MYND:EPA spaceX

Tæknispá ársins 2018

Gervigreind, rafmyntir, persónuvernd, eignarhald á gögnum og fallvaltir bankar. Já og svo auðvitað geimferðir. Þetta verða aðalatriðin í tæknigeiranum á komandi ári samkvæmt árlegri tæknispá Hjálmars Gíslasonar.

Það eru núna 12 ár síðan ég gerði það fyrst að gamni mínu að setja í upphafi árs fram spá yfir hluti sem ættu eftir að verða ofarlega á baugi á komandi ári. Þó þetta sé samkvæmisleikur öðru fremur, er engu að síður áhugavert að skoða eldri spár (2006, 2008, 2009, 2010, 2014, 2015, 2016, 2017) og sjá hvað hefur gengið eftir - og ekki síður hvað ekki!

Í fyrra voru það sjálfkeyrandi bílar, falsfréttir, samdauna tæknirisar, sýndarveruleiki og fjármögnunar- og þekkingarumhverfi íslenskra sprotafyrirtækja sem fengu sess í spánni. Hér á eftir fer það sem ég tel að verði ofarlega á baugi á árinu sem nú er að hefjast.

Gervigreind

Gervigreind hefur verið mikið í fréttunum undanfarið ár, og ekki að ástæðulausu. Á þessu sviði hafa orðið stórkostlegar framfarir á undanförnum 2-3 árum og kemur þar einkum þrennt til: Síaukin og ódýrari vinnslugeta, ný aðferðafræði við útfærslu tauganeta (svokölluð „deep learning”) og síðast en ekki síst óvenjulega almennur aðgangur að bestu tólum á þessu sviði þar sem leiðandi hugbúnaður hefur verið gerður aðgengilegur undir opnum leyfum og jafnframt uppsettur og tilbúinn til notkunar fyrir hvern sem er gegnt vægu (eða jafnvel engu) gjaldi hjá aðilum eins og Google, Amazon og Microsoft.

Fréttirnar fara alltaf hæst þegar gervigreindin lætur til sín taka á sviðum sem okkur þykja „mannleg”, svo sem því að lesa í röntgenmyndir, keyra bíla eða þýða tungumál. Jafnvel enn meiri athygli fær svo framganga þeirra í borðspilum á borð við skák og Go, en þau tíðindi urðu í báðum þessum leikjum á árinu að forrit sem ekki fékk neina forskrift aðra en reglurnar gat „æft sig sjálft” þangað til það varð betra en bestu mennsku leikmenn heims!

Það sem færri átta sig á er að tækni á borð við þessa er að baki allskyns hlutum sem fólk er beint og óbeint farið að nota dags daglega allt frá Snapchat-filterum til rauntímaeftirlits með kreditkortafærslum. Með öðrum orðum í hlutum sem eru fjarri því að vera „mennskir” eða yfirhöfuð innan mannlegrar getu.

Hins vegar eru þetta allt ansi sérhæfð verk og gervigreindarforrit eiga það sameiginlegt að vera ekki sérlega skapandi. Okkur hættir til að ofmeta hversu nærri mannlegri greind og hugsun þessi tækni sé og sjá í því annað hvort meiri ógn eða tækifæri en raunverulega eru til staðar - að minnsta kosti til skamms tíma. Hins vegar er umræðan um það hvort setja skuli regluverk og þá hvernig um notkun slíkrar tækni tímabær og ég spái því að hún verði áberandi á árinu. Ég segi samt eins og einn vinur minn og fyrrum samstarfsfélagi: „Ég hef engar áhyggjur af gervigreind fyrr en hún finnur hjá sér löngun til að gera eitthvað merkilegra en að keyra bíl eða tefla skák.”

Þangað til eru mörg ár. Raunar er það svo að fremstu vísindamenn á þessu sviði telja sig flestir enn langt frá því að skilja hvers konar stökk þyrfti til að það gæti gerst, eða hvort tæknin og aðferðafræðin sem nú er notuð sé yfirhöfuð á þeirri leið.

