Mynd: Mannlíf

Nýtt Ísland og nýjar valdablokkir

Á Íslandi er að finna ansi kröftugar fjárfestingablokkir einkafjárfesta sem hafa verið að láta á sér kræla í fjárfestingum í atvinnulífinu. Og hafa getu til að gera enn meira.

Á árunum 2012 til 2018 átti sér stað mesta efnahagslega uppsveifla í Íslandssögunni. Hún var að grunni til sköpuð með fjármagnshöftum. Gjaldeyrir flæddi inn í landið, ekki síst frá erlendum ferðamönnum, en lítið sem ekkert úr landinu á sama tíma vegna hafta. 

Peningarnir sem voru fastir innan hafta voru að uppistöðu í eigu lífeyrissjóða, fagfjárfesta á borð við tryggingafélaga og erlendra aðila sem höfðu annað hvort verið festir inni með haftauppsetningu eða valið að fjárfesta í kröfum á fallin íslensk fyrirtæki og banka með von um óðahagnað. Fjármunir þessara aðila flæddu því inn í íslenskar fjárfestingar.

Þegar höftunum var lyft, sem gerðist að stærstu leyti vorið 2017, gátu fagfjárfestarnir farið með fjármuni sína í annarskonar fjárfestingar. Það hafa þeir margir hverjir gert. Lífeyrissjóðir landsins hafa verið að taka fjármuni úr virkri stýringu hjá verðbréfasjóðum til að fjárfesta meira erlendis og erlendu fjárfestingasjóðirnir hafa minnkað nær allar stöður sínar nema í Marel og Arion banka. Lítill sem enginn áhugi virðist vera erlendis frá á mikilli fjárfestingu hérlendis, eins og sást ljóslega þegar bindiskylda var lækkuð niður í núll fyrr á þessu ári, aðgerð sem var til þess fallinn að reyna að örva erlenda fjárfestingu. Síðan að það var gert hefur erlend fjárfesting verið minni en hún var á sama tíma í fyrra. Þetta er hið nýja Ísland. 

Eftir stendur markaður sem þarf þá virkilega á nýju blóði að halda en virðist í erfiðleikum með að trekkja að nýja fjárfestingu. Hér innanlands er hins vegar að finna ansi kröftugar fjárfestingablokkir einkafjárfesta sem hafa verið að láta á sér kræla í fjárfestingum í atvinnulífinu. Og hafa getu til að gera enn meira. 

Stærstu leikendurnir í íslensku viðskiptalífi:

Stoðir

Umsvifamesti einkafjárfestirinn á hlutabréfamarkaðnum í dag er gamalkunnur: Stoðir. Félagið hét áður FL Group og var meðal annars stærsti eigandi Glitnis banka fyrir hrun. 

Félagið fór í greiðslu­stöðvun þegar sá banki fór á haus­inn og kröfu­hafar þess tóku það yfir. Vorið 2017 keyptu svo félög, í eigu stórra hlut­hafa í TM sem voru margir hverjir lyk­il­­menn í FL Group á árunum fyrir hrun, ráð­andi hlut í Stoð­u­m.

Þá áttu Stoðir ein­ungis eina eign af viti sem átti eftir að vinna úr, hlut í hol­lenska drykkj­­ar­vöru­fram­­leið­and­­anum Refresco. Sá hlutur var seldur í mars 2018 eftir yfir­tökutil­boð og eftir sátu um 18 millj­arðar króna í Stoð­um. Þeir fjár­munir hafa verið not­aðir í fjár­fest­ingar á und­an­förnum miss­er­um.Jón Sigurðsson, stjórnarformaður Stoða.

Eigið fé Stoða var 23,2 millj­arðar króna í lok júní síð­ast­lið­ins. Hluthafar Stoða eru 54 talsins. Stærstu hluthafarnir eru S121 ehf. (64,5 prósent), Landsbankinn og sjóðir í stýringu Stefnis, sjóðstýringafyrirtækis Arion banka.

Stærstu endanlegu eigendur S121 hafa margir tengsl við gamla FL Group, annað hvort störfuðu þar eða sátu í stjórn. Má þar nefna félög tengd Magnúsi Ármann, sem var hluthafi í FL Group og sat í stjórn félagsins, Örvari Kjærnested, sem var yfir starfsemi FL Group London fyrir hrun, og Bernhard Bogasyni, fyrrverandi framkvæmdastjóri lögfræðisviðs FL Group. Þá á Einar Örn Ólafsson, fyrrverandi forstjóri Skeljungs, líka stóran hlut. 

Auk þess á eiginkona Jóns Sigurðssonar, fyrrverandi forstjóra FL Group/Stoða og núverandi stjórnarformanns Stoða, og fjölskylda hennar stóran hlut. Með Jóni í stjórninni sitja Sig­­ur­jón Páls­­son og Örvar Kjærnested. Fram­­kvæmda­­stjóri félags­­ins er Júl­­íus Þor­finns­­son.

Helstu eignir Stoða eru 4,96 prósent hlutur í Arion banka, 14,05 prósent hlutur í Símanum og 9,97 prósent hlutur í tryggingafélaginu TM. Stoðir eru stærsti einstaki eigandinn í bæði Símanum og TM, og langstærsti íslenski einkafjárfestirinn í Arion banka. Örvar og Einar Örn sitja báðir í stjórn TM, og Jón Sigurðsson sækist nú hart eftir því að komast í stjórn Símans. 

Samherji

Sjávarútvegsrisinn er þekktastur fyrir umfang sitt í þeim geira, enda stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins. Samherja-samstæðan á alls 7,1 prósent af úthlutuðum kvóta hérlendis beint. Síld­ar­vinnslan heldur svo á 5,3 pró­sent allra afla­heim­ilda, en hún er í 44,6 pró­sent eigu Sam­herja auk þess sem Kald­bak­ur, félag í eigu Sam­herja, á 15 pró­sent hlut í öðru félagi sem á 5,3 pró­sent hlut í Síld­ar­vinnsl­unni. 

Berg­ur-Hug­inn er síðan með 2,3 pró­sent kvót­ans en það er að öllu leyti í eigu Síld­ar­vinnsl­unn­ar. Þá er ótalið Útgerð­ar­fé­lag Akur­eyr­inga, sem heldur á 1,3 pró­sent kvót­ans, og er að öllu leyti í eigu Sam­herja. Sam­an­lagt er afla­hlut­deild þess­ara félaga 16 pró­sent. Auk þess á Samherji vitanlega umfangsmikla sjávarútvegsstarfsemi í Evrópu og Afríku. 

Samherja-samstæðan ,sem samanstendur af tveimur félögum, átti eigið fé upp á 110,7 milljarða króna í lok síðasta árs og því í mjög góðri stöðu til að láta líka vel til sín taka á íslenskum hlutabréfamarkaði þegar tækifæri opnast. Það hefur hún gert nokkrum sinnum nú þegar.

Kristján Vilhelmsson og Þorsteinn Már Baldvinsson.
Mynd: Samherji

Sam­herji hf. keypti stóran hlut í Olís fyrir nokkrum árum. Það félag rann síðan saman við smásölurisann Haga og í kjölfarið eignaðist Samherji alls 9,26 prósent hlut í Högum. Í síðustu viku var greint frá því að Samherji hefði selt helming hlutabréfa sinna í Högum og að eftir viðskiptin standi eignarhlutur samstæðunnar í 4,22 prósentum. 

Sam­herji Holding er líka stærsti ein­staki eig­andi hluta­bréfa í Eim­­skip, með 27,1 pró­­sent eign­­ar­hlut. Bald­vin Þor­­­steins­­­son, fram­­kvæmda­­stjóri við­­skipta­­þró­unar hjá samstæðunni, er stjórn­­­ar­­for­­maður Eim­­skips og í jan­úar í ár var Vil­helm Már Þor­­steins­­son, frændi hans, ráð­inn sem for­­stjóri skipa­­fé­lags­ins. 

Helstu eig­endur og stjórn­endur Sam­herja eru frænd­­­­urn­ir, for­­­­stjór­inn Þor­­­­steinn Már Bald­vins­­­­son og útgerð­­­­ar­­­­stjór­inn Krist­ján Vil­helms­­­­son. Þeir eiga sam­tals 65,4 pró­sent í sam­stæð­unni. Helga S. Guð­munds­dótt­ir, fyrr­ver­andi eig­in­kona Þor­steins Más, á 21,3 pró­sent. 

Auk þess er SVN eignafélag, félag í eigu Síldarvinnslunnar, lang stærsti einkafjárfestirinn í Sjóvá með 13,97 prósent hlut. Samherji á 44,6 prósent í eigu Samherja auk þess sem Kald­bak­ur, félag í eigu Sam­herja, á 15 pró­sent hlut í öðru félagi sem á 5,3 pró­sent hlut í Síld­ar­vinnsl­unni. Þor­steinn Már er stjórn­ar­for­maður Síld­ar­vinnsl­unn­ar. 

Þá er Samherji líka stór eigandi í Jarðborunum í gegnum Kaldbak ehf. 

Kaupfélag Skagfirðinga

Kaupfélag Skagfirðinga, samvinnufélag með um 1.600 félagsmenn, er risafyrirtæki á íslenskan mælikvarða. Þórólfur Gíslason, kaupfélagsstjóri, hefur leitt félagið um árabil sem forstjóri og var afkoma félagsins á árinu 2018 sú besta í 130 ára sögu félagsins. Uppbygging kaupfélagsins hefur verið verulega umfangsmikil á undanförnum árum, en í lok árs í fyrra var eigið fé félagsins rúmlega 35 milljarðar og heildareignir námu 62,3 milljörðum króna. 

Kaup­fé­lag Skag­firð­inga á FISK Seafood, sem heldur á 5,3 pró­sent heild­ar­kvót­ans. FISK á 32,9 pró­sent í Vinnslu­stöð­inni í Vest­manna­eyjum sem er með fimm pró­sent heild­ar­afla­hlut­deild. Þá eign­að­ist FISK allt hlutafé í Soff­an­ías Cecils­son hf. síðla árs 2017, en það fyr­ir­tæki heldur á um 0,3 pró­sent kvót­ans. Sam­tals nemur heild­ar­kvóti þess­ara þriggja ótengdu aðila 10,6 pró­sent. 

Kaupfélagið hefur tekið þátt á skráðum hlutabréfamarkaði, meðal annars með því að eiga um tíma hlut í bæði Högum og Brim. Þá á Kaupfélag Skagfirðinga 20 prósent hlut í Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins. 

Útgerðarfélag Reykjavíkur

Brim er eina félagið sem skráð er í Kauphöll sem á kvóta. Alls fer það með 10,4 pró­sent af öllum kvóta sem úthlutað hefur verið. Stærsti eig­andi Brim er Útgerð­ar­fé­lag Reykja­vík­ur, sem á allt að 56 pró­sent hlut í því félagi. Það félag var 1. sept­em­ber síð­ast­lið­inn með 3,9 pró­sent af öllum úthlut­uðum kvóta. Auk þess var félagið Ögur­vík með 1,3 pró­sent afla­hlut­deild. Stærstu ein­stöku eig­endur þess eru Guð­mundur Krist­jáns­son, aðal­eig­andi Útgerð­ar­fé­lags Reykja­víkur og for­stjóri Brims, og tvö systk­ini hans með sam­an­lagðan 36,66 pró­sent end­an­legan eign­ar­hlut.

Sam­an­lagður kvóti þess­ara þriggja félaga var því 15,6 pró­sent í byrjun sept­em­ber síð­ast­lið­ins. Útgerðarfélagið hefur einbeitt sér að fjárfestingum innan síns geira og á líka 1,96 prósent hlut í Iceland Seafood, sem var skráð á markað fyrir nokkrum vikum. 

Guðmundur Kristjánsson í Brimi.
Mynd: Brim

Eignir Útgerðarfélags Reykjavíkur voru metnar á 59,7 milljarða króna um síðustu áramót og eigið fé þess 27,3 milljarðar króna.

Eyrir Invest

Eigið fé var 366 milljónir evrur um síðustu áramót. Á gengi dagsins í dag er það 50,4 milljarðar króna í íslenskum krónum. Langstærsta eign félagsins er Marel, en Eyrir Invest á 24,69 prósent hlut í því langstærsta félagi í íslensku Kauphöllinni. Marel var líka skráð í Kauphöllinni í Amsterdam fyrr á þessu ári.  Bréf í Marel hafa hækkað um 59 prósent á þessu ári og markaðsvirði félagsins er nú 453 milljarðar króna. Miðað við það er eignarhlutur Eyris Invest í Marel 111,8 milljarða króna virði. Eign Eyris Invest var metin á 72,6 milljarða króna um síðustu áramót.

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel.
Mynd: Marel

Stærstu eigendur Eyris Invest um síðustu áramót voru feðgarnir Þórður Magnússon (20.6 prósent) og Árni Oddur Þórðarson (17,9 prósent), en Árni Oddur er einnig forstjóri Marel. 

Hvalur ehf.

Hinn 18. apríl var tilkynnt um það að Útgerðarfélag Reykjavíkur hefði keypt rúmlega þriðjungshlut í HB Granda af félögunum Vogun hf. og Fiskveiðifélaginu Venusi fyrir 21,7 milljarða króna, en viðskiptin voru formlega frágengin í byrjun maí. Hvalur hf. er eigandi Vogunar en Venus á 43 prósent hlut í Hval hf. Eigendur Venusar eru Kristján Loftsson og Birna Loftsdóttir.

Samkvæmt ársreikningi Hvals fyrir árið 2018 var eigið fé þess 26,5 milljarðar króna í lok þess árs. Hvalur er meðal annars stærsti einstaki eigandi Origo (11 prósent) og á 1,45 prósent hlut í Arion banka. Þá keypti Hvalur fyrir einn milljarð króna í Marel í byrjun árs, en sú fjárfesting hefur margborgað sig.  Auk þess er Hvalur langstærsti hluthafinn í Hampiðjunni. 

Kristján Loftsson.
Mynd: Úr safni

Hvalur hf. rekur líka hval­­stöð­ina í Hval­­firði, gerir út hval­veið­i­­­skip og vinnur afurð­irn­­ar. Sá hluti starfseminnar hefur skilað miklu tapi árum saman. 

Aðrir stórir leikendur

Töluvert hefur farið fyrir hópnum sem ráðið hefur í tryggingafélaginu VÍS á undanförnum árum. Þar er um að ræða hjónin Svanhildi Nönnu Vigfúsdóttur og Guðmund Örn Þórðarson, sem eiga 7,25 prósent hlut í VÍS, 6,93 prósent í Kviku banka og hlut í Kortaþjónustunni í gegnum félag sitt K2B ehf. Innan VÍS hafa þau myndað blokk með nokkrum öðrum einkafjárfestum, meðal annars Óskabeinshópnum, sem á 2,48 prósent í VÍS, og er í eigu Gests Breiðfjörð Gests­son­ar, Sig­urðar Gísla Björns­son­ar, Andra Gunn­ars­sonar og Fann­ars Ólafs­son­ar. 

Brimgarðar, félag í eigu systkinanna Eggerts Árna, Guðnýjar Eddu, Gunnars Þórs og Halldórs Páls Gíslabarna, er nokkuð umfangsmikið í skráðum eignum, sérstaklega í fasteignafélögum. Það á í Eik (6,9 prósent), Reitum (2,1 prósent), í Reginn (2,73 prósent) og Heimavöllum (3,01 prósent). Brimgarðar hafa líka átt hlut í Icelandair. Eigið fé Brimgarða nam 2.959 milljónum króna í lok síðasta árs en á sama tíma átti félagið eignir upp á 10.998 milljónir króna.

Snæból er fjárfestingafélag í jafnri eigu hjónanna Finns Reyrs Stefánssonar og Steinunnar Jónsdóttur. Það á stóran hlut í Sjóvá (8,64 prósent), í Heimavöllum (7,47 prósent) auk þess sem það á þrjú prósent hlut í Eyri Invest, stærsta eiganda Marel. Alls átti Snæból um tíu milljarða króna í eigin fé um síðustu áramót.

Félagið Stormtré er að stærstu leyti í eigu Hreggviðs Jónssonar. Það er aðaleigandi Veritas Capital sem á meðal annars Vistor, sem flytur inn til Íslands lyf og aðrar tengdar vörur. Auk þess á Stormtré 2,5 prósent hlut í smásölufélaginu Festi. 

Eigið fé Stormtrés var 6,8 milljarðar króna í lok síðasta árs.

Stálskip var stofnað sem útvegsfyrirtæki árið 1970 en seldi frystitogarann sinn og allan kvóta árið 2014. Í kjölfarið var því breytt í fjárfestingafélag, en það er í eigu hjónanna Guðrúnar Lárusdóttur og Ágústs Sigurðssonar og þriggja barna þeirra. Guðrún er framkvæmdastjóri, en hún er 86 ára gömul. Á meðal fjárfestinga Stálskipa má nefna 8,59 prósent hlut í Heimavöllum en alls voru eignir félagsins metnar á 11,9 milljarða króna í lok síðasta árs. Þar af voru verðbréf sem metin voru á 3,1 milljarð króna en uppistaðan, 6,3 milljarðar króna, voru geymdar á bankabók. 

Guðrún Lárusdóttir.
Mynd: Skjáskot.

Þá verður að telja til félagið 365 ehf., sem er að eiga endurkomu í heim hlutabréfafjárfestinga, fyrst með kaupum í Högum og svo í Skeljungi eftir að það losaði sig út úr fjölmiðlarekstri eftir 16 ár í slíkum. Eigandi þess er Ingibjörg Pálmadóttir og eiginmaður hennar, Jón Ásgeir Jóhannesson, settist nýverið í stjórn Skeljungs þar sem 365 á 4,32 prósent hlut. 

365 seldi fjölmiðla sína til tveggja aðila. Annars vegar til fjarskiptafélagsins Sýnar, þar sem Heiðar Guðjónsson, fyrrverandi stjórnarformaður og núverandi forstjóri, er stærsti einstaklingshluthafinn í gegnum Ursus (9,2 prósent). Heiðar á líka stóran hlut í HS Veitum. Sýn keypti ljósvakamiðla 365 og vefinn Vísi.is.

Hinn aðilinn sem keypti fjölmiðla af 365 var Helgi Magnússon, sem á nú Fréttablaðið og tengda miðla að öllu leyti. Hann hefur verið mjög umsvifamikill í íslensku athafnalífi á undanförnum árum í gegnum félögin Hofgarða, Varðberg og Eignarhaldsfélagið Hörpu, sem hann á með öðrum. Hann hefur til að mynda átt hluti í Bláa lóninu, þar sem hann er stjórnarformaður, og hefur lengi átt vænan hlut í Marel, en hann hefur verið að selja sig niður þar undanfarið. Helgi hefur fjárfest í Iceland Seafood, Stoðum og Kviku banka á þessu ári. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar