Mynd: Pexels

Tæknispá 2023: Tími gervigreindar er kominn og samfélagsmiðlar verða persónulegri

Í árlegri tæknispá sinni kemur Hjálmar Gíslason, forstjóri GRID, að venju víða við. Hann sér fyrir sér að sýndarveruleikatæki nú séu sambærileg að fullkomnun á sínu sviði og Nokia 232 farsíminn, þessi sem Alicia Silverstone var með í Clueless, var 1995.

Ég hef haft það fyrir sið um ára­mót að velta fyrir mér hvað kom­andi ár gæti haft í för með sér í heimi tækn­inn­ar. Ég hef reyndar minna gert af því að skoða árang­ur­inn, önnur geta dundað sér við það með því að fletta upp fyrri spám. Hér koma hins vegar vanga­veltur þessa árs, en þar eru það gervi­greind, sam­fé­lags­miðlar og sýnd­ar­veru­leiki sem föng­uðu athygli mína.

Gervi­greindin breytir heim­inum – loks­ins

Það merki­leg­asta sem er að ger­ast í tækni­heim­inum er án nokk­urs vafa á sviði gervi­greind­ar. Ég við­ur­kenni fús­lega að ég hef verið efa­semda­maður um þetta svið lengi, en á síð­asta ári fóru að birt­ast lausnir sem eru alger­lega töfrum líkar og sann­færðu mig loks um það að gervi­greindin muni storka mann­legri greind á ótal sviðum á allra næstu árum.

Það ber reyndar að fara var­lega í líkja gervi­greind­inni um of við þá mann­legu. Hún er enn sem komið er allt ann­ars eðl­is, en á sífellt fleiri sviðum lík­ist það sem hún getur gert æ meira því sem við höfum hingað til talið að þurfi greind til að fram­kvæma: Að skrifa vand­aðar sam­an­tektir á texta, svara flóknum spurn­ing­um, semja (mis­góð) ljóð og teikna frum­legar myndir eftir for­skrift.

Mörg okkar létu appið Lensa gera af okkur ofur­hetju­myndir undir lok síð­asta árs og hér er mynd sem DALL-E 2 módel fyr­ir­tæk­is­ins Open AI skil­aði þegar ég bað það um að sýna mér mið­alda­mál­verk af sköll­óttum íslenskum manni að spá fyrir um fram­tíð­ina:

Miðaldamálverk af sköllóttum íslenskum manni að spá fyrir um framtíðina.

En svona myndir munu varla breyta heim­in­um? Kannski ekki, en fólk er þegar farið að mynd­skreyta vef­síð­ur, fyr­ir­lestra og jafn­vel bækur með svona tölvu­gerðri grafík – í ein­hverjum til­fellum í verk­efnum þar sem ann­ars hefðu verið ráðnir graf­ískir hönn­uðir til verks­ins. Verk­efni við ódýra graf­íkvinnu kann að heyra sög­unni til, en umfram allt verður ein­fald­lega til meira af graf­ík.

Texta­gerðin á þó eftir að taka fleiri verk­efni af okkur mann­fólk­inu – og hrað­ar. Ekki það að við eigum að búast við vönd­uðum fag­ur­bók­menntum úr ranni gervi­greindar á næst­unni, en end­ur­tek­inn og form­fastur texti, svo sem samn­ing­ar, frétta­til­kynn­ing­ar, mark­aðs­efni, sumar gerðir frétta, sam­an­tektir á lengra efni og fleira í þeim dúr mun ekki þurfa mikið annað en yfir­lestur og lag­fær­ingar frá fólki með við­eig­andi sér­þekk­ingu – ekki ósvipað og sam­band lær­linga og læri­meist­ara þeirra í dag. Nema hvað það þarf ekki lær­ling­ana. Hvar munu þau þá læra?

Leit­ar­vélar á borð við Google munu lík­lega strax á þessu ári í mörgum til­fellum fara að gefa okkur hnit­miðað svar við spurn­ingum okkar í stað þess að birta okkur lista af ótal tenglum og eft­ir­láta okkur að moða úr þeim. Margir kynnu að halda að þetta væri ógn við Goog­le, en þá ber að hafa í huga að Google er aug­lýs­inga­miðlun með góða leit­ar­vél sem afsökun – og það hentar þeim í raun stór­vel að birta slíkar sam­an­tektir og aug­lýs­ingar sam­hliða þeim frekar en að „missa” not­end­urna yfir á aðrar vef­síð­ur.

Radd­stýrð við­mót á borð við Siri og Amazon Echo munu líka loks­ins verða brúk­leg til ann­ars og meira en að setja á tón­list eða stilla „ti­mer”.

Ég skal líka lofa ykkur því að á þessu ári munuð þið fá tölvu­póst frá fyr­ir­tæki (eða svika­hrapp, eða hvort tveggja) sem sam­inn verður og sendur af tölvu án nokkrar mann­legrar aðkomu sem þið gætuð svarið fyrir að væri skrif­aður af mann­eskju per­sónu­lega til ykk­ar. Það sem meira er, þegar þið svarið munuð þið fá svar um hæl sem er engu síður vand­að, svarar spurn­ingum ykkar full­kom­lega í óað­finn­an­legum texta og tekur til­lit til þess sem sagt hefur verið í fyrri póst­um. Það sem meira er – þið eigið lík­lega eftir að kunna að meta þetta stór­bætta þjón­ustu­stig. Sama gildir um net­spjall.

Þessu öllu saman fylgja samt auð­vitað vanda­mál og áskor­an­ir. Í fyrsta lagi verður svo ódýrt að fram­leiða texta­efni að það verður alger spreng­ing í magni þess. Vélar verða látnar fram­leiða ógrynni af „froðu­texta”, ekki síst í mark­aðs­skyni og – eins fyndið og það hljómar – til leit­ar­véla­best­unar – texta sem skrif­aður er sér­stak­lega til að hann finn­ist í leit­ar­vél­um. Tölvur að skrifa texta fyrir tölvur í örvænt­ing­ar­fullri til­raun til að ná athygli mann­eskju til að selja henni eitt­hvað. Þetta hljómar reyndar eins og sögu­þráður í bók sem gæti komið út fyrir næstu jól.

Stærra vanda­mál er að gervi­greind af þessu tagi skrifar texta af mik­illi sann­fær­ingu og öryggi – án þess að hafa nokkra hug­mynd eða raun­veru­lega þekk­ingu til að vita hvort hún hafi rétt fyrir sér. Og þó við eigum öll frænda sem það sama mætti segja um, þá höfum við lært að nálg­ast það sem frænd­inn segir með ákveðnum fyr­ir­vara meðan gervi­greindin mun svara okkur rétt og rangt, sið­lega og sið­laust sitt á hvað án þess að við höfum nokkur mann­leg sam­skipta­merki til að gera grein­ar­mun þar á.

En tæki­færin eru líka óþrjót­andi og eins og með svo margt annað sem tæknin færir okkur verður þessi þróun ekki stöðv­uð, heldur þurfum við að vera með­vituð um hana til að skilja áskor­an­irnar og nýta tæki­fær­in.

Eitt af því sem þar vantar upp á fyrir okkur sem þetta lesum er betri mál­tækni fyrir íslensku. Margt hefur verið gert í nýlegri fimm ára mál­tækni­á­ætlun sem lauk á nýliðnu ári. Áætl­unin var ekki fram­lengd og því útlit fyrir að vinna við íslenska mál­tækni muni snar­minn­ka, en þó marg­vís­leg grunn­vinna enn óunnin og því raun­veru­leg hætta á að íslenskan og við íslensku­mæl­andi munum missa af mörgum þess­ara tæki­færa.

Per­sónu­legri sam­fé­lags­miðlar

Þó marg­vís­legar til­raunir hafi verið gerðar fyrir þann tíma, má með nokkru sanni segja að saga sam­fé­lags­miðl­anna fylli 20 ár á þessu ári, en í haust verða liðin 20 ár frá því að fyrsti sam­fé­lags­mið­ill­inn sem náði umtals­verðri útbreiðslu – MySpace – var settur á lagg­irn­ar.

Það er fróð­legt að skoða þessa sögu og velta fyrir sér hvert hún stefn­ir. Í upp­hafi var það ungt fólk (sem nú er mið­aldra) sem sótti í þessa miðla. Það fylgd­ist með vinum sínum og fólki sem það þekkti í raun­heim­um. Hóp­ur­inn sem fólk fylgd­ist með taldi í tugum eða kannski fáum hund­ruð­um.

Face­book kemur inn í þessa bylgju og fylgir framan af sama mynstri, en smám saman breikkar ald­urs­bil not­end­anna og netið víkkar út í kunn­ingja og fjar­skylda og sam­fé­lög fóru að mynd­ast utan um ákveðin áhuga­mál þar sem fólk mynd­aði ný kynni. Hóp­ur­inn telur nú í hund­ruðum og hjá mörgum yfir þús­und, jafn­vel nokkur þús­und. Við förum að gera grein­ar­mun á vinum og „Face­book-vin­um”. Straum­ur­inn eða „feed”-ið fer líka að velja ofan í okkur það sem það telur að við höfum mestan áhuga á, enda allt of mikið efni í boði og leiðin til að halda okkur við efnið er að passa að við sjáum helst það sem kallar fram við­brögð. Ein leið til þess er að hvetja til sam­skipta og fátt betri olía á þann eld en svo­lítil átök, helst um póli­tík eða sam­fé­lags­mál. Efnið er ekki lengur jafn per­sónu­legt og ein­hvern veg­inn ekki eins gaman að þessu, en fólk ver samt meiri tíma á þessum miðlum en nokkru sinni fyrr. Það er kannski ekki til­viljun að um svipað leyti finna fjöl­miðlar sér far­veg á sam­fé­lags­miðlum og smelli­beitu­blaða­mennska verður að list­grein.

Instagram er síðan besta birt­ing­ar­mynd næstu bylgju. Unga fólkið fer þangað og efnið hverf­ist um mynd­ir, enda öll eru komin með öfl­uga mynda­vél í vas­ann. Not­endur fylgj­ast með fólki sem þau þekkja, en meira og meira af „neysl­unni” fer að snú­ast um að fylgj­ast með fræga fólk­inu og sum verða meira að segja fræg fyrir það eitt að vera fræg á Instagram. Áhrifa­vald­ur­inn er kom­inn til sög­unnar og stór hluti efn­is­ins sem birt­ist á miðl­unum er ekki frá fólki sem við þekkj­um, heldur frá fólki sem við vitum hver eru, annað hvort á lands- eða heims­vísu. Árin líða og sífellt stærri hluti myndefn­is­ins verða mynd­bönd, ekki síst með til­komu Snapchat.

TikTok fer svo með þetta á ákveðna enda­stöð þar sem efnið er allt mynd­bandsefni og þó hægt sé að fylgj­ast með vinum eða til­teknu fólki er straum­ur­inn sér­valið efni úr efn­is­fram­boði tug­millj­óna manna sem algórið­minn veit að mun halda neyt­and­anum við sím­ann sem lengst. Áhrifa­vald­arnir missa stóran spón úr aski sín­um, enda erfitt að keppa um athygl­ina við það fyndnasta, sniðug­asta og yfir­gengi­leg­asta frá öllum þessum stóra hópi þar sem stærsti hluti efn­is­ins er frá fólki sem fær þar sínar „15 mín­útur af frægð” með millj­ónum áhorfa og skilur svo ekk­ert í því af hverju það getur ekki end­ur­tekið leik­inn.

Sam­fé­lags­mið­ill­inn er hættur að snú­ast um sam­fé­lagið og orð­inn að efn­isveitu þar sem allir eru fram­leið­endur og mið­ill­inn velur ofan í okkur efni sem kallar fram hjá okkur við­brögð frá fólki sem við höfum aldrei heyrt á minnst og munum að lík­indum aldrei rekast á aft­ur.

En sam­hliða þessu hefur önnur þróun verið í gangi. Sífellt stærri hluti sam­fé­lags­miðla­notk­unar fer fram í lok­uðum hópum og rým­um. Snapchat var með þeim fyrstu til að átta sig á þessu og lok­aðir hópar og tíma­bundið efni dró til sín not­end­ur. Skila­boða­öpp á borð við WhatsApp og Tel­egram snú­ast öll um hópsam­skipti og meira að segja á miðlum sem áður voru mikið til með opinn aðgang eins og Instagram og Face­book leitar efnið mikið meira í lok­aða prófíla og lok­aða hópa.

Við erum enn að læra að lifa með því frelsi og axla þá ábyrgð sem fylgja því að allir geti verið sinn eigin fjöl­mið­ill. Kannski var það ofmetin hug­mynd til að byrja með? Hún hefur að minnsta kosti ekki bara alið á sam­stöðu, kær­leika og sam­vinnu – þó hún hafi auð­vitað gert það líka.

Það er erfitt að segja til um hvernig þetta lendir nákvæm­lega og lík­lega er ekk­ert eitt svar við því, en það er greini­legt að sam­fé­lags­miðl­arnir stefna í þá átt að verða aftur per­sónu­legri það er að segja stærri hluti efn­is­ins verður aftur frá fólki sem við höfum ein­hver raun­veru­leg tengsl við. Það er ekki ólík­legt að það muni ger­ast að ein­hverju leiti í gegnum nýjar lausn­ir. Twitter stað­geng­ill­inn Mastodon er áhuga­verð til­raun þar, en alltof nör­da­legur til að ná veru­legri útbreiðslu. Kannski ryður hann samt braut­ina fyrir eitt­hvað nýtt og spenn­andi, en við munum líka sjá fyr­ir­liggj­andi miðla sinna þess­ari per­sónu­legu bylgju í meira mæli.

Meta veðjar á sýnd­ar­veru­leik­ann – rétti­lega

Sýnd­ar­veru­leiki er ein þess­ara tækninýj­unga sem er búin að vera rétt handan við hornið mjög lengi. Þó ekki alveg jafn lengi og flug­bíll­inn!

Síðan Oculus Rift kom fram á sjón­ar­sviðið fyrir 10 árum síðan sem fyrsta fram­bæri­lega almenn­ings­græjan á þessum mark­aði, hefur blasað við að einn dag­inn muni útbreiðsla þess­arra tækja verða nokkuð almenn. Spreng­ingin í útbreiðslu þeirra hefur þó látið á sér standa. Þyngsta þrautin hefur reynst að koma nægi­lega miklu reikni­afli til að skapa upp­lifun sem platar skyn­færin fyrir í nógu litlu og léttu tæki til að leyfa fólki að hreyfa sig hindr­un­ar­lít­ið.

Þegar á það skortir verður upp­lifunin ýmist ekki nógu trú­verð­ug, of hamlandi eða – eins og all­margir hafa fengið að reyna - veldur flök­ur­leika og höf­uð­verk. Það er ekki endi­lega eitt­hvað sem fólk sæk­ist eft­ir.

Face­book veðj­aði strax á að þessi tækni ætti eftir að leika stórt hlut­verk og keypti meðal ann­ars fyr­ir­tækið Oculus (fram­leið­anda Oculus Rift) árið 2014 fyrir tvo millj­arða Banda­ríkja­dala. Bestu almennu sýnd­ar­veru­leika­tækin koma enn frá þeim fram­leið­enda, en nokkrir aðrir hafa líka markað spor á mark­aðn­um.

Móð­ur­fyr­ir­tæki Face­book – Meta –vakti á árinu 2022 tals­verða reiði meðal hóps hlut­hafa í tengslum við stefnu sína í sýnd­ar­veru­leika­mál­um. Fyr­ir­tækið hefur barist við nokkurn sam­drátt í fjölda og virkni not­enda á Face­book um hríð og hlut­hafar vildu sjá við­brögð við því. Áætl­unin sem for­stjór­inn, Mark Zucker­berg, kynnti féll samt í nokkuð grýttan jarð­veg, en hann ákvað að marg­falda fjár­fest­ingu Meta í sýnd­ar­veru­leika­tækni og veðja enn sterkar á að fram­tíð fyr­ir­tæk­is­ins lægi þar.

Þetta er ansi djarf­lega spilað og ljóst að þetta mun ekki snúa gæfu Face­book við á skömmum tíma, en til lengri tíma spái ég því að þetta sé heilla­spor fyrir fyr­ir­tæk­ið. Höfum í huga að útbreiðsla sýnd­ar­veru­leika­tækja er nú svipuð og far­síma í kringum árið 1995 og þró­ast með mjög svip­uðum hætti frá ári til árs og sala þeirra tækja gerði þá. Þessi árin hlóum við að fólk­inu sem fannst það þurfa á þessum fárán­legu tækjum að halda en 5 árum seinna voru þau komin í hendur stórs hluta full­orð­inna á vest­ur­löndum og nú í hendur nær hvers ein­asta manns­barns í öllum heim­in­um.

Ég spái því að sýnd­ar­veru­leika­tæki og veru­leika­við­bætur (e. aug­mented rea­lity) munu fara svip­aða leið og stór hluti fólks­ins í kringum okkur muni nota slík tæki dag­lega innan ára­tug­ar.

Alicia Sliverstone í hlutverki sínu sem Cher i myndinni Clueless frá árinu 1995.
Mynd: Skjáskot

Höfum líka í huga að full­komn­ustu sýnd­ar­veru­leika­tæki dags­ins í dag eru þar með sam­bæri­leg að full­komnun á sínu sviði og Nokia 232 far­sím­inn (þessi sem Alicia Sil­ver­stone var með í Clu­el­ess) var 1995. Rúmum ára­tug síðar var iPhone kom­inn á mark­að. Ímyndið ykkur bara hvernig iPhone útgáfan af sýnd­ar­veru­leika­tækjum mun líta út þegar fjórði ára­tugur ald­ar­innar hefst!

Hlut­hafar Meta gætu því orðið him­in­lif­andi með þessa stefnu ef þeir hafa þol­in­mæði til að halda í hlut­ina sína. Það er samt spurn­ing hvort Meta nái að halda for­skoti sínu, eða hvort það eigi eftir að mæta ofjarli sínum líkt og Nokia gerði í Apple. Það er meira að segja spurn­ing hvort ofjarl­inn sá verði einmitt sá sami, enda ganga sögur nú hátt um að Apple ætli sér stóra hluti á sýnd­ar­veru­leika­svið­inu á næst­unni. Við gætum jafn­vel séð hvernig það lítur út þegar á þessu ári.

Höf­undur er for­­­stjóri GRID. Hann er einnig hlut­hafi í Kjarn­­an­um og situr í stjórn útgáfu­­fé­lags hans.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira úr sama flokkiÁlit