Bessastaðir þurfa fyrirliða og móður
Halla Tómasdóttir vill leiða landið á vegferð þess til batnaðar. Hún segir að allir hafi burði til að taka á sig ábyrgð, en Halla vill fá konu næst á Bessastaði. En tapi hún í slagnum, segist hún líka ætla að gera það eins og kona, af auðmýkt.
Halla Tómasdóttir er rekstrarhagfræðingur og hefur fjölbreyttan starfsferil að baki á sviði viðskipta og starfar í dag sem fyrirlesari og ráðgjafi á alþjóðavettvangi. Halla er ekki flokksbundin og er eina konan í forsetaframboði sem hefur mælst eitthvað að ráði í skoðanakönnunum.
Halla var ein þeirra sem stóð að baki Þjóðfundinum 2009. Hún vill að forseti Íslands leiði þjóðina í að innleiða þau gildi sem valin voru á þeim fundi. Þar hafi skýr sýn þjóðarinnar komið fram með fallegum hætti.
„Við viljum samfélag sem byggir á heiðarleika, réttlæti, jafnrétti og virðingu. Þetta lýsir því samfélagi sem ég ólst upp í og það skiptir mig máli að búa í samfélagi þar sem þetta eru grunngildin. En ég hef ekki séð frá efnahagshruninu að við séum að takast á við þessa vinnu, að berja í samfélagsbrestina og byggja upp traust að nýju,” segir Halla.
Ekki nóg að vinna í Excel
Traustið í samfélaginu hvarf við efnahagshrunið, segir Halla og hún hefur áhyggjur af því að svipað gæti verið uppi á teningnum nú í tenglsum við Panamaskjölin.
„Þegar umfjöllun um þau hófst var eins og hrúðrið hafi verið rifið ofan af sárinu, sem ég kalla samfélagssárið, og salti nuddað í sárin. Við höfum mest verið að vinna í Excel, með því að laga efnahagsreikninginn, og endurbyggja hluti sem virkuðu ekki áður, eins og t.d. fjármálakerfið. Mikilvægri vinnu sem lýtur að manneskjunni og samfélagssáttmálanum hefur ekki verið sinnt nægilega. Við höfum ekki horft mikið til framtíðar og unnið að því að endurbyggja traust, bæði í orði og á borði. Þarna tel ég að forseti Íslands geti látið til sín taka.“
Stjórnmálamenn þurfi að gefa of mikið eftir
Halla hefur aldrei starfað á vettvangi stjórnmála og hefur ekki íhugað að breyta því.
„Mér finnst stundum eins og stjórnmálamenn þurfi að gefa of mikið eftir í sínum prinsippum. Ég hef aldrei keypt það að jafn stór mál eins og umhverfisvernd og jafnréttismál falli í eitthvað vinstri/hægri. Þau eiga að spanna allan kvarðann,“ segir hún. Forsetinn eigi ekki að vera pólitískur, heldur eigi hann að leiða þá markvissu vinnu sem til þarf svo þau gildi sem okkur langar að lifa eftir verði innleidd.
„Við höfum ekki farið í þessa mjúku og ósýnilegu vinnu sem er ótrúlega mikilvæg. Ég sé fyrir mér að forseti leiði þá vinnu með því að vera fyrirliði í virkjun samfélagsins í þeirri langtímavegferð, umræðu og aðgerðum sem þarf til að gildismatið og samfélagið verði það sem Íslendingar vilja.“
Mér finnst stundum eins og stjórnmálamenn þurfi að gefa of mikið eftir í sínum prinsippum. Ég hef aldrei keypt það að jafn stór mál eins og umhverfisvernd og jafnréttismál falli í eitthvað vinstri/hægri. Þau eiga að spanna allan kvarðann.
Vill halda fleiri fundi
Halla vill að forseti verði leiðandi í að boða til samtals um framtíðina og vill að Íslendingar taki þátt í að móta sitt samfélag með virkari hætti. „Stjórnvöld horfa of gjarnan til skamms tíma og beina ekki nægri athygli að þeim stóru málum sem varða langtímahagsmuni okkar allra, eins og náttúruvernd, sjálfbærni, jafnréttismál og aðgengi að auðlindum. Það er enn mörgum spurningum ósvarað. Forseti á að skapa vettvang fyrir umræðu um þessi stóru mál.“
Hún vill að Ísland verði fyrsta land heims til að brúa kynjabilið. „Við höfum jákvæða jafnréttisímynd á alþjóðavísu og forseti á að geta sett slík mál á oddinn og ég vil að á Íslandi sé jafnrétti fyrir alla, óháð fjárhagslegri stöðu, kyni, aldri, búsetu og uppruna. Ég vil ekki horfa bara á efnahagslegar stærðir þegar við setjum okkur markmið og mælum okkar árangur, heldur líka horfa til samfélagslegra mælikvarða sem kann að vera erfiðara að mæla.”
Bessastaðir þurfa ekki hetju
Halla segist víða hafa leitt uppbyggingu til framtíðar á grunni góðra gilda, meðal annars í Háskólanum í Reykjavík, í Auði í krafti kvenna, hjá Auði Capital og á Þjóðfundi 2009. Hún vill verða forseti til að halda áfram slíkri vinnu í stærra samhengi.
„Mig langar ekki í embætti forseta, embættisins vegna. En mig langar í verkefnið að skapa hér gjöfult og gott samfélag fyrir alla. Ég sé of marga benda út um gluggann á ástandið í samfélaginu og segja „það þarf einhver að gera eitthvað í þessu” eða „vonandi kemur einhver og bjargar okkur út úr þessu”. En ég er ekki þeirrar skoðunar að einhver ein manneskja geti gert það, hvorki ég né nokkur annar. Það þarf að vera fyrirliði, leiðtogi meðal fólks, sem virkjar visku og vitið í þjóðinni sjálfri. Ég hafna þessari orðræðu og umræðu sem hefur verið ráðandi síðustu daga og vikur að það sé einhver ein hetja sem kemur og leiðir okkur inn í farsæla framtíð, eða forðar okkur frá ógnum og ótta. Þessu þarf að breyta. Ég hef stundum sagt að það þurfi móður og fyrirliða á Bessastaði, frekar en hetju eða einhvern sem telur sig stærri eða betri en aðra. Ég sé fyrir mér mýkri meðferð á valdi heldur en við höfum séð undanfarið. Auðmýkt er hornsteinn þess að ná að virkja fólk með sér. Sá sem heldur að hann geti allt og kunni allt er sá síðasti sem á að vera í þessu embætti.“
Ég hef stundum sagt að það þurfi móður og fyrirliða á Bessastaði, frekar en hetju eða einhvern sem telur sig stærri eða betri en aðra.
Vill ekki fá atkvæði út á kynið
Eitt einkenni íslensks samfélags um þessar mundir að mati Höllu er að fólk skorast gjarnan undan því að stíga fram og gefa kost á sér, á sama tíma og það kvartar yfir ástandinu.
„Allir hafa burði og getu til þess að taka á sig ábyrgð. Ég ber virðingu fyrir því að fólk bjóði sig fram og ég held að það sé betra að margir bjóði sig fram heldur en að þeir séu of fáir og fólk haldi að bara einhver einn eða tveir geti valdið þessu embætti. Það er ennfremur mikilvægt að eiga þess kost að kjósa konu. Ég hef sett jafnréttismál á oddinn og það hefur eitthvað um það að segja að ég býð mig fram, ég vil ekki skorast undan ábyrgð í mínu samfélagi. Ég er þó ekki að leggja til að fólk kjósi mig því ég er kona, heldur benda á að konur koma gjarnan með aðrar áherslur að borðinu. Hvorki betri né verri, bara ólíkar. Samfélag sem virkjar áherslur bæði karla og kvenna við ákvarðanir er heilbrigðara samfélag. Það er lykilatriði þegar við tölum um forystu, framtíð og gildi að raddir bæði kvenna og karla heyrist.“
Vill konu á Bessastaði
Halla fékk fyrstu áskoranirnar um að bjóða sig fram til forseta í desember. Hún segist ekki hafa verið spennt fyrir því þá og lítið hugsað út í það. Hún hugsaði málið í rúma tvo mánuði áður en hún lét vaða.
„Ég vil fá konu á Bessastaði og ég hvatti fjölmargar konur til þess að gefa kost á sér. En þegar engin þeirra sem ég hvatti til framboðs lét slag standa, ákvað ég að gera það sjálf,“ segir hún. En var ákvörðunin auðveld?
„Nei, hún var það ekki, en þegar ég tók hana loks var mér í raun mjög létt. Ég vil bara að Ísland fái góðan forseta og ég er ekki sú eina sem get verið það. Ég óttast kannski það eitt að eitthvað sem gerist á vegferðinni geti komið börnunum mínum illa. Ég held að ég sé kannski týpísk kona hvað það varðar og ég held að það hafi verið stærsti óttinn í ákvarðanatökunni. Í samfélagi þar sem rætin umræða er orðin venjan þá hugsaði ég um hvernig það hefði áhrif á börnin mín. En ég ákvað í samtali við fjölskyldu mína að gera þetta í óttaleysi,“ segir hún.
Ég vil fá konu á Bessastaði og ég hvatti fjölmargar konur til þess að gefa kost á sér. En þegar engin þeirra sem ég hvatti til framboðs lét slag standa, ákvað ég að gera það sjálf.
Gagnrýnir aðferðafræði í könnunum
Halla hefur ekki verið að mælast með mikið fylgi í könnunum, en er samt sem áður eina konan af fjórum í framboði sem hefur mælst með meira en eitt prósent. Undanfarið hefur stuðningur við Höllu verið að mælast frá tæpum níu prósentum og niður fyrir eitt prósent.
„Tölurnar eru ekki hvetjandi sem stendur. En ég fer af stað tiltölulega lítið þekkt, við vissum að við tæki mikið kynningarstarf. Ég vil vinna það með því að hitta fólk og byggja mitt framboð á því hvað fólkið á Íslandi vill. Viðtökurnar sem ég hef fengið hingað til gefa mér fullt tilefni til að vera bjartsýn,“ segir hún.
Hinar ýmsu fylgiskannanir hafa verið birtar undanfarnar vikur og segir Halla sumar þeirra hafa verið ófaglegar. „Ég mun trúa á vel unnar og vandaðar kannanir sem gerðar verða þegar framboðsfrestur er runninn út og frambjóðendur hafa fengið nægt tækifæri til að kynna sig. Það er mín afstaða að maður verði að vera rólegur og halda áfram að standa fyrir sínu.“
Getur tekið tapi eins og kona
Halla telur enn að hún eigi möguleika á forsetastólnum. „En ég tel vegferðina líka mikilvæga. Ég vil gera gagn og láta gott af mér leiða, en ég get tekið því eins og kona, af mikilli auðmýkt, ef ég er ekki það sem fólkið vill,“ segir hún. „Það er of snemmt að segja að ég eigi að pakka saman vegna kannana sem eru að koma núna. Kannski mun mér ekki endast tíminn og tækifærin til, en ég ætla að halda ótrauð áfram að hitta fólk og kynna mína sýn og mín gildi og njóta þeirrar vegferðar.“
Ég vil gera gagn og láta gott af mér leiða, en ég get tekið því eins og kona, af mikilli auðmýkt, ef ég er ekki það sem fólkið vill.