Bára Huld Beck

Hið vaxandi hagsmunagæslubákn í Borgartúninu

Samtök atvinnulífsins eru umsvifamestu hagsmunasamtök landsins. Samtökin fá að jafnaði flestar umsagnabeiðnir allra um þingmál, ótalmargir fulltrúar samtakanna stija í nefndum og ráðum á vegum stjórnvalda og rekstrartekjur samtakanna hafa aukist mjög á síðustu árum. Nú hyggst forsætisráðuneytið gera öllum aðilum sem sinna hagsmunavörslu skylt að tilkynna sig til stjórnvalda. Samtök atvinnulífsins telja slíka skráningu hins vegar óþarfa enda sé hér á landi í flestum tilvikum ljóst hvaða samtökum hagsmunaverðir þjóna.

Frá því rétt fyrir alda­mót hafa Sam­tök atvinnu­lífs­ins (SA) staðið vörð um hags­muni atvinnu­rek­enda í íslensku sam­fé­lagi. Umsvif sam­tak­anna eru mikil en í dag eru sex stór hags­muna­sam­tök með aðild að sam­tök­unum og yfir 2.000 fyr­ir­tæki. Þá eru sam­tökin með 180 full­trúa í um hund­rað nefndum og stjórn­um. Sam­tökin hafa fengið flestar umsagna­beiðnir um þing­mál frá Alþingi af öllum sam­tök­um, sam­böndum og félögum á yfir­stand­andi þingi, eða alls 161 beiðn­i. ­Rekstur sam­tak­anna hefur vaxið í krónum talið á síð­ustu árum og í fyrra nam heild­ar­velta félags­ins rúm­lega 720 millj­ónum króna.

Stjórn­völd hafa áform um að setja hags­muna­vörslu hér á landi frek­ari skorður en afar tak­mark­aðar reglur eru um slíkt. For­sæt­is­ráðu­neytið hyggst leggja til að hags­muna­verðir sem eiga sam­­skipti við stjórn­­­mála­­menn og stjórn­­­sýslu verði gert að skrá sig sem slíka. Sam­tök atvinnu­lífs­ins eru hins vegar mót­fallin slíkri skrán­ingu en sam­tökin leggja áherslu á að eft­ir­lit hins opin­bera megi ekki vera of íþyngj­and­i. 

Velta sam­tak­anna auk­ist um 300 millj­ónir frá 2010

Sam­tök atvinnu­lífs­ins fagna 20 ára afmæli sínu í haust en stofn­fundur sam­tak­anna var hald­inn 15. sept­em­ber 1999. Þau eiga sér þó enn lengri sögu, enda var for­veri þeirra, Vinnu­veit­enda­sam­band Íslands, stofnað 1934. Sam­tökin skil­greina sig sem heild­ar­sam­tök íslenskra atvinnu­rek­enda og mark­mið sam­tak­anna er að vera öfl­ugur málsvari þeirra gagn­vart stjórn­völdum og almenn­ing­i. 

Þá ann­ast SA sam­skipti við stétt­ar­fé­lög og gera kjara­samn­inga fyrir hönd aðild­ar­fyr­ir­tækja sem falið hafa sam­tök­unum umboð til þess. Jafn­framt taka sam­tökin þátt í alþjóð­legu sam­starfi atvinnu­rek­enda sem vinna að sam­eig­in­legum hags­muna­mál­um.

Ljóst er að umsvif sam­tak­anna eru mikil en um 70 pró­sent launa­fólks á almennum vinnu­mark­aði starfa hjá ein­hverjum af þeim rúm­lega 2.000 fyr­ir­tækjum sem heyra undir sam­tök­in. Hjá sam­tök­unum starfa í dag 31 starfs­mað­ur. Sumir þeirra eru afar vel laun­að­ir. Hall­dór Benja­mín Þor­bergs­son, fram­kvæmda­stjóri SA, var til að mynda með með þrjár millj­ónir króna í mán­að­ar­laun í fyrra, sam­kvæmt nýjasta tekju­blaði Frjálsrar versl­un­ar. For­stöðu­maður sam­keppn­is­hæfn­is­sviðs SA, Davíð Þor­láks­son, var með 1,9 millj­ónir króna í mán­uði.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA.
Bára Huld Beck

Innan sam­tak­anna er stjórn, full­trúa­ráð og fram­kvæmda­stjórn. Stjórn­in, sem kosin er árlega af full­trúa­ráði sam­tak­anna, er skipuð 20 ein­stak­lingum auk for­manns. Þá er fram­kvæmda­stjórn sam­tak­anna skipuð átta manns sem stjórnin skipar úr hópi stjórn­ar­manna og stýrir starf­semi sam­tak­anna í sam­ræmi við stefnu­mörkun stjórnar og aðal­fund­ar. Auk þess er starf­rækt innan sam­tak­anna full­trúa­ráð sem hefur æðsta vald í mál­efnum þeirra milli aðal­funda sem hund­rað manns sitja í. Þeir sem þar sitja koma frá flestum af stærstu fyr­ir­tækjum lands­ins.

Rekstur sam­tak­anna hefur auk­ist til muna á síð­ustu árum. Heild­ar­velta sam­tak­anna nam 723,4 millj­ónum króna í fyrra en 2010 nam veltan 334,5 milljón króna, á verð­lagi þess árs. Raunaukn­ing á veltu sam­tak­anna á síð­ustu átta árum, að teknu til­liti til verð­bólgu, er yfir 300 millj­ón­ir.

Standa vörð um hags­muni með umsögnum um þing­málum og setu í nefnd­um  

Hags­muna­sam­tök og þrýsti­hópar eru skipu­lögð sam­tök ein­stak­linga eða félaga sem beita sér í þágu hags­muna sam­taka sinna með því að setja fram ákveðnar kröfur á hendur öðrum hópum eða stjórn­völd­um. Hags­muna­sam­tök geta verið verka­lýðs­fé­lög, neyt­enda­sam­tök, umhverf­is­sam­tök, mann­rétt­inda­sam­tök og hags­muna­sam­tök atvinnu­greina sem oft eru jafn­framt atvinnu­veit­end­ur.

Skiptar skoð­anir eru um hvernig hags­muna­vörslu, sem á ensku kall­ast „lobbý­is­mi“, skuli hátt­að, það er að segja hversu mik­inn aðgang og áhrif þau eiga að hafa á stefnu­mót­andi ákvarð­anir stjórn­valda og laga­setn­ing­ar. Í skýrslu starfs­hóps for­sæt­is­ráðu­neyt­is­ins um efl­ingu trausts á stjórn­­­málum og stjórn­­­sýslu, sem kom út í sept­em­ber 2018, segir að almennt þyki æski­legt að laga­setn­ing og stefnu­mótun taki mið af hags­munum þeirra sem mál varða og leitað sé til sér­þekk­ingar þeirra sem hana hafa vegna reynslu þeirra eða inn­sýnar í ákveðna mála­flokka. 

Á hinn bóg­inn bendir starfs­hóp­ur­inn á að hags­muna­varsla geti leitt til ótil­hlýði­legra áhrifa ein­stakra aðila, veitt þeim ávinn­ing á kostnað ann­arra í sömu stöðu, skekkt sam­keppni og svo fram­veg­is. Enda séu fjár­sterkir aðilar í betri aðstöðu til að stunda skipu­lega hags­muna­vörslu en til dæmis félaga- og borg­ara­sam­tök. 

Hags­muna­sam­tök hafa ýmsar leiðir til þess að hafa áhrif á aðgerðir stjórn­valda, bæði form­legar og óform­leg­ar. Hags­muna­sam­tök geta til að mynda skilað inn umsögnum um laga­frum­vörp og þings­á­lykt­anir stjórn­valda. Auk þess sitja full­trúar hags­muna­sam­taka oft í starfs­hóp­um, ráðum og stjórnum á vegum hins opin­bera. Enn fremur geta hags­muna­sam­tök haft áhrif og vakið athygli á sínum hags­muna­málum með skrif­um, ráð­stefnum og í gegnum óform­leg sam­skipti við stjórn­mála­menn.

Á annað hund­rað umsagna­beiðnir um þing­mál

Sam­keppn­is­hæfn­is­svið Sam­taka atvinnu­lífs­ins vinnur öfl­uga hags­muna­gæslu í þágu aðild­ar­fyr­ir­tækja sinna enda er það hlut­verk sviðs­ins að standa vakt­ina þegar nýjar reglur eru settar er varða rekstr­ar­skil­yrði fyr­ir­tækja og atvinnu­lífið í heild sinn­i. 

Sam­tök atvinnu­lífs­ins fá á hverju ári hund­ruð mála á sitt borð frá Alþingi, ráðu­neyt­um, stofn­unum og fyr­ir­tækj­um. Auk þess segir í árs­skýrslu sam­tak­anna að þau taki oft upp mál að eigin frum­kvæði og vekji athygli stjórn­valda eða almenn­ings á þeim. „Með ritun umsagna og vöktun nýrra reglna sem varða atvinnu­lífið gæta sam­tökin að því að rödd atvinnu­lífs­ins fái að hljóma,“ segir í árs­skýrsl­unni.

Nefndir Alþingis senda að jafn­aði öll þing­mál sem þær hafa til umfjöll­unar til umsagnar hjá þeim er málið varð­ar. Það fer hins vegar eftir eðli og umfangi máls hve margir fá það til umsagnar og er ákvörðun um hverjum skuli send þing­mál tekin á nefnd­ar­fundi. Rétt er að taka fram að þeim sem fá mál til umsagnar er ekki skylt að svara.

Afar takmarkaðar reglur hafa verið settar hér á landi um hagsmunavörslu.

Á yfir­stand­andi þingi hafa Sam­tök atvinnu­lífs­ins fengið flestar umsagna­beiðnir af öllum hags­muna­sam­tök­um, sveit­ar­fé­lögum og öðrum félög­um, eða alls 161 umsagna­beiðn­ir. Á síð­ustu tíu árum hafa sam­tökin verið á meðal þeirra þriggja sam­taka eða sam­banda sem fá flestar umsagna­beiðnir frá Alþingi eða yfir þús­und beiðnir frá árinu 2008.

Enn fremur hefur sam­ráðs­gátt stjórn­valda auð­veldað hags­muna­að­ilum að koma sjón­ar­miðum sínum á fram­færi á fyrri stigum máls. Í árs­r­skýrslu SA segir að sam­tökin skoði öll mál sem komi í gátt­ina og meti hvort þau hafi áhrif á atvinnu­lífið og geri þá eftir atvikum umsögn.

Með full­trúa í hund­rað nefndum og ráðum

SA til­nefnir fjölda full­trúa í ýmsar stjórn­ir, nefndir og ráð á vegum hins opin­bera og ann­arra. Þar á meðal á sviði efna­hags- og kjara­mála, umhverf­is- og mennta­mála og í stjórnir líf­eyr­is­sjóða. Í svari SA við fyr­ir­spurn Kjarn­ans kemur fram að alls sitji full­trúar sam­tak­anna í um 100 ólíkum nefnd­um, ráðum og vinnu­hópum og í heild­ina skipar SA í um 180 sæti aðal­manna. 

Sam­tökin eiga jafn­framt aðild að erlendum nefndum og ráð­um. Í árs­skýrslu sam­tak­anna segir að stór hluti lagaum­hverfis atvinnu­lífs­ins komi frá Evr­ópu­sam­band­inu og snú­ist áhersla sam­tak­anna í erlendum sam­skiptum því fyrst og fremst um að gæta hags­muna íslenskra fyr­ir­tækja gagn­vart þeirri lög­gjöf. Það er gert með aðild SA að ráð­gjafa­nefnd EFTA, BusinessE­urope, BIAC og nor­rænu sam­starf­i. 

Samtökin í Húsi atvinnulífsins

Innan Samtaka atvinnulífsins eru sex stór aðildarsamtök: Samorka, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu.

Hver samtök eru með sína eigin starfsemi, sín aðildarfyrirtæki, starfsmenn og sína fulltrúa í nefndum og ráðum sem snúa að þeirra hagsmunum. Samtökin sjálf skila einnig inn umsögnum til Alþingis og í samráðsgátt stjórnvalda.

Samtök iðnaðarins (SI) eru stærst af samtökunum sex en innan þeirra eru 1.400 fyrirtæki og félög. Starfsmenn SI eru 19 og eru samtökin eru með fulltrúa í yfir 40 nefndum og stjórnum. Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, er með 2,6 milljónir í mánaðartekjur, samkvæmt nýjasta tekjublaði Frjálsrar verslunar.

Traust hvarf á Íslandi

Eftir fjár­mála­hrunið árið 2008 hrundi traust til helstu stofn­ana sam­fé­lags­ins og þá sér­stak­lega til Alþingis og fjár­mála­stofn­ana. Illa hefur gengið hjá stjórn­völdum að end­ur­heimta traustið í kjöl­farið og í nið­ur­stöðum síð­asta þjóð­ar­púls Gallups, sem birt var í febr­úar 2019, um traust til stofn­ana  kemur í ljóst að traust til Alþingis mælist ein­ungis 18 pró­sent. Það er um 11 pró­sentu­stigum minna en í könnun Gallups árið áður. 

Aðrar kann­anir hafa jafn­framt sýnt að Íslend­ingar hafa áhyggjur af spill­ingu í stjórn­mál­um. Í könnun MMR frá því í maí síð­ast­liðnum voru svar­endur spurðir um hvaða þrjú atriði þeir hefðu mestar áhyggjur af á Íslandi eða í íslensku sam­­fé­lagi og nefndu flestir spill­ingu í stjórn­málum og fjár­málum eða alls 45 pró­sent. 

Traust landsmanna til stofnana í febrúar 2019.
Gallup



Rík­is­stjórn Katrínar Jak­obs­dóttur hefur lagt umtals­verða áherslu á að auka traust á stjórn­völd­um. Í stjórn­­­ar­sátt­­mála rík­­is­­stjórnar stendur meðal ann­­ars: „Rík­­is­­stjórnin mun beita sér fyrir því að efla traust á stjórn­­­málum og stjórn­­­sýslu.“ Til að fylgja þessu mark­miði eftir skip­aði Katrín starfs­hóp strax í jan­úar 2018 sem hafði það hlut­verk að efla traust á stjórn­­­mál og stjórn­­­sýslu.

Spill­ing­ar­hætta fyrir hendi

Starfs­hóp­ur­inn skil­aði skýrslu um mál­efnið í sept­em­ber sama ár þar sem lagðar voru fram 25 til­lögur til að efla traust á stjórn­sýsl­unni. Í skýrslu starfs­hóps­ins segir að Íslend­ingar hafi farið sér hægar en nágranna­þjóðir í aðgerðum til að tryggja heil­indi í opin­berum störfum og að hér á landi hafi minna til­lit verið tekið til til­mæla og leið­bein­inga alþjóð­legra stofn­ana um varnir gegn spill­ingu en æski­legt hefði ver­ið. 

Þar á meðal eru til­mæli frá GRECO, sam­taka ríkja innan Evr­ópu­ráðs­ins, sem sett voru fram í fimmtu úttekt sam­tak­anna á Íslandi. Þá var mælst til þess að settar yrðu reglur um sam­­skipti æðstu hand­hafa fram­­kvæmd­­ar­­valds við hags­muna­verði og aðra sem leit­­ast við að hafa áhrif á störf stjórn­­­valda. 

Afar tak­mark­aðar reglur hafa verið settar hér á landi um hags­muna­vörslu, sam­kvæmt skýrslu starfs­hóps­ins. Þing­mönn­um, ráð­herrum, aðstoð­ar­mönnum þeirra eða emb­ætt­is­mönnum er til að mynda ekki skylt að skrá sam­skipti sín við hags­muna­að­ila sér­stak­lega, hvort sem um er að ræða bein tengsl við fyr­ir­tæki eða for­ystu­menn þeirra eða við hags­muna­verði fyr­ir­tækja eða sam­taka.

Starfs­hóp­ur­inn taldi það mik­il­vægt að gæta sér­stak­lega að þremur þáttum í sam­skiptum stjórn­valda við hags­muna­að­ila. Í fyrsta lagi þyrfti að vera hafið yfir allan vafa að jafn­ræði ríkti um aðkomu hags­muna­að­ila. Í öðru lagi að tryggja að ekki væri hægt að halda því fram að sér­hags­munir væru teknir fram yfir almanna­hags­muni og í þriðja lagi þyrfti að ríkja gagn­sæi um aðkomu hags­muna­að­ila, þar á meðal um sam­skipti við ráð­herra, þing­menn og opin­bera starfs­menn. 

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands.
Bára Huld Beck

Opin­ber skrá yfir hags­muna­verði 



Í kjöl­far skýrsl­unnar hefur for­sæt­is­ráðu­neytið birt áform um laga­setn­ingu þess efnis í sam­ráðs­gátt stjórn­valda sem byggð eru á til­lögum starfs­hóps­ins. Ráðu­neytið hyggst meðal ann­ars gera öllum aðilum sem sinna hags­muna­vörslu – þeim sem hafa það að aðal­­­starfi að tala máli einka­að­ila, eins eða fleiri, gagn­vart hand­höfum rík­is­­valds – ­skylt að til­­kynna sig til stjórn­­valda svo unnt sé að birta opin­ber­­lega skrá yfir þá. Þar á meðal eru almanna­tenglar og lög­menn sem koma fram fyrir hönd til­tek­inna aðila. Og auð­vitað þeir sem starfa beint fyrir hags­muna­sam­tök.

Þá gerir ráðu­neytið ráð fyrir að skráin verði birt í B-deild Stjórn­­ar­t­íð­inda og á vef Stjórn­­arráðs Ís­lands. Jafn­­framt segir ráðu­neytið skoða þurfi hvort og þá hvaða við­­ur­lög eigi að vera við því að van­rækja til­­kynn­ing­­ar­­skyld­una. 

Enn fremur er fyr­ir­hugað að mælt verði fyrir því í laga­frum­varp­inu að ráð­herr­­ar, aðstoð­­ar­­menn, ráð­u­­neyt­is­­stjór­­ar, skrif­­stofu­­stjórar og send­i­herrar geti ekki í til­­­tek­inn tíma eftir að opin­beru starfi lýkur gegnt starfi fyrir skráða hags­muna­verði. Gert er ráð fyrir þeirri meg­in­­reglu að fram­an­­greindir aðilar þurfi að bíða í átta mán­uði frá starfs­lokum en þó með und­an­tekn­ing­um. 

Starfs­hóp­ur­inn lagði þessi til­lögu fram í ljósi þess að þegar ein­stak­lingur sem starfað hefur fyrir hið opin­bera færir sig úr starfi er ann­ars­vegar hætta á að hags­munir verð­andi vinn­u­veit­anda geti haft áhrif á ákvarð­­anir á meðan ein­stak­l­ingur starfar enn fyrir hið opin­bera. Hins vegar er sá mög­u­­leiki fyrir hendi að upp­­lýs­ingar sem við­kom­andi öðl­­ast í starfi sínu séu nýttar á ótil­hlýð­i­­legan hátt í þágu einka­að­ila þegar skipt er um starfs­vett­vang, en slíkt getur bæði haft ólög­­mæt áhrif á sam­keppni og gengið gegn opin­berum hags­mun­­um.

Tillögum Viðskiptaráðs reglulega mætt með andstöðu

Í Húsi atvinnulífsins er annar öflugur málsvari atvinnulífsins með aðsetur, Viðskiptaráð Íslands. Viðskiptaráð er heildarsamtök fyrirtækja, félaga og einstaklinga í íslensku atvinnulífi sem hafa það hlutverk að gæta hagsmuna viðskiptalífsins. Samkvæmt síðustu ársskýrslu samtakanna er grundvallarþáttur hagsmunabaráttu samtakanna að efla skilning almennings á mikilvægi frjálsræðis í viðskiptum, lágmörkun opinberra afskipta, hagfellds skattaumhverfis og annarra þátta er miða að því að auka samkeppnishæfni Íslands. Í ársskýrslunni segir jafnframt að tillögur ráðsins mæti reglulega andstöðu frá ýmsum aðilum í þjóðfélaginu en til lengri tíma hafi árangur ráðsins verið ótvíðræður. .

Hjá Viðskiptaráði starfa átta manns og alls skipa 38 manns stjórn ráðsins. Starf samtakanna samanstendur af umsögnum um lagafrumvörp en á yfirstandandi þingi hefur Viðskiptaráð fengið sendar 79 umsagnabeiðnir frá Alþingi. Einnig sitja starfsfólk og stjórnarmenn ráðsins í margvíslegum nefndum og starfshópum þar sem þau beita sér fyrir hagsmunum viðskiptalífsins.

SA mót­fallin hags­muna­skrán­ingu 

Sam­tök atvinn­u­lífs­ins gagn­rýna þessi áform stjórn­­­valda í umsögn sinni við áform ráðu­neyt­is­ins í sam­ráðs­­gátt­ stjórn­valda. Í umsögn sam­tak­anna segir að hér á landi tíð­k­ist það ekki að spill­ing birt­ist í því að sterkir sér­hags­muna­að­ilar „nái tang­­ar­haldi“ á ­stjórn­völdum og hafi áhrif á þau með við­brögðum sínum við ein­­stökum ákvörð­un­um, líkt og fjallað er um í fyrr­­nefndri út­­tekt­­ar­­skýrslu GRECO. 

Því telja sam­tökin að ekki sé þörf á því að taka upp skrán­ingu hags­muna­að­ila hér á landi. „Að­­staðan hér er um flest frábrugðin því hvernig hún er í marg­falt stærri þjóð­­félög­­um. Í lang­flestum til­­vikum er alveg ljóst hvaða hags­munum ein­­stök sam­tök eða starfs­­menn þeirra þjóna hvort sem það eru sam­tök fyr­ir­tækja, verka­­fólks, umhverf­is­vernd­­ar­­fólks, neyt­enda, dýra­vina eða önn­­ur,“ segir í umsögn­inni.

Sam­tökin eru einnig and­víg því að sett séu almenn yfir­­­grips­­mikil ákvæði um tak­mörkun á almenn­u at­vinn­u­frelsi starfs­­manna stjórn­­arráðs­ins eða kjör­inna full­trúa. „Það er já­­kvætt að einka­­fyr­ir­tæki finn­i hæfa starfs­­menn í þjón­­ustu ríkis og sveit­­ar­­félaga og að yfir­­­sýn og þekk­ing þeirra sem af ein­hverj­u­m á­­stæðum hætta í stjórn­málum nýt­ist sem víð­­ast. Tak­mörkun á starfs­vali getur því ekki orðið til ann­­ar­s en tjóns fyrir sam­­félag­ið.“

Að lokum segir í umsögn sam­tak­anna að mik­il­vægt sé að ís­­lenskt atvinn­u­líf búi við skýrar og góðar leik­­reglur sem auki trúverð­ug­­leika og verji gegn ólög­­mætri hátt­­semi. Aftur á móti telja sam­tökin að eft­ir­lit megi ekki vera of íþyngj­andi vegna þess að það auki kostn­að ­fyr­ir­tækja og veiki sam­keppn­is­hæfni ís­­lensks atvinn­u­lífs.

Frétta­skýr­ingin birt­ist einnig í Mann­lífi.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnBirna Stefánsdóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar