Mynd: 123rf.com

Peningaþvættisvarnir stóðust prófið fyrir nokkrum árum en féllu á því í fyrra

Fjármálaeftirlitið framkvæmdi athugun á peningaþvættisvörnum allra viðskiptabanka fyrir nokkrum árum. Niðurstöður voru birtar 2016 og 2017. Þær sögðu að staðan væri í lagi. Í fyrra voru birtar nýjar niðurstöður, eftir nýjar athuganir. Þar komu fram margvíslegar brotalamir, sérstaklega um að upplýsingar um raunverulega eigendur félaga eða fjármuna hafi almennt verið metnar með sjálfstæðum hætti.

Á árunum 2016 og 2017 birti Fjármálaeftirlitið niðurstöðu athugunar sinnar á peningaþvættisvörnum allra íslensku viðskiptabankanna. Niðurstaðan var að verklag þeirra við að kanna með áreiðanlegum hætti hvort að upplýsingar sem gefnar væru um viðskiptavini bankanna, og uppruna fjármuna þeirra, væri almennt viðunandi. Á heildina litið hafi aðgerðir allra bankanna uppfyllt þær kröfur sem lögin gerðu til þeirra.

Í fyrra voru birtar niðurstöður nýrra athugana á stöðu peningaþvættisvarna hjá öllum bönkunum fjórum: Íslandsbanka, Landsbanka, Arion banka og Kviku. í millitíðinni hafði Ísland fengið á sig áfellisdóm frá alþjóðlegu samtökunum Financial Action Task Force (FATF) fyrir að vera með verulega lakar varnir gegn peningaþvætti. Þrátt fyrir margháttaðar úrbætur tókst Íslandi ekki að laga þá stöðu nægilega hratt og í október 2019 var Ísland sett á gráan lista samtakanna. Á meðal þeirra úrbóta sem þurfti að ráðast í var setning nýrra heildarlaga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. 

Í þetta sinn sýndi niðurstaða athugana Fjármálaeftirlitsins, sem samkvæmt upplýsingum Kjarnans náði að minnsta kosti í einhverjum tilvikum til sömu tímabila og þær sem framkvæmdar voru fyrir nokkrum árum, fram á ýmiskonar brotalamir. Hjá öllum fjórum viðskiptabönkunum voru brotalamir í peningaþvættisvörnum þeirra, þótt þær séu mismunandi miklar. Innan þeirri allra skorti á að upplýsingar um raunverulega eigendur félaga eða fjármuna hafi almennt verið metnar með sjálfstæðum hætti. Tveir bankar eru í ríkiseigu en tveir eru skráðir á hlutabréfamarkað.

Íslandsbanki

Þann 16. febrúar 2016 birti Fjármálaeftirlitið niðurstöðu athugunar sinnar á peningaþvættisvörnum Íslandsbanka, sem hafist hafði 27. júlí 2015. Í athuguninni var kannað úrtak sjö lögaðila og sjö einstaklinga. Markmið hennar var að skoða hvort staðið hafi verið með viðunandi hætti að áreiðanleikakönnun, sem framkvæma skal við upphaf samningssambands, sem og hvort reglubundið eftirlit hafi átt sér stað í kjölfarið, sérstaklega með tilliti til þess hvort uppfærðra upplýsinga um viðskiptavini hafi verið aflað. 

Niðurstaðan var sú að almennt taldi Fjármálaeftirlitið að verklag Íslandsbanka væri í samræmi við þágildandi lög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og að bankinn uppfyllti þær kröfur sem til hans væru gerðar.

Ný vettvangsathugun Fjármálaeftirlitsins á Íslandsbanka, þar sem kannaðar voru peningaþvættisvarnir bankans, hófst í mars 2019. Niðurstaða lá fyrir í desember og niðurstaðan var birt á vef eftirlitsins seint síðasta föstudag fyrir jól 2019. 

Í henni kom fram að eftirlitið taldi tilefni til að gera athugasemdir við að í tveimur tilvikum hafi ekki verið skjalfest mat bankans á áreiðanleika upplýsinga og því var ekki sýnt fram á að upplýsingar um raunverulega eigendur hafi verið metnar með sjálfstæðum hætti. Þá gerði eftirlitið athugasemd við að skortur var á að upplýsingar um viðskiptamenn bankans væru uppfærðar reglulega. 

Fjármálaeftirlitið gerði ekki kröfu um úrbætur þar sem Íslandsbanki var þegar búinn að grípa til þeirra eftir að athugunin hófst, en áður en að niðurstaðan lá fyrir.

Fjármálaeftirlitið taldi hins vegar ekki tilefni til að gera athugasemdir við innri reglur og ferla, eftirlitskerfi vegna reglubundins eftirlits með samningssamböndum við viðskiptamenn, alþjóðlegra þvingunaraðgerða og einstaklinga í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla. Þá þótti ekki, miðað við valið úrtak, tilefni til að gera athugasemdir við framkvæmd áreiðanleikakannana hjá einstaklingum eða úrtak á skýrslum vegna rannsókna á grunsamlegum viðskiptum og tilkynningum til skrifstofu fjármálagreininga lögreglu. 

Landsbankinn

Fjármálaeftirlitið hóf athugun á peningaþvættisvörnum Landsbankans 23. júlí 2015. Markmið hennar var að skoða hvort staðið hefði verið með viðunandi hætti að áreiðanleikakönnun, sem framkvæma skal við upphaf samningssambands, sem og hvort reglubundið eftirlit hefði átt sér stað í kjölfarið, sérstaklega með tilliti til þess hvort uppfærðra upplýsinga um viðskiptavini hefði verið aflað.

Niðurstaðan var birt 15. janúar 2016. Í henni kom fram að kannað hefði verið úrtak sjö lögaðila og sjö einstaklinga. Af þeim var gerð athugasemd við verklag við könnun á áreiðanleika upplýsinga um viðskiptamenn hjá tveimur lögaðilum. Fjármálaeftirlitið fór fram á að Landsbankinn gerði viðeigandi úrbætur í kjölfar athugunarinnar en almennt taldi það að verklag bankans væri í samræmi við þágildandi lög og að á heildina litið hafi aðgerðir Landsbankans uppfyllt þær kröfur sem lögin gerðu til hans. Fjármálaeftirlitið réðst í nýja athugun á peningaþvættisvörnum Landsbankans í janúar 2019, eftir að niðurstaða áðurnefndar úttektar FATF lá fyrir. Þeirri athugun lauk í október sama ár en niðurstaðan var ekki birt á vef eftirlitsins fyrr en 20. desember, tveimur mánuðum síðar. 

Í niðurstöðu Fjármálaeftirlitsins nú voru gerðar nokkrar athugasemdir við peningaþvættisvarnir Landsbankans. Þar sagði að skortur hefði verið á skjalfestingu á mati á áreiðanleika upplýsinga og því var ekki sýnt fram á að upplýsingar um raunverulega eigendur hafi almennt verið metnar með sjálfstæðum hætti. 

Þá var könnun á áreiðanleika upplýsinga um raunverulega eigendur erlendra lögaðila almennt ábótavant. Skjalfestum verkferlum vegna framkvæmdar áreiðanleikakannana var líka ábótavant en einungis var um að ræða upptalningu á þeim upplýsingum og gögnum sem afla á, en ekki fjallað um þá könnun sem þarf að fara fram á þeim upplýsingum. 

Arion banki

Arion banki var líka skoðaður á árinu 2015. Sú athugun hófst 27. júlí það ár og henni lauk 12. janúar 2016 með birtingu niðurstöðu. Líkt og hjá ríkisbönkunum tveimur var markmiðið að skoða hvort staðið hafi verið með viðunandi hætti að áreiðanleikakönnun, sem framkvæma skal við upphaf samningssambands, sem og hvort reglubundið eftirlit hefði átt sér stað í kjölfarið, sérstaklega með tilliti til þess hvort uppfærðra upplýsinga um viðskiptavini hafi verið aflað.

Sjö lögaðilar og sjö einstaklingar voru skoðaðir og af þeim voru gerðar tvær athugasemdir við könnun á áreiðanleika upplýsinga um viðskiptamann. Farið var fram á úrbætur en að að öðru leyti taldi Fjármálaeftirlitið að verklag Arion banka væri í samræmi við lög. 

Í kjölfar þess að FATF gaf Íslandi falleinkunn var ráðist í nýja athugun á Arion banka. Hún hófst í október 2018 og niðurstaða lá fyrir í janúar 2019. Hún var þó ekki birt fyrr en 29. maí 2019,  rúmum fjórum mánuðum eftir að niðurstaða athugunarinnar lá fyrir. Það var gert að beiðni Arion banka sem vildi fá að bregðast við úrbótakröfum áður en niðurstaðan yrði gerð opinber. Bankinn segist hafa brugðist við öllum úrbótakröfum. 

Í athugun Fjármálaeftirlitsins á Arion banka kom meðal annars fram að bankinn hefði hefði ekki metið með sjálf­stæðum hætti hvort upp­lýs­ingar um raun­veru­lega eig­endur við­skipta­vina væru réttar og full­nægj­andi og að þær upp­lýs­ingar hafi ekki verið upp­færðar með reglu­legum hætti, líkt og lög um aðgerðir gegn pen­inga­þvætti og fjár­mögnun hryðju­verka gerðu ráð fyr­ir. Eft­ir­litið gerði einnig athuga­semd um að Arion banki hefði ekki sinnt rann­sókn­ar­skyldu sinni í til­viki erlends við­skipta­vin­ar, það taldi að reglu­bundið eft­ir­lit bank­ans með við­skipta­vinum hafi ekki full­nægt kröfum laga um aðgerðir gegn pen­inga­þvætti og fjár­mögnun hryðju­verka né að verk­lag í tengslum við upp­færslu á upp­lýs­ingum um við­skipta­vini hafi ekki verið full­nægt. Þá taldi Fjármálaeftirlitið að skýrslur Arion banka um grun­sam­legar og óvenju­legar færslur hefðu ekki verið full­nægj­andi.

Kvika banki

Fjármálaeftirlitið lauk fyrri athugun á Kviku banka í febrúar 2017. Í niðurstöðu þeirrar athugunar, sem er dagsett 14. mars 2017 og er ekki hálf blaðsíða að lengd, segir að í athuguninni hafi verið lögð sérstök áhersla á könnun Kviku á „áreiðanleika upplýsinga um viðskiptamenn sína, reglubundið eftirlit með samningssambandinu við viðskiptamenn, tilkynningarskyldu og þjálfun starfsfólks.“ 

Niðurstöður athugunarinnar hafi verið byggðar á upplýsingum og gögnum sem aflað var við athugunina og stöðunni eins og hún var á þeim tíma sem athugunin fór fram. Í niðurstöðunni segir að það hafi verið mat Fjármálaeftirlitsins að framkvæmd Kviku við könnun á áreiðanleika upplýsinga um viðskiptamenn sína, reglubundið eftirlit með þeim, tilkynningarskyldu og þjálfun starfsfólks væri almennt viðunandi. Nokkrar ábendingar hafi verið settar fram um atriði sem betur mætti fara. En heilt yfir stóðst Kvika banki prófið.

Tveimur árum síðar hóf Fjármálaeftirlitið aðra athugun sína á Kviku banka á nokkrum árum, nánar tiltekið í maí 2019, og henni lauk í desember sama ár. Í þetta sinn varð niðurstaðan allt önnur, þrátt fyrir að meðal annars sama tímabil hafi verið skoðað og í fyrri athuguninni. 

Samkvæmt niðurstöðunni telur Fjármálaeftirlitið að skortur hafi verið á skjalfestingu á mati á áreiðanleika upplýsinga og að innan bankans hafi ekki verið sýnt fram á að upplýsingar um raunverulega eigendur hafi almennt verið metnar með sjálfstæðum hætti. 

Þá segir í niðurstöðu eftirlitsins að öflun upplýsinga um raunverulega eigendur viðskiptavina sem komu upphaflega í viðskipti við Virðingu hf., sem síðan rann saman við önnur fjármálafyrirtæki til að mynda Kviku, hafi verið ófullnægjandi. „Í tveimur tilvikum sönnuðu viðskiptamenn ekki á sér deili við upphaf samningssambands,“ segir í niðurstöðunni.

Kerfi Kviku vegna reglubundins eftirlits með samningssambandi við viðskiptamenn var ófullnægjandi en þess er getið í niðurstöðu Fjármálaeftirlitsins að bankinn hafði hafið innleiðingu á nýju kerfi þegar athugunin fór fram. Að endingu var það einnig niðurstaða eftirlitsins að skortur væri á að upplýsingar um viðskiptamenn bankans væru uppfærðar reglulega.

Fjármálaeftirlitið taldi hins vegar ekki tilefni til að gera athugasemdir við innri reglur og ferla, eftirlitskerfi vegna alþjóðlegra þvingunaraðgerða og einstaklinga í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla eða úrtak á skýrslum vegna rannsókna á grunsamlegum viðskiptum og tilkynningum til skrifstofu fjármálagreininga lögreglu.

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar