnar eru Gildi lífeyrissjóður, sem fær tæpar 900 milljónir króna, og stærsti einkafjárfestirinn í bankanum, Stoðir (sem hét einu sinni FL Group), sem fá tæpan hálfan milljarð króna í krafti 4,96 prósent eignarhlutar síns í Arion banka. Við þessa tölu bætast síðan áðurnefnd endurkaup á bréfum fyrir allt að átta milljarða króna frá september síðastliðnum og fram að aðalfundi Arion banka í mars næstkomandi. 

Erfiðar eignir til sölu

Þá er ótalið að Arion banki er með nokkrar eignir sem eru skilgreindar til sölu. Þar er um að ræða Valitor, United Silicon og TravelCo, félags sem stofnað var um nokkrar ferðaskrifstofur eftir gjaldþrot Primera Air. Virði þessara eigna hríðféll í verði á síðasta ári og erfiðlega hefur gengið að selja þær.

Bókfært virði stærstu eignarinnar, Valitor, lækkaði úr 15,8 milljörðum króna í 6,5 milljarða króna í fyrra, eða um 9,3 milljarða króna. Rekstrarerfiðleikar Valitor hafa enda verið miklir og rekstrartap fyrirtækisins á tveimur árum var 11,2 milljarðar króna, þar af 9,9 milljarðar króna í fyrra. Ráðist var í umfangsmiklar skipulagsbreytingar hjá félaginu nýverið þar sem tugum starfsmanna var sagt upp og stjórnendum fækkað umtalsvert.

United Silicon verksmiðjan í Helguvík hefur ekki verið starfrækt frá því um haustið 2017 og áform Arion banka, sem tók yfir verksmiðjuna í janúar 2018 sem helsti lánardrottinn fyrri rekstraraðila, um að selja hana hafa gengið illa. Enn hefur ekki tekist að ganga frá helstu leyfum fyrir breytingum á verksmiðjunni né samkomulagi við Reykjanesbæ um að breyta deiliskipulagi svo hægt verði að ráðast í þær. Auk þess hafa markaðir fyrir þá vöru sem verksmiðjan á að framleiða, kísilmálm, verið erfiðir vegna lækkandi verðs. Aðrir framleiðendur hafa verið að draga úr framleiðslu og loka verksmiðjum. Því er afar ólíklegt að hægt sé að selja verksmiðjuna í Helguvík, að minnsta kosti til skamms tíma. Verðmiðinn á henni lækkaði enda um 4,2 milljarða króna á síðustu níu mánuðum ársins 2019. Nú metur Arion banki hana á 2,7 milljarða króna. Það er ansi lág tala í ljósi þess að áætlur kostnaður við byggingu hennar var um 22 milljarðar króna.


TravelCo, sem rekur ferðaskrifstofur á Norðurlöndum og á Íslandi, gekk heldur ekki vel í fyrra. Neikvæð rekstaráhrif vegna félagsins á Arion banka námu einum milljarði króna á árinu 2019. Í árslok var bókfært virði TravelCo um 2,1 milljarðar króna.

Takist Arion banka að selja allar ofangreindar eignir, sem allar eru skilgreindar til sölu í bókum bankans, og fá fyrir þær bókfært virði þá losnar um 11,3 milljarða króna til viðbótar sem hægt yrði að greiða út til hluthafa.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar