Ólafur Már Björnsson

Tillaga um rammaáætlun verður lögð fram í óbreyttri mynd

Þrettán virkjanakostir í orkunýtingar- og biðflokki tillögunnar myndu falla innan marka fyrirhugaðs hálendisþjóðgarðs. Heimila á nýjar virkjanir innan hans en með strangari skilyrðum. „Klárlega málamiðlun,“ segir umhverfisráðherra.

Til­laga til þings­á­lykt­unar um áætlun um vernd og orku­nýt­ing­u land­svæða, þriðji áfangi ramma­á­ætl­un­ar, verður lögð fram á Alþingi í febr­ú­ar. Um óbreytta til­lögu er að ræða frá því að hún var fyrst lögð fram af Sig­rún­u ­Magn­ús­dótt­ur, þáver­andi umhverf­is­ráð­herra, þing­vet­ur­inn 2015-2016 og síðar af Björt Ólafs­dóttur 2016-2017. 

Í til­lög­unni eru sam­tals þrettán virkj­ana­kostir í orku­nýt­ing­ar­flokki og bið­flokki sem falla innan marka fyr­ir­hug­aðs hálend­is­þjóð­garðs. Í drögum að frum­varpi um garð­inn, sem nú eru til umsagnar í sam­ráðs­gátt stjórn­valda, er lagt til að innan hans verði leyfðar þær virkj­anir sem verði í nýt­inga­flokki 3. á­fanga ramma­á­ætl­un­ar. Áfram yrði svo opið fyrir þann mögu­leika að virkj­anir í bið­flokki fær­ist yfir í orku­nýt­ing­ar­flokk og komi þar með til fram­kvæmda síð­ar­ ­meir. Í báðum til­vikum yrðu skil­yrði fyrir nýjum virkj­unum innan garðs­ins þó strang­ari en þau eru almennt í dag. 

„Þetta nátt­úr­lega passar ekki sam­an,“ segir Auður Önn­u ­Magn­ús­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri Land­vernd­ar, í sam­tali við Kjarn­ann. „Það er vart hægt að vera með starf­semi innan þjóð­garðs, eins og hann er skil­greindur í okkar nátt­úru­vernd­ar­lög­um, sem þjónar ekki mark­miðum hans. Ef mark­mið hans er vernd nátt­úru þá gefur auga leið að ekki er hægt að vera með risa­stór ný ­mann­virki innan hans marka.“

Guð­mundur Ingi Guð­brands­son, umhverf­is- og auð­linda­ráð­herra, var fram­kvæmda­stjóri Land­verndar er hún gaf álit sitt á til­lög­unni árið 2017. Þar var lögð sér­stök áhersla á að allar virkj­un­ar­hug­myndir á mið­há­lendi Íslands­ ­færu í vernd­ar­flokk og þar yrði stofn­aður þjóð­garð­ur.

Í sam­tali við Kjarn­ann nú segir hann að „klár­lega“ sé um ­mála­miðlun að ræða. „Ef að ég réði einn þá myndi ég kjósa að það yrði ekki um frek­ari virkj­anir inni á mið­há­lend­inu. Það eru líka margir sem myndu vilja ­virkja margt af því sem þarna er lagt til að verði vernd­að, eins og ­Skjálf­anda­fljót, Jök­ulsárnar í Skaga­firði og Skaftá. Ég er í þeirri stöðu nún­a að bera ábyrgð á því að reyna að klára þessa ramma­á­ætlun og ég tek þá ábyrgð mjög alvar­lega. Ekki síst vegna þess að ég held að nátt­úru­verndin sé bet­ur ­stödd ef að við stöndum vörð um ferli ramma­á­ætl­unar til að kom­ast að nið­ur­stöð­u um þessi mál.“

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, kynnti drög að frumvarpi að hálendisþjóðgarði fyrir forsvarsmönnum náttúruverndarsamtaka í gær.

 Nokkrir nýir virkj­ana­kostir

Í þings­á­lykt­un­ar­til­lög­unni, sem nú verður lögð fram í þriðja sinn, er lagt til að setja nokkra nýja virkj­ana­kosti í nýt­ing­ar­flokk, m.a. Aust­ur­gils­virkjun á Vest­fjörðum og Urriða­foss­virkjun og Holta­virkjun í Þjórsá.

„Í þess­ari til­lögu er svo Skrokkalda í nýt­ing­ar­flokki, svæð­i ­sem er akkúrat í miðju Íslands,“ bendir Auður á. Hún segir að sú virkjun „yrði hræði­legt sár“ í land­in­u. Skrokköldu­virkj­un, sem Lands­virkjun hefur hug á að reisa, yrði á Sprengisand­i, mitt á milli Hofs­jök­uls og Vatna­jök­uls.

Í rök­stuðn­ingi í til­lög­unni um að setja hana í nýt­ing­ar­flokk ­segir m.a. að hún yrði á mið­há­lend­inu „en þar sem nú þegar er búið að ger­a miðl­un­ar­lón (Há­göngu­lón), stíflur og til­rauna­bor­holur er ekki lengur um óraskað ­svæði að ræða“. Mann­virki virkj­un­ar­innar yrðu að mestu neð­an­jarðar og því lítt ­sýni­leg, að frá­töldu hlað­húsi, spenni og 1 km löngum skurði vestan við nú­ver­andi Sprengisands­leið. Þá segir í grein­ar­gerð virkj­un­ar­að­ila að raf­orkan yrði flutt með jarð­streng.

Hvað til­lögur að verndun svæða varðar segir Auður að vissu­lega ­séu stórir sigrar að nást í nátt­úru­vernd. „Í Skjálf­anda­fljóti eru til dæm­is­ Ald­eyj­ar­foss og Hrafna­bjarga­foss sem eru gíf­ur­lega fal­legir og myndu sam­kvæmt þessu njóta verndar fyrir virkj­ana­hug­myndum sem uppi hafa ver­ið.“

Frá Sprengisandi og áhrifasvæði fyrirhugaðrar Skrokkölduvirkjunar.
Ingibjörg Eiríksdóttir

Standa beri vörð um ramma­á­ætlun

„Ég tel það gríð­ar­lega mik­il­vægt að við stöndum vörð um ramma­á­ætl­un­ina sem stjórn­tæki,“ segir Guð­mundur Ingi í sam­tali við Kjarn­ann. 

„Það er ekki æski­legt að mínu mati að hún leys­ist í sundur og við förum aftur að nálg­ast virkj­ana­mál með þeim hætt­i að það þurfi að takast á við eina og eina virkjun í einu. Það væri ekki gott ­fyrir neinn. Það er betra að hafa ein­hvern fyr­ir­sjá­an­leika. Auð­vitað munum við alltaf deila um ákveðnar hug­mynd­ir, hvort sem þær lenda í nýt­ing­ar­flokki eða vernd­ar­flokki. En ég tel það mik­il­vægt að klára þetta mál. Ég hef því ákveð­ið að leggja til­lög­una fram á þingi í sam­ræmi við nið­ur­stöðu verk­efna­stjórn­ar­inn­ar á sínum tíma.“

Hvað er rammaáætlun?

Á heimasíðu rammaáætlunar segir: Í náttúru Íslands er margs konar auð að finna. Má þar nefna óbyggð víðerni, jarðhita og vatnsmiklar ár, eldfjöll og sandauðnir, skóga og gróskumikil votlendi, vind, veðurofsa og þögn. Ásókn í þessar auðlindir af hálfu ýmissa hópa er mikil og vaxandi. Oft skarast hagsmunir þessara hópa og hefur það leitt til ágreinings um nýtingu landsins.

Rammaáætlun er verkfæri til að greiða úr þessum ágreiningi, og jafnframt samheiti yfir ákveðin lög, ferli og aðferðafræði sem hafa þróast samstíga gegnum tíðina til þess að leysa þetta verkefni á sem farsælastan hátt.

Spurður hvort að honum finn­ist ramma­á­ætlun þá gott ­stjórn­tæki seg­ist hann alltaf hafa sagt að hún væri mik­il­vægt stjórn­tæki sem ­flokki virkj­ana­kosti eftir ákveðnum for­send­um. „En hún er ekki galla­laus,“ ­segir hann og bendir á að hið umtal­aða 10 MW við­mið sé t.d. eitt­hvað sem hann vilji end­ur­skoða. Stærð virkj­unar segi langt frá því alla sög­una um um­hverf­is­á­hrif hverrar fram­kvæmdar fyrir sig. Virkj­unum rétt undir 10 MW, sem þá þurfa ekki að fara í gegnum ferli ramma­á­ætl­un­ar, hefur fjölgað síðust­u ár.  

Hann seg­ist ekki sann­færður um að ­stærð­ar­við­mið sé heppi­leg­asta leið­in. „Ein­hver ein tala, um ákveðið mörg ­megawött, er það endi­lega rétti mæli­kvarð­inn? Ég tel að það séu frekar áhrif­in ­sjálf sem skipti mestu. Við þurfum að skoða það með opnum huga að finna betra ­fyr­ir­komu­lag.“

Aldeyjarfoss í Skjálfandafljóti myndi hljóta vernd samkvæmt tillögu að rammaáætlun.
Ólafur Már Björnsson

Lína dregin í sand­inn

Hvernig rímar það við hug­myndir þínar um Hálend­is­þjóð­garð að yfir tugur virkj­ana­kosta í nýt­ing­ar-eða bið­flokki sam­kvæmt til­lög­unni séu innan marka hans?

„Í drög­unum að frum­varpi um hálend­is­þjóð­garð er ákveð­in ­stefna lögð til fyrir virkj­ana­kosti innan hálend­is­þjóð­garðs. Við erum með­ þessar leik­reglur sem ramma­á­ætl­unin er og Alþingi hefur sett. Við erum sam­kvæmt henni að flokka í nýt­ingu og vernd og svo í bið þær hug­myndir sem við þurf­um frek­ari upp­lýs­ingar um. Við þurfum hins vegar þegar um þjóð­garð er að ræða að ­draga ein­hverja línu í sand­inn. Við getum ekki til fram­tíðar litið alltaf ver­ið að skoða nýja virkj­ana­kosti innan þessa svæð­is. Þess vegna er í frum­varps­drög­unum gert ráð fyrir því að lína verði dregin í sand­inn við þenn­an 3. áfanga ramma­á­ætl­unar sem verður lagður fram á þingi nú í febr­úar ásam­t frum­varp­inu um hálend­is­þjóð­garð­inn.“

Eyrarrósardalurinn sunnan í Skrokköldu á hálendinu. Lagt er til að setja Skrokkölduvirkjun í nýtingarflokk.
Ingibjörg Eiríksdóttir

Sam­kvæmt frum­varps­drög­unum verður heim­ilt að ráð­ast í þær ­virkj­ana­hug­myndir sem falla munu í nýt­ing­ar­flokk í 3. áfanga nú að und­an­gengn­u mati á umhverf­is­á­hrifum og lög­bundnum leyf­is­veit­ing­um. „Þó með þeim for­merkj­u­m að þær virkj­anir hafi lág­marks rask í för með sér og lág­marks sýni­leika á yf­ir­borð­i.“ Skrokköldu­virkjun er eini nýi virkj­ana­kost­ur­inn innan marka fyr­ir­hug­aðs ­þjóð­garðs sem er í nýt­ing­ar­flokki sam­kvæmt til­lög­unni.

Að sama skapi verður sam­kvæmt drög­unum leyfi­legt að þær hug­myndir sem enda í bið­flokki nú geti verk­efna­stjórn tekið til skoð­unar í næstu áætl­unum sín­um. „En vegna þess að við erum innan þjóð­garðs þá gildi um þær strang­ari skil­yrði en nú er.“ Líta þurfi m.a. til þess hvort virkj­ana­kost­ur er á rösk­uðu eða órösk­uðu svæði. „Síðan verður ekki hægt að koma fram með nýjar ­til­lögur innan þessa svæð­is.“

Mála­miðlun að sögn ráð­herr­ans

 Guð­mundur Ingi segir að þings­á­lykt­un­ar­til­lagan sé „klár­lega mála­miðl­un“ enda séu mjög skiptar skoð­anir um virkj­ana­mál og nátt­úru­vernd í sam­fé­lag­inu. „En þarna værum við að búa til ferli og kerfi sem mun veita meiri vernd heldur en að er í dag.“

Þings­á­lykt­un­ar­til­lagan um verndun og nýt­ingu land­svæða verður lögð fram á þing­inu í febr­ú­ar. Í þeim mán­uði er einnig stefnt á að leggja fram frum­varp um hálend­is­þjóð­garð. Umsagna­frestur um drög þess frum­varps er til 15. jan­ú­ar.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar