EPA

Fordæmalausir fólksflutningar undir blóðrauðum himni

„Hræðilegur dagur“ er í uppsiglingu í Ástralíu þar sem gríðarlegir gróðureldar hafa geisað mánuðum saman. Tugþúsundum hefur verið gert að yfirgefa heimili sín.

Himinninn er brúnn eða appelsínugulur. Stundum blóðrauður. Vart sést til sólar. Eldtungur teygja sig upp úr gríðarlegu eldhafi í allt að sjötíu metra hæð. Reyk leggur yfir borgir og bæi og fólk og dýr á fótum sínum fjör að launa. Ekki hefur þó öllum tekist að flýja. Og enn á ástandið eftir að versna.   

„Þetta eru skelfilegar náttúruhamfarir sem að miklu leyti eru af mannavöldum. Ég tel það skýrt að veðurfarsbreytingar og hlýnun jarðar, og þá sérstaklega í þessum heimshluta, eiga þátt í því að breiða út eldana.“

Þetta segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur í samtali við Kjarnann um gróðureldana miklu í Ástralíu sem hafa þegar kostað átján manns lífið, þar af þrjá slökkviliðsmenn og 28 er enn saknað. Eldarnir hafa einnig valdið gríðarlegu eignatjóni og eyðilagt yfir 1.200 heimili. Þá eru þeir taldir hafa grandað um 500 milljónum dýra, m.a. þúsundum kóalabjarna. 

Stjórnvöld í Nýja Suður-Wales, fjölmennasta fylki landsins, hafa lýst yfir neyðarástandi næstu vikuna og fyrirskipað tugþúsundum að yfirgefa svæði, jafnvel heilu bæina, þar sem ógnin er hvað mest. Þeir fólksflutningar eiga sér ekki hliðstæðu á þessum slóðum. Herinn undirbýr einnig að flytja um 4000 manns, sem orðið hafa innlyksa í eldunum, frá Viktoríufylki.

Fleiri þúsund manns hafa setið fastir tímunum saman í margra kílómetra löngum röðum bíla á vegum frá rýmingarsvæðunum. Von er á hærri hita og hvassari vindi um helgina og farið er að bera á skorti á nauðsynjavörum í bæjum sem hafa einangrast milli eldanna. Í Nýja Suður-Wales hafa eldar logað á um níutíu stöðum samtímis, svo dæmi sé tekið.

Yfirvöld í fylkinu hafa nú leyfi til að þvinga rýmingar, loka vegum og „alls annars sem við þurfum að gera til að tryggja öryggi íbúa og eigna,“ sagði fylkisstjórinn Gladys Berejiklian er ákvörðun um að lýsa yfir neyðarástandi var tekin. „Þessar ákvarðanir eru ekki teknar af léttúð en við viljum gera allt sem við getum til að undirbúa laugardaginn sem gæti orðið hræðilegur dagur.“

Hræðilegur dagur í nánd. Margir hræðilegir dagar eru þegar að baki. 

En á morgun, laugardag, mun enn draga til tíðinda. Andrew Contance, samgönguráðherra Nýja Suður-Wales, líkir ástandinu sem von er á um helgina við málmbræðsluofn.

Svæði á stærð við hálft Ísland brunnið   

Eldarnir kviknuðu í ástralska vorinu í september og hafa víða færst í aukana. Síðan þá hefur gróður á landsvæði á stærð við hálft Ísland brunnið, m.a. skógar sem hingað til hafa sloppið í slíkum hamförum.

Skógareldar eru nefnilega árlegir í Ástralíu. Ástralar vita því að vorinu geta fylgt eldar. Þeir fylgjast með fréttum og varpa svo öndinni léttar þegar fregnir berast af því að búið sé að ná tökum á eldunum. En þetta sumarið hefur sú frétt látið á sér standa. Og rigningin sömuleiðis.

Ástralar eru líka vanir því að gróðurinn taki fljótt við sér. Hröð endurnýjun skóga tröllatrjánna (eucalyptus) er um margt óvenjuleg. En eldarnir nú æða um forna skóga í fyrsta sinn og talið er ólíklegt að þeir nái sér nokkurn tímann.

Reykurinn er líka þykkari en Ástralar eiga að venjast. Í borgunum hefur hann legið yfir strætum og torgum dögum saman. Reykurinn er svo þykkur að hann sést vel á gervitunglamyndum. Myndir af fólki á ströndinni, ekki að sóla sig heldur flýja eldana, segja sína sögu. Dæmi eru um að fjölskyldur hafi orðið innlyksa milli hafs og elda í sólarhring áður en hjálp barst. 

Margt minnir á atriði úr hamfaramyndinni On the Beach sem tekin var í Melbourne fyrir sextíu árum. „Ava Gardner, Gregory Peck og Fred Astaire voru í aðalhlutverkum í On the Beach,“ rifjar David Marr, blaðamaður Guardian í Ástralíu, upp. „Í endurgerðinni erum við aðalstjörnurnar.“ 

Milljónir dýra hafa drepist í eldunum og búsvæði fjölmargra eru rústir einar.
EPA

Þetta sumarið hafa gróðureldar logað í öllum fylkjum landsins þó að Nýja Suður-Wales og Viktoría hafi orðið verst úti. Stærstu borgirnar, m.a. Melbourne og Sydney, hafa ekki farið varhluta af ástandinu enda logar í gróðri skammt utan þeirra. Þykkur reykur hefur lagst yfir þær vikum saman og í byrjun desember var loftmengun í Sydney langt yfir hættumörkum. Í síðustu viku voru loftgæðin í höfuðborginni Canberra sögulega slæm og hættuleg heilsu fólks.

Eldarnir eru misjafnir að umfangi. Sumir eru staðbundnir, loga á litlum svæðum og eru slökktir fljótt en aðrir eru gríðarmikil eldhöf á mörgum hekturum lands sem logað hafa mánuðum saman. Eldtungurnar hafa náð allt að sjötíu metra hæð, svipaðri hæð og Hallgrímskirkjuturn.

Hið ástralska sumar er ávallt heitt og þurrt og við slíkar aðstæður kvikna eldar auðveldlega. Oftast kvikna þeir af náttúrulegum orsökum, t.d. þegar eldingum lýst niður í þurrt skóglendi. Vindar eiga það svo til að bera með sér glæður langar leiðir og breiða þannig út bálið. Eldarnir hafa oftsinnis verið mannskæðir í sögu landsins. Árið 2009 létust 173 í Viktoríu-fylki sem er mesta manntjón sem orðið hefur í gróðureldum í heiminum.

En eldarnir nú eru af nokkuð öðrum toga. Aðstæður hafa skapast sem eiga sér vart hliðstæðu og hafa gert slökkviliðum landsins sérlega erfitt fyrir. Nú geisa langvarandi þurrkar og ástralska vorið í ár er það þurrasta frá því mælingar hófust. Ofan á þetta bættist svo hitabylgja i desember. Hæstur varð hitinn þann 18. þess mánaðar eða 41,9°C. Aldrei fyrr hafa slíkar hitatölur mælst í Ástralíu.  Þá hafa vindar blásið af krafti og þannig hafa eldar og reykur breiðst hraðar út. 

Einar segir í raun ótrúlegt að manntjón hafi ekki verið meira en minnir á að margir hafi orðið fyrir miklum búsifjum. Stórar vínekrur hafa t.d. orðið alelda. „Svo er það þessi ótti og hræðsla meðal fólks sem fylgir þessu.“

Sérfræðingar hafa lengi haldið því fram að loftslagsbreytingar af mannavöldum ýti undir náttúruhamfarir á borð við gróðurelda og flóð og sagt að meiri veðuröfgar séu þegar farnar að eiga sér stað. Síðustu árin hafa skógareldar í Ástralíu kviknað fyrr en áður þekktist og breiðst hraðar út og af meiri ofsa.  „Almennt séð, vegna hækkandi hita af mannavöldum, þá hafa veðurfarsbeltin verið að færast til,“ útskýrir Einar. „Birtingarmynd loftslagshlýnunar er að koma fram á meginlöndum suðurhvels jarðar. Á norðurhveli sést hún frekar í kringum heimskautasvæðin þar sem jöklar hafa bráðnað hratt síðustu árin.“

Að sögn Einars eru nokkrar ástæður fyrir því að á Ástralía verður harkalega fyrir barðinu á loftslagsbreytingum. Ein skýringin er sú að suðurhvel jarðar er hafhvelið, þar eru hafsvæðin yfirgnæfandi og hafa meiri áhrif en á norðurhveli. „Frávik sem verða í sjónum, til dæmis miklir hitar sem hafa verið í Indlandshafi, valda því meðal annars að vesturhluti Suður-Afríku þornar upp á meðan það er meiri úrkoma í austurhlutanum. Svipað er ástatt um suðurhluta Suður-Ameríku. Og svo í Ástralíu hafa veðurfarsbeltin verið að færast til og þau svæði sem þegar eru mjög þurr verða ennþá þurrari.“

En vísindamenn og stjórnmálamenn eru ekki sammála um hvað sé að eiga sér stað. Jú, eldarnir eru miklir, en það hafa þeir nú verið áður, fullyrða þeir síðarnefndu. 

Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu, var harðlega gagnrýndur er hann fór í jólafrí til Hawaii á meðan jörð brann í heimalandinu. Staðgengill hans í embætti, Michael McCormack, sagði á þeim tímapunkti við þjóðina: „Við höfum áður séð svona reyk. Við höfum áður séð gróðurelda.“ Sami tónn var í nýársávarpi Morrisons. Þar sagði hann að fyrri kynslóðir Ástrala, þar á meðal frumbyggjar álfunnar, hefðu einnig staðið andspænis náttúruhamförum; flóðum, eldum og þurrkum. „Við höfum áður staðið frammi fyrir svona áföllum og við höfum sigrast á þeim. Það er hinn ástralski andi.“

Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu, hefur ekki átt sjö dagana sæla upp á síðkastið.
EPA

Stjórn hans hefur verið gagnrýnd fyrir að bregðast ekki við loftslagsvánni. Í nýársávarpi sínu gaf hann lítið fyrir tillögur Verkamannaflokksins og Græningja í þeim efnum og sagði: „Við munum ekki eyðileggja lífsviðurværi Ástrala með því að taka upp ábyrgðarlaus markmið sem munu hækka raforkuverð [...] eða með því að snúa baki við hefðbundnum atvinnugreinum [m.a. kolavinnslu].“

Því eldar hafa jú logað áður. Og Ástralar hafa áður sigrast á þeim. Ekkert óvenjulegt þar á ferð, að mati hinna pólitísku leiðtoga.

Einar er þessu ósammála. „Þetta er sannarlega óvenjulegt ástand. En þetta er líka pólitískt hitamál í Ástralíu, þar er búið að rugla almenning í ríminu. Stjórnvöld í Ástralíu eru í fullkominni afneitun á þessu orsakasamhengi sem smitast auðvitað út til landsmanna.“

Ýmislegt bendir til þess að ástralska sumarið nú sé vissulega frábrugðið öðrum.

Landsvæðið sem hefur orðið eldi bráð er t.d. mun stærra en síðustu ár. Í Nýju Suður-Wales hefur eldur logað á meira en 3,4 milljónum hektara lands nú þegar, samanborið við um 280 þúsund hektara að meðaltali á undangengnum árum. 

Eldarnir loga líka víðar og á öðrum svæðum en oft áður. Þá má nú finna austar og á þéttbýlli svæðum en t.d. eldarnir miklu árið 1974.

Áhrif á dýraríkið hafa verið gríðarleg. Óttast er að um 8.000 kóalabirnir hafi þegar drepist. Margir birnir hafa auk þess særst og misst heimkynni sín. Kóalabirnir áttu fyrir undir högg að sækja og hamfarirnar nú auka á hættu á útrýmingu þeirra á ákveðnum svæðum. Vistfræðingar við Háskólann í Sydney telja að um 480 milljónir spendýra, fugla og skriðdýra hafi drepist frá því eldarnir kviknuðu í september.

Eldar hafa logað í öllum fylkjum Ástralíu en mestir hafa þeir verið á suðausturströndinni. Kortið sýnir elda sem loga í rauðum lit en elda sem slökktir hafa verið í gulum lit.
myfirewatch.landgate.wa.gov.au

David Bowman, sérfræðingur við Háskólann í Tasmaníu, bendir svo á að efnahagslegra áhrifa hamfaranna sé farið að gæta. „Það er ekki hægt að halda uppi eðlilegu efnahagslífi þegar þriðjungur, jafnvel helmingur þjóðarinnar, hefur orðið fyrir áhrifum reyks og fjölmiðlar einblína á eldana. Ég veit ekki af hverju einhver vill halda því fram að eldar sem þessir hafi áður átt sér stað. Það er áhyggjuefni þar sem það heftir aðlögunina. Fyrsta skrefið í því að takast á við elda sem þessa er að viðurkenna umfang vandans.“

Margir ferðamannastaðir eru rjúkandi rústir og augljóst að áhrif hamfaranna á ferðaþjónustuna verða gríðarleg. Yfirvöld hafa rýmt nokkra ferðamannastaði, m.a. þjóðgarða og strandbæi, sem á þessum árstíma eru yfirleitt iðandi af ferðamönnum. 

Eldtungurnar hafa náð allt að sjötíu metra hæð.
EPA

Ástralar, landið ykkar er að brenna

„Ég er loftslagsvísindamaður í fríi í Blue Mountains [í Ástralíu] að fylgjast með áhrifum loftslagsbreytinga, skrifar Michael J. Mann í grein í The Guardian undir yfirskriftinni: „Ástralar, landið ykkar er að brenna – hættulegar loftslagsbreytingar eru að eiga sér stað hér og nú.“

Mann er einn þekktasti vísindamaður heimsins á sviði loftslagsfræða og er prófessor við háskólann í Pennsylvaniu í Bandaríkjunum. Hann stundar nú rannsóknir í Ástralíu og var í fríi ásamt fjölskyldu sinni í Blue Mountains, fjallasvæði vestur af Sydney, er eldar kviknuðu þar.

Hann gagnrýnir forsætisráðherra landsins harðlega fyrir að sofa á verðinum og vitnar í þekkt lag áströlsku hljómsveitarinnar Midnight Oil, Beds are burning. Lagið sem hann naut að hlusta á fyrir nokkrum áratugum hafi nú fengið algjörlega nýja merkingu.

„Brúnn himinninn sem ég upplifði í Blue Mountains í þessari viku er afurð loftslagsbreytinga af mannavöldum,“ skrifar hann. „Taktu methita, blandaðu honum saman við fordæmalausan þurrk á þegar þurrum svæðum og útkoman er fordæmalausir gróðureldar líkt og þeir sem gleypt hafa Blue Mountains og breiðst út um alla álfuna. Þetta er ekki flókið.“

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar