Ísland er eins og illa uppalið barn

Andri Snær Magnason ætlar að beina sköpunarkraftinum í aðra átt og stefnir á Bessastaði. Hann sér embættið sem farveg fyrir hugmyndir og framtíðarsýn. Honum finnst mikilvægt að fjölskyldan hans einangrist ekki og líkir Íslandi við barn sem sé verðlaunað fyrir að haga sér illa.

Andri Snær telur að forsetinn geti ekki verið hlutlaus gagnvart grundvallaratriðum. Nútímaforseti geti verið hraðall fyrir hugmyndir og hreyfingar í samfélaginu.
Mynd: Birgir Þór
ræðir við forsetaframbjóðendur
ræðir við forsetaframbjóðendur

Andri Snær Magna­son er einn af vin­sæl­ustu rit­höf­undum lands­ins og hefur skrifað fjölda verka. Hann er ötull tals­maður umhverf­is­mála og hefur látið sterkt að sér kveða á þeim vett­vangi, bæði inn­an­lands og utan. Nú síð­ast hefur hann í sam­starfi við Björk Guð­munds­dóttur tón­list­ar­konu vakið athygli á stofnun hálend­is­þjóð­garðs á Íslandi. 

Andri Snær segist hafa skýra framtíðarsýn um hvernig Ísland eigi að verða og ekki verða ­og nauðsynlegt sé að endurreisa orðspor landsins. Hann segir verðmæti landsins vera að falla hratt í verði og nauðsynlegt sé að snúa þeirri þróun við. 

„Ég er búinn að vera lengi úti á hugmyndaakrinum og hef alltaf haft áhuga á því hvernig við skýrum heiminn og skilgreinum okkur,” segir Andri Snær. „Svo var mikið af góðu fólki sem var tilbúið að fara í þetta verkefni með mér og það varð vendipunkturinn í sögunni minni.“

Andri Snær Magnason, rithöfundur Andri Snær er fæddur 14. júlí 1973 í Reykjavík og verður því 43 ára í sumar. Foreldarar hans eru Kristín Björns­dóttir hjúkr­un­ar­fræð­ingur og Magni Jóns­son lækn­ir. Andri Snær er giftur Mar­gréti Sjöfn Torp og eiga þau fjögur börn. Fjölskyldan býr við Karfavog í Reykjavík. Andri Snær er með BA gráðu í íslensku frá Háskóla Íslands og er í þjóðkirkjunni.

Allar náttúruperlur landsins í hættu

Andri Snær hefur farið víða til að kynna náttúru Íslands og málefni tengd henni. Hann hefur gagnrýnt það sem hann kallar stóriðjustefnu íslenskra stjórnvalda sem hann segir hafa byrjað fyrir alvöru í maí árið 1997, síðan þá hafi margar helstu náttúruperlur landsins verið í hættu. 

„Það eru engir öfgar að segja það. Ég hafði miklar áhyggjur af svæðum sem ég taldi beinlínis heilög og fannst fráleitt að einhver skyldi vilja raska þeim gjörsamlega. Þetta varð eldskírn fyrir mig til að skilja samfélagið, pólitíkina og efnahagslífið sem leiddi síðan til þess að maður skoðaði heiminn á annan hátt. Við sjáum hvernig hefur farið á Mývatni. Við getum ekki haldið svona áfram,“ segir hann.

„Þó að við verndum náttúruna þurfum við að skapa atvinnutækifæri. Og þannig tengdist ég nýsköpunargeiranum. Það var ekki nóg að vera á móti einhverju, við urðum að taka hagfræðina inn í myndina, til að skilja hvernig samfélög geta þróast ef hvatinn er fyrir hendi.“

Tilgangslaust að vera hlutlaus

Andri Snær telur að forsetinn geti ekki verið hlutlaus gagnvart grundvallaratriðum. Þá sér hann ekki tilganginn með embættinu. Nútímaforseti getur verið hraðall fyrir hugmyndir og hreyfingar í samfélaginu.

„Þetta er eitt af því sem mér hefur þótt áhugavert að taka þátt í eða fylgjast með. Og nú er þessi ögurstund, þar sem hálendið og víðerni þess er nokkurn veginn heildstætt og við höfum tækifæri til þess að ákveða hvort við viljum hafa það þannig áfram. Við erum á spennandi stað í stjórnarskrármálinu og tungumálið þarf að hafa málsvara á hærri stöðum. Ef ólæsi skólapilta þróast í sömu átt mun það koma illa niður á öllu atvinnulífi, menningarlífi og velferð landsins.“

Brattar brekkur

Andri Snær telur að sameiningartákn þjóðarinnar hljóti að vera sameiginleg markmið og gildi og mikilvægar ákvarðarnir sem við verðum að leysa í sameiningu. 

„Það er óvenjulegt að standa á svona tímamótum.“ Þessir þættir eru í deiglunni núna, tungumálið, landið sjálft og sjálft lýðræðið, hvort við viljum gefa fólki meiri völd með beinni þáttöku og kosningum um mikilvæg mál. Í rauninni er þetta bara mikill áhugi á framtíðinni. En brekkurnar sem ég þarf að klífa eru brattar. Það eru margir sem tóku nærri sér að ég skyldi mótmæla stóriðjustefnunni. Þeir halda að með því að vera á móti henni þá sé ég mótfallinn landsbyggðinni. En því fer fjarri.“

„Í rauninni er þetta bara mikill áhugi á framtíðinni. En brekkurnar sem ég þarf að klífa eru brattar,“ segir Andri Snær.
Mynd: Birgir Þór

Gamaldags lífstílsbreyting

Eitt er að vera með skýra sýn varðandi framtíð Íslands, verndun náttúrunnar og átak í lestri. Annað er að flytja til Bessastaða með fjölskyldu sína, fá titilinn „herra“ og verða forseti Íslands. Langar Andra Snæ að verða forseti? Hann hugsar sig um.

„Að sumu leyti hugmyndin um að taka fulltrúa okkar og setja á stall dálítið gamaldags. Mér finnst í raun að forseti eigi ekki að gera meiri lífstílsbreytingu á sér og sínum heldur en forsætisráðherra eða borgarstjóri. Við megum ekki fjarlægja manneskjuna sem er kjörin frá fólkinu, hún á að vera hluti af samfélaginu og í tengslum við það. Einhvers konar upphafning er ekki það sem ég sækist eftir. En á hinn bóginn er ákveðin festa í gömlum hefðum og virðingu fyrir embættinu og við eigum að taka vel á móti fólki sem þjóð. Ég hef oft verið í því hlutverki að vera fulltrúi landsins og tala fyrir hönd þess. Fólk segir stundum: „Svo ertu bara að tala við einhverja Rótarýklúbba á Hólmavík,“ en það er ekki nýtt fyrir mér heldur  eitthvað sem ég búinn að gera í fimmtán ár og hef gaman af,” segir Andri Snær og bætir við að hann hafi ánægju af því að hitta fólk. „Ég treysti mér alveg að vera til sóma þar. Ég er dagfarsprúður og get sagt sögur og treysti mér alveg í það. Ég hef ferðast um allan heim, þekki fólk í ólíkum geirum og hef átt samskipti við mörg þúsund manns síðasta áratuginn.“

Mér finnst í raun að forseti eigi ekki að gera meiri lífstílsbreytingu á sér og sínum heldur en forsætisráðherra eða borgarstjóri.

Hefur hugsað til þingsins

Andri Snær hefur stundum velt því fyrir sér að fara í sveitarstjórnarpólitíkina eða inn á Alþingi. Hann hefur setið í mörgum stjórnum og ráðum í gegnum tíðina og líkað vel. Að vera í stjórn félags eða samtaka er ekki ólíkt stjórnmálaþáttöku að hans mati, nema hvað þar eru menn ekki með skilgreinda hópa sem skipitast í meirihluta og minnihluta. Kannski er hið áhugaverða í hlutverki forsetans líka þar, hann á ekki skilgreinda andstæðinga eins og aðrir kjörnir fulltrúar. 

En Andri Snær neitar því að upplifa átök sem erfið og segist ganga vel að vinna með fólki með ólíkar skoðanir.

„Kannski er það bara feimni við stjórnmálin. Það hefur verið neikvæður stimpill á þeim og maður hefur ekki viljað merkja sig einhverri stefnu og viljað vera frjáls. Þó að ég sé búin að taka afstöðu í málefnum, hef ég ekki merkt mig flokki og hef ekki fylgt flokkslínum. Þannig að mér hefur alveg dottið í hug að taka þátt en ég hef ekki viljað binda mig við flokka og talið kröftum mínum best varið utan kerfis með mína sjálfstæðu rödd eða sem hluti af óháðum hópi. En núna fannst mér tímabært að taka ábyrgð á þeim og færa þær í stærra samhengi. Þess vegna tók ég þetta stökk.“

Óttinn við framboðið, tapið og sigurinn

Það eru málefnin sem draga Andra Snæ áfram, en ekki það að vakna á Bessastöðum á morgnana þótt honum finnist fuglalífið vissulega aðlaðandi. Hann hafði velt framboðinu lengi fyrir sér og fór í gegn um allan tilfinningaskalann á meðan á því stóð.

„Það sem hræddi mig mest fyrst var einfaldlega að fara í framboð og vera í framboði. Svo var það óttinn við að tapa, svo kom óttinn við að sigra,“ segir hann. „En ég er miklu rólegri núna. Sjálfur leikurinn, umræðan og að vera inni á vellinum er áhugaverðari en ég bjóst við. Ég mæli með þessu.“

„Sjálfur leikurinn, umræðan og að vera inni á vellinum er áhugaverðari en ég bjóst við. Ég mæli með þessu.“
Mynd: Birgir Þór

Keppnin við goðsagnirnar

Um fimmtíu manns hafa verið orðaðir á einn eða annan hátt við forsetakosningarnar undanfarin misseri. Í næstu viku kemur í ljós hversu margir skiluðu inn tilskildum fjölda undirskrifta, en frestur til þess rann út í gær. Yfirkjörstjórnir fara yfir listana og gefa gildum frambjóðendum vottorð til að skila inn til innanríkisráðuneytisins. Fjórtán ætluðu í framboð og níu náðu að skila inn undirskriftum í gær. Sitjandi forseti hætti við að hætta, Davíð Oddsson kom inn á völlinn og forseti hætti svo aftur við að hætta við að hætta.

„Ég bjóst svo sem við öllu,“ segir Andri Snær. „Það var alltaf talað um Davíð. Það var líka talað um Ólaf. Ég hélt reyndar að Þorgerður Katrín og Össur Skarphéðinsson ætluðu í framboð og að maður myndi kannski etja kappi við þau. En ég bjóst ekki við að fara á móti goðsögnunum sjálfum og mér finnst það afar mikilvægt fyrir ævisöguna að hafa náð þeim tveimur saman, Davíð og Ólafi, þó að það hafi ekki verið nema einn dag,“ segir Andri Snær og hlær. „Þetta var mikilvægt ­ og algjörlega súrrealískt. Ég geri engan greinarmun á skáldskap og veruleika þessa dagana, þetta er allt með slíkum ólíkindum.“

Ég bjóst ekki við að fara á móti goðsögnunum sjálfum og mér finnst það afar mikilvægt fyrir ævisöguna að hafa náð þeim tveimur saman, Davíð og Ólafi, þó að það hafi ekki verið nema einn dag.

Neitar að trúa að konurnar fái svo lítið fylgi

Andri Snær hefur verið að mælast með á bilinu tæplega tíu upp í 30 prósenta fylgi í könnunum, en fylgið hefur farið lækkandi undanfarið. Davíð Oddsson hefur verið að mælast með meira fylgi en hann, en Guðni Th. Jóhannesson er langefstur. Aðrir frambjóðendur eru að mælast undir einu prósenti. Andri segir nauðsynlegt að spyrja að leikslokum, en að hans mati eru skoðanakannanir oft of skoðanamyndandi og notaðar í of miklum mæli til að keyra upp hugmyndir um fólk.

„Auðvitað er jákvætt að nýi tíminn sé með slíkt yfirburðarfylgi,“ segir hann. „En það þarf enginn að segja mér að á Íslandi verði konur samtals með eitt til tvö prósent atkvæða. Ég neita að trúa því.“

Það þarf enginn að segja mér að á Íslandi verði konur samtals með eitt til tvö prósent atkvæða. Ég neita að trúa því.

Þjóðarstoltið skiptir máli

Ef svo fer að Andri flyst ekki búferlum til Bessastaða, hvern vill hann sjá þar í hans stað?

„Ég get ekki dæmt um aðra frambjóðendur. Ég þekki Guðna, Elísabetu og Höllu ágætlega og er málkunnugur Sturlu. Þetta er allt ágætt fólk. Ísland þarf virkilega á einhverjum að halda sem bætir orðspor landsins. Við verðum að fá manneskju þangað sem er í góðum tengslum við Íslendinga erlendis því við verðum að laga svo margt hérna heima til að opna brautina til baka fyrir allt okkar unga fólk sem er að læra erlendis. Það eru margir alveg í rusli yfir fréttum héðan og þær hvetja fólk ekki beinlínis til að koma aftur. Og það eru þrjú atriði sem dregur fólk heim: Náttúran, samfélagið og tungumálið. Mér finnst eins og við höfum misst tengsl við þetta. Við þurfum að snúa þessum fólksflótta við. Og þjóðarstolt skiptir þar máli. Þá tel ég að náttúran okkar sé eitt af því sem við erum stolt af og síðan lýðræðishefðin og þar er stjórnarskrármálið mikilvægt. Við verðum að bæta kerfin sem hafa afvegaleitt okkur.“

Illa upp alinn krakki

Andri Snær segir Ísland falla hratt í verði og það verði að snúa þeirri þróun við.

„Í dag er orðsporið laskað. Hver ætlar að treysta íslenskum lögfræðingi? Hver ætlar að treysta íslenskum vörum? En allt klandrið okkar er verðlaunað með aukinni ferðaþjónustu, sem hlýtur að teljast lélegt uppeldi. Barn sem er alið svona upp, þegar það gerir eitthvað af sér þá fær það meira nammi, verður ómögulegur krakki. En okkur er verðlaunað fyrir hrunið og eldgos og alls konar rugl, með fleiri ferðamönnum. Þetta hlýtur að rugla okkur í ríminu.“

Hann segir það afar miður fyrir íslenskt vísindasamfélag ef á Bessastaði kæmi maður sem væri afneitunarsinni í hnattrænni hlýnun. „Ég trúi ekki að það verði. Það væri ekki einu sinni súrrealískt, það væri dystópískt. Ísland fer ekki þangað.“

Kjarninn birtir viðtöl yfir Hvítasunnuhelgina við þá forsetaframbjóðendur sem hafa mælst best í skoðanakönnunum undanfarið. Tekið skal fram að Davið Oddsson hafnaði beiðni Kjarnans um viðtal.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira úr sama flokkiViðtal