Bára Huld Beck

Tapaði rifrildi og varð vegan

Þegar vinir Eydísar Blöndal töluðu um kosti þess að vera vegan sagði hún: „En æðislegt, gott hjá þér,“ en bætti við í huganum: „Svo lengi sem það truflar mig ekki.“ Hún fór í vörn en stóra rifrildið átti hún við sjálfa sig. Því tapaði hún. Nýverið flutti hún jómfrúarræðu sína á Alþingi og sagði: „Við eigum ekki tilkall til lífs dýra.“

Við eigum ekki til­kall til lífs dýra. Fram­leiðsla á líf­i þeirra, ein­ungis til neyslu, ynd­is­auka eða skemmt­unar okkar er grund­vall­ar frels­is­svipt­ing sem ég leggst alfarið gegn. [...] Dýr eru skyni gæddar ver­ur, hafa til­finn­ingar og finna til sárs­auka. Sömu­leiðis er okkur ekki nauð­syn­leg­t að hag­nýta þau á einn eða annan hátt.“

Jóm­frú­ar­ræða sem vara­þing­maður Vinstri grænna flutti í lok jan­úar mark­aði ákveðin tíma­mót. Í henni var fjallað um dýra­vel­ferð á nokkuð öðrum nótum en áður hefur heyrst í sölum Alþing­is. Hún fjall­aði ekki um hvernig fara skuli með dýr svo að þeim líði sem best þar til að þeim er slátrað, heldur um það að slátra þeim alls ekki.

Vara­þing­mað­ur­inn heitir Eydís Blön­dal og er aktí­visti. Hún­ ­seg­ist hafa „lent“ í póli­tík, ekki ætlað sér að verða stjórn­mála­maður eins og faðir sinn. Hún efast reyndar um að hug­sjónir hennar rúmist innan hefð­bund­inn­ar póli­tík­ur. Hún brennur fyrir því að nauð­syn­legt sé að breyta við­tek­inn­i heims­mynd. Að breyta því við­horfi að jörðin sé fyrst og fremst til fyrir okk­ur ­mann­fólkið og að við megum fara með hana eins og okkur lysti. Undir áhrifum þess hug­ar­fars hafi lofts­lags­váin bankað upp á. 

„Ég hef stundum sagt að við séum eins og heimtu­frekir ung­lingar á móður jörð,“ segir Eydís. „Viljum hafa allt eftir okkar höfði, að það þurfi bara að smella fingrum og þá fáum við það sem við vilj­um. Þetta við­horf er hins vegar orðið upp­þorn­að, skræln­að. Núna er nauð­syn­legt að breyta því og þar með lífs­stíl okkar og vera ekki hrædd við það.“

Það er hávetur í Reykja­vík. Hálka á gang­stéttum og hvít jörð. Eydís vinnur hjá græn­ker­a­staðnum Jömm og tekur strætó  niður í mið­bæ. Hún gengur rösk­lega inn í and­dyri hót­els við úfinn sjó­inn og með útsýni til snævi­þaktra hlíða Esj­unn­ar. Heilsar glað­lega, klædd þykkri peysu og úlpu í íslenska vetr­inum en með­ ­sól­gler­augu á höfð­inu. „Ég spurði reynslu­meiri þing­mann hvar best væri að hitta ­blaða­mann. Hann sagði mjög virðu­legt að gera það á hót­eli,“ segir hún og skelli­hlær.

Hún er létt­lynd, glað­vær. Seg­ist alltaf hafa verið það og sjaldn­ast taka sjálfa sig of alvar­lega. En að innra með henni tak­ist samt á tvær hlið­ar: Sú afslapp­aða og svala og sú jarð­bundna og fer­kant­aða. Báðar hafa þær ­góða kosti sem hafa nýst henni í leik og starfi, ekki síst þegar kemur að því að miðla hug­myndum og skoð­un­um, semja ljóð og ræður og halda fyr­ir­lestra.

Það skýrir kannski klæðn­að­inn. Mögu­lega var það sú jarð­bundna sem valdi að klæð­ast hlýjum fötum en sú afslapp­aða sem stakk upp á að bæta sól­gler­aug­unum við.

Eydís segir að innra með sér takist á tvær hliðar: Sú afslappaða og svala og sú jarðbundna og ferkantaða. Báðar hafa þær góða kosti.
Bára Huld Beck

Eydís kýs að drekka te, helst Earl Gray segir hún við ­þjón­inn, og biður um hafra­mjólk út í. Hún reyn­ist ekki til. „En áttu eitt­hvað annað en kúa­mjólk?“ spyr hún þá.

Já, Eydís er veg­an. Hún tók ákvörðun um að hætta að neyta ­dýra­af­urða fyrir um einu og hálfu ári. Það átti sér langan aðdrag­anda þar sem harðar innri rök­ræður og brunnið svína­kjöt kom meðal ann­ars við sögu.

En áður en við komum að þeim kafla í lífi hennar skal byrj­a á að næra hina sígildu íslensku for­vitni: Hvar og hvenær er hún fædd fædd og hverra manna er hún?

Alla tíð farið eigin leiðir

Eydís er fædd í byrjun jan­úar árið 1994 og er því nýorðin 26 ára. Hún er í sam­búð með Ása Þórð­ar­syni og eiga þau dótt­ur­ina Vig­dísi Birn­u. Hún ólst upp í Safa­mýr­inni í Reykja­vík, er dóttir Pét­urs H. Blön­dal heit­ins, fyrr­ver­and­i ­þing­manns Sjálf­stæð­is­flokks­ins og Birnu Guð­munds­dóttur tölv­un­ar­fræð­ings. For­eldr­ar hennar skildu er hún var þriggja ára og bjó hún eftir það aðal­lega hjá móð­ur­ sinni en var reglu­lega hjá föður sín­um. Hún á fimm systk­ini.

„Fólk er stundum að reyna að reikna mig út miðað við það hvern­ig pabbi minn var,“ segir hún og kím­ir. Það skilar litlu. „Ég get ekki talið hversu oft fólk hefur sagt við mig í gegnum tíð­ina að það hafi borið virð­ingu fyr­ir­ pabba og hans póli­tík en að það hafi alls ekki verið sam­mála hon­um,“ segir hún.

Það kom henni ekk­ert sér­stak­lega á óvart, sjálf var hún­ langt í frá alltaf sam­mála hon­um, hvort sem það var í póli­tík eða hvað varð­að­i ­skurð á bakk­elsi. „En mér finnst ekki rétt af mér að tala um það opin­ber­lega hvernig við vorum ólík af því að hann er ekki hér lengur og getur þess vegna ekki brugð­ist við því. Svo fólk verður bara að sjá það sjálft hvar okk­ur ­greinir á.“

Hún er auð­vitað dóttir for­eldra sinna og á sitt hvað ­sam­eig­in­legt með þeim en hún hefur alla tíð farið eigin leið­ir, myndað sér­ ­sjálf sínar sterku skoð­anir og háð sínar eigin orr­ust­ur.

„Mér líður eins og ég hafi fæðst 36 ára,“ segir hún og hlær dátt. „Ég sagði það líka þegar ég var tíu ára. Og ég bíð ennþá spennt eftir því að ná þeim aldri. Ég er smám saman að vaxa upp í sjálfa mig.“

Er Eydís var barn og ung­lingur gekk henni ávallt vel í því ­sem hún tók sér fyrir hend­ur. Nám lá mjög vel fyrir henni og hverskyns íþrótt­ir ­sömu­leið­is. Eftir grunn­skóla fór hún Mennta­skól­ann í Hamra­hlíð. Henni fann­st ­námið auð­velt, tók áfanga á öllum þremur braut­unum sem í boði voru og end­aði á að útskrif­ast af nátt­úru­fræði­braut, önn fyrr en til stóð vegna yfir­vof­and­i verk­falls.

Áfall að fá 1 á prófi

En alvaran tók við er í Háskóla Íslands var kom­ið. Þá átt­að­i hún sig á því að það þýddi ekki lengur að glugga í náms­bæk­urnar og mæta svo í próf. Hún hafði heldur ekki valið auð­veldasta nám­ið: Verk­fræði­lega eðl­is­fræð­i. Hún grípur snöggt um and­lit sitt er hún rifjar upp að eitt sinn hafi hún feng­ið 1 í ein­kunn á sjúkra­prófi í eðl­is­fræði. „Það var smá skell­ur. Lær­dómur hafð­i alltaf komið til mín svo nátt­úru­lega en þarna var allt breytt. Í þessu námi þurfti að kafa ofan í hlut­ina, greina og dvelja lengi með hugs­unum sín­um. Það ­geri ég yfir­leitt ekki, ég leyfi bara hugs­unum að koma og svo kveð ég þær,“ ­segir hún og hlær.

Þegar þarna var komið við sögu hugs­aði hún: „Ef ég fæ einn í eðl­is­fræði þegar ég er að læra eðl­is­fræði þá er þetta kannski ekki það sem ætt­i að leggja fyrir mig.“

Og það gerði hún. Yfir­gaf hið fer­hyrnda sjálf og fór að læra heim­speki. „Það nám lá miklu betur fyrir mér.“ Eydís lagði einnig stund á hag­fræði í HÍ og útskrif­að­ist í fyrra. 

Allt frá unga aldri gat hún ekki staðið hljóð hjá þegar hún­ ­upp­lifði eitt­hvað sem hún áleit órétt­læti. Er hún var níu eða tíu ára í Álfta­mýr­ar­skóla stóð til að kenna á sjálfum ösku­deg­in­um. „Þetta fannst okkur í bekkn­um ósann­gjarnt því það var frí í öðrum skólum og þess vegna gerðum við smá ­upp­reisn. Bók­uðum tíma hjá skóla­stjór­anum og sungum fyrir hann frum­samið lag um ­kröfur okk­ar. Það virk­aði ekki, það var kennt á ösku­deg­in­um. En það má alltaf ­reyna!“

Sem ung­lingur vann hún í kjöt­borði í verslun og upp­götv­að­i er leið á sum­arið að hún hafði ekki fengið umsamda launa­hækkun líkt og ­strák­arnir sem unnu við hlið henn­ar. „Þá gat ég ekki setið á mér og taldi það enga til­viljun að eina stelpan í kjöt­borð­inu hefði einmitt verið sú sem gleymd­ist að gefa launa­hækk­un.“

Alltaf látið fyrir sér fara

Þrátt fyrir að hafa allt frá barns­aldri verið póli­tískt þenkj­andi í ákveðnum skiln­ingi seg­ist hún þó aldrei hafa ætlað sér að verða ­stjórn­mála­mað­ur. „Ég hef alltaf haft skoðun á hlut­unum og látið fyrir mér fara og í mér heyra en aldrei lagt á ráðin um ein­hvern póli­tískan fer­il.“

Kannski af því að faðir hennar var áber­andi stjórn­mála­mað­ur­ og hún þekkti það líf. „En ég vildi heldur ekki verða tölv­un­ar­fræð­ingur eins og mamma,“ bætir hún við. Hún seg­ist hins vegar hafa „lent“ í póli­tísku starfi á árum áður, bæði í mennta­skóla og háskóla þar sem hún var odd­viti Röskvu.

En hvernig kom það svo til að hún end­aði á lista Vinstri grænna fyrir síð­ustu þing­kosn­ing­ar?

„Bara nákvæm­lega eins og áður. Katrín [Jak­obs­dótt­ir] hringd­i í mig og bauð mér sæti á lista. Ég hafði ekki komið nálægt flokks­starf­inu áður­ enda hafði ég engan áhuga á að vera í ein­hverjum flokki. Ég er ekki hrifin af ­flokks­fyr­ir­komu­lagi yfir höfuð ef ég á að vera hrein­skil­in. En af þeim flokk­um ­sem buðu fram þá sam­sam­aði ég mig best með VG vegna áherslna á femín­is­ma, frið­ar­stefnu, jöfnuð og umhverf­is­vernd. Svo þekkti ég fólk í flokknum og fann­st það skemmti­leg­t.“

Þetta var ekki ein­föld ákvörð­un. Hún ótt­að­ist að fá á sig ­flokkspóli­tískan stimp­il. Hún hafði eign­ast dyggan fylgj­enda­hóp á Twitt­er, hafði þar ákveðna rödd og fannst flokks­starf geta dregið úr styrk henn­ar. Hún­ end­aði þó að því að taka til­boð­inu, bauð sig fram og er í dag vara­þing­mað­ur. „En ég er ekk­ert sér­stak­lega góður póli­tíku­s,“ segir hún hlæj­andi og við­ur­kennir að langir fundir séu ekki hennar tebolli. Þá seg­ist hún lélegur „plott­ari“, það að hanna atburða­rás til að ná ein­hverju fram, sé ekki í hennar eðli.

Finnst þér þú hafa þurft að gefa afslátt á þínum skoð­unum eftir að hafa gengið til liðs við ­stjórn­mála­flokk?

„Nei, en ég hef tjáð þær minna síð­ustu mán­uði. Það hef­ur ekk­ert með VG að gera heldur það að mér var tekið öðru­vísi eftir að ég varð vara­þing­mað­ur. Mér var reyndar farið að finn­ast Twitter mjög eitrað umhverfi. Það er ekk­ert bundið við mig eða Ísland. Sama þróun hefur átt sér stað víðar í heim­in­um. Þetta var í fyrstu skemmti­legt en var hætt að skila ein­hverju góðu. Bara far­ið að valda streitu í mínu lífi, ein­fald­lega van­líð­an.“

Ástríðan

Hún ákvað því að stíga til hliðar á þessum vett­vangi en er þó ekki horfin af sam­fé­lags­miðlum heldur skipti yfir á Instragram þar sem hún­ ­stundar nú sinn aktí­visma. Sá mið­ill hentar mál­staðnum bet­ur. 

Og vel á minnst, mál­stað­ur­inn. Sá sem Eydís brennur fyr­ir­. Á­stríðan og bar­áttan sem hún segir hafa snú­ist upp í aktí­visma.

Fyrir einu og hálfu ári tók hún þá ákvörðun að verða vegan, hætta að borða dýra­af­urð­ir. Hún var ekk­ert að aug­lýsa það í fyrstu, sagði fáum frá því. Hún vildi ekki vera týpan sem hún sjálf átti erfitt með áður en hún­ varð vegan, „þessi leið­in­lega týpa sem fólki finnst vera að troða sinn­i heims­mynd upp á aðra“.

Þessi týpa fannst til dæmis í MH. „Jú­jú, þar var auð­vitað allt ­fullt af ein­hverjum bölv­uðum hipp­um,“ segir hún og skellir upp úr. Nokkrar vin­konur hennar hafi ýmist verið græn­metisætur eða veg­an. Í partí­íum áttu þær til að fara að tala um það. „Og ég gerði nákvæm­lega það sama og margir gera gagn­vart mér núna. Ég sagði: En æðis­legt að þú sért vegan, gott hjá þér, en bætti svo við í hug­an­um: Svo lengi sem það truflar mig ekk­ert.“

Eftir að Eydís tók ákvörðun um að verða vegan sagði hún fáum frá því.
Bára Huld Beck

Hún seg­ist oft hafa farið í mikla vörn þegar vinir henn­ar ­spurðu af hverju hún, sem væri svona skyn­söm og víð­sýn, sæi ekki rökin fyr­ir­ því að vera veg­an. „Ég átti það til að snar­móðg­ast. Mér fannst þetta bara alls ekk­ert fyrir mig.“

Þegar hún sá fólk segja frá sínum vegan­isma á Twitt­er reidd­ist hún jafn­vel og spurði: „Af hverju er þetta fólk að reyna að yfir­færa sitt sið­ferði yfir á mig? Hvað þyk­ist það ver­a?“ En mesta rifr­ildið átti hún­ ­samt við sjálfa sig. „Svo tók ég eftir því að ég var farin að tapa í mínu eig­in rifr­ildi. Ég var farin að svara fyrir vegan­isma, farin að segja við sjálfa mig: Ey­dís, þú veist bet­ur.“

Rök­ræð­urnar innra með henni voru harðar því að þær snérust um hvort það væri rétt eða rangt að drepa dýr og borða þau. „Það var ein­hver þver­sögn innra með mér, hún var svo hrotta­leg að ég þorði ekki að horfast í augu við hana. Þá greip ég til þess að vera í mik­illi vörn á meðan sam­viskan ­tísti þar und­ir.“

Sam­viskan er átta­vit­inn okkar

Hún gerir stutt hlé á máli sínu en heldur svo áfram: „Mér­ finnst sam­viska svo mik­il­vægt tól. Mörgum finnst það að fá sam­visku­bit vera nei­kvætt en ég tel það einmitt jákvætt. Þá er eitt­hvað sið­ferði innra með þér­, átta­vit­inn þinn, að segja þér að þú sért að gera eitt­hvað rangt. Í minni vörn var ég farin að fá sam­visku­bit en kenna öðrum um það. Í stað­inn fyrir að hlust­a á sam­visku mína. Hún var ekki að benda á aðra heldur mig.“

