Root

Goðsögnin um íslenska yfirburðarþjóðfélagið

Sterkur menningarlegur rasismi er í orðræðu íslenskra stjórnmála. Og orðræðan er orðin þjóðernispopúlísk þegar stjórnmálamenn nýta sér tiltekið andrými í samfélaginu til þess að komast til áhrifa.

Það má tvímælalaust greina sterkan menningarlegan rasisma í orðræðu í íslenskum stjórnmálum. Í ákveðnum málum, sem upp hafa komið á síðustu árum, eru flest skilyrði þess hugtaks uppfyllt. Þar ber helst að nefna moskumálið, hugmyndir Ásmundar Friðrikssonar um bakgrunnsrannsókn á múslimum og umræðu í kringum skipan Gústafs Níelssonar í mannréttindaráð Reykjavíkur.

Þetta er niðurstaða rannsóknar sem fjórir nemendur við Háskólann á Bifröst, þeir Sigurður Kaiser, Gauti Skúlason, Hallur Guðmundsson og Tjörvi Schiöth, unnu í sumar. Tilgangur hennar var að skilgreina hvað menningarlegur rasismi sé og hvernig megi greina hann í orðræðu á sviði stjórnmála á Íslandi.

Þar segir meðal annars: „Segja má að að orðræðan sé orðin þjóðernispopúlísk þegar stjórnmálamenn nýta sér tiltekið andrými í samfélaginu til þess að komast til áhrifa, einkum ef byggt er á útilokandi þjóðernishyggju. Goðsögnina um yfirburðaþjóðfélag sem íslensk þjóðernishyggja og stjórnmálamenning hafa snúist um áratugum saman, er hægt að tengja við þá „yfirburðahyggju“ sem hér hefur verið skilgreind sem sterkur menningarlegur rasismi“.

Að skipta heiminum upp í „við“ og „hinir“. Svarthvíta mynd sem aðgreinir einnig hið „góða“ frá hinu „illa“.

Um frumrannsókn er að ræða hérlendis, þar sem hugtakið menningarlegur rasismi hefur ekki verið skilgreint áður á íslenskri tungu. Verkefni hópsins hlaut viðurkenningu fyrir að vera framúrskarandi þegar misserisvarnir fóru fram hjá Háskólanum á Bifröst í lok júní síðastliðnum. Hægt er að lesa greinargerð rannsóknarinnar í heild sinni hér.

„Við“ og „hinir“

Opinber umræða um útlendinga, innflytjendur, fjölmenningu og alþjóðasamskipti hefur aukist mjög á Íslandi á undanförnum árum. Og hún hefur fært sig meira og meira inn á stjórnmálasviðið samhliða því að eftirspurn eftir pólitískum valkostum, sem taka útlendingum eða erlendum menningaráhrifum með fyrirvara, virðist hafa aukist til muna. 

Hugtakið menningarlegur rasismi hefur hins vegar ekki verið skilgreint á íslenskri tungu. Þess vegna þurfti hópurinn sem vann rannsóknina að skilgreina það fyrst áður en hann gat greint hvort fyrirbærið væri að finna í orðræðu íslenskra stjórnmála. 

Í skilgreiningu hópsins segir meðal annars að eitt af höfuðeinkennum menningarlegs rasisma og þjóðernispopúlisma sé að draga upp tvískipta mynd af sinni þjóð eða sínum menningarheimi annars vegar, og útlendingum eða öllum utanaðkomandi hinsvegar. Að skipta heiminum upp í „við“ og „hinir“. Svarthvíta mynd sem aðgreinir einnig hið „góða“ frá hinu „illa“.

Það má tvímælalaust greina menningarlegan rasisma í orðræðu í íslenskum stjórnmálum í allnokkrum tilvikum.

Menningarlegur rasismi sé „ný og lítt þekkt tegund af rasisma sem hefur komið fram á sjónarsviðið á síðustu árum, er beintengd við þjóðernispopúlisma og grundvölluð á útlendingahræðslu, útilokandi þjóðernishyggju og íslamófóbíu á Vesturlöndum. Þetta er fyrirbæri sem skiptir kynþáttum hefðbundins rasisma út fyrir menningu, og gengur út á að aðgreina fólk, þjóðir og þjóðfélagshópa eftir ólíkum menningarlegum uppruna og trúarbrögðum. Hefðbundinn „líffræðilegur“ rasismi hefur verið á undanhaldi og nýtur ekki viðurkenningar lengur eftir að grundvallarforsendur hans voru afsannaðar með nútímavísindum. Í staðinn hafa sambærilegir fordómar, og ótti við hið óþekkta og framandi, tekið á sig nýjar myndir og form“.

Í greinargerð rannsóknarinnar segir að þessi nýja tegund af rasisma hafi breiðst út með duldum hætti í skjóli leyndarhyggju og aðlagast að breyttri heimsmynd og tíðaranda. Á Vesturlöndum sé hann beintengdur við Íslamófóbíu, andstöðu gegn innflytjendum og almennri andstöðu gegn fjölmenningu. „Um er að ræða eðlishyggju á grundvelli menningar sem er notuð til að mismuna þjóðfélagshópum eftir menningarlegum einkennum. Fullyrt er að ólíkir menningarheimar séu ósamrýmanlegir, en stundum er stigið skrefinu lengra og því haldið fram að átök á milli þessara heima séu óumflýjanleg og standi nú yfir“.

Afgerandi niðurstaða

Hópurinn framkvæmdi orðræðugreiningu á umfjöllun fjölmiðla og umræðu á opinberum vettvangi á tímabilinu 1. janúar 2013 til 1. júní 2015. Leitast var við að meta hvort greina mætti menningarlegan rasisma í orðræðu íslenskra stjórnmála. Tímabilið var valið svo það næði að fanga bæði orðræðu í aðdraganda alþingiskosninga árið 2013 og sveitastjórnarkosninga árið 2014. 

Úr þeim 9.817 leitarniðurstöðum sem viðmið höfunda skiluðu voru 734 leitarniðurstöður valdar út frá markmiðum, viðfangsefni og tilgangi verkefnisins. Þegar þær höfðu verið yfirfarnar, og leitarniðurstöður sem fjölluðu um sama viðfangsefnið fjarlægðar, stóðu eftir 297 leitarniðurstöður, greinar og fréttir sem mynduðu grunn orðræðugreiningarinnar. Hópurinn las svo þessar greinar og fréttir og kóðaði þær í fjögur mismunandi mál: Moskumálið, byssumálið, bakgrunnskoðun á múslimum og skipun í mannréttindaráð Reykjavíkur. Moskumálið skilaði langflestum leitarniðurstöðum.

Þessum 297 leitarniðurstöðum var svo fækkað niður í 70 og þær sem eftir stóðu notaðar sem heimildir við skrif greinargerðarinnar. Ástæða þess að ekki var notast við allar 297 leitarniðurstöðurnar var sú að oft fjölluðu sömu einstaklingarnir, eða fleiri en einn einstaklingur, um sama viðfangsefnið og oft fjölluðu margir miðlar um sömu fréttina eða ummæli einstaklings. Málflutningurinn er í þeim tilfellum væri keimlíkur eða sambærilegur í hvert skipti og sömu rök lítu dagsins ljós aftur og aftur.

Niðurstöður greiningarinnar eru nokkuð afgerandi: Það má tvímælalaust greina menningarlegan rasisma í orðræðu í íslenskum stjórnmálum í allnokkrum tilvikum. Ákveðin mál stóðu upp úr, þar sem flest skilyrði hans voru upfyllt. Þau þykja auk þess vera dæmi um sérlega sterkan menningarlegan rasisma. 

Ekki viljum við sjaríalög!

Á árinu 2013 komu fá mál upp á vettvangi stjórnmála sem tengja má við menningarlegan rasisma. Í greinargerðinni segir að á rannsóknartímabilinu 1. janúar 2013 og fram í júlí sama ár, þegar þingkosningunum 2013 var lokið, hafi aðeins komið upp eitt afgerandi mál á sviði stjórnmálanna. Það var umræða um orðalag ályktunar landsfundar Sjálfstæðisflokksins í febrúar 2013, um trúmál og kristin gildi. 

Í aðdraganda landsfundarins lá fyrir ályktun sem meðal annars innihélt setninguna „Öll lagasetning skal ávallt taka mið af kristnum gildum og hefðum þegar það á við“. Í greinargerðinni er rifjað upp að snörp átök hafi átt sér stað um málið á landsfundinum þar sem ýmsir, meðal annars þingmenn Sjálfstæðisflokksins, tjáðu sig um málið. Að lokum var setningin felld burt úr ályktuninni. 

Í umræðunum notaði Emil Örn Kristjánsson, formaður Félags Sjálfstæðismanna í Grafarvogi, tækifærið og gagnrýndi „öfgamenn“ í borgarstjórn Reykjavíkur, fyrir að banna Nýja testamentið í skólum borgarinnar. Emil studdi tillöguna um að fella burt ákvæðið, en benti á að það hafi aldrei hafi verið eins mikil nauðsyn og nú, að skerpa á því að kristin gildi og hefðir stjórnuðu lagasetningu á Íslandi. Hann sagði orðrétt: „Ekki viljum við að það fari að gilda sjaríalög hér um afmarkaða hópa, er það nokkuð?“. 

Rannsakendur komast að þeirri niðurstöðu, með beitingu rannsóknarviðmiða, að í orðræðu Emils um kristin gildi og sjaríalög hafi mátt greina menningarlega eðlishyggju og „yfirburðahyggju,“ sem telst til sterks menningarlegs rasisma.

Varasamt fyrir þjóðmenningu og öryggi

Hið svokallaða moskumál snýst um úthlutun á lóð í Sogamýri til Félags múslima á Íslandi, en félagið hyggur á byggingu mosku á lóðinni, og umræðu um þá ráðagerð. Lóðinni var úthlutað í júlí 2013 og byggingaleyfi veitt í september sama ár. Í kjölfar samþykktarinnar fór að bera á neikvæðri umræðu um framkvæmdina, sérstaklega á netmiðlum. Sú umræða átti síðan eftir að ná hámarki í sveitarstjórnarkosningunum 2014. 

Í niðurstöðukafla greinargerðarinnar kemur þó fram að eitt bersýnilegasta dæmið sem hópurinn fann um menningarlegan rasisma hafi verið í grein eftir Ólaf F. Magnússon, fyrrum borgarstjóra í Reykjavík , sem birtist í Morgunblaðinu júlí 2013. Ólafur sagði þar að erlend „útbreiðslusamtök múslíma“ gætu komið við sögu þegar fjármagna þyrfti uppbyggingu moskunnar. Hann taldi að slík samtök myndu vilja „auka áhrif íslamstrúar á Íslandi, sem og í öðrum löndum“. Ólafur sagði að þetta gæti orðið varasamt fyrir „þjóðmenningu okkar og öryggi“. Að hans mati ættu ásatrúarmenn frekar að reisa hof í Sogamýrinni en múslimar þar sem ásatrú njóti velvildar þorra landsmanna og sé „hluti af okkar þjóðmenningu“.

Höfundar greinargerðarinnar segja að ummæli Ólafs séu opinská og afdráttarlaus, og uppfylli öll fimm skilyrði rannsóknar þeirra um menningarlegan rasisma. Ólafur hafi sýnt af sér „yfirburðahyggju“ og þar með sterkan menningarlegan rasisma, með því að hefja ásatrúarhof og íslenska þjóðmenningu upp yfir mosku og íslam.

Skjáskot/Morgunblaðið

Moskuummæli snúa kosningabaráttu á hvolf

Þegar nær dró sveitarstjórnarkosningunum 2014 jókst umræða um byggingu mosku í Sogamýri verulega. Siðustu vikuna áður en var kosið náði umræðan hámarki. Þann 23. maí 2014 birtist frétt á vefnum Vísi.is þar sem greint var frá Facebook-færslu Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur, formanns Landssambands framsóknarkvenna og varaþingmanns flokksins, sem hafði skömmu áður verið gerð að forystumanni sameiginlegs framboðs Framsóknar og flugvallarvina í Reykjavík. Ástæða þess að lista flokksins var breytt svona skömmu fyrir kosningar var sú að fylgi hans hafði mælst í kringum þrjú prósent, sem var fjarri því að skila flokknum borgarfulltrúa. En Facebook-færsla Sveinbjargar Birnu sneri kosningabaráttunni á hvolf.

Þar sagðist hún vilja að lóðin sem úthlutað hefði verið undir mosku yrði afturkölluð, í kjölfar þess að margir hefðu komið að máli við hana og spurt hver afstaða hennar til málsins væri. Sveinbjörg Birna sagði ennfremur við Vísi: „Á meðan við erum með þjóðkirkju eigum við ekki að úthluta lóðum undir hús eins og moskur eða kirkjur fyrir grísku réttrúnaðarkirkjuna. Ég hef búið í um eitt ár í Sádí Arabíu og byggi þessa skoðun mína ekki á fordómum, heldur reynslu [...] Ég trúi því að allir eigi að geta iðkað sína trú. En mér finnst ekki rétt að múslimar eða önnur trúfélög fái lóðir undir byggingu moskna eða sambærilegra húsa. Mér finnst samt bænahús vera annars eðlis og er ekki mótfallin þeim. Við erum búin að búa hér í sátt og samlyndi frá landnámi. Fyrst var það Ásatrú, síðan komu siðaskiptin – allir þekkja þessa sögu“.

Sveinbjörg sagðist ekki byggja skoðun sína á fordómum, enda hefði hún mikla reynslu af því að búa í fjölmenningarsamfélögum. „Ég er t.d. nýkomin úr stærstu mosku í heimi í Abú Dabí. Það er engin kirkja þar, eðli málsins samkvæmt. Ég virði siði annarra landa. Ég hyl mig alla eins og tíðkast í þeim löndum og finnst það bara sjálfsagt mál. Ég er örugglega eini frambjóðandinn í Reykjavík sem hefur búið annars staðar en á Íslandi. Ég bjó í Sádí Arabíu í um það bil ár. Ég hef ferðast mikið um arabalöndin. Eins og ég segi þetta eru ekki fordómar, heldur reynslan mín sem útskýrir þessa afstöðu,“ sagði Sveinbjörg Birna. 

Í niðurstöðukafla greinargerðarinnar segir að þessi upphaflega yfirlýsing Sveinbjargar Birnu í moskumálinu uppfylli fjögur af fimm skilyrðum fyrir menningarlegum rasisma. „Hún talar fyrir menningarlegri mismunun, eðlishyggju og andstöðu við fjölmenningu. Hún afsakar einnig skoðanir sínar sem hún telur að teljist ekki til fordóma, með því að segja að þær byggi frekar á þekkingu hennar á málinu og reynslu erlendis frá, fremur en þekkingarleysi. Þá segist hún styðja trúfrelsi, þrátt fyrir að vera andsnúin því að múslimar byggi bænahús [mosku] hér á landi“.

Framsókn og flugvallarvinir fjórfölduðu fylgi sitt á lokametrum kosningabaráttunnar fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2014. Forystumenn flokksins tjáðu sig afar takmarkað um ummæli Sveinbjargar Birnu fyrr en að kosningum afloknum.

Eygló Harðardóttir, ráðherra Framsóknarflokksins.
Mynd: Birgir Þór

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra og ritari Framsóknarflokksins, kom þá í viðtöl þar sem orðræða hennar snerist um að taka yrði „umræðuna“ um „ágreiningsmálin“ sem fylgja aukinni fjölmenningu. Samkvæmt greiningu rannsakenda sýndi hún af sér vott af afsakandi leyndarhyggju og andstöðu við fjölmenningu með þeim ummælum. 

Sumt fólk geti ekki búið saman

Viðtal við Brynjar Níelsson, þingmann Sjálfstæðisflokksins, sem birtist í DV í október 2014 er einnig tekið til athugunar. Þar sagði Brynjar meðal annars að hann sé ekki sérstaklega trúaður, en „að þessi kristni þráður sem hefur sameinað þessa þjóð sé mikilvægur fyrir okkar samfélag, hvort sem okkur líkar það eður ei“. Brynjar sagði að hann vildi gera greinarmun á kristni og „trúarbrögðum sem passa illa inn í okkar hugmyndafræði, okkar menningu og mentalítet“. Brynjar sagði einnig að ef það sem er sameiginlegt með íslensku þjóðinni byrji að hverfa sé það byrjunin á því að þjóðin „flosni upp“. 

Það gæti „leitt til átaka ef trúarbrögð sem eru kannski orðin fjölmenn líka og hafa allt aðrar hugmyndir um samfélagið en við, fái að stækka mikið. Eins og mannkynssagan kannski segir okkur“. Ákveðin lög henti „ekki ákveðnum hópum innan samfélagsins, þeir einangrist og verði að samfélögum innan samfélagsins“. Þetta verði ekki vandamál á meðan trúarhóparnir séu ekki fjölmennir: „en þegar þeir eru komnir yfir hálfa borgina og orðnir að fjórðungi íbúa landsins þá mun það kalla á átök“. Þess vegna þurfi að gilda reglur og vanda valið um hverjir komist inn í landið og hverjir ekki. 

Brynjar Níelsson, alþingismaður.
Mynd: Anton Brink

Brynjar sagði ennfremur að fólk geti auðvitað haft þá skoðun að hér eigi bara að vera fjölmenningarsamfélag og að til landsins megi allir koma sem vilja. Hann bætti hins vegar við að „sumt fólk getur bara ekki búið saman, eins og bara í venjulegri fjölskyldu. Það verður að samræma þetta“.

Rannsakendur komast að þeirri niðurstöðu að Brynjar láti, með ummælum sínum, í ljós menningarlega eðlishyggju með því að gefa í skyn að íslam sé ósamrýmanlegt „vestrænni hugmyndafræði“ og menningu. Ummæli hans beri því tvímælalaust vott um mildan menningarlegan rasisma.

Grófar staðalímyndir dregnar upp

Í greinargerðinni er einnig fjallað um orðræðu í byssumálinu svokallaða sem spratt upp í október 2014. Það snerist um vopnaburð lögreglunnar og hversu langt mætti ganga í að vopna almenna íslenska lögregluþjóna með hríðskotabyssum og skammbyssum. Ýmis ummæli voru látin falla og skoðanir voru látnar í ljós, bæði af hálfu stjórnmálamanna og lögreglumanna, um mögulega hryðjuverkaógn sem stafi af erlendum hryðjuverka- og glæpasamtökum, tengd við íslam.

Í niðurstöðukafla kemur fram að það sé umdeilanlegt hvort málflutningurinn í byssumálinu uppfylli skilyrði þess að flokkast sem menningarlegur rasismi. „Eingöngu er talað um ógnina sem Íslandi stafi af íslömskum hryðjuverkasamtökum, en ekki af íslam eða múslimum sem slíkum. Dregnar eru upp grófar staðalímyndir af íslömskum hryðjuverkamönnum og margar langsóttar staðhæfingar settar fram. Einblínt er á ógn við þjóðaröryggi, en deila má um hvort að ógnin sem talað er um, sé beint gegn íslenskri og/eða „vestrænni“ menningu og gildum almennt“.

Ásmundur og bakgrunnskoðunin

Það er hins vegar engin vafi í niðurstöðu rannsakenda um hugmyndir og málflutning Ásmundar Friðrikssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um bagrunnskoðun á múslimum. Hann ber skýran vott um menningarlegan rasisma.

Ásmundur varpaði fram þeirri spurningu í Facebook-stöðuuppfærslu í janúar 2015, nokkrum dögum eftir skotárásina á ritstjórnarskrifstofur franska teiknimyndablaðsins Charlie Hebdo, hvort þeir 1.500 múslimar sem búi á Íslandi hafi verið athugaðir og hvort einhverjir úr þeirra hópi hafi fengið þjálfun hjá samtökum sem skilgreind hafa verið sem hryðjuverkaógn. Ásmundur spurði ennfremur hvort innanríkisráðuneytið hefði gert raðstafanir vegna þessara ógna.

Erum við örugg á Íslandi.Í Danmörku eins og um allan heim er hugurinn með Frönsku þjóðinni. Viðbjóðsleg hryðjuverk í...

Posted by Ásmundur Friðriksson on 10. janúar 2015

Stöðuuppfærsla Ásmundar, og fréttaflutningur af henni sem fylgdi í kjölfarið vakti mikla athygli og skömmu síðar viðurkenndi Ásmundur í viðtali við Kastljós að hann þekkti samfélag múslima „nánast ekki neitt“. Múslimar hefðu hins vegar sjálfir áhyggjur af því að „múslimistar“ vilji koma til Íslands. 

Um mánuði síðar, í febrúar 2015, var umræða um störf þingsins á Alþingi. Þar steig Ásmundur í pontu og lýsti yfir vonbrigðum sínum með samfélagsumræðuna um þá hættu sem steðji að hinum frjálsa heimi og þjóðfélögum vegna fjölgunar á árásum einstaklinga og hvers konar öfgahópa. 

Orðrétt sagði Ásmundur: „Hér á landi á engin slík umræða sér stað og það er spurning hve lengi við ætlum að skila auðu í umræðu um öryggi íbúanna. Hér hafast menn öðruvísi að. Þeir sem vekja athygli á hættunni er steðjar að nágrönnum okkar eru skotnir niður og ataðir auri í samfélagsumræðunni sem aldrei kemst á það stig að ræða um málefnið. [...] Tjáningarfrelsi er fótum troðið en það virðist oft og tíðum aðeins vera fyrir útvalda. Ég þakka hæstvirtum innanríkisráðherra Ólöfu Nordal fyrir að hefja umræðuna um hvort taka skuli upp forvirkar rannsóknarheimildir hér á landi. Tökum umræðuna í samfélaginu um þá ógn sem steðjar að í nágrannalöndum okkar. Við getum ekki tekið þá áhættu að hún berist ekki hingað“.

Í mars 2015 var Ásmundur annar aðalgesta sjónvarpsþáttarins Eyjunnar á Stöð 2. Þar ræddi hann aftur um að ógnin af hryðjuverkamönnum væri staðreynd og sagði: „Núna eru þeir ekki aðeins komnir til Danmerkur, þeir eru að spígspora hér í bænum þessir menn. Við getum mætt þeim á götu núna. Ég held að miðað við þau viðbrögð sem ég hef fengið við þessu, þessi gríðarlegu viðbrögð sem ég fékk við þessum málflutningi mínum, þakklæti frá fóllkinu í landinu, segir mér það að við þurfum að taka þessa umræðu eins og innanríkisráðherrann er byrjuð að tala um forvirkar rannsóknarheimildir og við þurfum auðvitað að gera þetta æsingalaust“. 

(viðtalið byrjar eftir um 16 mín)

Rannsakendurnir segja að „með hugmyndum sínum og málflutningi, m.a. í ræðustól Alþingis, um nauðsyn bakgrunnskoðunar á múslimum, uppfyllir Ásmundur Friðriksson fjögur skilyrði af fimm fyrir menningarlegum rasisma. Þetta er menningarleg mismunun og eðlishyggja, sem er keimlík orðræðu hefðbundins rasisma. Hann beitir einnig „tökum umræðuna“ rökunum þegar hann segist fagna umræðunni sem hefur sprottið upp í samfélaginu um forvirkar rannsóknarheimildir. Ásmundur lætur tvímælalaust í ljós skoðanir sem teljast til milds menningarlegs rasisma, en umdeilanlegt er hvort hann hafi sagt eitthvað sem túlka megi sem „yfirburðahyggju“ og sterkan menningarlegan rasisma“.

Evrópa getur ekki verið niðurfall fyrir þessi handónýtu ríki

Gústaf níelssonSíðasta dæmið sem tekið er sérstaklega fyrir í greinargerðinni er skipun Gústafs Níelssonar sem varamanns Framsóknar og flugvallarvina í mannréttindaráð Reykjavíkurborgar í janúar 2015. Gústaf hafði opinberlega lýst yfir andstöðu gegn hjónaböndum samkynhneigðra og byggingu mosku í Reykjavík áður en hann var skipaður í embættið. Skipun Gústafs var síðar dregin til bakaÍ hinum ýmsu viðtölum og greinum í aðdraganda skipunar sinnar hafði Gústaf m.a. lýst yfir þeirri skoðun sinni að hann vildi banna íslam á Íslandi og að Ísland væri „síðasta vígi kristinna manna“.

Í upphafi febrúarmánaðar 2015, eftir að skipun hans hafði verið afturkölluð, birtist svo viðtal við Gústaf í DV þar sem hann hélt því meðal annars fram að til að múslimar geti aðlagast vestrænu samfélagi, þyrftu þeir einfaldlega að „kasta trúnni“. Ennfremur sagði Gústaf að mörg „íslömsk ríki séu í algerri upplausn“ og slíkt leiði af sér flóttamannastrauminn sem legið hafi til Evrópu. Hagur Vesturlanda felist í því að stilla til friðar í þessum löndum þó það geti reynst erfitt: „Evrópa getur ekki verið niðurfall fyrir þessi handónýtu ríki. Við ráðum ekki við þetta“. Fjölgun múslima á Vesturlöndum kallaði Gústaf „hið hljóðláta landnám“ og lýsti áhyggjum sínum á áhrifum þess. 

Gústaf hafði þó ekki aðeins áhyggjur af þeim áhrifum sem múslimar gætu haft á vestrænt samfélag heldur hvert ástandið yrði, ef til uppreisnar gegn þeim kæmi. Hann tók þó fram að hann vildi ekki að það kæmi til trúarbragðastyrjaldar og það færi fyrir múslimum eins og fór fyrir gyðingum í seinni heimsstyrjöldinni.

Í greinargerðinni segir að orðræða Gústafs sé með „bersýnilegri dæmum um menningarlegan rasisma í þessari rannsókn.

Í greinargerðinni segir að orðræða Gústafs sé með „bersýnilegri dæmum um menningarlegan rasisma í þessari rannsókn. Hann uppfyllir tvímælalaust öll skilyrðin fimm og lætur í ljós skoðanir sem flokkast sem sterkur menningarlegur rasismi“.

Goðsögnin um yfirburðarþjóðfélagið

Niðurstaða greinargerðarinnar er sú að menningarlegur rasismi, eins hann er skilgreindur í rannsókninni, viðgangist í umræðu tengdum ákveðnum málum, á sviði stjórnmála á Íslandi. 

Í niðurstöðukaflanum segir: „Þjóðernishyggja er grundvallarhugtak og rauður þráður í íslenskri stjórnmálamenningu. Jafnvel er hægt að halda því fram að engin stjórnmálaumræða á Íslandi sé ósnert að þjóðernishyggju. Útilokandi þjóðernishyggja hefur orðið áberandi í ákveðnum málum, og er nátengd uppgangi þjóðernispopúlisma á síðustu árum. Mikil ábyrgð fylgir því jafnan að viðhalda meðvitað sameiginlegri þjóðarsögu og nýta þjóðernishyggju sem aðferð til að kynda undir pólaríseringu innan samfélagsins og á milli þjóðar og alþjóðasamfélagsins. Ábyrgðin hvílir ekki hvað síst á þeim sem taka til máls á opinberum vettvangi, á sviði stjórnmálanna og í útbreiddum fjölmiðlum. Rannsóknir hafa sýnt að lýðskrum og popúlismi nærist í skugga efnahagslegra þrenginga og að viðhorf til innflytjenda hafa breyst eftir efnahagshrunið. Þekkingarfræðileg tengsl eru á milli þjóðernishyggju, þjóðernispopúlisma og öfga sem geta ógnað lýðræði og stöðugleika í samfélaginu, fái þessar stefnur að þróast óáreittar og taka á sig öfgakenndar myndir. [...] 

Segja má að að orðræðan sé orðin þjóðernispopúlísk þegar stjórnmálamenn nýta sér tiltekið andrými í samfélaginu til þess að komast til áhrifa, einkum ef byggt er á útilokandi þjóðernishyggju. Goðsögnina um yfirburðaþjóðfélag sem íslensk þjóðernishyggja og stjórnmálamenning hafa snúist um áratugum saman, er hægt að tengja við þá „yfirburðahyggju“ sem hér hefur verið skilgreind sem sterkur menningarlegur rasismi".

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar