Lilja Alfreðsdóttir

„Við stöndum með vestrænum þjóðum“

Lilja Alfreðsdóttir hefur verið utanríkisráðherra í sjö vikur. Hún segir mikilvægi Íslands í öryggismálum vera að aukast, styður algjörlega viðskiptaþvinganir gegn Rússum en hefur ekki ákveðið hvort hún muni bjóða sig fram í haust.

Lilja Alfreðsdóttir varð utanríkisráðherra fyrir rétt rúmum sjö vikum síðan. Óhætt er að segja að þau vistaskipti hafi borið brátt að í kjölfar breytinga á ríkisstjórn Íslands eftir að þáverandi forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, steig til hliðar vegna Wintris-málsins svokallaða. Á þeim tíma sem liðinn er frá því að Lilja tók við embættinu hefur hún farið víða og tekið þátt í mikilvægum fundum fyrir Íslands hönd. Enginn tími hefur gefist til aðlögunar.

Hún var rétt komin heim frá Bandaríkjunum, þar sem hún fundaði meðal annars með Barack Obama Bandaríkjaforseta, ásamt Sigurði Inga Jóhannssyni forsætisráðherra og öðrum ráðherrum af Norðurlöndunum, þegar tími var kominn að fara til Brussel til að sitja sinn fyrsta utanríkisráðherrafund aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins (NATO). Þar settist blaðamaður Kjarnans niður með henni á skrifstofu fastafulltrúa Íslands, fór yfir síðustu vikur, afstöðu Lilju til lykilmála og framtíðaráform hennar.

Vilja fund við Rússa fyrir leiðtogafundinn í Varsjá

Fundur utanríkisráðherranna í Brussel er hluti af lokaundirbúningi fyrir næsta leiðtogafund NATO sem fer fram í Varsjá í júlí. Fyrir nokkrum árum síðan var staðan í NATO þannig að fáar beinar öryggisógnir steðjuðu að aðildarríkjum þess. Það hefur breyst hratt á undanförnum tveimur árum, sérstaklega í kjölfar innlimunar Rússa á Krímskaganum. Lilja var því að stíga inn í mun þyngri umræður en margir fyrirrennarar hennar hafa þurft að gera á sínum fyrsta fundi á þessum vettvangi.

Hún segir að sér hafi þótt tvennt standa upp úr. „Í fyrsta lagi innganga Svartfjallalands inn í Atlandshafsbandalagið. Það er tímamótaákvörðun, þótt hún hafi verið viðbúin. Hún sýnir að þetta er þannig ríkjahópur, sem er mjög eftirsóknarverður enn þann dag í dag. Það eru fleiri ríki sem hafa sýnt áhuga á að ganga í bandalagið og það sýnir að NATO hefur staðist þær áskoranir sem það hefur staðið frammi fyrir síðan að það var stofnað 30. mars 1949. Mér finnst þetta merkilegt. 

Í öðru lagi voru þær öryggisáskoranir sem bandalagsríkin standa frammi fyrir og umræðan um Rússland mjög áhugaverðar. Það er mikill þungi í því. En engu að síður er ríkur vilji allra þeirra sem sitja við borðið að við höldum áfram samræðum við rússnesk stjórnvöld. Það er bara það mikið í húfi.

Það kom fram á fundinum í gær að ríkin sem standa að Atlantshafsbandalaginu vilja fund í Rússlands-NATO ráðinu fyrir leiðtogafundinn í Varsjá í júlí. Mér finnst það mjög brýnt vegna þess að við verðum að halda samtalinu áfram. Þrátt fyrir að það sé ákveðin spenna þá er mikill vilji til að tala saman og mýkja þessi samskipti. Það tapa nefnilega allir á þeirri stöðu sem er uppi, bæði NATO-ríkin og Rússland.“

Rússar hafa flogið 105 sinnum í námunda við Ísland á tíu árum

Ísland var hernaðarlega mjög mikilvægt á kalda stríðs-árunum. Eftir að því lauk dró hægt og rólega úr því mikilvægi og haustið 2006 hurfu síðustu bandarísku hermennirnir frá NATO-herstöðinni á Miðnesheiði. Lilja segir að áhuginn á Íslandi hafi hins vegar aukist samhliða þeim væringum sem orðið hafa á undanförnum árum vegna aðgerða Rússa. „Landfræðileg lega okkar skiptir máli. Rússar eru í námunda við okkur og þeir hafa ítrekað flogið í námunda við lofthelgi okkar á undanförnum árum. Alls 105 sinnum frá árinu 2006, en þetta eru að jafnaði svona þrjú til fjögur skipti á ári. Þeir hafa verið að færa sig nær landinu en hafa ekki farið inn í loftrými Íslands. Við finnum fyrir meiri áhuga á okkur vegna þessa í samskiptum við Bandaríkin frá árinu 2014. Það er bein fylgni milli þess að eftir því sem samskipti Vesturveldanna við Rússland fóru að versna fór áhugi Bandaríkjanna á okkur að aukast á ný. Sem er náttúrulega lógískt.“

Í fimm ára ríkisfjármálaáætlun, sem ríkisstjórn Íslands kynnti nýverið, er meiri fjármunum heitið til utanríkismála. Lilja segir að ekki sé um raunaukningu í utanríkisþjónustunni, t.d. varðandi rekstur sendiráða eða ráðuneytisins, að ræða. „Þetta aukna fé er að fara að mestu í tvo málaflokka. Annars vegar mannúðar- og flóttamannamál og hins vegar öryggis- og varnarmál. Við erum að fjölga fólki hjá NATO um helming og auknir fjármunir eru líka að fara í rekstur Keflavíkurstöðvarinnar.“

Algjör stuðningur við viðskiptaþvinganir

Eitt beittasta vopn Vesturlandanna, sem mynda NATO, í þeim átökum sem átt hafa sér stað við Rússa á undanförnum tveimur árum hafa verið viðskiptaþvinganir sem Evrópusambandið, Bandaríkin og Kanada hafa beitt Rússland með stuðningi annarra ríkja. Eitt þeirra ríkja sem stutt hefur þær viðskiptaþvinganir er Ísland. Allt ætlaði reyndar um koll að keyra þegar Rússar brugðust við stuðningi okkar við þvinganirnar með því að setja innflutningsbann á íslenska matvöru, m.a. fisk. Gríðarlegur þrýstingur skapaðist af hendi stærstu útgerðarfélaga landsins, sem áttu fjárhagslega hagsmuni undir því að geta flutt sérstaklega makríl til Rússlands, að taka þá viðskiptalegu hagsmuni fram yfir það að standa með samstarfsþjóðum Íslands til áratuga. Gunnar Bragi Sveinsson, þáverandi utanríkisráðherra, stóð hins vegar fastur fyrir og neitaði að taka nokkurt slíkt til álita. Gunnar Bragi sagði síðar í blaðaviðtali að hann hefði aldrei upplifað annan eins þrýsting út af nokkru máli og varð út af þeirri ákvörðun hans. 

Lilja fundaði m.a. með Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra NATO, á meðan að hún var í Brussel.
Mynd: Nato

Aðspurð segist Lilja styðja algjörlega viðskiptaþvinganir samstarfsríkja okkar gegn Rússum og að það verði ekki nein breyting á þeirri afstöðu hennar né ríkisstjórnar Íslands. „Við stöndum með vestrænum þjóðum og okkar bandalagsríkjum hvað þessa stefnu varðar. Ég held þó að menn hafi ekki alveg áttað sig á því hvaða hagsmunir, miklir eða litlir, voru undir. Eitt sem var gert var að það var ráðist í þétta efnahagsgreiningu á því hvert nettó tapið væri af þessum aðgerðum, sem sýndi að það var minna en talað hafði verið um. Það kann að vera að þessi umræða blossi aftur upp ef það kemur að því að endurnýja stuðning okkar við viðskiptaþvinganirnar. En ég sé það ekki gerast að Ísland sé ríkið sem brýtur sig frá þessari samstöðu. Allavega ekki hjá núverandi ríkisstjórn. Það er samstaða um þessa stefnu hjá henni.“

Lilja segist þó vera þeirrar skoðunar, meðal annars í ljósi þeirrar reynslu sem skapast hefur vegna deilna um stuðning Íslands við viðskiptaþvinganir gegn Rússum, að það væri gagnlegt að breyta verklagi varðandi ákvarðanir sem þessar. „Ég held, og er þegar búin að setja þá vinnu af stað, að það væri gagnlegt þegar Ísland tekur þátt í viðskiptaþvingunum, sem eru ekki almennar eins og þær sem ákveðnar eru á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, þá væri mögulega gott að fara með þær ákvarðanir í gegnum þingið. Stundum eru svona ákvarðanir mjög erfiðar fyrir ákveðin svæði. Viðskiptabannið sem Rússar settu á okkur kom sér til dæmis mjög illa fyrir Vopnafjörð og Djúpavog. Ef svona ákvarðanir fara í gegnum þingið þá verða kannski upplýstari umræður en þegar þetta er bara samþykkt inni í ríkisstjórn og meiri sátt.“

Má ekki færa þessa röksemdarfærslu yfir á flestar meiriháttar ákvarðanir sem við tökum í utanríkismálum, t.d. stuðning við hernaðaraðgerðir?

„Jú. Þetta er meiri vinna, en ég held að hún skili meiri árangri og meiri sátt.“

Svakaleg viðurkenning frá bandarískum stjórnvöldum

Lilja segir að þær vikur sem hún hefur verið ráðherra hafi verið mjög áhugaverður tími. „Fundurinn úti í Washington var sérstaklega áhugaverður vegna þess að við vorum þar með hinum Norðurlöndunum. Það er sérstakt samband milli Bandaríkjanna og Norðurlandanna og kannski sérstaklega við núverandi stjórnvöld í Bandaríkjunum. Obama er sögulegur forseti sem hefur verið að berjast fyrir ákveðnum málum sem fyrir löngu hefði verið búið að hrinda í framkvæmd á Norðurlöndunum.

Norðurlöndin hafa sín sameiginlegu gildi. Jafnt aðgengi að heilbrigðis- og menntakerfinu, jafnréttismálin og loftlagsmálin og það er samhljómur hjá okkur og þeim stjórnvöldum í Bandaríkjunum sem nú ráða þar. Ég held að okkur hafi liðið svolítið vel með þessa stefnumörkun sem fylgt hefur verið á Norðurlöndunum síðustu 50 árin eftir þessa fundi og líka með að heyra þessa svakalegu viðurkenningu sem við fengum hjá bandarískum stjórnvöldum. Að þau sjái og viðurkenni að þetta séu ríki sem standi mjög framarlega á flestum sviðum. Mér fannst þetta mjög gott fyrir okkur, gott fyrir Norðurlöndin og gott fyrir umræðuna. Að sjá hvar við stöndum og hverju við höfum áorkað.“

Ekki búin að ákveða hvort hún fari fram

Hvað áttu við með því að þetta sé gott fyrir umræðuna, og af hverju heldurðu að umræðan sé eins og hún sé?

„Ég er búin að hugsa mjög mikið um þessa íslensku umræðu og er alltaf að finna nýjar og nýjar kenningar í sambandi við hana. Ég held að það sem gerðist í fjármálaáfallinu hafi komið mjög mörgum á óvart. Ísland hafði verið í stöðugri framþróun og fólki fundist síðustu fimm ár hafa verið betri en fimm árin á undan. Þannig hafði það nánast verið frá heimastjórnartímanum. Það tapaðist ákveðið traust í hruninu sem við erum að reyna að vinna upp. Og það tekur bara tíma. Ég held að þetta sé ekki ósvipað því sem gerðist þegar Norðurlöndin lentu í sinni krísu í byrjun tíunda áratugarins. Þess vegna er mjög nauðsynlegt að við vöndum okkur ofboðslega mikið og höfum mikið gagnsæi í því sem við gerum. Við þurfum að leggja mikla áherslu á það að vera stöðugt að upplýsa og taka þá umræðuna um af hverju við erum að gera það sem við erum að gera.“

John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sat fund kollega sinna í Brussel sem fram fór í liðinni viku.
Mynd: NATO

Í ljósi þess að Lilja hefur hugsað svona mikið um þessi mál liggur beinast við að spyrja hana hvort það þýði að hún ætli sér að taka áfram þátt í stjórnmálum þegar þessu kjörtímabili lýkur í haust, en hún er sem stendur utanþingsráðherra? Það myndi þá þýða framboð og kosningar á komandi mánuðum. Sú ákvörðun liggur þó ekki fyrir. „Ég er stöðugt að hugsa um þetta. En ég hef ekki tekið ákvörðun. Mér hefur alltaf liðið mjög vel í Seðlabankanum [þar sem hún starfar alla jafna á skrifstofu bankastjóra]. Ég ætla að leyfa mér að taka ákvörðun um þetta áframhald þegar það fer að gerjast innan Framsóknarflokksins hvenær menn þurfa að melda sig inn fyrir framboð. En ég er ekki komin lengra en það, ef ég á að vera alveg hreinskilin. Það verður miðstjórnarfundur 4. júní sem verður áhugaverður. Ég mun fylgjast grannt með því og sé þá hvernig landið liggur og hvernig horfurnar eru. Svo tek ég ákvörðun.“ 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira úr sama flokkiViðtal