Rafmyntir

Bitcoin komst heldur betur í fréttirnar á liðnu ári, og verður enn um sinn ekki síst vegna ótrúlegra verðhækkana og -sveiflna. Enda voru fréttirnar í lok árs margar á þann veg að hér hlyti að vera um bólu að ræða. Sagan segir að Joseph Kennedy hafi ákveðið að selja öll hlutabréfin sín rétt fyrir kreppuna miklu þegar lyftuvörður gaf honum ráðleggingar um fjárfestingar í hlutabréfum. Á Íslandi heyrði ég nýlega sögu af pípara sem var að velta fyrir sér spákaupmennsku með Bitcoin. Kannski er það okkar merki?


Ég ætla raunar að ganga lengra hér en flestir og spá miklu verðfalli Bitcoin á árinu 2018. Þar koma nokkrir hlutir til aðrir en bólumerkin, meðal annars þau að með aukinni athygli og veltu aukast líkurnar á því að einhvers konar regluverki verði komið á þessi viðskipti, enda er einn af eftirsóttum eiginleikum rafmynta á borð við Bitcoin að viðskiptin eru nafnlaus, erfitt að rekja þau og ágóði af hvers kyns viðskiptum með þær ósýnilegur skattyfirvöldum. Hin meginástæðan fyrir spá minni er að orkunotkun í Bitcoin heiminum er komin langt út fyrir skynsemismörk (hvar sem þau svo sem voru) og undir lok árs bárust fréttir af því a meiri raforka færi í Bitcoin en sem svaraði allri raforkunotkun Danmerkur. Þetta sýnir ekki bara að það styttist í einhverskonar þolmörk, heldur er þetta líka líklegt til að kalla á bakslag meðal nördasamfélagsins sem hefur drifið vöxtinn að miklu leyti hingað til og líklegt að leiði af sér aðrar, skyldar en skynsamlegri lausnir hvað þetta varðar. Hin undirliggjandi og stórmerkilega „blockchain” tækni er nefnilega komin til að vera - og ekki bara sem hryggjarstykkið í rafmyntum, heldur alls kyns færslum öðrum, frá listaverkaviðskiptum til gagnamiðlunar.

Rétt að taka fram að þrátt fyrir spá mína um yfirvofandi hrun á verði Bitcoin á árinu, þá tel ég samt talsverðar líkur á að myntin muni sanna sig til langs tíma sem nokkurskonar rafgull. Það er, sem verðmæti (ekki hlæja, málmgull er einskis virði heldur í sjálfu sér) sem sjaldan skipta um hendur og litið verður á sem langtímafjárfestingu.

(Gert grein fyrir hagsmunum: Höfundur er eigandi fáeinna Bitcoin-a og tekur ekki að sér fjárfestingaráðgjöf)

Persónuvernd, eignarhald á gögnum og fallvaltir bankar

Umræðan um persónuvernd og notkun, eignarhald og miðlun á persónuupplýsingum á eftir að verða mjög hávær á árinu. Margir hafa orðið til að benda á vandamálin sem fylgja því að tæknifyrirtæki á borð við Google, Apple, Microsoft og þó sérstaklega Facebook hafi yfir að ráða jafn miklum upplýsingum og raun ber vitni um ekki bara stafrænar athafnir okkar, heldur persónuleika, drauma, þrár, kosti og lesti. Ekki bara það, heldur er afar fátt sem takmarkar það hvernig þessi fyrirtæki - og önnur - mega nota þessar upplýsingar.

Nýjar reglur Evrópusambandsins sem taka munu gildi á árinu - GDPR (General Data Protection Regulation) - er fyrsta umtalsverða tilraun yfirvalda til að koma böndum á þessa gagnasöfnun, og þá auðvitað ekki bara þessara fyrirtækja, heldur allra sem safna og vinna með persónugreinanleg gögn. Þó að þessar reglur gildi „aðeins” um gögn um Evrópubúa, þá er það óháð heimilisfesti þjónustuveitandans og ljóst að öllum alþjóðafyrirtækjum verður mikið í mun að mæta þessum kröfum, enda geta viðurlögin numið allt að fjögur prósent af heildarveltu fyrirtækja sem reynast brotleg. Þessar reglur kveða svo ekki aðeins á um hvað gera má við gögnin, heldur taka þau líka af öll tvímæli um það að einstaklingar hafa rétt á aðgengi að öllum gögnum sem þjónustuveitandi hefur um þá, rétt til að fá afrit af þeim - og rétt til að láta eyða þeim.

Margir hafa orðið til að benda á vandamálin sem fylgja því að tæknifyrirtæki á borð við Google, Apple, Microsoft og þó sérstaklega Facebook hafi yfir að ráða jafn miklum upplýsingum og raun ber vitni um ekki bara stafrænar athafnir okkar, heldur persónuleika, drauma, þrár, kosti og lesti.

Í svipuðum anda eru reglugerðir sem innleiddar verða á árinu um fjármálafyrirtæki. Þær breytingar snúast reyndar ekki bara um gögnin, heldur munu þær líka auðvelda samkeppni við rótgróna banka og fjármálastofnanir. Þetta opnar fjölmörg tækifæri fyrir nýsköpun og sprotafyrirtæki, en ég spái því að risafyrirtækin sem að ofan eru nefnd verði þau sem munu hafa mest áhrif á þennan geira - og það hratt. Þannig má segja að löggjöfin sem á annan bóginn takmarkar það sem stóru tæknirisarnir geta gert muni gefa þeim ný tækifæri á öðrum sviðum.

Ég held að fjármálageirinn í heild sinni standi á barmi gríðarlegra breytinga og viðskiptabankar eigi eftir að eiga mjög í vök að verjast þegar þessara breytinga fer að verða vart. Það er þróun sem mun taka nokkur ár, en mun rýra áhrifavald þeirra - og verðmæti - mjög mikið.

Ég er að minnsta kosti ekki sérlega bjartsýnn á langtímaverðmæti eignarhlutar míns í bönkunum sem „hluthafi” í gegnum ríkissjóð.

Geimferðir

Það eru geggjaðir hlutir að gerast í geimferðum. Sennilega hefur ekki verið jafn spennandi að fylgjast með þeim síðan á tímum tunglferðanna. Einkafyrirtækið SpaceX skaut hvorki meira né minna en 17 förmum á braut um jörðu á liðnu ári. Ef þið hafið ekki fylgst með svona geimskoti, þá mæli ég sterklega með því. Næsta geimskot er fyrirhugað föstudaginn 5. eða laugardaginn 6. janúar - og reyndar 12 önnur á þeirra vegum og annarra víðs vegar um heim í janúarmánuði einum. Geimskotadagskrána má finna hér.

Öll geimskot SpaceX fara fram í beinni útsendingu á netinu með ítarlegum upplýsingum um það hvað er að gerast og hver framvindan er. Að málmrör á hæð við Hallgrímskirkju geti tekist á loft, skilað af sér farangursflaug út í geimjaðarinn og lent svo aftur af gríðarlegri nákvæmni upprétt, stundum á sama stað og tekið var á loft um það bil 10 mínútum síðar er ótrúlegt. Pláss í ómönnuðum geimförum er orðið það ódýrt að alls kyns sprotafyrirtæki spretta nú upp sem eru að gerbylta því sem fólk taldi mögulegt í geimtækni fyrir innan við 10 árum. Það er til að mynda hægt að gerast áskrifandi að býsna nákvæmum, innan við 24 tíma gömlum loftmyndum af ALLRI jörðinni hjá fyrirtæki sem nefnist Planet. Aðeins hugmyndaflugið setur skorður á hvað hægt er að gera með slíku - raunar bæði til góðs og ills.

Talandi um tunglferðir, þá eru hafa tvær merkilegar geimfréttir komandi árs ekki farið hátt:

  • Annars vegar eru nú innan við þrír mánuðir þar til keppnisliðin í Lunar X Prize keppninni munu reyna lendingu á tunglinu. Í úrslitum eru 5 lið, misstór og misvel fjármögnuð sem keppa um verðlaun upp á 20 milljón Bandaríkjadali frá Google. Ef þetta tekst, er það í fyrsta sinn sem geimfar á vegum einkaaðila mun komast til tunglsins.
  • Hins vegar hefur Elon Musk, stofnandi Space X (með meiru) heitið því að senda mannað geimfar í flug í kringum tunglið fyrir lok ársins. Dagsetningin hefur ekki verið gefin upp, en hann hefur greint frá því að geimfararnir tveir sem fara muni í ferðina hafi verið valdir, þó ekki hafi verið sagt frá því hverjir það séu.

Ég held þó reyndar að auðveldasti spádómur ársins sé að Musk verði sjálfur annar þeirra!

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar