Við upphaf 20. aldar voru háttsettar stöður í atvinnulífinu, bæði hérlendis og erlendis, nær eingöngu skipaðar karlmönnum. Nú um 120 árum síðar, eru konur ennþá í minnihluta í hámenntunarstarfsgreinum, sérstaklega í æðstu stöðum. Á þessu ári eru konur aðeins 4,8% forstjóra stærstu 500 fyrirtækja heims, en 8,8% í svokölluðum Fortune 500 fyrirtækjum í Bandaríkjunum. Það er þó aukning frá því fyrir fimm árum síðan. En árið 2017 sátu konur á 5,8% forstjórastóla Fortune 500 fyrirtækjanna.
Einungis einn tíundi af einkaleyfum á skráðum uppfinningum í OECD ríkjum féll konum í skaut árið 2021. Á háskólastigi hallar verulega á konur í æðstu stöðum í flestum greinum, þvert á lönd, en framgangur þeirra innan akademíunnar er ekki í samhengi við það hlutfall doktorsgráða sem fólk vinnur sér inn.
Rannsóknarframlagið er ekki síðra að gæðum, en birtar greinar eru færri að meðaltali. Konur eru líklegri til að vinna að rannsóknum með öðrum konum, sem bendir til að samstarfsnetið þeirra til birtinga sé minna. Þessi kynjamunur hefur þó minnkað eilítið yfir tíma. Staðan er nokkuð betri í hagfræði. Konur vinna sér inn 35 prósent af öllum doktorsgráðum í hagfræði í Bandaríkjunum, 24 prósent aðstoðarprófessora eru konur, meðal bestu hagfræðideilda í Bandaríkjunum, en ekki nema 14 prósent árið 2017. Það er þó mikil aukning síðan árið 1993 þegar einungis 3 prósent prófessora í hagfræði voru konur.
Það er viðvarandi áhyggjuefni fyrir vísindamenn, stefnumótandi aðila og almenning að sé ekki hægt að taka á móti sjónarmiðum eða nýta til fulls menntun og mannauð um helmings mannkyns með skilvirkum hætti.
Til að mæta þessum vanda hefur undanfarin misseri m.a. verið lögð mikil áhersla á að breyta samsetningu takmarkaðs hóps innan atvinnulífsins, þ.e. innan stjórna fyrirtækjanna. Milli 2008-2015 settu um 32 lönd reglubundinn eða lögbundinn kvóta til að auka hlutdeild kvenna í stjórnum. Hér verður tekið undir það sem m.a. Renée Adams, prófessor við Oxford háskóla hefur haldið fram, að slík stefnumótun tekur hvorki mið af rannsóknum um skilvirkni og áhrif setu kvenna í stjórnum, né heldur er tekið á þeim þáttum sem raunverulega hindra þátttöku kvenna í ákvörðunum á hæstu stigum rekstrarábyrgðar.
Lyftutónlistin og eldavélarnar í íþróttum, akademíu, stjórnmálum og viðskiptalífinu
Sérhæfing starfa á sér ekki langa sögu. Hér er því við að etja árþúsunda seigan félagslærdóm og uppeldi gagnvart framlagi og hlutverki kvenna. Því til vitnis er aðeins rétt rúmlega tuttugu ára gömul tilvitnun í orð Alþingismanns Framsóknarflokksins, Guðna Ágústssonar, sem sagði á fundi um stöðu konunnar í nútímasamfélagi að „rétti staður konunnar er bak við eldavélina“.
Hvar sem drepur niður eiga konur erfitt uppdráttar við að komast í áhrifastöður, hvort sem er á sviði íþrótta, í háskólasamfélaginu, stjórnmálum eða viðskiptalífi. Fjölmargar sögur eru sagðar meðal kvenna í atvinnulífinu að ekki sé hlustað á hugmyndir þeirra eða greiningu, nema að hún sé endurtekin af karlmanni, helst yfir fimmtugt.
Það er eins og að lyftutónlist fari í gang í eyrum fólks, karla og kvenna, um leið og konur leggja orð í belg, og menn heyri hreinlega ekki hvað sagt er, fyrr en karlmaður tekur upp sama málstað. Þá er stuðningur vís. Hverju sem um er að kenna, mismunandi tjáningarformi kynjanna, raddhæð, klæðaburði, hárgreiðslu eða þróunarkenningarlegum ástæðum af öðrum toga er vert að veita nýrri tölfræði athygli, sem er raunverulega hægt að hafa áhrif á, til að breyta þessu. Tölfræðigreiningin birtist í bókinni „The No Club: Putting a stop to Women‘s Dead-End Work“ eftir Laurie Weingart, prófessors við Carnegie Mellon og annarra höfunda sem tóku saman fjölda fræðilegra rannsókna m.a. um hvernig störf og verk sem ekki leiða til framgangs er skipt ójafnt milli kynjanna.
Þegar kannað er hvernig tíma sérfræðinga er varið á vinnustöðum þar sem haldið er utan um hverja vinnustund, svo sem á verkfræðistofum, lögmannsstofum og endurskoðendaskrifstofum, kemur í ljós að konur taka á sig vinnustaðahúsverk, verk sem leiða ekki til framgangs (e. Non promotable tasks), í miklum meiri mæli en karlkyns kollegar þeirra.
Vinnustaðahúsverk eru verk eins og að hjálpa nýliðum komast inní starf, yfirlestur og leiðrétting á texta, skipuleggja fundi/viðburði, nefndarstörf, ritari nefndar, ráðningar, leysa úr deilum samstarfsmanna, aðstoða samstarfmenn í persónulegum vanda, leiðbeina, setja í uppþvottavélina, taka til á skrifstofu ofl. Sem eru öll verðmæt og nauðsynleg störf sem þarf að vinna í árangursríkum rekstri, en leiða ekki til framgangs í starfi.
Miðgildi þeirra klukkustunda sem konur taka á sig af slíkri vinnu eru ríflega 700, meðal lægra settra starfsmanna, á meðan karlmenn á sama stað í starfsframanum taka á sig tæplega 500 klukkustundir. Sjá mynd 1.
Munur milli kynjanna minnkar aðeins þegar komið er hærra í metorðastiganum. Konur í yfirmannsstöðum (e. senior staff) verja ríflega 400 klukkustundum í verk sem ekki leiða til framgangs á meðan karlar verja um rétt tæplega 200. Þegar þetta er tekið saman þá vinna konur um 200 klukkustundum að miðgildi fleiri klukkutíma en karlar, sem er meira en heill mánuður í aukavinnu á ári. Á sama tíma fá þær að sinna um 250 færri klukkustundum á ári, að miðgildi, sem leiða til framgangs í starfi, en karlkyns sérfræðingar með sömu starfstitla, starfsreynslu og menntun. Sjá mynd 2.
Yfir tíma mun þessi munur segja til sín í líkum á því að ná framgangi í starfi. Samkeppnisstaðan er býsna ólík milli kynjanna þegar kemur að framgangi. Þegar skoðað er hversu margar stundir konur í yfirmannsstöðum vinna að verkefnum sem stuðla að framgangi má glögglega sjá að þær vinna nánast jafnmikið og karlkyns kollegar í sömu stöðum – en þær vinna 250 fleiri klukkustundir að verkefnum sem ekki leiða til starfsframa en karlarnir.
Konur vinna sem sagt miklu meira en karlarnir að miðgildi sem eru í yfirmannsstöðum hjá þekkingarfyrirtækjum, eins og verkfræðistofum, sem selja út klukkutíma starfsmanna til viðskiptavina.
Þá er umtalsvert mikill munur milli kynja og kynþátta þegar kemur að úthlutun verkefna sem leiða til framgangs í starfi. Einungis um 40% kvenna af afrískum uppruna telja sig hafa sama aðgang að eftirsóknarverðum verkefnum og samstarfsfélagarnir á meðan 85% hvítra karla telja sig hafa það. Um 55% svartra kvenna telja að þær taki á sig meiri vinnustaðahúsverk en samstarfsfélagarnir á meðan 25% hvítra karlmanna telja sig gera það, sjá mynd 3.
Þá er ekki öll sagan sögð. Þegar heim er komið vinna konur heimilisstörf eða húsverk mun lengur en karlar. Um 91% kvenna með börn á heimilinu verja um klukkkustund á dag í heimilisstörf á meðan einungis 30% karla með börn gera það sama. Að meðaltali verja útivinnandi konur um 2,3 klukkustundum í húsverk á dag á meðan meðal karlmaður á vinnumarkaði vinnur 1,6 klukkustundir af heimilisstörfum á dag.
Hvers vegna er þetta svona – og hvaða áhrif hefur þessi samkeppnisstaða á framgang kvenna?
Rannsakendur sýna að þessi samkeppnisstaða leiðir til þess að starfsframi kvenna staðnar, konur fjarlægjast stéttameðvitund sína, samsömun þeirra við stétt og vinnustað minnkar (e. diminished professional identity), tilfinningaleg örmögnun er tíðari, átök við samstarfsmenn verða tíðari ef óréttlæti og ójöfnuður fær að þrífast, sem að leiðir eðlilega til aukins álags.
Konur verða því frekar óánægju í starfi að bráð sem leiðir til þess að þær eru líklegri til að hætta störfum, og snúa sér jafnvel að störfum þar sem sérþekking þeirra nýtist ekki, sem hefur augljós áhrif á starfsframa þeirra og samfélag en hindrar þær jafnframt í að fá tækifæri til að sinna leiðtogahlutverkum.
Þessi staða á vinnumarkaði hefur vitanlega áhrif á konur í einkalífinu. Það að þurfa að leggja meira á sig, vinna lengri vinnutíma á vinnustaðnum, vinna lengri vinnutíma þegar heim er komið, njóta svo ekki sannmælis og fá ekki sama möguleika á framgangi fyrir vikið hefur sálræn áhrif á einstaklinginn. Það getur leitt til félagslegrar einangrunar, neikvæðra áhrifa á fjölskyldulíf, kulnun og stöðnun á starfsferlinum eða hliðrun á starfsferli.
En hvers vegna lenda konur frekar í þessu? Rannsóknir sýna að umhverfið ætlast frekar til þess að þær sjái um þessi verk sem ekki leiða til starfsframa. Konur eru helmingi líklegri til að vera beðnar um að vinna slíka vinnu, og þær eru mun líklegri til að segja já, þegar þær eru beðnar heldur en karlmenn. En 75% kvenna segja já þegar þær eru beðnar, á meðan 50% karla gera það. Að endingu eru þær ekki bara bónbetri heldur einnig líklegri til að bjóða sig fram til að vinna slík verk.
Æfingin skaðar meistarann
Það kann að vera að konur séu frekar beðnar um að taka á sig vinnustaðahúsverk heldur en karlar vegna þess að þær eru einfaldlega betri í þessum verkum, vinna hraðar og skila vandaðra verki. En slík verkaskipting leiðir til kynbundinnar skattheimtu sem dregur úr tækifærum á framgangi kvenna en kemur jafnframt í veg fyrir að karlmenn nái sömu færni í þessum nauðsynlegu störfum.
Ofan á þetta bætist að mörgum konum finnst þær ekki geta sagt nei þegar þær eru beðnar. Ef þær segja nei, þá muni það hafa neikvæð áhrif á framgang þeirra í starfi. Þær fá þá frekar á sig stimpil um að vera ekki góðir liðsmenn, erfiðar í samskiptum, neikvæðar, hrokafullar eða þaðan af verra.
Fróðlega samantekt má lesa í grein The Atlantic sem ber titilinn „Af hverju haga konur sér ekki meira eins og karlar á vinnustöðum?“ Þar kemur fram að ef konur sýna ekki að þær eru samvinnufúsar, þá eru þær taldar of ýtnar eða erfiðar í samskiptum, og ef þær eru of samvinnufúsar þá eru þær álitnar of ragar, ekki nógu sterkar.
Konur eru miklum mun líklegri til að vera flokkaðar og um þær búnar til stereótýpur sem tekið er mark á óháð einstaklingunum sjálfum. Konur mega alls ekki virðast vera of þægilegar, of hlýjar né of hæfar eða faglegar, til að vera álitnar gott leiðtogaefni.
Meðvitund, neitunarfélagið og stjórnendaábyrgð
Við sjáum vel í fjölmörgum sálfræðirannsóknum að meðvitund um hugrænt misræmi (e. cognitive dissonance) leiðir til þess að við erum síður líkleg til að falla í þá pytti sem leiða til slæmra ákvarðana vegna hins hugræna misræmis. Því er mikið tækifæri fólgið í því að flokka sérstaklega vinnustaðahúsverk sem leiða ekki til framgangs, koma okkur upp þjálum hugtökum um þau og deila þeim út á meðal starfsfólks með sanngjörnum hætti.
Konur verða því miður sjálfar að taka það á sig að vera sérstaklega meðvitaðar um hvaða verk af þessum toga þær taka að sér. Þær þurfa að koma sér upp neitunarfélagi meðal jafningja sinna til að fá stuðning og speglun. En þær þurfa líka að finna sér leiðir til að segja nei við þessum verkum með diplómatísku hætti.
Stjórnendur verða að vera meðvitaðir og skapa menningu í kringum þessi nauðsynlegu verkefni þannig að það verði eðlilegt að deila þeim milli kynja og kynþátta með jöfnum og sanngjörnum hætti, eða hreinlega að meta þessi störf jafnt á við hin.
Stjórnendur sjálfir bera ábyrgð á því að fyrtast ekki við þó að konur segi nei við þessari skattlagningu. Stundum þarf einfaldlega að skapa störf sem sjá um vinnustaðahúsverkin, en helst af báðum kynjum og öllum kynþáttum eftir atvikum.
Bjartari framtíð í fjölbreytileika
Margt smátt gerir eitt stórt. Jafnari dreifing vinnustaðahúsverka er mikilvægur þáttur í því að við náum að brjótast út úr óréttlæti og óskilvirkni þegar kemur að nýtingu mannauðs. Tækifæri glatast í viðskiptum og samfélaginu öllu ef við náum ekki að virkja hæfni einstaklinga óháð kyni þeirra og kynþætti, og eins og hér á landi eftir stuðningi við ólíka stjórnmálaflokka.
Í því samhengi vil ég biðja lesendur um að íhuga hvernig þróun og staða tækni- og fjarskiptaiðnaðarins hefði orðið ef Steve Jobs hefði verið kona. Líklegt er að iMac, iPhone, iPod, iPad hefðu aldrei komið á markað. Hér er það svo metið að um 99% líkur á því að Stephanie Jobs hefði ekki fengið fjármagn til að koma Apple tölvunni í framleiðslu strax í upphafi Apple árið 1976. Stephanie hefði því sennilega fengið sér eitthvað annað að gera að endingu og þróun tækni- og fjarskiptageirans hefði orðið mjög frábrugðin því sem síðar varð með framlagi Steve Jobs.
Að lokum má benda á að heimilin eru litlar rekstrareiningar sem konur hafa borið ábyrgð á alveg síðan maðurinn hætti hirðingjalífi og hóf að sinna landbúnaði fyrir um 600.000 árum síðan. Það eru bara um 500 ár síðan að Austur-Indíafélagið, fyrsta hlutafélagið, var stofnað í Hollandi hinn 31. desember 1600 – svo segja má að konur hafi um 599.500 ára forskot í stjórnun og rekstri.
Að öllu gamni slepptu, þá eru leiðtogaefni af skornum skammti almennt. Það er því hreinlega skaðlegt að láta hjá líða að gera það sem við getum til að við fáum að njóta leiðtogahæfileika, greiningar-og ákvarðanahæfni kvenna til jafns við karla í atvinnulífinu. En það þarf að gerast á forsendum kvenna, en ekki að þjálfa konur í að vera eins og karlmenn. Við það myndi ábatinn sem fylgir fjölbreytileikanum glatast.
Greinin birtist fyrst í áramótablaði Vísbendingar 2022. Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu hér.
Tilvísanir
Hinchliffe, E., 2022, Female CEOs run just 4,8% of the world‘s largest businesses on the Global 500“, Fortune Magazine, 3. ágúst 2022, og Bertrand, M., Black, S.E., Jensen,S. og Lleras-Muney, A.. 2019. “Breaking the glass ceiling? The effect of board quotas on female labour market outcomes in Norway.” The Review of Economic Studies 86 (1):191–239, Bertrand, M. and Hallock, K.F.,. 2001. “The gender gap in top corporate jobs.” ILR Review 55 (1):3–21.
OECD. 2021. “Inventors.”
M.G. Sherman og H.E.Tookes, 2021, „Female Representation in the Academic Finance Profession“, Journal of Finance, Vol. 77, Issue 1.
S. Lundberg og J. Stearns, 2019, „Women in Economics: Stalled Progress“, Journal of Economics Perspectives, Vol. 33, no. 1, pp. 3-22
R. Adams, 2016, „Women on boards: The superheroes of tomorrow?“, The Leadership Quarterly, No. 27
Guðjón Ingi Eiríksson og Jón Hjaltason, Kæri kjósandi, Hólar, Akureyri, 2000. Kæri kjósandi, Morgunblaðið, 13. desember 2000.
Tannen, D., 2001, Talking from 9 to 5: Women and Men at Work, William Morrow, New York.
L. Babcock, B. Peyser, L. Vesterlund og L. Weingart, 2022, The No Club: Putting a stop to Women‘s Dead-End Work, Simon & Schuster, New York.
EIGE-2021 Gender Equality Index 2021 Report: Health, European Institute for Gender Equality
Weingart ofl. 2022
Babcock ofl. 2017, „Gender differences in accepting and receiving requests for tasks with low promotability, American Economic Review, 107(3), 714-17
A. Tugend, „Why don‘t Women Act More Like Men at Work?“, The Atlantic, 15. mars, 2012.
L. Carli, 2007, Through the Labyrinth: The Truth About How Women Become Leaders, Harvard Business Review Press