Velkomnir til Everton Íslendingar!

Stuðningsmenn Everton þurfa nú að búa sig undir það að öll íslenska þjóðin fari að fylgjast með liðinu þegar Gylfi Sigurðsson skrifar undir hjá félaginu. En við hverju geta óvanir búist? Og hvað er eiginlega svona sérstakt við endurkomu Wayne Rooney?

Það er viðbúið að Gylfi Sigurðsson mun ganga til liðs við Everton í nánustu framtíð fyrir nánast súrrealíska fjárhæð. Allir aðilar máls virðast vera á því að það sé ekki spurning um hvort heldur hvenær salan klárist. Samhliða mun áhugi Íslendinga á Everton aukast til muna. Fleiri leikir með liðinu verða sýndir í íslensku sjónvarpi. Meira verður fjallað um það í íslenskum fjölmiðlum. Og Everton verður andlag fleiri samræðna um fótbolta á vinnustöðum landsins. Everton verður „Íslendingalið“ og Guðjón Guðmundsson, Gaupi, fær enn fleiri tækifæri en ella til að notast við orðskrípið „Guttagarður“ yfir hina sögufrægu alþýðukirkju Goodison Park.

Fyrir Everton-stuðningsmenn verður erfitt að aðlagast þessum aukna áhuga úr nærumhverfinu. Við erum vanir því að fylgjast með okkar liði í einrúmi og án áreitis. Að búast við hinu versta en vonast eftir því besta. Og fagna mjög ólíkum sigrum en þeir sem halda með liðum sem raunverulega vinna titla.

En hverju geta íslenskir knattspyrnuáhugamenn átt von á þegar þeir fara raunverulega að fylgjast með Everton?

Félagið er sjötta sigursælasta knattspyrnufélag Englands. Það hefur unnið deildina níu sinnum, FA-bikarinn fimm sinnum og á einn Evróputitil. Síðasti deildartitillinn kom hins vegar fyrir 30 árum, eini Evróputitillinn fyrir 32 árum og síðasti FA-bikar liðsins fór á loft fyrir 22 árum. Samandregið hefur liðið verið í nánast stanslausri eyðimerkurgöngu í áratugi. Það hefur einungis einu sinni komist í úrslitaleik á þessari öld, árið 2009, sem tapaðist á andlausan hátt.

Það komst í meistaradeildina tímabilið 2004-2005 þrátt fyrir að vera með mennska traktorinn Marcus Bent sem sinn helsta sóknarmann. Raunar var sá árangur tvöfaldur sigur þar sem Liverpool náði fyrir vikið ekki meistaradeildarsæti, en allir ósigrar Liverpool jafnast á við Everton-sigra. Svo vann Liverpool bara meistaradeildina og reglunum var breytt til að þeir fengu að verja þann titil. Og sigurinn snérist í ósigur. 

Everton fékk auðvitað besta mögulega lið í pottinum sem mótherja sem hægt var að fá í umspili um sæti í riðlakeppni meistaradeildarinnar tímabilið eftir, Villareal frá Spáni. Sú barátta endaði með því að Pierluigi Collina, ein frægasti dómari sögunnar, dæmdi sinn síðasta leik á ferlinum í síðari leik liðanna. Hann ákvað að gera hann eftirminnilegan með því að dæma fullkomlega löglegt mark af Duncan Ferguson og koma þar með í veg fyrir að Everton kæmist í riðlakeppnina. Ég grét þennan dag seint í ágúst 2005, í nýkeypta Phil Neville-búningnum mínum.

Þeir hafa því verið fáir eiginlegu sigrarnir sem aðdáendur á borð við mig, sem hef haldið með Everton frá 1986, hafa getað fagnað. Sjálfur hef ég séð Everton með berum augum spila ellefu sinnum. Þeir hafa unnið einn af þeim leikjum, gegn KR á Laugadardalsvelli á Íslandi árið 1995.

Þess vegna leitum við að annars konar sigrum til að ylja okkur um hjartarætur. Versti tíminn til að vera Everton-aðdáandi var á hinum myrka tíunda áratug síðustu aldar. Þá fengu iðnaðarþjálfarar eins og Mike Walker og Walter Smith að leika lausum hala og búa til leiðinlegustu lið sem hafa líkast til spilað í efstu deild. Eina ljósglætan á þessum árum var þegar Joe Royle tók við og vann FA-bikarinn. En hann hætti auðvitað skömmu síðar þegar hann fékk ekki að kaupa Tore Andre Flo frá Brann.

Stærstu litlu sigrarnir, svokallaðir andsigrar, voru björgunarafrekin árin 1994 og 1998. Ég horfi enn reglulega á Youtube-myndbandið af Everton snúa við 0-2 stöðu, sem þýddi að Everton hefði fallið, í 3-2 sigur með tveimur mörkum frá Graham Stuart og einu frá stríðshundinum Barry Horne, sem jafnaði með því að skjóta boltanum í skeytin inn af rúmlega 20 metra færi. Ég horfði á leikinn í litla 14 tommu fermingarsjónvarpinu mínu. Einn með teppi yfir höfðinu. Tilfinningin þegar Stuart skoraði seinna markið sitt, níu mínútum fyrir leikslok, er ein sú sérkennilegasta gleðitilfinning sem ég hef fundið á ævinni.

Eftir að David Moyes tók við fylgdu ellefu ár af því að vera lítilmagni. Moyes talaði alltaf niður möguleika liðsins og lét sem að það væri að fara með hnífa í byssubardaga. Þetta var þægilegt skjól. Og það var hægt að njóta litlu sigranna í öruggri vissu um að þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að vinna titla.

Sá stærsti kom 19. október 2002. Þá spilaði mjög óspennandi Everton-liðið við Arsenal, sem hafði ekki tapað í 30 leikjum. Undir lok leiksins var 16 ára dreng skipt inn á. Sá hafði þegar leikið nokkra aðalliðsleiki og meira að segja skorað tvívegis í deildarbikarleik gegn Wrexham nokkrum vikum áður. En þetta var leikurinn sem allir muna eftir. Drengurinn var með 80 pund á viku í laun á þessum tíma og leit út eins og einhverskonar dvergtröll með sprengikraft. En á síðustu mínútu leiksins tók hann niður háa sendingu á vallarhelmingi Arsenal, snéri sér með boltann og skaut honum í slánna og inn af um 20 metra færi framhjá David Seaman. „Munið eftir þessu nafni,“ emjaði enski þulurinn. Og nafnið var auðvitað Wayne Rooney.

Í fyrsta sinn í áratugi var kominn einhver von. Einhver neisti á heimsmælikvarða sem gæti lyft Everton upp úr meðalmennskunni og svartnættinu og upp í hæstu hæðir. En tæpum tveimur árum síðar var hann farinn til að gerast markahæsti leikmaður Manchester United og Englands frá upphafi. Í hans stað keypti Everton áðurnefndan Marcus Bent frá Ipswich á 450 þúsund pund. 

Allt varð eðlilegt, þungt og erfitt aftur. Til að setja þetta tímabil í sögu Everton í samhengi þá má benda á að á meðan að peningar tóku yfir ensku deildina, og lið fóru að kaupa leikmenn á tugi milljóna punda reglulega, þá eyddi David Moyes 5,6 milljónum punda nettó á ellefu árum. Fyrir það fæst ekki margt. Nema nokkur stykki af Marcus Bent. Enda var hápunktur næstu ára líklega atburður sem átti sér stað í æfingarleik. Eða réttara sagt svokölluðum ágóðaleik, sem leikmenn sem spila lengi fyrir sama félagið fá gjarnan sem heiðursvott. 

Það eru líklega flestir búnir að átta sig á því að ég er að tala um leik Everton gegn AEK frá Aþenu á Goodison Park 8. ágúst 2012. Ágóðaleikurinn var fyrir andhetjuna Tony Hibbert, hægri bakvörð sem hafði leikið 309 leiki án þess að skora. Árum saman höfðu stuðningsmenn Everton öskrað á Hibbert að skjóta hvar sem var á vellinum. Og sagt í gríni að það yrðu uppþot ef hann myndi skora (e. If Hibbo scores we riot). Það gerðist auðvitað á 53. mínútu leiksins og stuðningsmennirnir stóðu við stóru orðin. Hund­ruð Everton-á­han­genda þustu inn á völl­inn til að fagna and­hetj­unni sinni. Stöðva þurfti leik­inn í nokkrar mín­útur á meðan að völl­ur­inn var rýmd­ur. Það hlýtur að vera eins­dæmi að það eigi sér stað inn­rás á völl hjá svona stóru liði í leik á und­ir­bún­ings­tíma­bil­inu.

Hinn hápunkturinn var annar ágóðaleikur sem fram fór 2015. Í þetta sinn var hann fyrir Duncan Ferguson og auðvitað var hann gegn Villareal. Ástæðan fyrir því að þetta var stórkostlegur viðburður var ekki bara sá að Duncan, fallegasti knattspyrnumaður allra tíma, var heiðraður. Heldur líka sá að týndi sonurinn, Wayne Rooney, spilaði með og klæddist Everton-treyjunni í fyrsta sinn í 11 ár.

Þann 9. júlí, 13 árum eftir að hann fór, snéri Rooney svo alfarið aftur. Hann er orðinn 31 árs og keyrður meira en 1985 árgerð af Volvo 240, en hann er samt Wayne Rooney að snúa heim til Everton. Hann tók á sig umtalsverða launalækkun og kom því skýrt á framfæri að það kæmi ekkert annað lið til greina hjá honum en Everton. Og heimkoma hans er líklega ein síðasta rómantíska sagan sem sögð verður í alþjóðaknattspyrnuheiminum, þar sem peningar og einstaklingshyggja hafa drepið niður barnalegan sjarmann sem fylgir liðshollustu (sjá Ross Barkley).


Volvo 240, sirka 1985 árgerðin.

Auðvitað er Everton-félagið sem Rooney snéri aftur til allt annað dæmi en það sem hann yfirgaf. Farhad Moshiri keypti tæplega 49,9 pró­sent hlut í Everton í janúar 2016 auk þess sem hann á kaup­rétt á meiru hluta­fé. Frá þeim tíma hefur félagið gengið í gegnum miklar breyt­ingar og er m.a. í þeim fasa að reisa sér nýjan heima­völl við Bramley Moore höfn­ina í Liver­pool-­borg. Gangi áformin að óskum mun liðið hefja leik á vell­inum haustið 2020.

í sumar hefur Everton keypt leikmenn fyrir meira en 100 milljónir punda, en þrátt fyrir það hefur það enn sem komið er einungis eytt um sjö milljónum punda nettó. Þess vegna ætlar það sér að styrkja liðið enn frekar með kaupunum á Gylfa, sóknarmanni og örfættum varnarmanni. Á móti á enn eftir að selja Ross Barkley fyrir einhverja kjánalega upphæð.

Knatt­spyrnu­stjóri Everton í dag er hol­lenska goð­sögnin Ron­ald Koeman og yfir­maður knatt­spyrnu­mála er ­Steve Walsh, sem var áður hjá ­Leicester þegar lið­inu tókst að vinna ensku deild­ina í fyrra. Báðir voru ráðnir til starfa eftir að Moshiri keypti sig inn í félag­ið. Það er því stuð hjá Everton.

Og framhjá því verður ekki litið að Rooney hefur ýmsa aðra kosti en knattspyrnuhæfileika sem eru eftirsóknarverðir fyrir nútímaknattspyrnufélag. Hann er risastórt og heimsþekkt vörumerki sem mun auka áhuga á Everton á mörkuðum í til dæmis Asíu og Afríku, þar sem hlutdeild félagsins hefur hingað til verið lítil. Rooney er líka samfélagsmiðlafyrirbæri. Hann er með 15,5 milljónir fylgjendur á Twitter og 25,5 milljónir á Facebook. Til samanburðar er Everton með 1,25 milljónir fylgjenda á Twitter og þrjár milljónir á Facebook. Það þarf því ekki nokkur að undrast yfir því að Everton bætti öll samfélagsmiðlaumferðarmet þegar tilkynnt var um kaupin á Rooney.

Þá er annar hver aðeins of þungi ársmiðahafi Everton búinn að troða sér í nýja treyju með Rooney aftan á. Fjárfestingin í Rooney mun því borga sig mjög fljótt til baka, ef hún er ekki þegar búin að gera það.

Nær öruggt þykir að Gylfi Sigurðsson gangi til liðs við Everton á næstu dögum fyrir 45-50 milljónir punda.
EPA

Svo er bara að vona að Rooney muni geta eitthvað líka. Að rómantíkin kveiki neista í honum. Everton liðið hefur nefnilega allt til þess að koma á óvart. Magn fyrirliða í liðinu er nánast skrýtið. Phil Jagielka er fyrirliði Everton og Leighton Baines varafyrirliði. Rooney var fyrirliði Manchester United og Englands um árabil. Ashley Williams er fyrirliði Wales og Seamus Coleman er fyrirliði írska landsliðsins. Þá var Davy Klaassen, betur þekktur sem „ostastráið“ (e. cheese straw) einnig fyrirliði Ajax áður en hann var keyptur í sumar, og leiddi liðið sem slíkur í úrslitaleik í Evrópukeppni.

Í fyrsta sinn í þrjá áratugi er von í brjósti stuðningsmanna Everton. Von um að þeir geti unnið eitthvað raunverulegt, en þurfi ekki að búa til hversdagslega sigra úr sérkennilegum ástæðum. Og í ljósi þess að Gylfi er á leiðinni til Everton, með allri þeirri viðbótarathygli sem mun fylgja því frá íslensku þjóðinni, er ekki seinna vænna. Við stuðningsmennirnir erum ekki lengur einir að horfa á Everton undir teppunum okkar að vona það besta en búast við hinu versta. Heldur fylgist öll þjóðin með.

Eða þangað til að hann ákveður á síðustu stundu að fara til Liverpool í staðinn. Breytir sigri í ömurlegan ósigur. Og Íslendingar halda áfram að sniðganga Everton líkt og þeir hafa gert hingað til.

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira úr sama flokkiFólk