Bára Huld Beck Auður Önnu Magnúsdóttir

Ekki ráðist að rót vandans – Þurfum að krefjast breytinga

Á síðustu misserum hefur samstaða um vægi loftslagsvandans aukist og krafan um róttækari aðgerðir í loftslagsmálum hlotið meiri hljómgrunn en áður. Kjarninn spjallaði við Auði Önnu Magnúsdóttur, framkvæmdastjóra Landverndar, um hvernig slíkum aðgerðum gæti verið háttað og hvort hún teldi almenning tilbúinn í stórtækar breytingar. Hún segir það vera einu leiðinaog að breyta þurfi hugsunarhætti og gildismati.

Ársins 2019 verður eflaust minnst sem ársins þegar loftslagsváin kom sér kyrfilega fyrir í hugum landsmanna. Fréttum af yfirvofandi hamfarahlýnun og óafturkræfum breytingum á vistkerfi heimsins rigndi yfir almenning og óljósar áhyggjur breyttust hjá mörgum í svokallaðan loftslagskvíða. 

Þrátt fyrir fordæmalausar aðgerðir núverandi ríkisstjórnar í loftslagsmálum urðu gagnrýnisraddir, um að aðgerðir stjórnvalda gengu ekki nægilega langt, sífellt háværari undir forystu íslenskra barna sem skrópuðu í skólanum á föstudögum til að mótmæla, að fyrirmynd sænska aðgerðarsinnans, Gretu Thunberg.

Gagnrýni á sinnuleysi stjórnvalda í umhverfismálum er þó ekki ný af nálinni en náttúruverndarsamtökin Landvernd hafa í yfir hálfa öld verið fremst í flokki að halda umræðu og aðgerðum í umhverfismálum á lofti. Samtökin hafa meðal annars gagnrýnt harðlega aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar sem koma á böndum á gríðarlega losun Íslands og barist ötullega gegn virkjanavæðingu á Íslandi, nú síðast fyrirhugaða Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði á Ströndum

Kjarninn hitti Auði Önnu Magnúsdóttur, framkvæmdastjóri Landverndar, til ræða þessi mál en hún telur að síðasta ár hafi verið upptakturinn fyrir árið 2020 og í ár muni hlutirnir gerast.

Aukinn byr með samtökunum

Auður tók við starfi framkvæmdastjóra Landverndar árið 2018 en fyrir það hafði hún gengt starfi deild­ar­for­seta auðlinda- og um­hverf­is­deild­ar Land­búnaðar­há­skóla Íslands. Áður hafði Auður jafnframt starfað hjá Orf Líf­tækni og hjá Íslenskri erfðagrein­ingu en hún er með doktorspróf í lífefnafræði.

Bakgrunnur í vísindum hefur reynst Auði vel í starfi hennar hjá Landvernd enda þarf allt sem samtökin gera að byggja á vísindagrunni og sannreyndum gögnum. 

„Við breytum ekki heiminum ein og við megum ekki ímynda okkur það en manni líður oft þannig. Eins og maður eigi bara einn að breyta heiminum en við erum bara að gera það sem við getum. Það eru rosaleg forréttindi að fá að búa í landi eins og Íslandi og fá að verja þessa rosalega fallegu og einstöku náttúru sem við höfum hérna,“ segir Auður en hún segist finna fyrir auknum byr með samtökunum nú þegar samstaðan um vægi loftslagsvandans er stöðugt að aukast. 

Hún segir að sífellt auðveldara sé fyrir Landvernd að fá nýja félaga til að ganga til liðs við samtökin en alls eru nú um 6.000 félagar skráðir. Auk þess sé nú mun auðveldara fyrir samtökin að fá umfjöllun í fjölmiðlum og fólk farið að leita í auknum mæli til þeirra.

„Það er að eiga sér stað mjög mikil vitundarvakning og fólk skilur allt í einu hvað er mikil þörf á því að bregðast við. Þessu hefur hins vegar ekki endilega fylgt þekking, þannig það er mjög mikið af fólki að tjá sig um loftslagsmál sem hefur kannski ekki þekkingu í grunninn. En við getum ekki gert þá kröfu að allir séu sérfræðingar, fólk verður að fá að tjá áhyggjur sínar.“

Loftslagskvíði í 25 ár

Aðspurð hvort að hún upplifi vonleysi, nú þegar hver skýrslan á fætur annarri boðar geigvænlegar og óafturkallanlegar breytingar á vistkerfi heimsins ef ekki verður tekið í taumana, svarar Auður að atburðir síðasta árs hafi blásið henni von í brjósti.

„Ég var svona loftslagskvíðakrakki fyrir 25 árum, í fyrstu bylgjunni þegar almenningur var að gera sér grein fyrir loftslagsvandanum. Það var svo hræðilegt af því ég var alein og það var enginn sem hafði áhuga og það var enginn sem vildi gera neitt og það gerðist aldrei neitt. Ég er búin að vera í loftslagskvíða í yfir 20 ár og þunglynd yfir því en svo allt í einu kemur Greta Thunberg og allir fara að kveikja á perunni. Þá fékk ég svo mikið orkuskot og ég varð svo bjartsýn. Ég hugsaði nú gerist þetta, við munum búa til betri heim! Alveg hræðilega væmið sko“ segir Auður kímin og bætir þó við að nú sé aðeins byrjað að falla á bjartsýnina. „Þegar maður sér hvað þetta er aðeins tal og litlar aðgerðir.“ 

Auður Önnu Magnúsardóttir, framkvæmdastjóri Landverndar.
Bára Huld Beck

Hún bendir á að Evrópusambandið hafi nýlega kynnt svokallaðan evrópskan grænan sáttmála, e. European Green Deal, sem Auður segir að sé að mörgu leyti lélegur. Ein af aðgerðunum hafi verið að minnka notkun sýklalyfja sem Auður segir að sé gott mál en komi loftslagsmálum ekkert við. 

Auk þess hafi verið lögð áhersla á rétt hverrar fjölskyldu til að hafa ekki áhyggjur af því að geta ekki hlaðið rafmagnsbílinn sinn hvar sem er. „Við erum ekki þar. Við erum að horfa á rosalegar breytingar á öllum okkar kerfum. Breyta þarf öllu á ótrúlega stuttum tíma og þá er það ekki forgangsatriði að fólk þurfi ekki að hafa áhyggjur af því að það geti ekki hlaðið bílinn sinn.“

Aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar hvorki tímasett né magnbundin

Auður áréttar þó að hér á landi sé enn meira tal og ennþá minna gert. „Eins og ríkisstjórnin þreytist ekki á að benda á þá er þetta miklu skárra heldur en það var fyrir tíð þessarar ríkisstjórnar, af því það var eiginlega ekki neitt gert. Það er mjög auðvelt að vera betra en ekki neitt. Með eina yfirlýsta græningjaflokkinn á Íslandi í ríkisstjórn ættum við að geta gengið miklu harðar fram. Sérstaklega vegna þess að nánast ekkert hefur verið gert hingað til.“

Hún bendir á að Ísland sé í mikilli skuld. Íslensk stjórnvöld hafi gengið mjög hart fram um aldarmótin í því að fá afslátt á losunarheimildir þar sem Ísland væri með endurnýjanlega orku. Því þyrfti landið ekki að draga úr losun líkt og aðrar þjóðir heldur jafnvel fá að auka við sína losun. „Þetta hefur verið okkar viðhorf. Við erum ekki hluti af þessum vanda og höfum því ekki brugðist við honum. Það eru stjórnsýslulegu ræturnar í þessu og það hefur tekið rosalega mikið á að snúa því við.“

Eins og ríkisstjórnin þreytist ekki á að benda á þá er þetta miklu skárra heldur en það var fyrir tíð þessarar ríkisstjórnar, af því það var eiginlega ekki neitt gert. Það er mjög auðvelt að vera betra en ekki neitt.

Landvernd hefur sem fyrr segir ekki hikað við að gagnrýna opinberlega aðgerðir núverandi ríkisstjórnar í loftslagsmálum. „Það sem við höfum gagnrýnt við aðgerðaáætlunina, sem liggur fyrir núna, er að hún er hvorki tímasett né magnbundin. Það þýðir að það er enginn sem getur metið hvort að áætlunin muni raunverulega skila þessum 30 prósenta samdrætti fyrir 2030, sem Parísarsáttmálinn kveður á um, eða hvort hún verði til þess að við náum kolefnishlutleysi fyrir 2040. Þannig að það að hafa hvorki tímasetningar, nema bara á örfáum aðgerðum, né upplýsingar um hversu miklum samdrætti í losun hver aðgerð á að skila þýðir að það er engin leið að meta aðgerðirnar og við getum þá ekki sagt hvort að þetta dugi eða ekki.“

Auður segir jafnframt að áætlunin nái til allt of fárra geira samfélagsins. Hún segir að ofuráhersla sé lögð á orkuskipti í samgöngum en of lítil áhersla lögð á fjölbreyttari ferðamáta, þar á meðal almenningssamgöngur. Auður segir orkuskipti vissulega vera nauðsynlegt skref en að það þurfi svo miklu fleira til. 

Til að mynda sé ekki verið að nýta fjármálakerfið. Hún bendir á að tveir af þremur bönkum Íslands séu í ríkiseigu og að lífeyrissjóðirnir eigi í nánast öllum fyrirtækjum á Íslandi og því væri einkar auðvelt að knýja bæði bankana og lífeyrissjóðina til að þess að fjárfesta í grænum lausnum. Hún bendir á að þetta væri auðveld aðgerð og þyrfti ekki að kosta ríkið neitt. Þetta væri bara lagasetning. 

Bændur gætu orðið náttúruverndarar

Enn fremur hefur Landvernd gagnrýnt að ekkert sé tekið á landbúnaði í aðgerðaáætluninni þó að landbúnaður feli í sér 23 prósent af þeirri losun sem stjórnvöld eru ábyrg fyrir gagnvart Parísarsáttmálanum. Auður segir að þar sem ríkið reki í raun íslenskan landbúnað, sökum þess hve háður landbúnaðurinn er ríkisstyrkjum, þá væri mjög auðvelt fyrir ríkið að taka á landbúnaðinum og hjálpa honum að losa miklu minna. 

Eitt af því sem Landvernd hefur stungið upp á til að draga úr losun frá landbúnaði er að draga úr framleiðslu dýraafurða. „Ég held að langflestir séu sammála um að við viljum hafa byggð í landinu. Við viljum að bændur geti búið á býlum sínum og stundað þar atvinnu sem þeir eru ánægðir með. Það er hægt að opna styrkjakerfið en það er mjög afurðamiðað núna,“ segir Auður og bendir á að þær afurðir sem ríkið hefur ákveðið að megi framleiða séu dýraafurðir, tómatar, paprikur og gúrkur. 

„Þessu styrkjakerfi má mjög auðveldlega breyta þannig að bændur gætu haft val um hvaða starfsemi þeir vildu hafa á býlum sínum, þar sem styrkjakerfið myndi þá ekki miðast eingöngu við fastmótaða flokka afurða. Einnig er hægt að ímynda sér að bændur geti orðið náttúruverndarar, að bændur fái hlutverk við að stuðla að náttúruvernd og endurheimt vistkerfa í kringum landið,“ segir Auður.

Við getum ekki haldið þrjú prósent hagvexti í kerfi þar sem eðlisfræðilögmálin eru eins og þau eru í okkar heimi. Þar sem náttúruauðlindir eru endanlegar en ekki endalausar.
Auður Önnu Magnúsdóttir
Bára Huld Beck

Vöxtur getur ekki verið endalaus

Mikil umræðu hefur skapast á síðustu misserum um mikilvægi þess að auka raforkuframleiðslu til að mæta komandi þörf á næstu árum. Landvernd hefur hins vegar talað fyrir því að hægt sé að fara aðrar leiðir en þá að auka stöðugt framleiðslu, til að mynda með skynsamari nýtingu á raforku. 

„Samorka talar mjög mikið um það að við verðum að auka raforkuframleiðslu af því við verðum að halda þrjú prósent hagvexti næstu 30 árin. Við getum ekki haldið þrjú prósent hagvexti í kerfi þar sem eðlisfræðilögmálin eru eins og þau eru í okkar heimi. Þar sem náttúruauðlindir eru endanlegar en ekki endalausar. Í þeim heimi getur ekki verið endalaus vöxtur. Þetta er svo rökrétt að allir ættu að skilja það. En við höfum bent Samorku á þetta margoft, að þeir séu að byggja sínar raforkuspár á þrjú prósent hagvexti og það bara geti ekki gengið ef við erum að horfa á þennan heim sem við lifum í.“

Auður minnir á að umhverfisvænasti kosturinn sé að spara orku. Hún segir að hægt sé að spara orku með því að einangra byggingar betur, nota bílana okkar minni, byggja minni hús og svo framvegis. Hún segir jafnframt að það séu töp í kerfinu sem hægt sé að vinna á móti og enn fremur sé hægt að nýta glatvarma til að framleiða raforku.

80 prósent af orkunni fer til erlendra fyrirtækja 

Auður bendir enn fremur á að mikill meirihluti þeirrar raforku sem framleidd er hér á land fari til erlendra stórfyrirtækja. 

„Síðastliðin 30 ár hefur Landvernd reynt að hamla á móti stóriðjuvæðingu Íslands. Við erum stóriðjuþjóð og við þurfum að gera okkur grein fyrir því að við erum hérna með risastór alþjóðleg fyrirtæki sem eru mjög ofarlega á listum yfir verstu fyrirtæki í heiminum þegar kemur að umhverfismálum og framkomu við fólk í öðrum heimshlutum. Þannig að við erum ekki eins flott og fín og við höldum oft að við séum, það er búið að stóriðjuvæða okkur,“ segir Auður og bendir á að það hafi reynst samtökunum erfitt að gera það að almennri þekkingu að 80 prósent af þeirri raforku sem framleidd er á Íslandi fari til erlendra stóriðjufyrirtækja. „Þetta eru svakalegar tölur og það er skrítið að við gerum okkur ekki grein fyrir þessu.“ 

Í kjölfarið berst talið að því hver staðan sé á Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði á Ströndum og mögulegri friðlýsingu Drangajökulsvíðerna. Auður segir að friðlýsingin sé í pattstöðu hjá Umhverfisstofnun og kæra Landverndar sem snýr að framkvæmdaleyfi virkjanaaðila þurfi að bíða þar til niðurstaða dómstóla um landamerkjadeilur á svæðinu fæst. 

Drynjandi í Hvalá
Landvernd

„Í fyrravor skilaði Náttúrufræðistofnun Íslands lista yfir svæði sem hún telur að þurfi á vernd að halda og telur að Alþingi eigi að friðlýsa, en Náttúrufræðistofnun á að gera þetta á 5 ára fresti. Listinn er búin að liggja hjá Umhverfisstofnun síðan en hún á að vinna úr málinu svo umhverfisráðherra geti lagt listann fyrir Alþingi. Þegar þú ert með svona mikilvægt svæði og svona mikilvæg náttúruverðmæti í húfi þá verðum við að vinna hratt og við verðum að skilja að svona búrókrasíuhringir geta ekki gengið endalaust fyrir sig. Náttúrufræðistofnun er búin að skila sínu áliti og þetta verður að fá að komast til Alþingis svo þingið geti sagt: „Nei við erum ósammála Náttúrufræðistofnun Íslands.“ Hvernig í ósköpunum sem þau ætla að réttlæta það, eða: „Já, við viljum láta friðlýsa þessi svæði.“ Staðan á friðlýsingunni er sem sagt sú að málið er fast hjá Umhverfisstofnun og ég veit ekki út af hverju,“ segir Auður.

Friðlýsing Drangajökulsvíðerna gæti gert út um hugmyndir um Hvalárvirkjun en Landvernd hefur enn fremur kært framkvæmdaleyfi sveitarstjórnar Árneshrepps fyrir fyrsta áfanga virkjunarinnar. Land­eig­end­ur meiri­hluta Dranga­vík­ur í Árnes­hreppi á Strönd­um hafa einnig kært fram­kvæmda­leyfið auk deili­skipu­lags.

Ekki aftur snúið

Á meðan dómsmál landeigenda stendur yfir hefur umfjöllun um kæru Landverndar hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála verið frestað. „Við getum ekki farið fyrir dómstóla fyrr en landeigendur gera það þar sem þeir eru aðilar að máli. Okkur finnst að það verði einhver að fá að tala fyrir náttúruna. Það þarf að einhver að vera aðili máls fyrir náttúruna en dómstólum finnst það ekki. Það eru bara einhverjir sem geta grætt pening sem eru aðilar máls, sem hafa lögvarða hagsmuni. Náttúran hefur ekki lögvarða hagsmuna, samkvæmt þessu, og það finnst okkur vera klárt brot á Árósarsáttmálanum.“ 

Úrskurðarnefndin hefur nú þegar hafnað kröfu Landverndar um að framkvæmdir virkjanaaðila yrðu stöðvaðar á meðan málið er tekið fyrir hjá nefndinni. Því segir Auður að ef nefndin ætli að úrskurða að framkvæmdarleyfið sé ekki gilt þá þurfi það að gerast nú á þessum vetri. „Ef þau draga þetta á langinn, fram á vor, þá geta framkvæmdaaðilarnir byrjað framkvæmdir. Þegar þeir eru byrjaðir að leggja vegi þarna þá eru þeir byrjaðir að rústa víðernum og þá verður ekki aftur snúið,“ segir Auður.

Sárin eftir Kárahnjúkavirkjun 

Í áliti Skipulagsstofnunar á umhverfisáhrifum Hvalárvirkjunar segir að virkjunin muni hafa veruleg neikvæð áhrif á ásýnd, landslag og víðerni þrátt fyrir þær mótvægisaðgerðir sem framkvæmdaaðili fyrirhugar. Stofnunin segir að í framkvæmdunum felist umfangsmikilli skerðing óbyggðs víðernis auk mikils inngrips í vatnafar svæðisins.

Aðspurð hver áhrif slíks umhverfismats séu í raun segir Auður að eins og staðan sé núna þá virðist umhverfismat í reynd ekki skipta máli. Þar sem sá sem gefur út framkvæmdarleyfið, sem í mörgum tilfellum eru sveitarfélögum, fer ekki eftir niðurstöðu umhverfismatsins. 

„Þetta er klárt brot á Evróputilskipun sem við áttum að innleiða 2014 en höfum enn ekki gert, líklega þar sem framkvæmdaaðilar eru svo mikið á móti því að umhverfismat liggi til grundvallar ákvörðunum um leyfi,“ segir Auður og því geti í raun enginn sagt nei við framkvæmdum í dag nema sveitarfélögin sjálf. 

Hún bendir enn fremur á að sveitarfélögin séu oft mjög samtvinnuð framkvæmdunum, fái oft mikið fjármagn í gegnum fasteignagjöld fyrir framkvæmdirnar eða loforð um mikla starfsemi innan sveitarfélagsins í stuttan tíma og því erfitt fyrir sveitarfélögin að veita ekki framkvæmdaleyfi. 

Auður rekur þessa „gölluðu löggjöf“ um umhverfismat til Kárahnjúkavirkjunar. Áður fyrr hafi ákvörðun Skipulagsstofnunar um umhverfismat verið bindandi en eftir að stofnunin hafi komist að þeirri niðurstöðu að virkjunaraðilar ættu ekki að fá framkvæmdarleyfi fyrir Kárahnjúkavirkjun hafi stjórnvöld tekið sig til og breytt lögunum. Skipulagsstofnun hafi þá misst þetta vald til að segja já eða nei. Nú er úrskurður stofnunarinnar aðeins álit en ekki bindandi ákvörðun.

„Svo er búið að reyna setja plástra á þetta kerfi sem er gallað út af þessari breytingu en þeir virka ekki því grunnhugmyndin er röng, þetta gengur ekki svona. Sárin sem Kárahnjúkavirkjun skilur eftir sig, þau eru enn þá galopin.“

Gengið lengra í tillögum stjórnlagaráðs

Aðspurð um hvort Landvernd sé fylgjandi nýrri stjórnarskrá segir Auður að samtökin sjái ekki ástæðu til að hverfa frá tillögum stjórnlagaráðs sem þjóðin hafi nú þegar samþykkt.

„Við skrifuðum umsagnir um þau drög sem forsætisráðherra lagði fram um stjórnarskrárákvæði um umhverfisvernd og auðlindir í náttúru Íslands í maí síðastliðnum. Okkur þóttu þær breytingar ganga töluvert skemur, bæði fyrir náttúru og fyrir almenning, en tillögur stjórnlagaráðs. Þar á meðal var ekki fjallað um þátttökurétt almennings þegar kemur að umhverfismálum í ákvæðum forsætisráðherra. Við sjáum enga ástæðu til að ganga skemur en í þeim tillögum sem þjóðin hefur samþykkt. Annað varðandi stjórnarskrána höfum við ekki verið beitt okkur fyrir þar sem við einblínum einungis á umhverfismál.“

Við þurfum að breyta öllu og breytingar eru sársaukafullar. Þetta er ekki að fara gerast þannig að allir séu sáttir.

Á síðasta ári stigmögnuðust þær raddir sem kallað hafa eftir róttækari aðgerðum í loftslagsmálum og telja margir að í raun dugi ekkert minna en algjörar kerfisbreytingar. Aðspurð hvort að hún telji að almenningur sé tilbúinn í slíkar breytingar segir Auður það vera einu leiðina. 

„Stjórnmálafólk er ekki að fara gera þetta, það er enn eitt sem maður verður að taka undir með Gretu Thunberg. Við verðum að krefjast þess að þau geri það, öðruvísi verða engar breytingar. Stjórnmálafólk og viðskipti eru flækt saman og því er stjórnmálafólk ekki að fara setja neinar raunverulegar hömlur á viðskipti eða fyrirtæki. Þau eru ekki fara að hægja á hagvexti nema við komum og segjum við verðum að beita öðrum leiðum til að mæla velsæld í samfélaginu. Við þurfum að segja að við séum tilbúin, að við munum ekki rísa upp á afturfæturna þegar umferð einkabíla verður takmörkuð eða þegar meira fjármagn er sett í almenningssamgöngur. Það er það sem stjórnmálafólk er svo hrætt við að einhver verði móðgaður, einhver verði reiður, einhver mótmæli. Þetta eru sársaukafullar aðgerðir. Við þurfum að breyta öllu og breytingar eru sársaukafullar. Þetta er ekki að fara gerast þannig að allir séu sáttir.“

Auður ítrekar jafnframt að ef þetta er ekki gert núna þá verði þetta mun dýrara og erfiðara seinna. Hún bendir á pistil Stefán Gíslasonar umhverfisstjórnunarfræðings um mikilvægi skjótra aðgerða í endurheimt votlendis. 

„Eins og þetta er núna þá er votlendið að losa gróðurhúsalofttegundir út í andrúmsloftið á meðan við getum ekki komið okkur saman um hver á að borga fyrir endurheimt votlendis. Endurheimt votlendis er lang ódýrasta loftslagsaðgerðin sem við getum farið í og á meðan við erum að rífast þá bara losna og losna gróðurhúsalofttegundir. Ef við bíðum til 2029 með það að fylla upp í skurðina þá erum við búin að losa í 9 ár í stað þess að spara losun um jafn mörg ár. Þetta er einfalt dæmi til að skilja hvað það skiptir rosalega miklu máli að grípa strax til aðgerða.“

2020 verði stórt ár

Að lokum segist Auður vera spennt fyrir árinu 2020 en hún telur að þetta verði stórt ár fyrir samtökin. „Ég held að 2019 hafi verið upptakturinn fyrir 2020. Á árinu 2020 munu hlutirnir gerast og þetta verður rosalega stórt ár. Það verður stór COP ráðstefna, loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna, en þar á að taka stórar ákvarðanir. Þá eru liðin fimm ár frá Parísarsáttmálanum, þannig við eigum að vera farin að sjá að eitthvað hafi gerst. Spárnar núna benda til þess að þó að það hafi verið samdráttur í kolanotkun 2019 en talið er að notkunin aukist aftur árið 2020. Við erum að fara sjá hvað þetta er einhvern veginn vonlaust held ég. Að við séum ekki að ráðast að rót vandans sem er kerfið og hugsunarhátturinn okkar. Við þurfum að breyta um hugsunarhátt og gildismat, breyta okkur í grunninn. Við getum ekki bara alltaf verið með þessa lélegu plástra.“

Hún segir jafnframt að á árinu 2020 muni örlagastundin í málefnum Hvalárvirkjunar renna upp. „Þeir munu fara af stað að leggja vegina bara næsta vor nema það komi eitthvað til sem stöðvar þá. Ef úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála eða dómstólar eru ekki þeir aðilar þá veit ég ekki hverjir það geta verið. Þannig þetta verður stórt ár fyrir okkar málefnasvið.“ 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBirna Stefánsdóttir
Meira úr sama flokkiViðtal