Eygló Harðardóttir

Kjósendur kjósa alltaf rétt

Eygló Harðardóttir segir alla hafa fordóma en hafi val hvernig brugðist er við þeim. Orð Ásmundar Friðrikssonar um flóttamenn endurspegli ótta við hið óþekkta. Ástæðan fyrir hægri afgreiðslu mála sé aukin vandvirkni í vinnunni.

Framsóknarflokkurinn hefur leitt ríkisstjórnina í tæp þrjú ár. Flokkurinn vann stórsigur í síðustu Alþingiskosningum eftir mikil kosningaloforð, meðal annars um skuldaniðurfærslu húsnæðislána, afnám verðtryggingarinnar og betrumbætur í húsnæðiskerfinu. Þau fengu 19 þingmenn og forsætisráðherra. 

Framsóknarflokkurinn mældist hins vegar einungis með 11 prósenta fylgi í síðustu Gallupkönnun. Þrátt fyrir aukinn hagvöxt, minnkandi atvinnuleysi, samninga við þrotabúin og að um 100.000 heimili hafi fengið lækkun á höfuðstól húsnæðislána sinna með 80 milljörðum úr ríkissjóði er fylgið ekki hærra.

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, segir flokkinn ekki óvanan þessari stöðu. 

„Allt síðasta kjörtímabil lögðum við hart að okkur og tókum stóra slagi, meðal annars með Icesave og skuldamál án þess að það hafi aukið fylgi í skoðanakönnunum. En þegar fólk fann árangurinn af baráttunni þá skilaði það sér,” segir hún. „Við erum kosin til að sinna ákveðnum verkefnum og svo er það kjósenda að meta árangurinn. Og kjósendur kjósa alltaf rétt.”

Húsnæðisfrumvörp í hægagangi

Varðandi önnur kosningarloforð Framsóknarflokksins er verðtryggingin enn í fullu fjöri og fjögur stór frumvörp Eyglóar um endurbætur í húsnæðiskerfinu eru óafgreidd. Hún segir ástæðuna fyrir drættinum margþætta. 

„Þetta er ekki spurning um að setja fram sem flest mál, heldur að setja fram mál sem lifa næstu ríkisstjórnir og valda ekki skaða,” segir hún. „Við gerum meiri kröfur um samráðsferli og að það sé kallað eftir umsögnum áður en þau fara inn í þingið. Síðan fer forsætisráðuneytið yfir lagahliðina og hvert og eitt ráðuneyti kostnaðarmetur sín frumvörp. Svo finnst mér við vanda okkur meira á þinginu og þá taka hlutirnir lengri tíma.” 

Húsnæðisfrumvörpin hafa verið á borði velferðarnefndar í tæpa tvo mánuði og ljóst er að þau munu taka töluverðum breytingum, þrátt fyrir mikið samráð við gerð þeirra. Í fréttaskýringu Kjarnans frá byrjun febrúar kom fram að nefndarmenn velferðarnefndar voru allir á einu máli um að frumvörpin færu aldrei óbreytt í gegn um þingið þó að þeir séum þeim velviljuð. Þau bíða nú annarrar umræðu í þinginu. 

Ein án aðstoðarmanns

Eygló hefur verið annar tveggja velferðarráðherra í rúm tvö og hálft ár. Hún segir að oftast sé gaman í vinnunni. „Ég þurfti að vinna töluvert í því að halda jákvæðninni í þessu starfi,” segir hún. „Það koma auðvitað dagar inn á milli.”

Síðan Matthías Imsland hætti sem aðstoðarmaður hennar og fór yfir til Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar í forsætisráðuneytið hefur Eygló verið eini ráðherra ríkisstjórnarinnar án aðstoðarmanns. Hún hefur ekki tekið ákvörðun um hvort hún vilji ráða sér nýjan. 

Eygló hefur fjölmarga málaflokka á sinni könnu sem hafa verið mikið í deiglunni að undanförnu og má þar nefna húsnæðismál, félagsmál, tryggingakerfið, jafnréttismál, atvinnumál, innflytjendur og flóttamenn. Síðastnefndi flokkurinn hefur mikið verið til umræðu undanfarið. Ísland er eitt þeirra ríkja sem tekur á móti kvótaflóttamönnum. Í ár hafa Íslendingar tekið á móti 35 sýrlenskum flóttamönnum og aðrir 20 eru á leiðinni. 

„Það aldrei nóg gert og við munum aldrei getað klappað saman höndum og sagt: „Jæja, nú er þetta komið.” Því það er alltaf hægt að gera meira. Þetta er ekki átaksverkefni, heldur breytt heimsmynd sem við verðum að taka þátt í að þróast með,” segir Eygló.

Það aldrei nóg gert og við munum aldrei getað klappað saman höndum og sagt: „Jæja, nú er þetta komið.”

Orð Ásmundar endurspegla ótta við hið óþekkta 

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, fór mikinn á þingi og í fjölmiðlum á dögunum þar sem hann lýsti yfir áhyggjum sínum af straumi flóttamanna til landsins. Hann vildi skoða möguleikann á að loka landamærum Íslands fyrir flóttafólki og hælisleitendum og að því fólki verði snúið við í Keflavík og sent til baka. 

Eygló segir orð Ásmundar, og þeirra sem tekið hafa undir þau, endurspegla ótta við hið óþekkta. 

„Hvað ef þetta værum við? Hvað ef það færi til dæmis að gjósa hérna á suðvesturhorninu? Það hafa ekki allir verið sáttir við mig þegar ég hef notað þessa samlíkingu, en föðurfjölskyldan mín er frá Vestmannaeyjum, eins og Ásmundur er sjálfur, og þar þurfti fólk að leita aðstoðar og fékk hana sem betur fer. Eins þegar það komu snjóflóð fyrir vestan. Maður á að hjálpa þeim sem þurfa á aðstoð að halda, bæði Íslendingum og útlendingum,” segir hún. 

„Við erum ósköp venjulegt fólk” 

Ásmundur er ekki einn á sinni skoðun. Málflutningur forystusveitar Framsóknar og flugvallarvina í sveitarstjórnarkosningunum 2014 um andstöðu við byggingu mosku í Reykjavík kom tveimur borgarfulltrúum í borgarstjórn og varð mikil umræða um fordóma og útlendingaótta í kring um það. Nýr flokkur, Íslenska þjóðfylkingin, hyggst bjóða fram í næstu Alþingiskosningum og leggur hann áherslu á herta innflytjendalöggjöf og sameiningu „þjóðhollra Íslendinga.” Hefur Eygló áhyggjur af þessari þróun? 

„Það væri gott að geta sagt að við séum öðruvísi en aðrar þjóðir en við erum ósköp venjulegt fólk. Það eru mjög margvíslegir fordómar í íslensku samfélagi. Við höfum öll fyrirfram mótaðar skoðanir á ákveðnum hlutum en við veljum hvernig við bregðumst við þeim. Það er hægt að gera það með reiði, ótta, með því að loka sig af, en við getum líka gert það með því að opna og segja: „Ég er hrædd, en ég vil læra og gera mitt. Ég vil koma eins fram við aðra og ég vil að komið sé fram við mig.”” 

Ætlum ekki aftur í 2007 pakkann

Í vikunni var greint frá fyrirætlunum þriggja stærstu tryggingafélaga landsins að greiða sér út milljarða í arð. Málið var harðlega gagnrýnt, bæði innan þings og utan. 

„Það er gott að lífeyrissjóðirnir stigu fram og hlustuðu á almenning sem segir: „Svona högum við okkur ekki.” Nú er krafan um að það sé ekki bara hægt að huga að ávöxtun eða arðsemi, heldur líka hvernig fyrirtækin haga sér,” segir hún. „Við ætlum ekki aftur í 2007-pakkann. Þetta er ekki siðlegt og við viljum ekki þannig samfélag. Við erum að segja að sumt einfaldlega gerir maður ekki.”

Eygló segir Borgunarmálið vera dæmi um þetta og það styrki þá skoðun að betra sé að flýta sér hægt í fyrirhugaðri sölu ríkisins á tæplega 30 prósenta hlut sínum í Landsbankanum. 

„Við þurfum að vanda okkur. Við höfum séð afleiðingarnar af því þegar við vöndum okkur ekki.” 

Við ætlum ekki aftur í 2007-pakkann. Þetta er ekki siðlegt og við viljum ekki þannig samfélag. Við erum að segja að sumt einfaldlega gerir maður ekki.

Síðasta kjörtímabil eins og sorgarferli  

„Það breyttist svo margt í hruninu. Við fórum úr því að halda að það væri allt hægt og yfir í svartasta myrkur. Tilfinningin á þinginu síðasta kjörtímabil var eins og sorgarferli. Ætli við séum ekki enn að reyna að vinna okkur út úr því. Við trúum því ekki að hlutirnir séu raunverulega að verða betri, því allt gæti bara verið farið á morgun. Það er fullt af ferðamönnum að koma hingað, en kannski kemur enginn næsta ár. Við erum enn að vinna úr þessu áfalli. Kannski var of mikið traust áður, en það fór allt,” segir Eygló.  

En það birtir aftur til. Þó að atvinnuleysi sé nú með því minnsta sem hefur sést hér undanfarinn áratug, tvöfaldaðist fjöldi atvinnulausra, háskólamenntaðra kvenna á árunum 2012 til 2014. Fjöldi atvinnulausra, háskólamenntaðra karla dróst saman.  

Eygló segir að sú staðreynd að algengasta háskólamenntun meðal atvinnulausra sé lögfræði og viðskiptafræði sé umhugsunarverð.

„Við þurfum að velta því fyrir okkur hvort við séum að mennta of mikið af fólki fyrir störf sem eru ekki til í samfélaginu. Það er eftirspurn eftir öllum háskólamenntuðu fólki í heilbrigðisgeiranum,” segir hún og bætir við að sá mikli fjöldi starfa sem hefur orðið til í kring um ferðamannaiðnaðinn geri oft ekki kröfur um háskólamenntun. 

Við þurfum að velta því fyrir okkur hvort við séum að mennta of mikið af fólki fyrir störf sem eru ekki til í samfélaginu. Það er eftirspurn eftir öllum háskólamenntuðu fólki í heilbrigðisgeiranum,

Þingið er ekki ævistarf

Rúmt ár er í næstu Alþingiskosningar. Eygló hefur engin önnur áform en að halda áfram í pólitík en undirstrikar að það sé alfarið í höndum kjósenda hvort svo verði. 

„Það er mjög mikilvægt að fólk sjái ekki starf þingmanna og ráðherra sem ævistarf. Þetta á að vera aðlaðandi starfsvettvangur þar sem maður getur haft áhrif. Neikvætt viðhorf til þingstarfa er áhyggjuefni og stanslaust áreiti á samfélagsmiðlum gerir það kannski að verkum að fólk er ekki tilbúið að gefa sig í þetta. Eða stoppar styttra við.”  

Erfitt að taka réttar ákvarðanir í uppsveiflu

Ríkisstjórnin hefur verið gagnrýnd fyrir að koma fram með fá mál og ljóst er að það hefur ekki verið lognmolla yfir einstökum ráðherrum heldur. Hanna Birna Kristjánsdóttir sagði sig frá embætti innanríkisráðherra eftir leka úr ráðuneyti hennar og Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra hefur verið gagnrýndur harðlega fyrir fjárhagsleg tengls sín við Orku Energy. Þá lét Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra ekki rúmlega fimmtíu þúsund undirskriftir og hávær fjöldamótmæli vegna ESB málsins stöðva sig í að færa Brussell bréf þar sem fram kom að aðildarumsókn Íslands væri dregin til baka. 

Eygló er þó á þeirri skoðun að ríkisstjórnin hafi staðið sig vel. 

„Við vorum kosin til þess að mæta skuldavanda heimilanna og við sjáum það í tölunum að skuldastaðan hefur sjaldan verið jafn góð. Við gerðum upp þrotabúin og höfum dælt peningum inn í heilbrigðiskerfið, þó að þar sé sannarlega hægt að gera meira,” segir hún. „Samstarfið innan ríkisstjórnarinnar hefur gengið vel. Þar mætast tveir jafn stórir flokkar með ólíka sýn og það getur tekið á að komast að málamiðlun. Ég hef þá trú að í lok kjörtímabilsins munum við horfa til baka og sjá að við gerðum góða hluti sem skiptu máli. En næstu mánuðir munu líka skipta sköpum. Við eru að fara upp í mikla hagsveiflu og það er mjög erfitt að tryggja að maður taki réttar ákvarðanir til að fara ekki aftur í niðursveifluna eins og margir hafa áhyggjur af. Við erum að reyna að tryggja stöðugleika til að fólk komi til baka og vilji búa hér. Það er markmiðið.” 

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira úr sama flokkiViðtal