Mynd: Pexels

Stjórnunarhættir ört að nálgast það ástand sem var fyrir bankahrunið

Rússíbanareiðum íslensks efnahagslífs er ekki lokið, samkvæmt niðurstöðu nýrrar rannsóknar á hvort að stjórnunarhættir á Íslandi hafi breyst eftir hrunið 2008. Þvert á móti eru hlutirnir að nálgast það ástand sem þá ríkti, þótt mesta „bægslaganginum“ sé haldið bak við tjöldin.

Fyrst eftir bankahrunið breyttust stjórnunarhættir í íslensku viðskiptalífi. Óttinn við að gera mistök varð allsráðandi og um tíma dró úr áhættusækni stjórnenda. Um áratug síðar eru hlutirnir hins vegar ört að nálgast það ástand sem áður var. Íslenskt viðskiptalíf stefnir í svipað horf þótt að „bægslaganginum sé þó núna að mestu haldið bak við tjöldin“.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í grein Ástu Dísar Óladóttur og Gylfa Magnússonar sem birtist í nýjasta tölublaði Tímarits um viðskipti og efnahagsmál og ber heitið: „Var Adam ekki lengi í helvíti? Hafa stjórnunarhættir á Íslandi breyst eftir hrunið 2008?“ 

Greinin byggir á rannsókn höfunda sem náði til 42 stjórnenda, 31 karla og ellefu kvenna, á lista yfir 300 stærstu fyrirtæki landsins. Voru þeir meðal annars spurðir hvort stjórnunaraðferðir þeirra hefðu eitthvað breyst eftir hrunið 2008.

Góðærið

Í greininni er rakið að fjárfestingar íslenskra fyrirtækja fyrir hrunið í október 2008 hafi verið það umfangsmiklar að Ísland leiddi World Investment Report listann ár eftir ár, allt fram til ársins 2008. „Íslenskir fjárfestar og stjórnendur fjárfestu mikið og iðulega í stærri fyrirtækjum en þeim sem þeir störfuðu fyrir eða áttu. Með viljann að vopni og nægan aðgang að fjármagni voru tækifærin á hverju strái. Umsvif íslenskra fjárfesta erlendis vöktu athygli í fjármálageiranum og í fjölmiðlum, sérstaklega í Danmörku og á Bretlandi. Tímabilið í aðdraganda hruns var iðulega kallað góðærið. Það einkenndist m.a. af mjög örum hagvexti, mikilli lántöku bæði fyrirtækja og heimila og eignaverðsbólu sem birtist bæði á fasteignamarkaði og þó sérstaklega hlutabréfamarkaði.

Eignaverðsbólan ýtti undir áhættusækni íslenskra stjórnenda og var raunar einnig að nokkru leyti afleiðing hennar. Hækkun eignaverðs bjó til hagnað, a.m.k. á pappír, og hvatti til frekari eignakaupa sem hækkaði enn eignaverð. Skuldsett eignarhaldsfélög gátu skilað ævintýralegri ávöxtun eigin fjár á skömmum tíma. Það bjó til fyrstu milljarðamæringana í Íslandssögunni hvern á fætur öðrum. Lykillinn að velgengni var auðvelt aðgengi að lánsfé og þar skipti lykilmáli hverjir héldu um stjórnartaumana í bankakerfinu.“

Markaður verðlaunaði þá áhættusæknustu og bjó til jákvæða endurgjöf fyrir áhættusækni. Þannig var ýtt undir hana. Það var liður í því að búa til jákvæðan spíral þar sem áhættusækni bjó til eignaverðshækkun og þar með hagnað, og hagnaðurinn ýtti undir enn frekari áhættusækni og þannig koll af kolli. „Meðan lánsfé var aðgengilegt, ýmist búið til í bankakerfinu eða fengið að utan, hélt spírallinn áfram. Um leið og aðgengi að lánsfé varð erfiðara stöðvaðist spírallinn og snerist við.“

Tróðust hver um annan í leit að neyðarútgangi

Því fylgdi að lækkun á eignaverði leiddi til taps og lækkunar á eigin fé. Í greininni segir að fjárfestar hafi troðist hver um annan þveran í leit að neyðarútgangi en hvergi komist. „Skortur á erlendu lánsfé þýddi að engin leið var að breyta innlendum eignum í erlenda mynt til að greiða niður lán í slíkum myntum. Fyrir vikið bæði hríðlækkaði eignaverð í krónum og gengi krónunnar gagnvart erlendum myntum. Eigið fé sem hafði orðið til í jákvæða spíralnum gufaði upp enn hraðar en það hafði myndast. Rúmu ári eftir að lækkunarhrinan hófst hrundi fjármálakerfið. Eftir sat hnípin þjóð í vanda með hrunið fjármálakerfi, gjaldmiðil með litlu lífsmarki, haldið á floti með höftum, stóran hluta fyrirtækja landsins með ónýta efnahagsreikninga og fjármál heimila í uppnámi.“

Eftir hrunið hafi heyrst mjög greinilega raddir sem kölluðu á nýtt gildismat.  „Spillingu skyldi útrýmt, græðgin skyldi minnka, heiðarleiki skyldi verða ríkjandi í íslensku viðskiptalífi og þannig skyldi byggja traust upp að nýju, stjórnunarhættir skyldu breytast í atvinnulífinu. Haldinn var þjóðfundur árið 2009 þar sem fjöldi fólks tók þátt og sett voru fram gildi sem fólk vildi sjá í íslensku viðskiptalífi.“

Hefur eitthvað breyst?

Markmið greinar Ástu Dísar og Gylfa var að skoða hvort stjórnunarhættir íslenskra stjórnenda hafi breyst eftir efnahagshrunið 2008. Til að ná því markmiði voru spurningar sendar á íslenska stjórnendur sem allir eiga það sameiginlegt að hafa verið í stöðu stjórnenda fyrir og eftir hrunið árið 2008 og þekkja því vel til. Stjórnendum var heitið trúnaði og svör þeirra einungis sett fram eftir kyni og starfsvettvangi í greininni en ekki nafni. Stjórnendurnir 42 sem svöruðu komu úr i fjármálageiranum, verslun og þjónustu, flutninga-, fjarskipta-, fasteigna- og framleiðslustarfsemi, upplýsingatækni, heildsölu og flugtengdri starfsemi. 

Í niðurstöðukafla greinarinnar segir: „Þegar litið er til þess hvað hefur breyst í aðferðum stjórnenda frá því fyrir hrun birtust þrjú meginþemu í svörum stjórnendanna sem mynda niðurstöður rannsóknarinnar. Þau eru áhættusækni, hugtakið 2007 og hroki og ábyrgðarleysi.“

Þar segir enn fremur að stjórnendunum hafi verið tíðrætt um að ,,glamourinn“ væri kominn aftur í íslensku viðskiptalífi, boðsferðir og kampavín sem þóttu einkennandi árið 2007. „Þá nefndu stjórnendur að mikið hafi breyst strax eftir hrun og aðhaldssemi, uppsagnir og 2007 hegðun eins og að þiggja boð í veiði hafi verið tabú. En að ástandið væri annað í dag, ,,Adam var ekki lengi í helvíti” og allt væri komið á fulla ferð aftur, að ástandinu svipaði að sumu leyti til þess sem hefði verið fyrir hrun. Þetta töldu stjórnendur að mætti greina á boðum í utanlandsferðir og á launaþróun, að bankastjórar og stjórnendur stærstu fyrirtækja væru aftur komnir með ofurlaun.[...]Þá nefndu stjórnendur að fjárfestar væru farnir að söðla undir sig stöndug félög sem bjargað var eftir hrunið og svipað ferli væri í gangi og fyrir hrun ,,Það koma einhverjir misgáfulegir fjárfestar og reyna að söðla undir sig banka og tryggingafélög“. Rannsóknir sem byggja á efnahagsreikningum fyrirtækja sýna að skuldsetning var árið 2014 orðin svipuð og á árunum fyrir hrun[...]og samræmist því sem fram kom í svörum stjórnenda.“

Áhættusækni og hroki að aukast

Höfundar greinarinnar setja þann fyrirvara að það sé ekki hægt að alhæfa neitt um aðferðir íslenskra stjórnenda fyrir eða eftir hrun, en að svör stjórnendanna við spurningum þeirra veiti ákveðna innsýn og gefi vísbendingar um að margt hafi breyst en þó sé ýmislegt á svipuðum nótum og fyrir hrunið, bara ekki eins sýnilegt og áður.

Í grein Ástu Dísar og Gylfa segir að rannsóknir á einkennum og aðferðum íslenskra stjórnenda á árunum fyrir hrun hafi bent til þess að þeir væru áhættusæknir og fljótir að taka ákvarðanir. Sjálfstraustið hafi verið mikið og það jafnvel birst í hvatvísi auk þess sem það virtist vera skortur á langtímastefnumótun. Því skoðuðu þau hvort þessi einkenni væru enn til staðar eða hvort aðferðir stjórnenda hefðu breyst. „Í ljós kom að stjórnendur í íslensku atvinnulífi eru sammála um að margt hafi breyst í stjórnunarháttum frá því fyrir hrun, óttinn við mistök hafi verið alls ráðandi í atvinnulífinu eftir hrunið en tíu árum síðar séu hlutirnir að nálgast ört það sem áður var, þó hugsanlega sé aðeins meiri varkárni í ákvarðanatöku, meira regluverk og formfesta og meiri áætlanagerð en var.“

Stjórnendurnir sögðu einnig að áhættusækni og hroki væri meiri en var fyrst eftir hrun. „Ég á þetta, ég má þetta er eitthvað sem stjórnendur telja að sjáist nú meira bæði í viðskiptalífi og í stjórnmálum.“

Í greininni er auk þess bent á að nýjar valdablokkir virðist vera að myndast í íslensku viðskiptalífi með kunnuglegum aðalpersónum. „Fréttir af fjárfestingarsjóðum í vandræðum eftir að hafa flogið hátt um skeið vekja líka misljúfar minningar og aukinn þrýstingur er á veikara regluverk. Allt eru þetta kunnugleg hugtök frá þjóðmálaumræðunni fyrir áratug. Þótt staðan sé engan veginn sambærileg og árið 2008 þá virðist ljóst að rússíbanareiðum íslensks efnahagslífs er ekki lokið.“

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar