Bára Huld Beck

Tapaði rifrildi og varð vegan

Þegar vinir Eydísar Blöndal töluðu um kosti þess að vera vegan sagði hún: „En æðislegt, gott hjá þér,“ en bætti við í huganum: „Svo lengi sem það truflar mig ekki.“ Hún fór í vörn en stóra rifrildið átti hún við sjálfa sig. Því tapaði hún. Nýverið flutti hún jómfrúarræðu sína á Alþingi og sagði: „Við eigum ekki tilkall til lífs dýra.“

Við eigum ekki tilkall til lífs dýra. Framleiðsla á lífi þeirra, einungis til neyslu, yndisauka eða skemmtunar okkar er grundvallar frelsissvipting sem ég leggst alfarið gegn. [...] Dýr eru skyni gæddar verur, hafa tilfinningar og finna til sársauka. Sömuleiðis er okkur ekki nauðsynlegt að hagnýta þau á einn eða annan hátt.“

Jómfrúarræða sem varaþingmaður Vinstri grænna flutti í lok janúar markaði ákveðin tímamót. Í henni var fjallað um dýravelferð á nokkuð öðrum nótum en áður hefur heyrst í sölum Alþingis. Hún fjallaði ekki um hvernig fara skuli með dýr svo að þeim líði sem best þar til að þeim er slátrað, heldur um það að slátra þeim alls ekki.

Varaþingmaðurinn heitir Eydís Blöndal og er aktívisti. Hún segist hafa „lent“ í pólitík, ekki ætlað sér að verða stjórnmálamaður eins og faðir sinn. Hún efast reyndar um að hugsjónir hennar rúmist innan hefðbundinnar pólitíkur. Hún brennur fyrir því að nauðsynlegt sé að breyta viðtekinni heimsmynd. Að breyta því viðhorfi að jörðin sé fyrst og fremst til fyrir okkur mannfólkið og að við megum fara með hana eins og okkur lysti. Undir áhrifum þess hugarfars hafi loftslagsváin bankað upp á. 

„Ég hef stundum sagt að við séum eins og heimtufrekir unglingar á móður jörð,“ segir Eydís. „Viljum hafa allt eftir okkar höfði, að það þurfi bara að smella fingrum og þá fáum við það sem við viljum. Þetta viðhorf er hins vegar orðið uppþornað, skrælnað. Núna er nauðsynlegt að breyta því og þar með lífsstíl okkar og vera ekki hrædd við það.“

Það er hávetur í Reykjavík. Hálka á gangstéttum og hvít jörð. Eydís vinnur hjá grænkerastaðnum Jömm og tekur strætó  niður í miðbæ. Hún gengur rösklega inn í anddyri hótels við úfinn sjóinn og með útsýni til snæviþaktra hlíða Esjunnar. Heilsar glaðlega, klædd þykkri peysu og úlpu í íslenska vetrinum en með sólgleraugu á höfðinu. „Ég spurði reynslumeiri þingmann hvar best væri að hitta blaðamann. Hann sagði mjög virðulegt að gera það á hóteli,“ segir hún og skellihlær.

Hún er léttlynd, glaðvær. Segist alltaf hafa verið það og sjaldnast taka sjálfa sig of alvarlega. En að innra með henni takist samt á tvær hliðar: Sú afslappaða og svala og sú jarðbundna og ferkantaða. Báðar hafa þær góða kosti sem hafa nýst henni í leik og starfi, ekki síst þegar kemur að því að miðla hugmyndum og skoðunum, semja ljóð og ræður og halda fyrirlestra.

Það skýrir kannski klæðnaðinn. Mögulega var það sú jarðbundna sem valdi að klæðast hlýjum fötum en sú afslappaða sem stakk upp á að bæta sólgleraugunum við.

Eydís segir að innra með sér takist á tvær hliðar: Sú afslappaða og svala og sú jarðbundna og ferkantaða. Báðar hafa þær góða kosti.
Bára Huld Beck

Eydís kýs að drekka te, helst Earl Gray segir hún við þjóninn, og biður um haframjólk út í. Hún reynist ekki til. „En áttu eitthvað annað en kúamjólk?“ spyr hún þá.

Já, Eydís er vegan. Hún tók ákvörðun um að hætta að neyta dýraafurða fyrir um einu og hálfu ári. Það átti sér langan aðdraganda þar sem harðar innri rökræður og brunnið svínakjöt kom meðal annars við sögu.

En áður en við komum að þeim kafla í lífi hennar skal byrja á að næra hina sígildu íslensku forvitni: Hvar og hvenær er hún fædd fædd og hverra manna er hún?

Alla tíð farið eigin leiðir

Eydís er fædd í byrjun janúar árið 1994 og er því nýorðin 26 ára. Hún er í sambúð með Ása Þórðarsyni og eiga þau dótturina Vigdísi Birnu. Hún ólst upp í Safamýrinni í Reykjavík, er dóttir Péturs H. Blöndal heitins, fyrrverandi þingmanns Sjálfstæðisflokksins og Birnu Guðmundsdóttur tölvunarfræðings. Foreldrar hennar skildu er hún var þriggja ára og bjó hún eftir það aðallega hjá móður sinni en var reglulega hjá föður sínum. Hún á fimm systkini.

„Fólk er stundum að reyna að reikna mig út miðað við það hvernig pabbi minn var,“ segir hún og kímir. Það skilar litlu. „Ég get ekki talið hversu oft fólk hefur sagt við mig í gegnum tíðina að það hafi borið virðingu fyrir pabba og hans pólitík en að það hafi alls ekki verið sammála honum,“ segir hún.

Það kom henni ekkert sérstaklega á óvart, sjálf var hún langt í frá alltaf sammála honum, hvort sem það var í pólitík eða hvað varðaði skurð á bakkelsi. „En mér finnst ekki rétt af mér að tala um það opinberlega hvernig við vorum ólík af því að hann er ekki hér lengur og getur þess vegna ekki brugðist við því. Svo fólk verður bara að sjá það sjálft hvar okkur greinir á.“

Hún er auðvitað dóttir foreldra sinna og á sitt hvað sameiginlegt með þeim en hún hefur alla tíð farið eigin leiðir, myndað sér sjálf sínar sterku skoðanir og háð sínar eigin orrustur.

Jómfrúaaræðan mín á Alþingi um dýravelferð 🌱 Þessa viku hef ég tekið sæti á þingi sem varaþingkona. Hápunkturinn var jómfrúarræðan sem ég hélt í gær, þar sem ég talaði fyrir hönd dýra. Ég mun alltaf líta á sjálfa mig sem aktívista áður en ég kalla mig pólitíkus, og ætla að halda baráttunni áfram þangað til þessi hugmynd sem ég talaði fyrir í gær verði álitin hið sjálfsagðasta mál. Ræðuna má lesa hér: -------------------------------- „Kæri forseti. Lög um velferð dýra öðluðust gildi við ársbyrjun 2014. Markmið laganna er m.a. að dýr, sem skyni gæddar verur, séu laus við hvers lags vanlíðan eða þjáningu. Ákvæðum laganna er einnig ætlað að tryggja að dýr geti lifað í samræmi við sitt eðlilega atferli. Ég set spurningarmerki við þennan skilning á hugtakinu velferð, meðal annars í ljósi þeirrar meðferðar sem dýrunum er að endingu veitt. Er velferð mín hafin í hávegum þegar litið er á mig sem framleiðsluvöru? Þegar mér er slátrað? Ég sætti mig ekki við það. Þarna gætir ósamræmis á því hvaða meðferð mannfólk annars vegar, og dýr hins vegar, eigi skilið. Þetta ósamræmi býr í hinum viðtekna skilningi á sambandi manna og dýra, skilningi sem hefðir okkar og lög byggja á, skilningi sem ég hef persónulega fjarlægst mjög í seinni tíð. Dýr eru skyni gæddar verur, hafa tilfinningar og finna fyrir sársauka. Sömuleiðis er okkur ekki nauðsynlegt að hagnýta þau á einn eða annan hátt. Á þessum tveimur forsendum byggi ég í grunninn afstöðu mína. Við eigum ekki tilkall til lífs dýra. Framleiðsla á lífi þeirra, einungis til neyslu, yndisauka eða skemmtunar okkar, er grundvallar frelsissvipting sem ég fellst alfarið gegn. Og til viðbótar vil ég nefna að þetta tilkall sem við upplifum okkur búa yfir til lífs dýra, er birtingarmynd heimsmyndar neyslusamfélags okkar sem ég tel vera rót loftlagsvárinnar. Heimsmynd þar sem við teljum okkur hafa vald til þess að vaða yfir jörðina, sem og líf annara, hvort sem það eru dýr eða aðrar manneskjur. Til að ráða við hættuna sem við stöndum frammi fyrir þurfum við að taka fjölmörg skref til baka frá þessari heimsmynd. En það væri efni í aðra ræðu.“ -------------------------------- Ég hef vissulega haldið ræður, skrifað greinar, sett podcastþátt í loft, bryddað á fjöldamörgum umræðum, og hugsað stanslaust um seinasta punktinn. Eitthvað af því má nálgast hér: https://www.facebook.com/photo.php?fbid=10157528147004328&set=a.489200904327&type=3&theater https://open.spotify.com/episode/5cBo71Xh76dmTMPRuqtGCy?si=yEs9S6RZRpa4S-2ZVfiAQw https://flora-utgafa.is/4-utgafa/mannmidjukenningin/ Að lokum vil ég þakka þeim vegan aktívistum sem á undan mér hafa komið og barist, staðið á sínu og haft vit fyrir okkur hinum. Sama hvort þau hafi látið í sér heyra opinberlega eða í persónulegum samtölum okkar á milli, staðið að því að auðvelda skrefið yfir í veganisma, eða hreinlega bara verið til – takk. Ef ekki væri fyrir þau þá hefði ég aldrei ráðist í mína persónulegu endurskoðun.

Posted by Eydís Blöndal on Thursday, January 30, 2020

„Mér líður eins og ég hafi fæðst 36 ára,“ segir hún og hlær dátt. „Ég sagði það líka þegar ég var tíu ára. Og ég bíð ennþá spennt eftir því að ná þeim aldri. Ég er smám saman að vaxa upp í sjálfa mig.“

Er Eydís var barn og unglingur gekk henni ávallt vel í því sem hún tók sér fyrir hendur. Nám lá mjög vel fyrir henni og hverskyns íþróttir sömuleiðis. Eftir grunnskóla fór hún Menntaskólann í Hamrahlíð. Henni fannst námið auðvelt, tók áfanga á öllum þremur brautunum sem í boði voru og endaði á að útskrifast af náttúrufræðibraut, önn fyrr en til stóð vegna yfirvofandi verkfalls.

Áfall að fá 1 á prófi

En alvaran tók við er í Háskóla Íslands var komið. Þá áttaði hún sig á því að það þýddi ekki lengur að glugga í námsbækurnar og mæta svo í próf. Hún hafði heldur ekki valið auðveldasta námið: Verkfræðilega eðlisfræði. Hún grípur snöggt um andlit sitt er hún rifjar upp að eitt sinn hafi hún fengið 1 í einkunn á sjúkraprófi í eðlisfræði. „Það var smá skellur. Lærdómur hafði alltaf komið til mín svo náttúrulega en þarna var allt breytt. Í þessu námi þurfti að kafa ofan í hlutina, greina og dvelja lengi með hugsunum sínum. Það geri ég yfirleitt ekki, ég leyfi bara hugsunum að koma og svo kveð ég þær,“ segir hún og hlær.

Þegar þarna var komið við sögu hugsaði hún: „Ef ég fæ einn í eðlisfræði þegar ég er að læra eðlisfræði þá er þetta kannski ekki það sem ætti að leggja fyrir mig.“

Og það gerði hún. Yfirgaf hið ferhyrnda sjálf og fór að læra heimspeki. „Það nám lá miklu betur fyrir mér.“ Eydís lagði einnig stund á hagfræði í HÍ og útskrifaðist í fyrra. 

View this post on Instagram

Næsta skref: heimsyfirráð

A post shared by Eydís Blöndal (@eyjablo) on

Allt frá unga aldri gat hún ekki staðið hljóð hjá þegar hún upplifði eitthvað sem hún áleit óréttlæti. Er hún var níu eða tíu ára í Álftamýrarskóla stóð til að kenna á sjálfum öskudeginum. „Þetta fannst okkur í bekknum ósanngjarnt því það var frí í öðrum skólum og þess vegna gerðum við smá uppreisn. Bókuðum tíma hjá skólastjóranum og sungum fyrir hann frumsamið lag um kröfur okkar. Það virkaði ekki, það var kennt á öskudeginum. En það má alltaf reyna!“

Sem unglingur vann hún í kjötborði í verslun og uppgötvaði er leið á sumarið að hún hafði ekki fengið umsamda launahækkun líkt og strákarnir sem unnu við hlið hennar. „Þá gat ég ekki setið á mér og taldi það enga tilviljun að eina stelpan í kjötborðinu hefði einmitt verið sú sem gleymdist að gefa launahækkun.“

Alltaf látið fyrir sér fara

Þrátt fyrir að hafa allt frá barnsaldri verið pólitískt þenkjandi í ákveðnum skilningi segist hún þó aldrei hafa ætlað sér að verða stjórnmálamaður. „Ég hef alltaf haft skoðun á hlutunum og látið fyrir mér fara og í mér heyra en aldrei lagt á ráðin um einhvern pólitískan feril.“

Kannski af því að faðir hennar var áberandi stjórnmálamaður og hún þekkti það líf. „En ég vildi heldur ekki verða tölvunarfræðingur eins og mamma,“ bætir hún við. Hún segist hins vegar hafa „lent“ í pólitísku starfi á árum áður, bæði í menntaskóla og háskóla þar sem hún var oddviti Röskvu.

En hvernig kom það svo til að hún endaði á lista Vinstri grænna fyrir síðustu þingkosningar?

„Bara nákvæmlega eins og áður. Katrín [Jakobsdóttir] hringdi í mig og bauð mér sæti á lista. Ég hafði ekki komið nálægt flokksstarfinu áður enda hafði ég engan áhuga á að vera í einhverjum flokki. Ég er ekki hrifin af flokksfyrirkomulagi yfir höfuð ef ég á að vera hreinskilin. En af þeim flokkum sem buðu fram þá samsamaði ég mig best með VG vegna áherslna á femínisma, friðarstefnu, jöfnuð og umhverfisvernd. Svo þekkti ég fólk í flokknum og fannst það skemmtilegt.“

View this post on Instagram

Nýr vinnustaður — sömu markmiðin

A post shared by Eydís Blöndal (@eyjablo) on

Þetta var ekki einföld ákvörðun. Hún óttaðist að fá á sig flokkspólitískan stimpil. Hún hafði eignast dyggan fylgjendahóp á Twitter, hafði þar ákveðna rödd og fannst flokksstarf geta dregið úr styrk hennar. Hún endaði þó að því að taka tilboðinu, bauð sig fram og er í dag varaþingmaður. „En ég er ekkert sérstaklega góður pólitíkus,“ segir hún hlæjandi og viðurkennir að langir fundir séu ekki hennar tebolli. Þá segist hún lélegur „plottari“, það að hanna atburðarás til að ná einhverju fram, sé ekki í hennar eðli.

Finnst þér þú hafa þurft að gefa afslátt á þínum skoðunum eftir að hafa gengið til liðs við stjórnmálaflokk?

„Nei, en ég hef tjáð þær minna síðustu mánuði. Það hefur ekkert með VG að gera heldur það að mér var tekið öðruvísi eftir að ég varð varaþingmaður. Mér var reyndar farið að finnast Twitter mjög eitrað umhverfi. Það er ekkert bundið við mig eða Ísland. Sama þróun hefur átt sér stað víðar í heiminum. Þetta var í fyrstu skemmtilegt en var hætt að skila einhverju góðu. Bara farið að valda streitu í mínu lífi, einfaldlega vanlíðan.“

Ástríðan

Hún ákvað því að stíga til hliðar á þessum vettvangi en er þó ekki horfin af samfélagsmiðlum heldur skipti yfir á Instragram þar sem hún stundar nú sinn aktívisma. Sá miðill hentar málstaðnum betur. 

Og vel á minnst, málstaðurinn. Sá sem Eydís brennur fyrir. Ástríðan og baráttan sem hún segir hafa snúist upp í aktívisma.

Fyrir einu og hálfu ári tók hún þá ákvörðun að verða vegan, hætta að borða dýraafurðir. Hún var ekkert að auglýsa það í fyrstu, sagði fáum frá því. Hún vildi ekki vera týpan sem hún sjálf átti erfitt með áður en hún varð vegan, „þessi leiðinlega týpa sem fólki finnst vera að troða sinni heimsmynd upp á aðra“.

Þessi týpa fannst til dæmis í MH. „Jújú, þar var auðvitað allt fullt af einhverjum bölvuðum hippum,“ segir hún og skellir upp úr. Nokkrar vinkonur hennar hafi ýmist verið grænmetisætur eða vegan. Í partííum áttu þær til að fara að tala um það. „Og ég gerði nákvæmlega það sama og margir gera gagnvart mér núna. Ég sagði: En æðislegt að þú sért vegan, gott hjá þér, en bætti svo við í huganum: Svo lengi sem það truflar mig ekkert.“

Eftir að Eydís tók ákvörðun um að verða vegan sagði hún fáum frá því.
Bára Huld Beck

Hún segist oft hafa farið í mikla vörn þegar vinir hennar spurðu af hverju hún, sem væri svona skynsöm og víðsýn, sæi ekki rökin fyrir því að vera vegan. „Ég átti það til að snarmóðgast. Mér fannst þetta bara alls ekkert fyrir mig.“

Þegar hún sá fólk segja frá sínum veganisma á Twitter reiddist hún jafnvel og spurði: „Af hverju er þetta fólk að reyna að yfirfæra sitt siðferði yfir á mig? Hvað þykist það vera?“ En mesta rifrildið átti hún samt við sjálfa sig. „Svo tók ég eftir því að ég var farin að tapa í mínu eigin rifrildi. Ég var farin að svara fyrir veganisma, farin að segja við sjálfa mig: Eydís, þú veist betur.“

Rökræðurnar innra með henni voru harðar því að þær snérust um hvort það væri rétt eða rangt að drepa dýr og borða þau. „Það var einhver þversögn innra með mér, hún var svo hrottaleg að ég þorði ekki að horfast í augu við hana. Þá greip ég til þess að vera í mikilli vörn á meðan samviskan tísti þar undir.“

Samviskan er áttavitinn okkar

Hún gerir stutt hlé á máli sínu en heldur svo áfram: „Mér finnst samviska svo mikilvægt tól. Mörgum finnst það að fá samviskubit vera neikvætt en ég tel það einmitt jákvætt. Þá er eitthvað siðferði innra með þér, áttavitinn þinn, að segja þér að þú sért að gera eitthvað rangt. Í minni vörn var ég farin að fá samviskubit en kenna öðrum um það. Í staðinn fyrir að hlusta á samvisku mína. Hún var ekki að benda á aðra heldur mig.“

Eydís segir það hafa tekið sig langan tíma að sætta sig við að hún hefði haft rangt fyrir sér. Hún man nákvæmlega hvenær allt rann loks upp fyrir henni. Hún stóð heima hjá móður sinni og var að grilla svínakjöt. „Og kjötið var allt brunnið. Því ég bara gat þetta ekki lengur. Ég fékk yfirþyrmandi tilfinningu að ég gæti ekki borðað þetta kjöt. Það var reyndar ónýtt, því ég brenndi það! En þarna á þessari stundu ákvað ég að verða vegan.“

(Eydís á myndband af þessu augnabliki sem sjá má í færslunni hér að neðan)

Nú segist hún enn ekki hafa séð þau viðbrögð gegn veganisma sem hún velti ekki sjálf fyrir sér áður. Hún þekkir alla orðræðuna, öll rökin, allar spurningarnar. Og vörnina sem fólk fer í.

„Mér finnst mikilvægt að fólk átti sig á að langflestir sem eru vegan í dag voru það ekki áður. Þetta er fólk sem tók þessa ákvörðun að vel athuguðu máli. Þetta samfélag sem við búum í, sem normaliserar það að drepa dýr og borða þau, það er samfélagið sem ég ólst upp í. Heimsmyndin mín hefur nú breyst en ég þekki hina samt vel.“

Þegar hún var búin að vera vegan í ár ákvað hún að segja frá því á Instagram. „Þegar við stöndum frammi fyrir ákvörðuninni um að drepa eða drepa ekki þá er svo augljóst hvort er siðferðislega réttara,“ skrifaði hún.

Fangar það sem margir þekkja

Jákvæð viðbrögðin komu henni á óvart. Það hleypti auknum krafti í hana og hún ákvað að halda áfram að deila pælingum sínum um veganisma. Margir segjast tengja við það sem hún skrifar. Líkt og margir segjast hafa tengt við ljóðin sem hún samdi og gaf út. „Ég felli enga dóma heldur reyni að fanga eitthvað sem margir skilja og þekkja. Ég reyni að horfa á þetta út frá því sjónarhorni sem ég hafði fyrir tveimur árum, áður en ég varð sjálf vegan.“

Eydís setur hugrenningar sínar fram með einföldum hætti, jafnvel í einföldum reikningsdæmum. Dýr eru alin til manneldis með tugþúsundum hitaeininga en skila aðeins örfáum þeirra til baka í formi kjöts. „Þetta er í raun mikil matarsóun,“ bendir Eydís á.

En þeir sem eru vegan borða sumir hverjir mikið af matvörum sem fluttar eru inn til landsins, jafnvel um mjög langan veg. Hverju svarar þú því?

„Já, þetta hef ég einmitt heyrt oft áður,“ segir hún og bendir á að vissulega séu matvæli flutt inn, en bæði fyrir þá sem eru vegan og aðra. Kolefnissporið sem grænkerar skilja eftir sig sé lítið samanborið við það sem myndast við framleiðslu á kjöti, sé horft til alls framleiðsluferlisins.

Eydís hefur gefið út tvær ljóðabækur; Án tillits og Tíst og bast.
Bára Huld Beck

Það eru einmitt framleiðsluferlin sem Eydís vill beina sjónum fólks að. Stór hluti þeirra er falinn fyrir neytendum, þeir vita ekki hvernig vara verður til og hver umhverfisáhrif hennar eru.

Hún hefur því lagt fram fyrirspurn á Alþingi til iðnaðarráðherra varðandi gegnsæi umhverfisáhrifa við framleiðslu vara og þjónustu. „Áformar ráðherra að skylda fyrirtæki til að greina frá kolefnisfótspori annars vegar og umhverfisáhrifum vegna t.d. plastnotkunar hins vegar við framleiðslu á vörum og þjónustu til að auka gegnsæi og auðvelda neytendum að taka upplýsta ákvörðun þegar kemur að neyslu?“

Hún tekur dæmi: Vörur sem verslun selur koma til hennar frá heildsölu á vörubretti sem pakkað er í plast í bak og fyrir. Áður höfðu þær komið í heildsöluna frá útlöndum, pakkaðar í annað plast. Framleiðandinn ytra keypti hráefni. Þeim var mögulega einnig pakkað í plast. Svo er hver og ein vara pökkuð í plast. Út úr því plasti kemur kannski bambustannbursti. Sem fólk kaupir með góðri samvisku. Þannig er ferlið að baki fjölmörgum vörum.

Fáránleg keðja sem enginn ber ábyrgð á

„Þessi keðja er fáránleg, það er gríðarleg sóun víða í henni. Við veltum þessum ferlum ekki fyrir okkur, af hverju þau eru svona og hverju sé hægt að breyta. Við getum ekki nálgast upplýsingar um þau til að taka upplýsta ákvörðun um kaup okkar. Þetta er svo ónáttúrulegt, þetta er hugsunarleysi sem enginn ber ábyrgð á.“

Hún spyr hvort að það sé kannski ómögulegt að komast að því hversu miklu sé sóað af plasti. Sömu sögu sé að segja af annarri mengun sem fylgi framleiðslu neysluvarnings. „Kannski er þetta bara orðið svo langt og gríðarlega mikið ferli að við eigum engan séns að finna út úr þessu. En ef svo er, þá hvet ég fólk til að spyrja sig: Finnst mér þetta eðlilegt?“

Eydísi finnst þetta sorglegt því margir séu virkilega að reyna að minnka umhverfisáhrif neyslu sinnar. Ofneysla sé gríðarleg og komin úr böndunum. Á sama tíma hafi sá iðnaður að framleiða dýr til manneldis gengið mjög langt. „Núna þurfum við að hugsa öll okkar kerfi upp á nýtt, allt hagkerfið,“ segir hún. „Mér finnst þegar allt kemur til alls að við göngum út frá hugmynd sem er lygi að mörgu leyti. Við tökum einhverri heimsmynd sem fasta en það vorum við sem bjuggum hana til og það er okkar að breyta henni.“

Tíu prósent ríkasta fólks heims ber ábyrgð á helmingi af útblæstri gróðurhúsalofttegunda, bendir hún á. „Við lítum á jörðina eins og hún sé hérna eingöngu fyrir okkur. Við höldum að dýrin séu til fyrir okkur, að olían sé í jörðinni fyrir okkur. Og við höldum að fólkið í Bangladess sé þar til að sauma á okkur fötin. Við skrifuðum þessar leikreglur og förum svo eftir þeim eins og þær séu ófrávíkjanlegar staðreyndir.“

En hvað þýðir það fyrir jarðarbúa að umbylta hagkerfi?

„Í loftslagsaðgerðum flestra vestrænna ríkja er fyrst og fremst verið að leita leiða til að viðhalda okkar lífsstíl, svo að þurfum ekki að breyta neinu. Í því sambandi heyrast oft orðin kolefnisjöfnun og rafmagnsbílar svo ég taki dæmi. En við getum ekki haldið áfram að lifa eins og við gerum. Það hvernig við lifum er einmitt vandamálið. Viðhorf okkar til heimsins, jarðarinnar, er vandamálið. Hvað við teljum vera tilgang lífsins. Það er búið að brengla þessi viðhorf okkar.“

Nokkur skref til baka

Nú þurfi fólk lífsnauðsynlega að taka nokkur skref til baka. „Þetta er skiljanlega viðkvæmt fyrir þær kynslóðir sem á undan fóru. Þær gætu tekið því þannig að við séum að ásaka þær um að hafa eyðilagt allt fyrir okkur. Það upplifir að allt það sem það taldi rétt sé rangt að mati yngra fólksins. Ég skil það vel að fólk verði sárt og reitt og fari í vörn. Ég þekki það vel sjálf að líta svo á að maður sé að fylgja reglum samfélagsins og  sé þess vegna ekki að gera neitt rangt. En siðferðisreglur eru ekki meitlaðar í stein. Siðferði þarf að vera til sífelldrar endurskoðunar.“

Eydís minnir á að það sem okkur þótti gott og eðlilegt fyrir nokkrum áratugum og öldum sé sumt fráleitt í samfélagi dagsins í dag. „Það gerðist ekki í tómarúmi. Það er af því að einhver stóð upp og benti á það. Þeir sem hafa bent á ranglæti í gegnum tíðina hafa alltaf mætt andstöðu fyrst því þeir eru að rísa upp gegn ríkjandi gildum.“ 

Hagkerfin ekki fullkomin í dag

Þegar komi að umbyltingu kerfanna sé vert að hafa í huga að hagkerfi dagsins í dag sé langt í frá fullkomið og valdi mismunun. Milljónir búi við fátækt á meðan aðrir séu stórkostlega ríkir.

„Við þurfum að endurhugsa það sem við teljum lífsgæði í dag. Sem dæmi má nefna að fyrir nokkrum árum fannst mér það toppurinn á tilverunni að fara til útlanda og versla föt. En nú, ekki svo löngu seinna, finnst mér það fráleitt. Við þurfum að muna að efnishyggjan gefur okkur enga fyllingu. Hún skapar ekki hamingjuna þó að við höldum það af því að allt umhverfið hefur sagt okkur það svo lengi.“ 

View this post on Instagram

New profile pic 🌱💋

A post shared by Eydís Blöndal (@eyjablo) on

Nú munu kannski einhverjir sem lesa þetta viðtal benda á að þú sért ung forréttinda kona úr Reykjavík sem hefur aldrei unnið á sveitabæ og vitir varla um hvað þú ert að tala. Hverju myndir þú svara því?

„Ég nýt forréttinda, það er alveg rétt, en ég er ekki veruleikafirrt,“ svarar hún. „Ég veit að ég get ekki bara smellt fingrum og þá verði allir vegan á morgun. Ég hef engan rétt á því og er ekki að ætlast til þess. En ég veit að dýr eru framleidd til að mæta eftirspurn eftir kjöti og öðrum dýraafurðum. Nú tók ég nógu marga hagfræðiáfanga til að skilja samhengi framboðs og eftirspurnar. Það er nákvæmlega þannig sem ég sé þetta fyrir mér. Með minnkandi eftirspurn verður minna framleitt.“

En hvernig sérðu þá fyrir þér hlutverk sveita landsins?

„Fólk mun ennþá þurfa að borða,“ segir Eydís, „og það eru til grænmetisbændur og við þurfum meiri nýsköpun þar og í landbúnaði almennt til að tryggja fæðuöryggi okkar. Ég sé fyrir mér að sveitirnar fái nýtt hlutverk. Það mætti nota þá fjármuni sem fara í niðurgreiðslu á kjötframleiðslu til þessarar nýsköpunar.“

Vill fá að tala fyrir hönd dýranna

Hún leggur áherslu á að með þessum orðum sé hún alls ekki að ráðast gegn bændum landsins. Hún tali fyrir kerfisbreytingu, ekki gegn fólki sem vilji vel og sé að gera það sem það telji best. „En ég vil samt fá að tala fyrir hönd dýranna sem geta ekki varið sig.“

Loftslagsvandinn verður ekki leystur með því að Eydís Blöndal hætti að borða kjöt. Þetta veit hún mæta vel. „Það er ekkert eitt sem við getum gert til að stöðva þróunina. Það er engin lausn við loftslagsbreytingum. En við verðum að sameinast í því að hætta að eyða náttúruauðlindum okkar í tilgangslausa hluti. Við þurfum að setjast niður og spyrja okkur: Hvernig ætlum við að lifa þetta af?“

Það sé hvers og eins að taka ábyrgð á sinni heimsmynd. „Það að borða kjöt hefur neikvæð áhrif á umhverfið. Þannig að ég ætla ekki að halda áfram að gera það, jafnvel þótt að það eitt og sér sé ekki að fara að bjarga heiminum. Ég svara bara minni samvisku.“ 

Sérðu fyrir þér hagkerfi án kjötframleiðslu?

„Það virðist útópía, að minnsta kosti núna. Þarna að baki er menning og saga sem verður að taka tillit til og bera virðingu fyrir. Ég ætla mér aldrei að predika yfir fólki, segja því hvað það má og hvað það má ekki gera. Þessi umræða er mjög tilfinningahlaðin, beggja vegna borðsins. Ég myndi vilja tala við einhvern sauðfjárbónda um þetta, af gagnkvæmu umburðarlyndi. Ekki bara í einhverjum kommentakerfum þar sem sleggjudómar eru látnir falla.“

Eydís hefur stundum heyrt að skoðanir hennar séu barnalegar. Að heimurinn sé nú bara svona. Dýr séu matur. Hún tekur undir að á öldum áður hafi fólk á sumum svæðum komist af með því að leggja sér kjöt til munns. Staðan sé hins vegar gjörbreytt og ræktun dýra til manneldis sé óþörf í hinum vestræna heimi.

Og ef dýr eru bara matur, af hverju eru þá ekki öll dýr matur?

Að skjóta hund

„Ef það ætti að skjóta hund úti á götu myndi engum sem ég þekki finnast það ekki í lagi. En hver er munurinn á hundi og lambi? Er einhver munur, eða ákváðum við það bara? Að annað væri til þess að borða en hitt ekki? Þarna er einhver tvískinnungur. Ef fólk sæi einhvern ætla að skjóta lamb úti á götu myndi líka öllum bregða. En ef sama athöfnin á sér stað bak við vegg, inni í sláturhúsi þar sem þú þarft ekki að horfa upp á það, þá er það orðið allt í lagi. Hætt að vera hræðilegt ofbeldi. Þarna hefur orðið einhver aftenging. Það er engin mannúðleg leið til að drepa einhvern að ástæðulausu.“

Eydís segist vel gera sér grein fyrir því að það sé óvinsæl skoðun hjá fjölmörgum að tala fyrir veganisma. „En það gleður mig að heyra að fólk hafi gerst vegan eftir að hafa hlustað á mig. Þessi skoðun er nefnilega ekki óvinsæl meðal ungs fólks almennt.“

Uppgjöf ekki í boði

Er hægt að snúa til baka? Í átt að sjálfsþurftarbúskap fortíðar?

Þetta er stór spurning. Við henni er ekkert einhlítt svar. Hamingjan er að minnsta kosti ekki bundin við lífsstíl nútímafólks. Hana er að finna handan hans.

„Við höfum gengið mjög langt í að raska vistkerfunum okkar. Einhverjir föttuðu það fyrir löngu en voru stimplaðir klikkaðir hippar,” segir Eydís og brosir. „Því hinum megin við borðið eru svo sterk peningaöfl. Þetta er orrusta sem er kannski vonlítið að sigra. En ég ætla samt að berjast, það er það eina sem ég get gert. Við getum ekki einfaldlega gefist upp, sá möguleiki er ekki lengur í boði. Þá deyjum við.“

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiViðtal