Takk fyrir og sjáumst á nýjum miðli á föstudag
Bréf frá ritstjóra Kjarnans vegna sameiningar við Stundina og þess að nýr framsækinn fréttamiðill verður til í lok viku.
Snemma árs 2013 tók fimm manna hópur sig saman, lagði sparifé sitt inn í nýstofnað félag og stofnaði fjölmiðlafyrirtæki sem fékk nafnið Kjarninn miðlar. Tilgangurinn var að stofna miðil sem væri óháður hagsmunaöflum og gæti lagt áherslu á gæði og dýpt. Segja færri fréttir en stóru miðlarnir en segja þær betur og setja samfélagsleg málefni í stærra samhengi fyrir lesendur.
Upphaflega var útgáfuformið stafrænt vikulegt tímarit. Ljóst var frá fyrsta degi að eftirspurn var eftir efninu og efnistökunum. Það var þörf fyrir gagnrýna, heiðarlega og framsýna fréttamennsku. Trúverðugleiki Kjarnans mældist mikill.
Formið, hið vikulega stafræna rit sem var aðgengilegt án greiðslu, var hins vegar ekki að virka sem skyldi. Það var ekki að skila sjálfbærum rekstrargrundvelli. Á þessu tímabili unnu stofnendur launalítið eða -laust til að halda útgáfunni gangandi.
Rúmu ári eftir fyrstu útgáfu, og 60 útkomin eintök, var því skipt yfir í daglegan fréttavef. Þannig hefur kjarninn í Kjarnanum verið alla tíð síðan. Ýmislegt hefur hlaðist utan á hann. Morgunpóstur. Hlaðvörp. Vísbending, Ensk fréttabréf.
Og auðvitað Kjarnasamfélagið, sem hefur frá 2015 verið mikilvægasta stoðin í tilveru Kjarnans.
***
Ég, sem er á meðal stofnenda og hef ritstýrt Kjarnanum frá upphafi, lít gríðarlega stoltur um öxl. Á líftíma sínum hafa starfsmenn Kjarnans verið tilnefndir til blaðamannaverðlauna á hverju einasta ári, og hlotið verðlaunin fjórum sinnum.
Við höfum markað okkur sérstöðu hvað varðar umfjallanir og greiningar um íslensk stjórnmál og efnahagsmál á tíma þar sem ríkt hefur fordæmalaus pólitískur óstöðugleiki og eðlisbreyting hefur orðið á stjórnmálum.
Við höfum leitt umfjöllun um sölu Landsbankans á eignarhlut sínum í Borgun, uppgjör slitabúa föllnu bankanna og um nýjar uppgötvanir vegna einkavæðingar Búnaðarbankans. Um Leiðréttinguna og áhrif hennar á íslenskt samfélag.
Við tókum þátt í úrvinnslu Panamaskjalanna. Við birtum lykilumfjallanir í Landsréttarmálinu, meðal annars listann yfir einkunnagjöf þeirra sem sóttust eftir dómaraembættunum, sem breyttu eðli þess máls.
Við höfum birt umfangsmiklar umfjallanir um stöðu kvenna í íslensku samfélagi (sérstaklega þegar kemur að stýringu á fjármunum), umfjallanir um þær gríðarlega miklu samfélagsbreytingar sem eru að eiga sér stað hérlendis vegna fjölgunar á erlendum ríkisborgurum og umfjallanir um ójöfnuð í íslensku samfélagi. Við vorum leiðandi í umfjöllun um peningaþvætti á Íslandi í aðdraganda þess að Ísland var sett á gráan lista vegna þeirrar meinsemdar, höfum markað okkur einstaka sérstöðu í umfjöllun um umhverfis-, orku- og loftslagsmál og nálgast samfélagið frá sjónarhorni neytenda í fjölmörgum málum.
Á síðustu árum höfum við fjallað um kynferðisbrot og kynbundið ofbeldi, ítarlega um sölu á eignarhlutum ríkisins í bönkum frá sjónarhorni almannahagsmuna, fjallað gríðarlega mikið um það fáveldi sem hefur myndast vegna þess sjávarútvegskerfis sem rekið hefur verið hér á landi og verið í fararbroddi í umfjöllunum um ýmis athæfi Samherja. Þá er ónefnd fordæmalaus umfjöllun Kjarnans um brunann á Bræðraborgarstíg og margháttaðar afleiðingar hans. Svo fátt eitt sé nefnt.
Þetta hefur ekki alltaf verið auðvelt. Okkur hefur verið hótað lögsóknum. Fjölmargar rekstrarhindranir hafa verið reistar. Vegið hefur verið að æru, fagheiðri og framfærslu blaðamanna sem hér hafa starfað. Í næstum ár hef ég og annar blaðamaður Kjarnans verið til rannsóknar hjá lögregluembætti fyrir það að taka við gögnum sem áttu skýrt erindi við almenning og skrifa fréttir upp úr þeim.
En þetta hefur allt verið þess virði. Kjarninn hefur vaxið og dafnað. Frá 2019 og út síðasta ár hafa tekjur meira en tvöfaldast og reksturinn er sjálfbær. Þetta höfum við gert án þess að stofna til skulda. Með ykkar liðsinni.
***
Skömmu fyrir jól var greint frá því að aðstandendur Kjarnans og Stundarinnar hefðu náð samstöðu um að sameina fjölmiðlana tvo. Útgáfufélög þeirra runnu saman um nýliðin áramót og 13. janúar verður nýr miðill, með nýju nafni, til.
Kjarnastarfsemi hans verður dagleg fréttasíða, á borð við þá sem Kjarninn hefur rekið, og öflug prentútgáfa sem mun koma út tvisvar í mánuði. Sameinuð ritstjórn verður sú öflugasta sem fyrirfinnst á Íslandi.
Markmiðið með sameiningunni er að setja saman öflugt íslenskt fjölmiðlafyrirtæki sem stendur að óháðri, vandaðri, gagnrýninni og uppbyggilegri aðhaldsblaðamennsku, býður upp á gott starfsumhverfi og móta fjölmiðil sem getur stækkað, vaxið og dafnað.
Til viðbótar stendur til að breikka efnistök, fjölga leiðum til að miðla efni og vera með sterkari rödd í íslensku samfélagi.
Sameiginlega útgáfufélagið verður með afar dreift eignarhald og að hluthafahópi hans stendur fólk úr öllum áttum sem deilir því markmiði að vilja frjálsa og öfluga fjölmiðla sem hafa getu til að skipta máli og burði til að veita ráðamönnum hverju sinni viðeigandi aðhald.
Alls verða einstaklingarnir í eigendahópnum á fjórða tug talsins og enginn einn hluthafi mun eiga yfir tíu prósent hlut. Algjör eining er um það innan hópsins að allar viðbótartekjur sem falla til fara í að efla reksturinn.
Með öðrum orðum þá verður allt það sem fékk ykkur til að ganga til liðs við Kjarnasamfélagið áfram til staðar.
***
Ég vil nota tækifærið á þessum tímamótum til að segja takk fyrir. Án ykkar hefði ekki orðið neinn Kjarni. Það sem við höfum gert, gerðuð þið okkur kleift að gera.
Við mótun nýja miðilsins verður leitað til almennings um hugmyndir, ábendingar og leiðsögn. Þeir sem vilja halda áfram að styrkja okkur með þeim hætti sem þið hafið gert hingað til gerið það einfaldlega áfram án þess þurfa að gera nokkuð. Þið getið líka gerst áskrifendur að nýja miðlinum með því að skrá ykkur á slóðinni kjarninn.stundin.is.
Þar er hægt að nálgast allar helstu upplýsingar um sameininguna og það sem þegar liggur fyrir um nýjan miðil. Þar geta lesendur líka komið á framfæri ábendingum og hugmyndum fyrir nýjan miðil.
Það er ekki hægt að setja verðmiða á óháða blaðamennsku. Hún er ómetanleg, en hún er ekki ókeypis. Frjálsir, hugrakkir fjölmiðlar gegna að okkar mati lykilhlutverki í því að viðhalda lýðræðinu og stuðla að heilbrigðri þjóðfélagsumræðu.
Við bjóðum ykkur með í þetta ferðalag.
Með þakklætiskveðju,
Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans og annar ritstjóri nýs miðils.