Eydís segir það hafa tekið sig langan tíma að sætta sig við að hún hefði haft rangt fyrir sér. Hún man nákvæm­lega hvenær allt rann loks upp­ ­fyrir henni. Hún stóð heima hjá móður sinni og var að grilla svína­kjöt. „Og kjötið var allt brunn­ið. Því ég bara gat þetta ekki leng­ur. Ég fékk yfir­þyrm­and­i ­til­finn­ingu að ég gæti ekki borðað þetta kjöt. Það var reyndar ónýtt, því ég brenndi það! En þarna á þess­ari stundu ákvað ég að verða veg­an.“

(Ey­dís á mynd­band af þessu augna­bliki sem sjá má í færsl­unni hér að neð­an)

Nú seg­ist hún enn ekki hafa séð þau við­brögð gegn vegan­isma ­sem hún velti ekki sjálf fyrir sér áður. Hún þekkir alla orð­ræð­una, öll rök­in, allar spurn­ing­arn­ar. Og vörn­ina sem fólk fer í.

„Mér finnst mik­il­vægt að fólk átti sig á að lang­flestir sem eru vegan í dag voru það ekki áður. Þetta er fólk sem tók þessa ákvörðun að vel ­at­hug­uðu máli. Þetta sam­fé­lag sem við búum í, sem normaliserar það að drepa dýr og borða þau, það er sam­fé­lagið sem ég ólst upp í. Heims­myndin mín hefur nú breyst en ég þekki hina samt vel.“

Þegar hún var búin að vera vegan í ár ákvað hún að segja frá­ því á Instagram. „Þegar við stöndum frammi fyrir ákvörð­un­inni um að drepa eða ­drepa ekki þá er svo aug­ljóst hvort er sið­ferð­is­lega rétt­ara,“ skrif­aði hún.

Fangar það sem margir þekkja

Jákvæð við­brögðin komu henni á óvart. Það hleypti auknum kraft­i í hana og hún ákvað að halda áfram að deila pæl­ingum sínum um vegan­isma. Margir ­segj­ast tengja við það sem hún skrif­ar. Líkt og margir segj­ast hafa tengt við ljóðin sem hún samdi og gaf út. „Ég felli enga dóma heldur reyni að fanga eitt­hvað sem margir skilja og þekkja. Ég reyni að horfa á þetta út frá því ­sjón­ar­horni sem ég hafði fyrir tveimur árum, áður en ég varð sjálf veg­an.“

Eydís setur hug­renn­ingar sínar fram með ein­földum hætt­i, ­jafn­vel í ein­földum reikn­ings­dæm­um. Dýr eru alin til mann­eldis með tug­þús­und­um hita­ein­inga en skila aðeins örfáum þeirra til baka í formi kjöts. „Þetta er í raun mikil mat­ar­só­un,“ bendir Eydís á.

En þeir sem eru vegan ­borða sumir hverjir mikið af mat­vörum sem fluttar eru inn til lands­ins, jafn­vel um mjög langan veg. Hverju svarar þú því?

„Já, þetta hef ég einmitt heyrt oft áður,“ segir hún og bend­ir á að vissu­lega séu mat­væli flutt inn, en bæði fyrir þá sem eru vegan og aðra. Kolefn­is­sporið sem græn­kerar skilja eftir sig sé lítið sam­an­borið við það sem ­mynd­ast við fram­leiðslu á kjöti, sé horft til alls fram­leiðslu­ferl­is­ins.

Eydís hefur gefið út tvær ljóðabækur; Án tillits og Tíst og bast.
Bára Huld Beck

Það eru einmitt fram­leiðslu­ferlin sem Eydís vill beina ­sjónum fólks að. Stór hluti þeirra er fal­inn fyrir neyt­end­um, þeir vita ekki hvernig vara verður til og hver umhverf­is­á­hrif hennar eru.

Hún hefur því lagt fram fyr­ir­spurn á Alþingi til iðn­að­ar­ráð­herra varð­andi gegn­sæi umhverf­is­á­hrifa við fram­leiðslu vara og þjón­ustu. „Áform­ar ráð­herra að skylda fyr­ir­tæki til að greina frá kolefn­is­fótspori ann­ars vegar og um­hverf­is­á­hrifum vegna t.d. plast­notk­unar hins vegar við fram­leiðslu á vörum og ­þjón­ustu til að auka gegn­sæi og auð­velda neyt­endum að taka upp­lýsta ákvörð­un þegar kemur að neyslu?“

Hún tekur dæmi: Vörur sem verslun selur koma til hennar frá­ heild­sölu á vöru­bretti sem pakkað er í plast í bak og fyr­ir. Áður höfðu þær komið í heild­söl­una frá útlönd­um, pakk­aðar í annað plast. Fram­leið­and­inn ytra keypti hrá­efni. Þeim var mögu­lega einnig pakkað í plast. Svo er hver og ein vara pökkuð í plast. Út úr því plasti kemur kannski bambust­ann­bursti. Sem fólk ­kaupir með góðri sam­visku. Þannig er ferlið að baki fjöl­mörgum vör­um.

Fárán­leg keðja sem eng­inn ber ábyrgð á

„Þessi keðja er fárán­leg, það er gríð­ar­leg sóun víða í henn­i. Við veltum þessum ferlum ekki fyrir okk­ur, af hverju þau eru svona og hverju sé hægt að breyta. Við getum ekki nálg­ast upp­lýs­ingar um þau til að taka upp­lýsta á­kvörðun um kaup okk­ar. Þetta er svo ónátt­úru­legt, þetta er hugs­un­ar­leysi sem eng­inn ber ábyrgð á.“

Hún spyr hvort að það sé kannski ómögu­legt að kom­ast að því hversu miklu sé sóað af plasti. Sömu sögu sé að segja af annarri mengun sem ­fylgi fram­leiðslu neyslu­varn­ings. „Kannski er þetta bara orðið svo langt og gríð­ar­lega mikið ferli að við eigum engan séns að finna út úr þessu. En ef svo er, þá hvet ég fólk til að spyrja sig: Finnst mér þetta eðli­leg­t?“

Eydísi finnst þetta sorg­legt því margir séu virki­lega að ­reyna að minnka umhverf­is­á­hrif neyslu sinn­ar. Ofneysla sé gríð­ar­leg og komin úr ­bönd­un­um. Á sama tíma hafi sá iðn­aður að fram­leiða dýr til mann­eldis geng­ið mjög langt. „Núna þurfum við að hugsa öll okkar kerfi upp á nýtt, allt hag­kerf­ið,“ segir hún. „Mér finnst þegar allt kemur til alls að við göngum út frá hug­mynd sem er lygi að mörgu leyti. Við tökum ein­hverri heims­mynd sem fasta en það vorum við sem bjuggum hana til og það er okkar að breyta henn­i.“

Tíu pró­sent rík­asta fólks heims ber ábyrgð á helm­ingi af út­blæstri gróð­ur­húsa­loft­teg­unda, bendir hún á. „Við lítum á jörð­ina eins og hún­ sé hérna ein­göngu fyrir okk­ur. Við höldum að dýrin séu til fyrir okk­ur, að ol­ían sé í jörð­inni fyrir okk­ur. Og við höldum að fólkið í Bangla­dess sé þar til að sauma á okkur föt­in. Við skrif­uðum þessar leik­reglur og förum svo eft­ir þeim eins og þær séu ófrá­víkj­an­legar stað­reynd­ir.“

En hvað þýðir það fyr­ir­ jarð­ar­búa að umbylta hag­kerfi?

„Í lofts­lags­að­gerðum flestra vest­rænna ríkja er fyrst og fremst verið að leita leiða til að við­halda okkar lífs­stíl, svo að þurfum ekki að breyta neinu. Í því sam­bandi heyr­ast oft orðin kolefn­is­jöfnun og raf­magns­bílar svo ég taki dæmi. En við getum ekki haldið áfram að lifa eins og við ger­um. Það hvernig við lifum er einmitt vanda­mál­ið. Við­horf okkar til­ heims­ins, jarð­ar­inn­ar, er vanda­mál­ið. Hvað við teljum vera til­gang lífs­ins. Það er búið að brengla þessi við­horf okk­ar.“

Nokkur skref til baka

Nú þurfi fólk lífs­nauð­syn­lega að taka nokkur skref til bak­a. „Þetta er skilj­an­lega við­kvæmt fyrir þær kyn­slóðir sem á undan fóru. Þær gæt­u ­tekið því þannig að við séum að ásaka þær um að hafa eyði­lagt allt fyrir okk­ur. Það upp­lifir að allt það sem það taldi rétt sé rangt að mati yngra fólks­ins. Ég skil það vel að fólk verði sárt og reitt og fari í vörn. Ég þekki það vel sjálf að líta svo á að maður sé að fylgja reglum sam­fé­lags­ins og  sé þess vegna ekki að gera neitt rangt. En sið­ferð­is­reglur eru ekki meit­l­aðar í stein. Sið­ferði þarf að vera til­ sí­felldrar end­ur­skoð­un­ar.“

Eydís minnir á að það sem okkur þótti gott og eðli­legt fyr­ir­ nokkrum ára­tugum og öldum sé sumt frá­leitt í sam­fé­lagi dags­ins í dag. „Það ­gerð­ist ekki í tóma­rúmi. Það er af því að ein­hver stóð upp og benti á það. Þeir ­sem hafa bent á rang­læti í gegnum tíð­ina hafa alltaf mætt and­stöðu fyrst því þeir eru að rísa upp gegn ríkj­andi gild­um.“ 

Hag­kerfin ekki full­komin í dag

Þegar komi að umbylt­ingu kerf­anna sé vert að hafa í huga að hag­kerfi dags­ins í dag sé langt í frá full­komið og valdi mis­mun­un. Millj­ón­ir ­búi við fátækt á meðan aðrir séu stór­kost­lega rík­ir.

„Við þurfum að end­ur­hugsa það sem við teljum lífs­gæði í dag. ­Sem dæmi má nefna að fyrir nokkrum árum fannst mér það topp­ur­inn á til­ver­unn­i að fara til útlanda og versla föt. En nú, ekki svo löngu seinna, finnst mér það frá­leitt. Við þurfum að muna að efn­is­hyggjan gefur okkur enga fyll­ingu. Hún­ ­skapar ekki ham­ingj­una þó að við höldum það af því að allt umhverfið hefur sag­t okkur það svo leng­i.“ 

Nú munu kannski ein­hverjir sem lesa þetta við­tal benda á að þú sért ung for­rétt­inda kona úr Reykja­vík sem hefur aldrei unnið á sveitabæ og vitir varla um hvað þú ert að tala. Hverju myndir þú svara því?

„Ég nýt for­rétt­inda, það er alveg rétt, en ég er ekki veru­leikafirrt,“ svarar hún. „Ég veit að ég get ekki bara smellt fingrum og þá verði allir vegan á morg­un. Ég hef engan rétt á því og er ekki að ætl­ast til þess. En ég veit að ­dýr eru fram­leidd til að mæta eft­ir­spurn eftir kjöti og öðrum dýra­af­urð­um. Nú tók ég nógu marga hag­fræði­á­fanga til að skilja sam­hengi fram­boðs og eft­ir­spurn­ar. Það er nákvæm­lega þannig sem ég sé þetta fyrir mér. Með minnkand­i eft­ir­spurn verður minna fram­leitt.“

En hvernig sérðu þá ­fyrir þér hlut­verk sveita lands­ins?

„Fólk mun ennþá þurfa að borða,“ segir Eydís, „og það eru til græn­met­is­bændur og við þurfum meiri nýsköpun þar og í land­bún­aði almennt til að tryggja fæðu­ör­yggi okk­ar. Ég sé fyrir mér að sveit­irnar fái nýtt hlut­verk. Það mætti nota þá fjár­muni sem fara í nið­ur­greiðslu á kjöt­fram­leiðslu til þess­arar nýsköp­un­ar.“

Vill fá að tala fyrir hönd dýr­anna

Hún leggur áherslu á að með þessum orðum sé hún alls ekki að ráð­ast gegn bændum lands­ins. Hún tali fyrir kerf­is­breyt­ingu, ekki gegn fólki ­sem vilji vel og sé að gera það sem það telji best. „En ég vil samt fá að tala ­fyrir hönd dýr­anna sem geta ekki varið sig.“

Lofts­lags­vand­inn verður ekki leystur með því að Eydís Blön­dal hætti að borða kjöt. Þetta veit hún mæta vel. „Það er ekk­ert eitt sem við getum gert til að stöðva þró­un­ina. Það er engin lausn við ­lofts­lags­breyt­ing­um. En við verðum að sam­ein­ast í því að hætta að eyða ­nátt­úru­auð­lindum okkar í til­gangs­lausa hluti. Við þurfum að setj­ast niður og ­spyrja okk­ur: Hvernig ætlum við að lifa þetta af?“

Það sé hvers og eins að taka ábyrgð á sinni heims­mynd. „Það að borða kjöt hefur nei­kvæð áhrif á umhverf­ið. Þannig að ég ætla ekki að halda á­fram að gera það, jafn­vel þótt að það eitt og sér sé ekki að fara að bjarga heim­in­um. Ég svara bara minni sam­visku.“ 

Sérðu fyrir þér­ hag­kerfi án kjöt­fram­leiðslu?

„Það virð­ist útópía, að minnsta kosti núna. Þarna að baki er ­menn­ing og saga sem verður að taka til­lit til og bera virð­ingu fyr­ir. Ég ætl­a mér aldrei að predika yfir fólki, segja því hvað það má og hvað það má ekki ­gera. Þessi umræða er mjög til­finn­inga­hlað­in, beggja vegna borðs­ins. Ég mynd­i vilja tala við ein­hvern sauð­fjár­bónda um þetta, af gagn­kvæmu umburð­ar­lynd­i. Ekki bara í ein­hverjum kommenta­kerfum þar sem sleggju­dómar eru látnir falla.“

Eydís hefur stundum heyrt að skoð­anir hennar séu barna­leg­ar. Að heim­ur­inn sé nú bara svona. Dýr séu mat­ur. Hún tekur undir að á öldum áður­ hafi fólk á sumum svæðum kom­ist af með því að leggja sér kjöt til munns. Stað­an sé hins vegar gjör­breytt og ræktun dýra til mann­eldis sé óþörf í hinum vest­ræna heimi.

Og ef dýr eru bara mat­ur, af hverju eru þá ekki öll dýr ­mat­ur?

Að skjóta hund

„Ef það ætti að skjóta hund úti á götu myndi engum sem ég þekki finn­ast það ekki í lagi. En hver er mun­ur­inn á hundi og lambi? Er ein­hver mun­ur, eða ákváðum við það bara? Að annað væri til þess að borða en hitt ekki? Þarna er ein­hver tví­skinn­ung­ur. Ef ­fólk sæi ein­hvern ætla að skjóta lamb úti á götu myndi líka öllum bregða. En ef ­sama athöfnin á sér stað bak við vegg, inni í slát­ur­húsi þar sem þú þarft ekki að horfa upp á það, þá er það orðið allt í lagi. Hætt að vera hræði­leg­t of­beldi. Þarna hefur orðið ein­hver afteng­ing. Það er engin mann­úð­leg ­leið til að drepa ein­hvern að ástæðu­lausu.“

Eydís seg­ist vel gera sér grein fyrir því að það sé óvin­sæl ­skoðun hjá fjöl­mörgum að tala fyrir vegan­isma. „En það gleður mig að heyra að fólk hafi gerst vegan eftir að hafa hlustað á mig. Þessi skoðun er nefni­lega ekki óvin­sæl meðal ungs fólks almennt.“

Upp­gjöf ekki í boði

Er hægt að snú­a til baka? Í átt að sjálfs­þurft­ar­bú­skap for­tíð­ar?

Þetta er stór ­spurn­ing. Við henni er ekk­ert ein­hlítt svar. Ham­ingjan er að minnsta kosti ekki bundin við lífs­stíl nútíma­fólks. Hana er að finna handan hans.

„Við höfum geng­ið mjög langt í að raska vist­kerf­unum okk­ar. Ein­hverjir fött­uðu það fyrir löngu en voru stimpl­aðir klikk­aðir hipp­ar,” segir Eydís og bros­ir. „Því hinum megin við ­borðið eru svo sterk pen­inga­öfl. Þetta er orr­usta sem er kannski von­lítið að ­sigra. En ég ætla samt að berjast, það er það eina sem ég get gert. Við get­u­m ekki ein­fald­lega gef­ist upp, sá mögu­leiki er ekki lengur í boði. Þá deyj­u­m við.“

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiViðtal