Hvað er eiginlega að Ólafi Ragnari?
Guðni Th. Jóhannesson, dósent í sagnfræði við Háskóla Íslands, fjallar um forseta Íslands á árinu 2015.
Á nýársdag kemur í ljós hvort Ólafur Ragnar Grímsson sækist eftir endurkjöri þegar gengið verður til forsetakosninga næsta sumar. Aldrei hefur verið beðið eftir ávarpi þjóðhöfðingja landsins með eins mikilli eftirvæntingu og óvissu. Þótt fjöldi landsmanna vilji hlýða á sinn forseta er yfirleitt lítil spenna í loftinu á íslenskum heimilum eftir hádegi á nýársdag. Þá sitja menn ekki endilega við sjónvarp eða tölvu, sumir jafnvel eitthvað eftir sig að löngum gleðskap loknum.
Hvað mun forsetinn tilkynna? Í orðum og verkum Ólafs á því ári sem er að líða má hæglega finna vísbendingar um hvort tveggja, að hann ætli að láta gott heita eða hann vilji áfram sitja Bessastaði. Byrjum á síðasta nýársávarpi. Í því var rauður þráður, ákall til landsmanna að vera bjartsýnir, standa saman og meta að verðleikum afrek þjóðarinnar að fornu og nýju. Um leið vandaði forseti um við þá sem gagnrýndu í sífellu, oftar en ekki með kaldhæðni að vopni. Líkast til beindi hann helst orðum sínum að fjölmiðlafólki og fræðasamfélaginu svonefnda. Ég var að minnsta kosti í hópi þeirra sem tóku þetta til sín. „Þjóð getur aldrei þrifist á gagnrýninni einni saman, þótt læra þurfi af mistökum,“ sagði þjóðhöfðinginn í sínum föðurlega tón: „Hún verður einnig að halda til haga hinum góðu verkum, heiðra það sem vel var gert, vita hve oft henni hefur tekist að ná og halda til jafns við aðra; hvaða verk skipa henni í fremstu röð.“
Þetta voru forsetaleg orð, í anda Vigdísar eða Kristjáns Eldjárns ef því er að skipta. En Ólafur Ragnar á sér fortíð, guðfaðir útrásarinnar. Auðvitað sætti ræðan því gagnrýni, meðal annars hér í Kjarnanum þar sem menn þóttust sjá að margt í ávarpi forseta væri endurnýtt frá 2008, því hörmungarári Íslandssögunnar.
Skömmu síðar var Ólafur Ragnar í heimspressunni, í og með út af arfi útrásar og hruns. Í byrjun mars sagði viðskiptatímaritið Forbes þannig frá hruni íslensku bankanna í október 2008 að þegar ríkisstjórn Ólafs Ragnars Grímssonar hefði verið komin með einn banka undir sinn verndarvæng og hinir í algerri nauð hefði forsetinn slegið á þráðinn til ríkasta manns Íslands, Björgólfs Thors Björgólfssonar, og fært honum skýr skilaboð: „Komdu heim. Núna.“
Þetta var ímynd hins volduga forseta og síðar í mánuðinum fengu þingmenn að kenna á vendi hans. Þá mælti þjóðhöfðinginn á allt annan hátt en Vigdís og Kristján hefðu nokkurn tímann talið við hæfi, og ekki heldur hinir „pólitísku“ forverar þeirra, Sveinn Björnsson og Ásgeir Ásgeirsson. Í veislu þingmanna, nokkurs konar árshátíð þeirra sem var endurvakin eftir tímabundinn sparnaðaranda eftirhrunsáranna, talaði Ólafur Ragnar að sögn til gesta „eins og þeir væru hálfvitar“ sem skildu ekki stjórnskipan landsins.
Í maí var forseti enn í ham. Nú hafði hann hins vegar að skotspæni einn helsta fjanda Íslands úr hruninu. Á málþingi CNN og London Business School sakaði Ólafur Gordon Brown, forsætisráðherra Breta þegar hamfarirnar dundu yfir, um verstu kúgunartilburði valdhafa sem hann hefði nokkurn tímann orðið vitni að. Í næsta mánuði var hann enn utan landsteinanna, sat fund til heiðurs bankastjórn Goldman Sachs og ræddi meðal annars um lofsverðan árangur Íslendinga í glímu þeirra við alþjóðafjármálakreppuna. Þarna og víðar horfði Ólafur Ragnar helst til útlanda í leit að ástæðum bankahrunsins hér. Vandinn var ekki heimatilbúinn heldur skipti mestu að ill öfl ytra höfðu níðst á Íslendingum. Síðan hefðum við sjálf komið okkur á réttan kjöl.
Forseti skrifaði undir lögin en sagði áskorunina sýna „hve lifandi málskotsrétturinn væri í hugum þjóðarinnar“. Það voru innantóm orð. Í raun þýddi niðurstaðan að engin skýr viðmið réðu því hvenær hinn helgi réttur virkaði og hvenær ekki.
Þannig mælti hinn bjartsýni forseti Íslands, sá sem hafði leyft þjóðinni í tvígang að hafna Icesave-ánauð í boði misviturra stjórnvalda. En um hvað máttu landsmenn eiga lokaorð og hvað ekki? Sú spurning vaknaði í júlí síðastliðnum. Tæplega 54.000 Íslendingar skrifuðu undir þá áskorun til forseta að staðfesta ekki lög um skiptingu makrílkvóta og leyfa kjósendum að segja hug sinn. Það dugði þó ekki til. Forseti skrifaði undir lögin en sagði áskorunina sýna „hve lifandi málskotsrétturinn væri í hugum þjóðarinnar“. Það voru innantóm orð. Í raun þýddi niðurstaðan að engin skýr viðmið réðu því hvenær hinn helgi réttur virkaði og hvenær ekki. „Skilgreiningar hans og yfirlýsingar fjúka til og frá eins og laufblöð sem fallið hafa að hausti,“ skrifaði Þorsteinn Pálsson um sjónarmið Ólafs Ragnars Grímssonar. Það mátti til sanns vegar færa.
Í september sýndi forseti að honum hugnuðust lítt breytingar á stöðu mála. Í það minnsta yrði að vanda til verka og ekki dygðu þær umræður sem þegar hefðu farið fram, hvorki á vettvangi stjórnlagaráðs né stjórnarskrárnefndar Alþingis. Greinar um þjóðareign og þjóðaratkvæðagreiðslur ættu vissulega heima í stjórnarskrá, sagði Ólafur Ragnar við setningu Alþingis, „en samning þeirra er vandaverk og hvorki þröng tímamörk né sparnaðarhvöt mega stofna gæðum verksins í hættu“. Humphrey Appleby í bresku gamanþáttunum „Já, ráðherra“ hefði ekki getað orðað það betur.
Birgitta Jónsdóttir, kapteinn Pírata, sem notið hafa yfirburðafylgis í skoðanakönnunum allt árið, beindi spjótum sínum óðara að Ólafi Ragnari og sakaði hann um „aðför að lýðræðinu“ og „bein afskipti af störfum þingsins“. Aftur mætti benda á að forverar Ólafs á forsetastóli hefðu aldrei talað á sama hátt til þingheims, og reyndar ekki hann sjálfur fyrr á tíð. Fyrstu árin á Bessastöðum hélt hann því fram að forseta bæri ekki að tjá sig um mál sem Alþingi hefði til umfjöllunar. Svona hefur embættið mótast og breyst í meðförum Ólafs Ragnars Grímssonar.
Á árinu sem er að líða voru norðurslóðir ofarlega í huga forseta sem fyrr. Hann á mestan heiður af Arctic Circle – Hringborði norðurslóða sem haldið var í Hörpu í október í þriðja sinn. Meira að segja svarnir fjendur Ólafs úr stjórnmálabaráttu fyrri ára mátu þetta frumkvæði hans, ekki síst þegar fréttist að norskir valdhafar kvörtuðu undan því að Íslendingar hefðu náð forystu í norðurslóðarmálum undir dyggri stjórn forsetans.
Þegar Ólafur var fyrst kjörinn forseti árið 1996 sögðu margir kjósendur að reynsla hans á alþjóðavettvangi og þekking á alþjóðamálum hefði ráðið mestu um val þeirra. Var þetta enn styrkur hans tveimur áratugum síðar? Norðurslóðir, endurnýjanlegir orkugjafar og aðgerðir til að sporna við hlýnun jarðar eru ær og kýr hins heimsvana forseta. Vei þeim sem reynir að reka hann á gat í þessum efnum. Ekki er þar með sagt að hann hafi ætíð lög að mæla. Auk þess freistast hann til að ýkja áhrif Íslendinga, örþjóðar á jaðri, á þróun mála. Drjúgur hluti landsmanna myndi þó segja að jafnvel þótt einhver nöldrandi fræðimaður hefði rétt fyrir sér um það bæri forseta einmitt að bera höfuðið hátt og eiga háleita drauma. Hver vill kalla yfir sig svartsýnan og stúrinn þjóðhöfðingja?
Á öðrum sviðum alþjóðamála orka viðhorf Ólafs Ragnars tvímælis. Eftir hryðjuverkaárásirnar í París í nóvember lýsti hann því yfir í morgunþætti Bylgjunnar að „barnaleg einfeldni“ mætti ekki ráða viðbrögðum manna. Öfgafullir íslamistar væru „mesta vá okkar tíma“ og hættan sem af þeim stafaði yrði ekki leyst með „aðgerðum á sviði umburðarlyndis og félagslegra umbóta“. Þetta var popúlismi, sögðu sumir, sjálfsögð sannindi, sögðu aðrir. Víst er að ummæli forseta vöktu ekki samstöðu og einhug með þjóðinni á erfiðum tímum. Kannski var það ómögulegt. Langt var síðan Ólafur Ragnar missti sameiningartáknið úr höndum sér og kannski er ekki lengur hægt að ætlast til þess að forseti geti talað þannig að þjóðin öll sé sátt. Samfélagið er allt annað og fjölbreyttara. Og kannski eru hugmyndir okkar um sameinandi forseta áður fyrr tálsýnin ein, í það minnsta ýkjur. Þá var ekki til siðs að skamma forseta, þá var ekki facebook og twitter.
Kannski gæti öðruvísi forseti um okkar daga samt náð að sætta fólk og lýsa betur hinum ólíkum skoðunum sem einkenna nútímasamfélög. Kannski sumum þætti það veikari forseti, hálfvolgur og hikandi. Það yrði þá að hafa það og vissulega væri það synd ef hugmyndin um sameinandi þjóðhöfðingja, sem Íslendingar áttu sér við lýðveldisstofnun, heyrði nú sögunni til. Sameiningartákn þarf ekki að vera hnjóðsyrði, ekki frekar en umburðarlyndi svo annað dæmi sé tekið.
Nokkrum dögum eftir atburðina í París mátti hæglega ætla að Ólafur Ragnar stefndi á endurkjör eina ferðina enn – og afstaða hans bæri jafnvel keim af því. Hann væri sem fyrr sá sem stæði fastur fyrir þegar öðrum væri ekki endilega treystandi. „Þjóðin ræður“, var yfirskrift viðhafnarviðtals við Ólaf Ragnar Grímsson í DV sem dreift var á öll heimili landsins. Þar upplýsti forseti að hann hitti sífellt fólk sem hvetti hann til að halda áfram. Það væri í raun „visst áhyggjuefni að það skuli enn vera svo ríkt í hugum manna að það þurfi að vera á Bessastöðum einstaklingur sem ekki haggast í róti umræðunnar, bloggsins og hitans sem fylgir átökum dagsins“. Að vísu fylgdi fyrirvari: „Þar með er ég ekki að segja að ég sé eini maðurinn sem geti gegnt því hlutverki.“
Í upphafi þessa mánaðar heyrðist svo endurómur útrásar og hruns. Oflætisárin fyrir 2008 taldist Sigurður Einarsson, þáverandi stjórnarformaður Kaupþings, til nánustu ráðgjafa Ólafs Ragnars Grímssonar. Fyrir það fékk Sigurður fálkaorðu úr hendi forseta. Átta árum síðar svipti Ólafur hann þeim heiðri. Sitt sýndist hverjum. Var sparkað í liggjandi mann, tukthúslim á Kvíabryggju, eða var forseta nauðugur einn kostur að sýna gömlum samherja hvorki miskunn né náð?
Ekki er hægt að taka undir þá gagnrýni að þarna hafi forsetinn viljað sýna þjóð sinni að hann hafi snúið baki við auðmönnum sem sviku hann og aðra. Það væri of billegt og forsetinn er miklu skynsamari og klókari en svo að hann beiti ódýrum brellum – nema kannski hann sé þess fullviss að þær virki. Laust fyrir jól útdeildi Ólafur Ragnar mat og jólagjöfum Fjölskylduhjálparinnar í Reykjanesbæ. Við hlið hans var eiginkonan Dorrit, komin frá heimili sínu í London. Aftur heyrðust þær raddir að nú væri Ólafur í kosningaham og vildi sýna sig sem forseta fólksins. Hann stæði með almenningi gegn öllum sem létu það viðgangast að óþörfu að fólk þyrfti að betla nauðþurftir í aðdraganda hátíðanna. Hér þarf þó að hafa í huga að forseti hafði áður stutt starf Fjölskylduhjálparinnar og annarra mannúðarsamtaka með nærveru sinni.
Í árslok er málum því svo komið að hinn sterki, bjartsýni og óútreiknanlegi forseti hefur helgað sér sviðið og athyglina. Efst á lista tímaritsins Man um hundrað valdamestu Íslendingana trónaði Ólafur Ragnar Grímsson. Í könnunum á árinu var naumur meirihluti landsmanna einatt ánægður með störf forseta, um fjórðungur ekki og hinir tóku ekki afstöðu. Forseti virtist enn í fullu fjöri þótt merkja megi af dagskrá hans að atorkan er ekki eins mikil og áður. Þannig flutti Ólafur færri ávörp og formlegar kveðjur á þessu ári en nokkru sinni fyrr frá 1996.
Hvað gerist næst? Auðvitað ætti ekki að leika nokkur vafi á því. Vart voru liðnar nokkrar mínútur frá því að úrslit í forsetakjörinu 2012 lágu fyrir þegar Ólafur Ragnar Grímsson tilkynnti að það kjörtímabil sem þá var að hefjast og senn rennur á enda yrði hans síðasta.
Hvað gerist næst? Auðvitað ætti ekki að leika nokkur vafi á því. Vart voru liðnar nokkrar mínútur frá því að úrslit í forsetakjörinu 2012 lágu fyrir þegar Ólafur Ragnar Grímsson tilkynnti að það kjörtímabil sem þá var að hefjast og senn rennur á enda yrði hans síðasta. Þessi orð hefur hann síðan endurtekið. Fyrri forsetar kunnu líka að hverfa á braut þótt þeir nytu enn vinsælda og ættu víst yfirburðafylgi. „Ekki skaltu freista Drottins Guðs þín og þá ekki heldur þjóðar þinnar með þrásetu,“ sagði Ásgeir Ásgeirsson. „Enginn hefur gott af því að komast á það stig að fara að ímynda sér að hann sé ómissandi,“ sagði Kristján Eldjárn.
Alls ekki er þó útilokað að á nýársdag tilkynni Ólafur Ragnar Grímsson að hann hyggist enn á ný vera í framboði til forseta Íslands. Geri hann það virðist hann eiga sigurinn vísan. Önnur forsetaefni yrðu fallbyssufóður. Sitjandi forseti sigrar alltaf. Það segir sagan að minnsta kosti. Á hitt er þó að líta að einhvern tímann verður allt fyrst. Öflugur frambjóðandi sem stæði einn andspænis Ólafi gæti heldur betur velgt honum undir uggum. Að því sögðu er forseti helst í essinu sínu að hann þurfi að berjast. Sá er einmitt kostur hans og galli.
Margir eiga það því sameiginlegt að spyrja sig og aðra hvað sé eiginlega að Ólafi Ragnari Grímssyni. En fólk mælir nú sjaldnast einum rómi. Þjóð er ekki órofa heild og í þessum orðum skipta áherslur máli. Hvað er eiginlega að honum? spyrja þeir sem finnst forseti hafa setið nógu lengi á valdastóli, gamall valdakarl með sitthvað á samviskunni. Hins vegar eru þeir líka til sem spyrja: Hvað er eiginlega að forsetanum? Herra Ólafur hafi staðið sig vel, komið í veg fyrir Icesave og hugsanlega aðild að Evrópusambandinu, þau Ólafur og Dorrit séu landi og þjóð til sóma, ekkert forsetaefni sem standist samjöfnuð hafi komið fram og hann sé í fullu fjöri. Já, nýársávarpið verður óvenju spennuþrungið í þetta sinn.