Tilvistarkreppa stjórnmálanna
Sjö fyrrverandi ráðherrar sammælast um að mjög margt megi betur fara í íslenskum stjórnmálum og að ýmislegt hafi breyst til hins verra frá því þau yfirgáfu Alþingi.
Umræðan um vantraust til Alþingis, arfaslaka stjórnmálamenn sem ekki eru starfi sínu vaxnir og óvenjulegt pólitískt landslag hefur sjaldan verið háværari en nú. Að minnsta kosti ekki eins áberandi. Enda er landslagið allsérstakt. Píratar tróna efstir á toppum skoðanakannanna mánuðum saman og fylgi Sjálfstæðisflokksins er nánast í sögulegu lágmarki. Vinsælasti stjórnmálamaðurinn, Katrín Jakobsdóttir, leiðir einn óvinsælasta stjórnmálaflokkinn, Samfylkingin er við það að þurrkast út og framtíðin virðist heldur ekki björt fyrir afsprengi Besta flokksins, Bjarta framtíð. Fylgi Framsóknarflokksins hefur helmingast frá kosningum.
Aldrei hafa fleiri viljað titla til sérfræðinga og jafnvel álitsgjafa í umræðunni en nú. Allir virðast hafa eitthvað til málanna að leggja og koma meira að segja stundum með tillögur um hvað megi betur fara.
En hvernig birtist stjórnmálaástandið þeim sem setið hafa í stólum þeirra ráðamanna sem sæta gagnrýninni nú? Geta þau miðlað reynslu sinni og bent á umbætur, eða hefur þetta kannski bara alltaf verið svona?
„Það er eitt og hálft ár eftir af kjörtímabilinu. Það getur margt gerst og það mun margt gerast,” segir Álfheiður Ingadóttir. Hún horfir til tímabils Reykjavíkurlistans í borginni, sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir leiddi. „Hann var búinn til á jafnræðisgrunni þar sem fólk sameinaðist um grundvallaratriði og nýttu atkvæðin betur,” segir Álfheiður. „Ég held að eitthvað eins og Reykjavíkurlistinn þurfi að gerast og muni gerast.”
Hún segir samfélagið einkennast af einsmálshyggju og einskonar sýniþörf í stjórnmálunum, þar sem allir vilja koma sér á framfæri og skili þar af leiðandi ekki þeim árangri sem þarf.
Ég bíð eftir því að þessi ríkistjórn fari, hún er að éta þetta samfélag að innan.
Að mati Álfheiðar hefur núverandi ríkisstjórn reynt að breyta samfélaginu til baka í það sem var fyrir hrun. „Og mér finnst það ganga allt of vel,” segir hún. „Þögn, leynd og lítil eftirfylgni í fjölmiðlum hjálpar ekki til. Ég bíð eftir því að þessi ríkistjórn fari, hún er að éta þetta samfélag að innan.”
Hvað er til ráða?
„Samstarf á vinstri vængnum með sameignlega sýn á helstu grundvallaratriðin í anda Reykjavíkurlistans," segir Álfheiður.
Ásta Ragnheiður segir mikil viðbrigði hafa orðið á þinginu eftir hrun og áhrifin úr samfélaginu náð betur eyrum fólks. Eftir hrunið beindi fólk reiði sinni að þinginu þótt þar sæti fólk sem það hefði sjálft veitt umboð til að fara með löggjafarvaldið.
Það vilja allir hafa þjóðþing og lýðræðislegt stjórnarfar. Það er ekki vantraust á það, heldur er þetta afstaða fólks til þingmanna.
„Fólk lét í sér heyra og það urðu gífurlega miklar breytingar,” segir hún. „Almenningur lá ekki lengur á skoðunum sínum og reiðin varð mjög sýnileg. Og ég held að það sé bara ekki komin ró.”
Ásta Ragnheiður telur fólk ekki bera vantraust til Alþingis sem stofnunar, heldur frekar til fólksins sem þar situr.
„Það vilja allir hafa þjóðþing og lýðræðislegt stjórnarfar. Það er ekki vantraust á það, heldur er þetta afstaða fólks til þingmanna. Sem er ef til vill ekki að öllu leiti sanngjarnt. Þetta ástand í stjórnmálum er ekki einungis hér á landi heldur víðar í hinum vestræna heimi."
Hvað er til ráða?
„Tíminn mun vonandi vinna með þinginu þar sem það er afar mikilvægt að það ríki sátt og traust um löggjafarsamkunduna," segir Ásta Ragnheiður. „Samfélagið er enn í sárum eftir hrunið."
„Staðan í dag ber nokkurn svip uppnáms, einkum hjá stjórnarandstöðunni,” segir Björn. „Stjórnarflokkarnir hafa náð verulegum árangri við stjórn efnahagsmála en að öðru leyti sópar lítið að þeim. Takist þeim að sigla þjóðinni út úr höftunum og ná settu marki mun það styrkja stjórnarflokkana, ekki síst Sjálfstæðisflokkinn og formann hans.”
Ótti við að ekki sé unnt að leiða mál til lykta á lýðræðislegan hátt virðast fæla ráðherra frá að leggja mál fyrir þingið.
Það kemur Birni á óvart að ekki hafi skapast meira jafnvægi í störfum Alþingis og hve grunnt umræður rista. „Vissulega er unnt að skella skuldinni á þingsköpin en eitthvað meira ræður þeim uppnámsblæ sem einkennir Alþingi,” segir hann. Fjöldi mála sé er ekki mælikvarði þegar rætt er um þingið heldur hvernig tekst að leiða þau til lykta.
„Ótti við að ekki sé unnt að leiða mál til lykta á lýðræðislegan hátt virðist fæla ráðherra frá að leggja mál fyrir þingið. Í þessu birtist í senn vantrú á þinginu og skortur á einbeittri forystu stjórnarflokkanna.”
Hvað er til ráða?
Björn segir að Íslendingar eigi að horfa til nágrannalandanna þar sem mun fleiri þingmenn sitja en hér á landi. Þar séu dæmi sem sýni að þrátt fyrir ágreining ganga menn skipulega til verks til að komast að niðurstöðu. „Ætla mætti að hér teldu alþingismenn það til marks um eigin vesaldóm að vinna á þennan hátt," segir hann.
„Þrátt fyrir tímabundinn árangur í efnahagsmálum, sem er nánast allur utanaðkomandi happdrættisvinningur í auðlindum og túrisma, þá er íslenskt þjóðfélag í kreppu,” segir Jón Baldvin og nefnir flokkakerfið sem dæmi. „Menn undrast hversu lengi Píratar geta haldið uppi fylgi í skoðunarkönnunum og bak við það er fyrst og fremst ein grundvallarbreyting sem gæti fest sig í sessi: Að stórveldistímabili Sjálfstæðisflokksins sé lokið,” segir hann.
Samfylkingin er í rúst eftir mesta ósigur stjórnmálasögunnar vegna mistaka ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. Vinstri græn eru föst í lamandi fari þar sem þau eru í aðra höndina Framsóknarflokkur án gjafa landbúnaðarkerfisins.
Vinstrið sé líka í mikilli krísu. „Samfylkingin er í rúst eftir mesta ósigur stjórnmálasögunnar vegna mistaka ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. Vinstri græn eru föst í lamandi fari þar sem þau eru í aðra höndina Framsóknarflokkur án gjafa landbúnaðarkerfisins,” segir hann. „Síðan er hinn pópúlíski Framsóknarflokkur, um hann er ekki hægt að tala nema út frá spurningum um auglýsingastofu, hvaða trikk þau taka næst til að forða sér frá dauða. Það hefur virkað hingað til.”
Hvað er til ráða?
Jón Baldvin telur mikilvægast að endurskoða stjórnarskránna og stjórnkerfið sem heild. Vinstrivængurinn geti sameinast í því að fá auðlindaákvæðið inn í stjórnarskránna og færa þjóðaratkvæðagreiðsluvald til fólksins.
„Píratarnir eru ekki bara bóla, þeir eru komnir til að vera,” segir Valgerður. „Þeir eru að sækja fylgi alls staðar að og það sem passar ekki við gamla tímann, þegar flokkarnir áttu að vera með stefnu, er að þeir eru ekki með neina aðra en þá að þjóðin þurfi nýja stjórnarskrá. Og ég trúi því ekki að núverandi stjórnarflokkar ætli að afhenda sigurinn í næstu kosningum með því að draga lappirnar með breytingar á stjórnarskrá. Þetta gengur ekki svona í breyttu þjóðfélagi.”
Valgerður segir hina hefðbundu flokka ekki ná í gegn til fólksins og er sannfærð um að stjórnarskráin spili þar stórt hlutverk.
Píratarnir eru ekki bara bóla, þeir eru komnir til að vera.
„Þó að hægt sé að segja að ríkisstjórnin hafi gert margt gott og staðið við stóru orðin í skuldaniðurfellingu, losun hafta og efnahagsmálunum almennt, þá nær það ekki í gegn,” segir hún. „Hér áður fyrr, ef hægt var að benda á nokkur atriði sem ríkisstjórnin hafi gert sem var hún bara í góðum málum.”
Hún segir vinnubrögðin á Alþingi breytt.
„Það átti nú allt að batna með því að fá nógu mikið af nýju fólki inn, en því miður hefur það ekki gerst,” segir hún. „Og það er mjög bagalegt fyrir Alþingi sem stofnun, sem mér þykir afar vænt um.”
Hvað er til ráða?
„Áður fyrr gátu menn talað saman. Það vantar taugarnar sem voru áður á milli flokkanna, á milli stjórnar og stjórnarandstöðu," segir Valgerður. Þingmenn þurfi að taka höndum saman um breyttar aðferðir. „Þetta gengur ekki svona."
Hin sérstaka pólitíska staða sem komin er upp á Íslandi er ekki bundin við landsteinana, heldur er hún orðin afar óvenjuleg víða, að mati Þorgerðar Katrínar.
„Ég held því að gömlu flokkarnir hafi setið eftir með orðræðu sem var skiljanleg á öðrum tíma sem er ekki lengur,” segir hún og undirstrikar þá miklu breytingu sem hefur orðið í Evrópu á undanförnum áratug. Hún nefnir þar hinar ýmsu flekahreyfingar, flóttamannavandann og uppgang öfga-Islam.
„Jarðvegur til populisma er frjórri nú en áður og það skiptir miklu máli að þeir sem bera ábyrgð og eru í forystu - falli ekki falla í þá gryfju.”
Hún segir núverandi ríkisstjórn standa sig vel.
Jarðvegur til populisma er frjórri nú en áður og það skiptir miklu máli að þeir sem bera ábyrgð og eru í forystu - falli ekki í þá gryfju.
„Hún stendur sig mjög vel í ákveðnum verkefnum eins og afnámi hafta og lög um opinber fjármál,” segir hún. „En það skortir sýn á stóru myndina eins og að ýta undir framleiðniaukningu í samfélaginu.”
Mögulega sé verið að hlaða upp í nýja gengisfellingu innan einhverra missera.
„Það er ekki verið að undirbúa langtímastöðugleika með nægilega skýrum hætti. Þegar gengisfellingin kemur og það verður míníkrísa, þá er ekki ólíklegt að menn líti til áranna 2015 til 2016 hvað var gert til að byggja stoðir í samfélaginu.”
Hvað er til ráða?
Þorgerður segir að það þurfi að endurskoða vinnu- og verkreglur Alþingis til að ná betri takti við nútímann. Þá þurfi að kynna starf Alþingis betur fyrir þingmönnum sjálfum og þjóðinni allri. „Formenn flokkanna verða að sameinast um mikilvæg mál eins og hefur gerst að hluta til í jafnréttismálum og loftslagsmálum," segir hún. Heilbrigðismál væru þar efst á lista.
Það er ekkert nýtt að ríkisstjórnin komi seint fram með mál, eins og hún hefur sætt gagnrýni fyrir að gera undanfarið, að mati Þorsteins. Slíkt eigi þó ekki endilega að setja mikinn svip á umræður í þinginu.
„Ég sakna þess að það skuli ekki vera dýpri umræður, til að mynda um efnahagsmál, sem skila sér til almennings,” segir hann. „Svo hefur það verið að gerast á löngum tíma í þinginu að ráðherrar eru minna við heldur en áður var, jafnvel í umræðum um eigin mál.”
Svo hefur það verið að gerast á löngum tíma í þinginu að ráðherrar eru minna við heldur en áður var, jafnvel í umræðum um eigin mál.
Uppgangur í efnahagslífinu eigi rætur að rekja til ferðaþjónustunnar.
„Við venjulegar aðstæður ætti ríkisstjórnin að njóta þess í meira mæli en sýnist í skoðanakönnunum. Kannski gerir fólk sér grein fyrir því að það eru veikleikar í stöðunni,” segir hann og bætir við að uppsveiflan byggi á minni framleiðniaukningu heldur en í fyrri uppsveiflum.
„Það er meira misrétti á fjármálamarkaði hér en annars staðar, þar sem stærstu útflutningsfyrirtækin starfa utan hagkerfisins, en aðrir eru bundnir,” segir hann. „Misskipting af þessu tagi hlýtur að koma niður á stjórnarflokkunum, enda er þetta það fyrirkomulag sem þeir verja hvað stífast.”
Hvað er til ráða?
„Menn þurfa að vanda sig í umræðunni. Ekki þannig að þeir séu alltaf sammála, það væri hættumerki, en það þarf dýpri og málefnalegri umræðu," segir Þorsteinn. „En það gerist ekki nema þingmenn hafi á því áhuga."