Mynd: Birgir Þór Harðarson

Dekurdrengurinn og vonarstjarnan

Jón Kalman Stefánsson rithöfundur skrifar um íslensk stjórnmál, Bjarna Benediktsson og Katrínu Jakobsdóttur. Hann veltir því fyrir sér hvort að siðbótin sé langhlaup eða hvort varðmenn gamla Íslands muni alltaf vakna, vopnast og koma í veg fyrir hana.

Það var töluvert um jarðhræringar í íslenskri pólitík á því ári sem nú er að líða. Ríkisstjórn sprakk vegna leyndarhyggju og spillingar eftir stutta setu, tveir nýir flokkar voru stofnaðir og náðu markverðum árangri, en sá flokkur sem sprengdi óvinsæla ríkisstjórn þurrkaðist hins vegar út. Íslensk pólitík er undarleg dýrategund. Og eins og til að naglfesta það myndaði vonarstjarnan sjálf, Katrín Jakobsdóttir, virtasti og vinsælasti stjórnmálamaður þjóðarinnar, ríkisstjórn með tveimur karlmönnum gamla Íslands, formönnum Sjálfstæðis- og Framsóknarflokksins. Vinstri græn í sæng með þeim tveimur flokkum sem lengst allra hafa setið að völdum hér á landi, hafa framar öðrum mótað samfélagsgerðina – og kenna sig gjarnan við ábyrgð, stöðugleika og festu. Þeir eru foreldrarnir, aðrir flokkar unglingar sem þarf að hafa stjórn á. Sjálfstæðisflokknum hefur einkar vel tekist að setja samasemmerki milli sín og stöðugleika. Náð að gróðursetja þá tilfinningu í þjóðarsálina að þeir séu festan.

Stöðugleiki þýðir jafnvægi, óbifanleiki, það að vera stöðugur.

Stöðugleiki – Ísland?

Árið 1920 var íslensk króna á pari við þá dönsku, síðan eru liðin tæp hundrað ár og krónan hefur rýrnað um 99.95 prósent af verðgildi sínu. Það segir sína sögu um það hvernig efnahagssaga okkar hefur sveiflast. Það er okkar jafnvægi. Það er  stöðugleikinn sem valdaflokkarnir tveir, Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn hafa eignað sér.

Hvað er þá íslenskur stöðugleiki?

Um þessar mundir er gróska í íslenskum skáldskap og ungir, efnilegir höfundar setja mark sitt á landslagið. Einn þeirra er rétt rúmlega tvítug skáldkona, Eydís Blöndal, sem nýlega gaf út fína ljóðabók, Án tillits. Skáld kunna oft betur en aðrir að orða hlutina, og í tveimur línum tekst Eydísi Blöndal að svara spurningu minni um íslenska stöðugleikann í eitt skipti fyrir öll:

„Valdaójafnvægi virkar sem stöðugleiki fyrir þau

sem fá að sitja hærra.“

Og þá er mér óhætt að hlaða í þessa spurningu: Hvers vegna situr Bjarni Benediktsson svona hátt í íslenskri pólitík?

Jú, það er vegna þess að hann er búinn að stinga svo mörgu undir stólinn.

Katrín Jakobsdóttir strikuð út af jólakortalistanum

Fyrstu dagana eftir kosningarnar í október leit út fyrir að við værum að upplifa sögulegar breytingar. Fjögurra flokka stjórn Vinstri grænna, Samfylkingar, Pírata og Framsóknarflokks. Stjórn með tæpan meirihluta. En Katrín, sem leiddi viðræður, sagði að tæpur meirihluti væri ótvíræður kostur, fólk myndi þá vanda sig frekar, leita eftir samkomulagi. Þarna talar nýja Ísland, hugsaði maður, og hinir flokkarnir tóku undir það – nema Framsókn. Þeir höfðu áhyggjur af tæpum meirihluta. Höfðu kannski  áhyggjur af því að þá þyrfti að vanda sig, hafa fagmennsku að leiðarljósi? Í það minnsta slitu þeir viðræðum. Því miður. Það hefði verið þroskandi fyrir stjórnmálamenn, Alþingi og þjóðina að hafa stjórn sem vegna tæps meirihluta neyddist til að vanda sig, hugsa hlutina. Hér hefur frekur meirihluti ætíð ráðið. Frekur vegna þess að minnihlutinn fær litlu sem engu ráðið. Íslensk stjórnmál eru ekki samræða, heldur valdbeiting.

En það var athyglisvert að fylgjast með viðbrögðum fólks og fjölmiðla þegar Katrín tók upp viðræður við valdaflokkana tvo, varðhunda kerfisins, yfirlýsta andstæðinga breytinga. Hvað gengur Katrínu til, eru hér sviknir eiðar? Það skal vera mér eilíf ráðgáta, sagði einhver við mig, „hvers vegna VG ætla að lyfta þeim dekurdreng af Bakkaflöt enn einu sinni til mannvirðinga“.

Dekurdrengurinn, það er auðvitað Bjarni Ben.

Það var margt talað og hugsað, mörg þung orð, og Katrín víða strokuð út af jólakortalistum. Sumir óttuðust líka að hún hefði einfaldlega ekki afl í að glíma við þá báða, Bjarna og Sigurð Inga. Fjölmiðlar birtu mynd af þeim þremur, þar sem Bjarni gnæfði hávaxinn og herðabreiður yfir hana, og Sigurður Ingi stóð á milli þeirra eins og óbifanlegur hornstaur. Þeir urðu að ímynd feðraveldisins, þessa regindjúpa mörg þúsund ára gamla valds sem heldur áfram að gefa karlmönnum forskot. Fólk fékk þess vegna á tilfinninguna að hin lágvaxna, granna og fíngerða Katrín hefði ekkert í herðabreiðan, sjálfsöruggan Bjarna, og að Sigurður Ingi myndi bara flytja hana til eins og hverja aðra Fiskistofu. Skipti engu máli þótt Katrín sé kannski greindari og skarpari en þeir tveir til samans. Enda hefur greindin ein og sér sjaldan komið fólki langt hérlendis. Á Íslandi hefur frekja, tillitsleysi, óbifanlegt sjálfsöryggi löngum verið bestu vopnin í stjórnmálum. Ásamt hæfileikanum að vera fyndinn á kostnað andstæðinga. Það er freki kallinn, freki hreppstjórinn, sem framar öðrum hefur komið í veg fyrir fagmennsku, og þar með stöðugleika, á Íslandi.

Auglýsing

Andlit Alþingis

Ísland er fyrrum nýlenda. Það er skekkjan og staðreyndin sem okkur hefur tekist svo kirfilega að gleyma.

Þótt saga okkar sé blessunarlega ekki grimm og blóðug eins og margra nýlenda Afríku og Asíu, þá má greina skýrar samfellur, augljós líkindi: Skortur á stöðugleika, fagmennsku, misskipting auðs og samfélagið í klóm svo sterkra hagsmunaafla að það brenglar og veikir lýðræðið.

Við berum okkur gjarnan saman við önnur Norðurlönd, en á meðan samfélög þeirra einkennast af stöðugleika og ríkri kröfu um ábyrga stjórnsýslu, þá lifum við ætíð í sveiflunni, óstöðugleikanum, og stjórnmálamenn komast upp með mun meira fúsk, spillingu, vanhæfni og frændhygli en hjá norrænum frændum okkar. Dæmin eru átakanlega mörg. Nærtækt að nefna flutning Fiskistofu, ákvörðun tekin af Sigurði Inga, án nokkurra raka, þvert á fagmennsku og vilja starfsmanna, og kostaði skattgreiðendur talsverðar upphæðir. Sigurður Ingi þurfti ekki að færa fram handbær rök. Hann vissi að hann yrði gagnrýndur, en að það yrði bara vindur sem færi hjá. Íslenskir stjórnmálamenn kunna öðrum fremur að þumba óþægileg mál fram af sér.

Við búum við nýlendumenningu. Við búum við menningu þar sem ráðherrar telja sig ekki bundna lögum eða reglum lýðræðis. Viðbrögð Sigríðar Á. Andersen við þeirri niðurstöðum Hæstaréttar að hún hafi brotið gegn stjórnsýslulögum þegar hún skipaði dómara í Landsrétt, er enn ein staðfesting á því að hér hafi ekkert breyst þeim efnum. Sigríður sagðist einfaldlega ekki vera sammála. Það er mantra þeirra ráðherra, sama í hvaða flokki þeir standa, sem verða uppvísir að spillingu, vanhæfni, fúski – þeir segjast einfaldlega ekki vera sammála. Og er því miður óhætt að ganga út frá því sem vísu að þeir komist upp með það.

Þriðja handahófsdæmið eru Vaðlaheiðagöngin.

Framkvæmd þeirra er skólabókardæmi um það hvernig hlutirnir ganga fyrir sig á Íslandi. Keyrt í gegn af þáverandi fjármálaráðherra og þingmanni kjördæmisins, Steingrími J. Sigfússyni.

Minnisvarði um óvandaða stjórnsýslu og falsaðar forsendur. Eða með orðum Péturs heitins Blöndal: „Menn eru hreinlega að plata, plata með opin augu og halda að enginn fatti það.“

Kannski trúði Steingrímur að enginn myndi átta sig á blekkingunni, en ég óttast þó að þrátt fyrir afrek sín og dugnað við að taka til eftir hrunið, sé Steingrímur hinn dæmigerði íslenski stjórnmálamaður sem þekkir ekki muninn á fúski og fagmennsku. Eflaust dró Steingrímur fylgi Vinstri grænna niður um nokkur prósent í síðustu kosningum, en sjálfur beið hann ekki skaða af. Þvert á móti var hann verðlaunaður af ríkisstjórn Katrínar og gerður að forseta Alþingis. Hann er þar með andlit Alþingi Íslands út á við.

Er þá engin …

Skiptir engu máli hversu margir nýir flokkar eru stofnaðir, hversu oft við kjósum, hversu margar ríkisstjórnir hrökklast frá völdum vegna spillingar, hversu ákaft við mótmælum á Austurvelli, komumst í heimsfréttir fyrir virkt lýðræði, að vera þjóðin sem sópar burt spilltum forsætisráðherrum, skiptir það engu máli þegar upp er staðið; erum við bara að skipta um glugga í fúnu húsi?

Katrín Jakobsdóttir hefur lengi verið sá stjórnmálamaður sem þjóðin treystir best og viljað sjá í stól forsætisráðherra. Nú situr hún loksins þar. En mörgum þykir að hún hafi greitt full hátt verð fyrir stólinn, og eiga erfitt með að fyrirgefa henni að hafa leitt Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkinn enn einu sinni til valda. Það má færa rök fyrir því að íhaldssemi sameini flokkana þrjá, og því ástæða til að óttast að samstarf þeirra verði eins og hjónaband þar sem aðilar dragi fram það sísta í fari hvers annars. Saga Íslands frá lýðveldisstofnun gefur því miður ekki ástæðu til mikillar bjartsýni. Byggingin er fúin, myglusveppir í burðarbitum og talsverð hætta á að Katrín, og sá hluti Vinstri grænna sem af einlægni vilja breyta og bæta öll vinnubrögð, finni fljótlega fyrir óþægindum í öndunarfærum, missi orku, þurfi að leggjast inn á Landspítalann og … en, æ, þar hefur verið niðurskurður lengur en elstu manneskjur muna, og því alls óvíst að Vinstri grænir muni nokkurn tíma ná sér eftir að hafa andað að sér myglusveppunum í burðarbitum Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins.

… von?

Líklega kemur vanhæfni og dugleysi íslenskra stjórnmálamanna hvergi betur fram en í löskuðu ástandi Landspítalans og heilbrigðiskerfisins. Ítrekaðar skoðanakannanir hafa sýnt að mikill meirihluti landsmanna vill hafa öflugt ríkisrekið heilbrigðiskerfi – og ekki skortir hér fjármagnið. Ísland er það ríkt land að við gætum nokkuð auðveldlega, einkum vegna fámennis, verið með heilbrigðiskerfi á heimsmælikvarða. Svo er ekki. Fjarri því. En ef marka má stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar, ætlar hún að verða fyrsta stjórnin sem rækir vilja þjóðar sinnar í þessum efnum. Þar stendur að heilbrigðiskerfið eigi „að standast samanburð við það sem best gerist í heiminum og allir landsmenn eiga að fá notið góðrar þjónustu, óháð efnahag og búsetu … [og] dregið úr greiðsluþátttöku sjúklinga …“

Stór og falleg orð. Og erfitt að túlka þau öðruvísi en að frekari einkavæðingu sé vísað út á hafsauga. Loksins ætla stjórnmálamenn að fara að þjóðarvilja í þessum málum. Þurfti þá, eftir allt saman, Vinstri græna til?

Fyrir örfáum árum voru erlendir sérfræðingar fengnir til að taka út íslenska heilbrigðiskerfið. Þeir skiluðu af sér skýrslu þar sem Landspítalanum var hrósað fyrir þolgæði, dugnað og úrræði við þröngan fjárskort, en einkavæðingin gagnrýnd af miklum þunga:

„Umfang starfsemi sérfræðilækna á einkastofum hefur aukist hratt á síðustu árum án skýrra stefnu, stjórnunar, stýringar verkefna eða eftirlits með gæðum þjónustunnar.“

Án eftirlits með gæðunum. Þar höfum við það.

„Katrín Jakobsdóttir hefur lengi verið sá stjórnmálamaður sem þjóðin treystir best og viljað sjá í stól forsætisráðherra. Nú situr hún loksins þar. En mörgum þykir að hún hafi greitt full hátt verð fyrir stólinn, og eiga erfitt með að fyrirgefa henni að hafa leitt Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkinn enn einu sinni til valda.“
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Það er nógu umhugsunarvert að Sjálfstæðisflokkur hafi, með þegjandi samþykki meðreiðarsveina sína í Framsókn, komið á stjórnlausri einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu þvert á vilja þjóðar – en hitt lýsir fullkomnu ábyrgðarleysi að láta einkaaðila vinna þar eftirlitslaust. Eitt mest sláandi dæmi um siðleysið sem getur búið í þeirri einkavæðingu sem stjórnmálamenn Íslands hafa boðið upp á síðustu ár, er saga Art Medica. Í góðan áratug voru Art Medica þeir einu sem buðu upp á tæknifrjóvgun hérlendis, fólk sem þráði að eignast barn hafði því ekki í önnur hús að venda. Gjaldskrá fyrirtækisins hækkaði reglulega, tug milljóna arður greiddur til eigenda ár hvert, en lítið hirt um að endurnýja tækin þrátt fyrir öra þróun í þeim málum. Eigendurnir töldu augsýnilega mikilvægara að taka út arð en að endurnýja tækin. Svo illa getur arðsemissjónarmiðið leikið manneskjuna. Sænska fyrirtækið IVF keypti Art Medica fyrir fáeinum árum, það fyrsta sem Svíarnir gerðu var að endurnýja tækjakostinn, og líkurnar á heppnaðri tæknifrjóvgun jukust samstundis umtalsvert. Orð geta ekki lýst sárindum og vanmáttugri reiði þeirra sem höfðu áður borgað Art Medica miklar upphæðir fyrir tæknifrjóvgun sem misheppnaðist, og í sumum tilfellum eingöngu vegna gamalla tækja, þegar þau lásu um söluna, og að eigendur hefðu gengið burt með hundruð milljóna í vasanum. Vasa fulla af blóðpeningum.

Einkavæðing þarf ekki að vera hið sama og að innleiða siðleysi. En einkavæðing þýðir að krafa er gerð um arðsemi, og sú krafa á einfaldlega ekki að fyrirfinnast þegar líf og heilsa fólks er annars vegar. Eitt af stóru verkefnum Svandísar sem heilbrigðisráðherra er að koma föstum böndum á einkavæðinguna, að hún sé algerlega gegnsæ, og undir ströngu eftirliti. En hefur Svandís aflið til að glíma við þá földu, öflugu hagsmuni sem hafa látið einkavæðinguna grassera eftirlitslaust – hagsmuni sem virðast liggja regindjúpt í Sjálfstæðisflokknum?

Vaknið þið varðmenn gamla Íslands

Siðbótin og gagnsæið í íslenskum stjórnmálum sem kallað var eftir í kjölfar hrunsins hefur aldrei komið. Ég efast ekki um að margir innan ríkisstjórnaflokkana þriggja búi yfir vilja að koma að gagni í íslensku samfélagi, og það er margt fallegt sem stendur í sáttmála stjórnarinnar. En án siðbótar og gagnsæis er hætta á að góður vilji fari fyrir lítið. Þá er hætta á að hagsmunaöflin ráði áfram yfir sanngirninni, valdbeitingin yfir lýðræðinu, fúskið yfir fagmennskunni. Er einhver von til þess að Katrín Jakobsdóttir og hennar besta fólk hafi styrk og úthald til að knýja fram raunverulegar breytingar í dansi við þá flokka sem einarðastir standa vörð um hagsmunaöflin, og virðast hafa lítinn áhuga á gegnsæi, faglegum vinnubrögðum? Í það minnsta sendu þeir báðir skýr skilaboð strax í upphafi. Sjálfstæðisflokkurinn með því að skipa Sigríði Á aftur dómsmálaráðherra – þrátt fyrir að síðasta stjórn hafi sprungið vegna þess að hún hylmdi yfir mönnum sem brutu ófyrirgefanlega að sér – og Kristján Þór, vin Þorsteins Más forstjóra Samherja, og fyrrum starfsmann þess fyrirtækis, ráðherra sjávarútvegsmála. Aðspurður vísaði Kristján því góðlátlega á bug að það væri hætta á hagsmunaárekstrum. Sagðist treysta sjálfum sér að hefja sig yfir persónuleg tengsl, og að hann myndi einfaldlega víkja úr sæti ef taka þyrfti ákvörðun sem tengdist Samherja. Kristján Þór veit ósköp vel að Samherji er það öflugt fyrirtæki að nánast öll mál sem tengjast íslenskum sjávarútveg snerta þá beinlínis – og hann hlýtur þar með sjálfkrafa að vera óhæfur sem ráðherra sjávarútvegsmála. En Kristján brosti góðlátlega vegna þess að hann veit að sem ráðherra í nýlendunni Ísland kemst hann upp með það að bulla.

Ég veit ekki hvort með skipan þessara ráðherra, og eins skipan Ásmundar Einars sem félags– og jafnréttismálaráðherra þrátt fyrir að hann tengist sterklega máli þar sem brotið var ítrekað á réttindum verkamanns – hafi verið leið valdaflokkana tveggja að sýna Vinstri grænum fingurinn. En mig grunar að þeir hafi fyrst og síðast verið að senda þau skilaboð út í samfélagið, að jafnvel undir stjórn hinnar öflugu Katrínar færu þeir áfram sínu fram.

Sviku þá Vinstri græn kjósendur sína?

Eða veit Katrín að siðbótin er langhlaup, og eina leiðin til að siðbæta íslenskt stjórnmálalíf, auka við fagmennsku, koma á gegnsæi, sé að sýna þolinmæði – og vona að úthaldið bresti ekki? Að myglusveppurinn í burðarbitunum sýki þau ekki. Eru Vinstri græn, í huga Katrínar, kannski Trójuhesturinn sem hefur verið dreginn inn fyrir múra valdsins, og nú bíður hún þess að varðmenn hagsmunagæslu og misskiptingar sofni á verðinum? En mun Steingrímur J. þá kannski slá fast í þingbjölluna og hrópa, vaknið þið varðmenn gamla Íslands, vaknið og vopnist … og undir lok kjörtímabilsins situr Bjarni Benediktsson áfram hæst alla vegna þess að hann hefur stungið svo mörgu undir stólinn?

Efnisflokkar:
Meira úr sama flokkiÁlit