Gagnsæi er undirstaða trausts

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra skrifar um ný lög um varnir gegn hagsmunaárekstrum.

Auglýsing

Alþingi samþykkti í vikunni frumvarp sem ég lagði fram í janúar um varnir gegn hagsmunaárekstrum. Markmið þess er að setja skýrari reglur um störf þeirra starfsmanna Stjórnarráðsins sem fara með æðsta vald í málefnum stjórnsýslunnar. Um er að ræða ráðherra, ráðuneytisstjóra, skrifstofustjóra og sendiherra. Þá tekur hluti ákvæða frumvarpsins einnig til aðstoðarmanna ráðherra. Málið á rætur að rekja til stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem lögð er áhersla á góð vinnubrögð, opna og gagnsæja stjórnsýslu og að kappkostað verði að miðla upplýsingum um ákvarðanir og ferli sem varða hagsmuni almennings. 

Samkvæmt frumvarpinu verður æðstu stjórnendum Stjórnarráðsins og aðstoðarmönnum ráðherra skylt að tilkynna um eignir sínar, skuldir og ábyrgðir hérlendis og erlendis, auk sömu upplýsinga um maka og ólögráða börn á framfæri þeirra. Sama hópi verður skylt að tilkynna til forsætisráðuneytisins gjafir og önnur hlunnindi og fríðindi í tengslum við starfið og mun ráðuneytið birta almenningi þessar upplýsingar á vef Stjórnarráðs Íslands. 

Við setningu reglna af þessu tagi þarf að gæta að jafnvægi milli þess að almenningur geti nálgast upplýsingar um hagsmuni æðstu stjórnenda Stjórnarráðsins annars vegar og friðhelgi einkalífs þeirra hins vegar. Með hliðsjón af síðarnefnda sjónarmiðinu er mælt fyrir um tilteknar undantekningar frá meginreglunni um að tilkynna skuli hagsmuni og birta upplýsingar um það opinberlega. Þannig verður ekki skylt að tilkynna um skuldir og ábyrgðir vegna íbúðarhúsnæðis og bifreiðar til eigin nota, skuldbindingar vegna námslána, minni skuldbindingar við hefðbundnar lánastofnanir undir 5 milljónum króna og gjafir undir 50.000 krónum á ársgrundvelli. Þá er ekki gert ráð fyrir að sá hluti skránna sem tekur til skrifstofustjóra og sendiherra verði birtur opinberlega og sama á við um börn og ólögráða börn allra starfsmannanna. Forsætisráðuneytið mun hins vegar halda utan um þessar upplýsingar, nýta þær við ráðgjafar- og eftirlitshlutverk sitt og birta þær almenningi þegar almannahagsmunir krefjast þess. 

Auglýsing
Í lögunum er enn fremur að finna reglur um aukastörf æðstu stjórnenda í Stjórnarráðinu og aðstoðarmanna ráðherra þar sem kemur fram að störf þeirra teljist full störf og að meginreglu sé óheimilt að sinna aukastörfum samhliða þeim. Unnt verður að sækja um undanþágu frá þessari reglu ef fyrirhugað aukastarf telst til mannúðarstarfa, kennslu eða fræðistarfa, vísindarannsókna, listsköpunar eða annarra tilfallandi starfa en ávallt er það skilyrði að starfið hafi ekki áhrif á störf viðkomandi fyrir Stjórnarráð Íslands og greiðslur teljist innan hóflegra marka. Forsætisráðuneytið afgreiðir beiðnir um undanþágur og birtir skrá um heimil aukastörf á vef Stjórnarráðsins. 

Eitt af meginviðfangsefnum frumvarpsins er að ná utan um samskipti handhafa framkvæmdarvalds við svokallaða hagsmunaverði. Hugtakið hagsmunaverðir nær yfir þá sem tala máli einkaaðila gagnvart stjórnvöldum og leitast við að hafa áhrif á störf þeirra í atvinnuskyni. Það ber að taka fram í þessu samhengi að almennt er sjálfsagt að stjórnvöld taki tillit til þarfa og væntinga þeirra einstaklinga og fyrirtækja sem ákvarðanir stjórnvalda hafa áhrif á. Það er heldur ekki óeðlilegt að einkaaðilar feli hagsmunavörðum að gæta hagsmuna sinna gagnvart hinu opinbera, hvorki almennt né í einstökum málum.  Gagnsæi þarf hins vegar að ríkja um samskiptin.

Ríkisstjórnin hefur haft frumkvæði að því að birta yfirlit yfir fundi ráðherra í opnum dagbókum. Þar kemur til dæmis fram að ég hef átt fjöldamarga fundi með hagsmunavörðum í tíð minni sem forsætisráðherra. Stundum eru slík samskipti sjálfkrafa álitin tortryggileg en það eru þau ekki ef allt er uppi á borðum og hagsmunaaðilar hafa ekki óeðlileg áhrif á störf opinberra aðila. Með nýjum reglum verður gagnsæi í kringum þessi samskipti aukið til muna.  Upplýsingar um aðkomu hagsmunavarða og annarra einkaaðila að samningu stjórnarfrumvarpa skal tilgreina í greinargerð með frumvörpum. Það er mikilvægt til að alþingismenn og allur almenningur geti hæglega áttað sig á því þegar stjórnarfrumvarp er samið að tillögu utanaðkomandi aðila sem getur átt hagsmuna að gæta.

Þá er einnig mælt fyrir um bann við því að æðstu stjórnendur í Stjórnarráðinu og aðstoðarmenn ráðherra noti upplýsingar sem þeir höfðu aðgang að í starfi sér eða öðrum til óeðlilegs ávinnings. Þá verður æðstu stjórnendum óheimilt að gerast hagsmunaverðir í sex mánuði eftir að störfum fyrir Stjórnarráðið lýkur. Forsætisráðuneytið getur veitt undanþágu frá þessu banni ef lítil eða engin hætta er á hagsmunaárekstrum vegna nýja starfsins. Ef synjað er um undanþágu skal starfsmaðurinn halda launum sínum til loka sex mánaða tímabilsins eða þar til hann tekur við öðru starfi.

Gagnsæi er undirstaða trausts. Því er gríðarlega mikilvægt að skýrar reglur, m.a. um skráningu og meðferð hagsmuna æðstu stjórnenda hins opinbera, séu settar og virkt eftirlit haft með framkvæmd þeirra. Þær eru nauðsynlegar til að slíkt traust geti skapast. Við lagasmíðina var höfð hliðsjón af niðurstöðum innlendra og erlendra sérfræðinga, til að mynda skýrslu starfshóps um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu, ábendingum GRECO, samtaka ríkja gegn spillingu og leiðbeiningum OECD, Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu, um opinber heilindi.

Einhverjir kynnu að ætla að það að setja skýrari reglur um hagsmunaskráningu og aukið gagnsæi um æðstu stjórnendur í Stjórnarráðinu sýni að eitthvað tortryggilegt sé í gangi í stjórnsýslu ríkisins. Ég tel þvert á móti að það sýni vilja handhafa opinbers valds til að efla gagnsæi sem er að mínu viti helsta undirstaða trausts og heilinda. Ég tel að þessi lög feli í sér jákvætt skref í átt að opnari og vandaðri stjórnarháttum innan Stjórnarráðsins. Reynsla af framkvæmd þeirra mun enn fremur varpa ljósi á það hvort ástæða sé til að leiða í lög strangari reglur eða sambærilegar reglur um fleiri hópa opinberra starfsmanna, svo sem forstöðumenn ríkisstofnana. 

Höfundur er forsætisráðherra.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Odd Emil Ingebrigtsen, sjávarútvegsráðherra Noregs.
Norski sjávarútvegsráðherrann segir að Samherji sé með „laskað mannorð“
Sjávarútvegsráðherra Noregs segist gruna að Samherji sé að reyna að komast í kringum reglur um eignarhald erlendra aðila á norskum fiskveiðikvóta og hefur gripið til aðgerða. Hann felur ekki neikvæðni sína í garð Samherja.
Kjarninn 9. maí 2021
Jón Gnarr
Af þrælmennum
Kjarninn 9. maí 2021
Borgarstjórar skyldaðir til handabanda
Umræður um handabönd hafa, og það ekki í fyrsta sinn, ratað inn í danska þingið. Þingmenn vilja skylda borgarstjóra landsins til að taka í höndina á nýjum ríkisborgurum, en handabandið er skilyrði ríkisborgararéttar.
Kjarninn 9. maí 2021
Ari
„Vægi loftslagsmálanna minnkar ekki þessa dagana“
Þingmaður VG segir að ef Íslendingar standi við það sem þeir hafa samþykkt af áætlunum um loftslagsmál og geri aðeins betur hafi þeir að minnsta kosti staðið við sinn skerf í málaflokknum.
Kjarninn 8. maí 2021
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Býður sig fram í 2. sæti – stefnir á að verða í framvarðasveit flokksins í Reykjavík
Brynjar Níelsson ætlar að bjóða fram krafta sína fyrir Sjálfstæðisflokkinn fyrir næstu kosningar en hann hefur verið á þingi síðan 2013.
Kjarninn 8. maí 2021
Nichole Leigh Mosty
Ég vil tala um innflytjendur
Leslistinn 8. maí 2021
Jón Sigurðsson
Ein uppsprettulind mennskunnar
Kjarninn 8. maí 2021
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, er einn þeirra sex sem eru með stöðu sakbornings í rannsókn héraðssaksóknara á viðskiptaháttum fyrirtækisins.
Fjallað um rannsókn á Samherja í skráningarlýsingu Síldarvinnslunnar
Hlutafjárútboð Síldarvinnslunnar hefst á mánudag. Á meðal þeirra sem ætla að selja hlut í útgerðinni í því er Samherji, sem verður þó áfram stærsti eigandi Síldarvinnslunnar. Fjallað er um rannsókn yfirvalda á Samherja í skráningarlýsingu.
Kjarninn 8. maí 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar